Kirkja snýst um líf fólks og trú

Ég setti nýlega mynd af Skálholtsdómkirkju á ýmsa miðla og fékk góð viðbrögð. Ein bestu viðbrögðin voru þó frá vini í Eyjum sem spurði: „Kirkjan er falleg en hvar er allt fólkið? Er ekki fólkið kirkjan?“ Daginn eftir var kirkjan vissulega þétt setin í hátíðarmessu og það var gott svar á sinn hátt. En fólkið er eftir sem áður kirkjan því kirkja er einnig hugtak um söfnuðinn sem slíkan.

Lútherska þjóðkirkjan okkar þarf að skoða þetta miklu dýpra niður í kjölinn en gert hefur verið. Hún er að ganga í gegnum mjög róttækar breytingar og er orðin mjög sjálfstæð sem trúfélag og þjónustustofnun. En þessum breytingum er ekki nærri því lokið. Kirkjan hefur unnið upp mjög vandaða stefnu í fræðslumálum, kærleiksþjónustu og æskulýðsmálum, vandaða stefnu um innri mál en mjög margt er í mótun út frá því nýja sambandi sem hún á við aðrar stofnanir þjóðfélagsins. Allir innviðir kirkjunnar eiga að vera til þjónustu eða styðja við þá þjónustu sem kirkja getur veitt. Þar er hjálparstarfið, vönduð sálgæsla og boðun kristinnar trúar mikilvæg en ekki síst vandað helgihald. Það er allt fyrir fólkið og fólk á fullkomlega réttmæta kröfu á kirkjuna að hún veiti þessa þjónustu af alúð og fagmennsku og umfram allt af gleði.

Þegar ég horfi á þessa þróun og deiglu sem við erum að fara í gegnum skoða ég gjarnan hvað hefur verið að gerast hjá systurkirkjum okkar á Norðurlöndum. Er þá rétt að skoða sérstaklega þróun og breytingar sem hafa orðið í Noregi og Svíþjóð. Það er vegna þess að Sænska kirkjan varð sjálfstæð frá ríkinu árið 2000 og Norska kirkjan varð sjálfstæð frá norska ríkinu 2017. Við erum nær Norðmönnum í tíma og þar eru að gerast hlutir sem ég tel að eigi eftir að styrkja þjónustu kirkjunnar og vera til farsældar fyrir þau öll sem leita til hennar og þau sem starfa á vettvangi hennar. Í Svíþjóð er sjálfstæð kirkja lengra komin. Þótt ekki sé alveg líku saman að jafna gæti verið mjög gagnlegt að skoða hvað þau hafa verið að gera síðustu tuttugu árin. Það segi ég fullum fetum vegna þess að þau hafa gengið í gegnum fækkun meðlima, fækkun skírna og ferminga og færri hjónavígslur. Þangað til nýlega. Eftir þrotlaust og gott starf, skýra framtíðarsýn og áherslu á afburða góða þjónustu við fólkið í landinu eru skýr merki um aukningu á öllum sviðum. Þátttakan er að aukast hægt en örugglega. Þetta þarf að skoða vandlega og íslenska kirkjan má ekki missa móðinn því kirkjan er fólk og snýst um líf fólks og trú. Við ættum ekki að bíða og sofa í tuttugu ár og sjá til hvort þetta lagist ekki hjá okkur einsog í Svíþjóð. Við þurfum að skoða góða þjónustu þeirra og boðun svo við getum tekið þau skref í rétta átt nú þegar. Ég skrifa seinna um það sem ég tel að Sænska kirkjan hafi staðið fyrir sem hefur greinilega komið að gagni fyrir Svíþjóð.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Endurnýjun Skálholtsdómkirkju og endurkjör í stólinn

Það er yndislegur tími að renna upp í lífi mínu og Skálholts. Við fögnum endurnýjun Skálholtsdómkirkju með messu lita og ljósa sunnudaginn 7. maí kl. 14. Í gær var ljóst að ég var tilnefndur til endurkjörs í stól vígslubiskups í Skálholti og lýkur kosningunni 12. júní. Ég geng glaður til verka og hlakka til þess ef mér verður treyst fyrir því að halda áfram uppbyggingunni í Skálholti eftir 1. ágúst. Að sjálfsögðu gef ég kost á mér í það og mæti hollri áminningu sem fylgir því að endurnýja umboðið. Býðst til að stíga áfram í stólinn hans Brynjólfs.

Árið sem ég vígðist hingað biskup lauk viðgerðum á listgleri Gerðar Helgadóttur og mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur. Í fyrra lauk viðgerð á kirkjunni að utan með algjörri endurnýjun á öllu ytra borði hennar með nýjum þakskífum frá Noregi og nýrri klukku frá Danmörku og öllu öðru. Núna er um það bil að ljúka allri vinnu innandyra í kirkjunni sem eru algjör umskipti á allan hátt með öllu nýju og nýrri ljósahönnun og hita.

Það er táknrænt fyrir þá hugsun mína að byrja fyrstu árin hér á því að endurnýja allt skipulag í Skálholti og snúa mér svo að því af fullum krafti að byggja upp hið innra starf. Við þurfum stundum að djúphreinsa oreglið einsog Björgvin er núna að byrja á. Það þarf stundum að fínstilla ljósin sem meistararnir eru núna að fara í. Við þurfum að fínstilla sándið í hljóðkerfinu en allt er að gerast næstu daga.

Við erum íslensk og þetta er íslenskur arfur. Þótt við opnum núna og sjáum að kirkjan er prýðilega messufær er eitt og annað eftir. Það verður allt klárt fyrir Sumartónleikana í júlí og Skálholtshátíð 20. – 23. júlí. Allt klárt fyrir afmælisár dómkirkjunnar í Skálholti, semínar um gervigeind og starfræna byltingu, seminar um siðbót 12. aldar og Þorlák helga, vandaða hátíðartónleika, hátíðardagskrá og vonandi fjölmenna hátíðarmessu.

Verið velkomin í Skálholt í sumar og ykkur er líka velkomið að styðja við kosninguna sem er í höndum vígðra þjóna og sóknarnefndarfólks í umdæmi Skálholts í sex prófastsdæmum þess, en það er allt landið fyrir utan Norður og Austurland sem er í Hólaumdæmi.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Sigur píslanna, þjáningar og vonir margra

Í dag er píslagöngu Frelsarans minnst um víða veröld og er sama hvar maður ferðast; föstudagurinn langi er hvarvetna. Dauðinn er líka nálægur mörgum á okkar dögum þótt við búum sjálf við mikið öryggi í ríkustu og friðsælustu löndum heimsins. Einsdæmi þjáningar og dauða er orðið að viðvarndi ástandi þar sem ríkir styrjöld, bylting eða frelsisstríð. Það má nefna það öllum nöfnum. Sama er mér. Þjáningin er mörgum börnum þessa heims venjulegt viðmið. Það hafa ekki allir ofgnótt af líftíma eða geta leyft sér framtíðaráform. Hermenn varpa sprengjum á hrunin hús og rústa húsarústum. Þessi orð eru óbein tilvitnun í frábæra þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á bók Khaled Khalifa, Dauðinn er barningur.

Föstudagurinn langi talar inní þennan veruleika og ef allt er í lagi á hann að kveikja von og glæða neista þar sem öll glóð hefur kulnað. Dauðinn getur verið barningur á meðan lífið er þjáning. Sjötta hvert barn í heimininum býr við stríðsástand á okkar dögum. Þar er mikil þörf að kveikja von. Til þess er þessi dagur heilagur að hann helgi baráttuna fyrir von og trú á frelsun og frið.

Fyrir nær tuttugu árum höfðum við horft á frumsýningu myndarinnar Passion of Christ eftir Mel Gibson, þennan ágæta kaþólikka. Það var niður á Flórída og laust við alla stóíska ró okkar íslensku samfélagsgerðar. Skipti þá engum togum að meðan lokatextinn var enn að rúlla niður skjáinn stukku nokkrir þarlendir uppá sviðið og hrópuðu: „Og þetta gerði hann allt fyrir þig!“

Aftur og aftur hef ég hugsað þetta og oftast á sama veg. Hann gerði það fyrir mig að ganga í gegnum það sem ég gæti ekki gengið í gegnum. Hann stóðst freistingu sem ég myndi ekki standast. En umfram allt skapaði hann mér nýjan tilverugrunn sem ég hef getað byggt mína ævi á. Það er þá líf með von. Það er von um að þrátt fyrir allt er líf sem við eigum skilið að frelsast til. Það vona ég að allir kúgaðir, barðir, sprengdir, skotnir, stungnir, veikir og bugaðir geti gert að sinni von svo úr því megi bæta. Það vona ég að geri samfélag heilt, fjölskyldu heila, vináttu sanna, hjónaband farsælt og ást verði aldei skilin frá virðingu fyrir því að hver einasta manneskja finni að einhver vonar það besta fyrir hennar hönd. Það gerði hann fyrir mig og með það hef ég ekki hikað við að ganga inní þjáningu annarra, sársauka og sorg. Dagurinn í dag er enginn venjulegur hjálpræðisdagur heldur birtir hann dýpsta skilning á tilveru okkar allra, hvers um sig og allra saman.

Myndin er úr Gaulverjabæjarkirkju.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Geirþrúðardagur og aðrir merkir dagar

Mig langar að lyfta Geirþrúði frá Nivelles sem dó þennan dag, 17. mars árið 659. Um að gera að lyfta henni því nóg er nú karlasagan í kirkjunni. Hér heima eigum við Geirþrúðarbyl (sá versti 1610) og hefð fyrir því að veður á messudegi hennar var sagt ráða nokkru um hvernig vorið yrði. Best er að fá vont veður á Geirþrúðardag og Gvendardag sem er 16. mars því það vissi á gott vor.

En blessuð stúlkan, Geirþrúður, var orðin abbadís í Brabant í Belgíu um tvítugt. Hún helgaði sig trúnni á Jesú Krist af mikilli einurð. Við ættum alltaf að líta með virðingu til þeirra sem helga sig trú og líkn og miskunn og bæn og lofgjörð með jafn aðdáunarverðum hætti. Þau benda okkur á leiðina sem hægt er að fara í gegnum allt misjafnt í þessum heimi.

Núna fylgja svo aðrir dagar merkir sem ráða meiru um vorið en við gerum okkur grein fyrir að jafnaði. Nægir að nefna jafndægur á vori, 20. mars og svo kemur nýtt tungl 21. mars, á Benediktsmessu. Nýtt tungl eftir jafndægur á vori getur ekki komið fyrr en í ár en það ræður því hvenær páskadagur er settur ár hvert. Þetta páskatungl ræður því þá hvenær fastan byrjar því hún er alltaf til jafnlengdar aðdragandi og undirbúningur fyrir páskahátíðina. Tunglið ræður þá líka því hvenær uppstigningardagur verður og að lokum hvítasunnudagur sem ræður því hvenær þrenningarhátíðin verður sunnudaginn eftir hvítasunnu og sunnudagar eftir þá hátíð eru taldir sunnudagar eftir þrenningarhátíð allt fram að aðventu.

Allir þessir helgidagar hrærast því með einu tungli. Er þá ekki nema eðlilegt að fólk hafi í gegnum tíðina horft til þessara daga sem áhrifadaga um ókomna tíma og alveg sérstaklega varðandi vorið. Þekktur var vetrardrunginn í fólki á vorin og kvíðinn með heyforða og hvernig voraði á sauðburð og svona mætti lengi telja. Og það besta við svona daga og sögur um þá er að það skapast hefð fyrir virðingu gagnvart þessum tímamótum og innsæi gagnvart veðrabrigðum. Fólk fyrri alda hefur verið að reikna og spá út frá dagsetningum og sögu daganna því það leiðir huga okkar alltaf frá kvíða og jafnvel ótta yfir á skynsamlega hugsun. Rökhugsun og reikningur er alltaf líklegri til að halda sönsum á óvissutíma og miklu betri leið en sú að sogast uppí tilfinningalegt rót og hugarvíl. Það er í raun svo margt sem liggur í loftinu og við þurfum að geta lesið úr því vegna þess sem koma skal.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Komi blá heiðríkjan yfir gullna akra Úkraínu

Ólýsanlega er það dapurt að í dag hafi verið herjað á Úkraínu í heilt ár. Tólf mánuðir undir sprengiregni og skothríð. Líka undir ömurlegum ræðum og bulli ódæðis-forseta innrásarliðsins. Ég er sannfærður um að Úkraína mun geta varið landið sitt með heilögum rétti og víðfrægri hetjulund og hreysti. Þetta er m.a. mat mitt af reynslu minni af samstarfi í stóru alþjóðlegu björgunaræfingunni Samverði í Eyjum um árið. Úkraínska rústabjörgunarsveitin var einstök í seiglu og fáum orðum. Þeir fóru í gegnum alla veggi og luku sínum verkefnum með stakri prýði þótt þau hafi verið með þeim erfiðustu sem við lögðum fyrir nokkurt lið. Seint á þriðja sólarhring æfingarinnar bönkuðu þeir uppá hjá aðgerðarstjórninni, hógværir og saman reknir af hreysti. Engin þreytumerki. Þeir spurðu hver væri yfir og það var ég þá stundina. Tók ég við þökkunum og heiðursmerki rústabjörgunarsveitarinnar en hef sjaldan fundist ég hljóta jafn mikla virðingu. Virðingu frá þeim sem voru virðingarverðastir. Ræða foryngjans voru tvö orð: „Thank you!“

Öll mín virðing er í garð þeirra sem fórna núna öllu fyrir föðurlandið og móður sína Úkraínu, fyrir þau sem missa í mannfallinu, virðing gagnvart minningu þeirra ótal saklausra borgara, barna og eldri borgara sem þjást og hafa farist, virðing fyrir mannfórnum herliðanna og einnig gagnvart þeim sem varnarlítið hafa dregist inní árásarliðið, virðing fyrir harmdauða í hjörtum mæðra og feðra og ættmenna og vina þeirra. Lifi sigurvon þeirra sem verjast, lifi Úkraína, og lifi félagar mínir í óþreytandi samfélagi björgunarsveitarfólks þar og um víða veröld. Ég ber merki þeirra fyrir brjósti aldur minn á enda. Komi friður, ríki von, kvikni aftur ljós yfir landi og þjóð. Komi bláa heiðríkjan að nýju yfir gullna akra Úkraínu.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Þitt orð er Guð sá arfur hreinn

Ég renni fingrum yfir letur Gruðbrandsbiblíu og rýni í áritun herra Guðbrandar Þorlákssonar á titilblaðinu. Hversu margir hafa rýnt í þessa áritun eigin handar hins merka biskups og velt því fyrir sér hverjum skilaboðin eru upphaflega ætluð. Líklega er það ráðsmaðurinn sem fékk þessa heilögu ritningu en það er ekki bara þannig. Biblía er ekki fyrir einn og einn heldur er það lifandi orð sem berst á milli og fólk deilir hvert með öðru. Biblía kirkju er samfélagsleg miðlun á heilnæmum skrifum, fagnaðarerindinu um Jesú Krists. Í þessum orðum er frelsun og lausn, úrlausn og leiðsögn.

Hversu mörg augu hafa lesið þetta blað sem ég renni núna fingrum yfir í aðdáun minni á því sem hefur slíka virkni sem enginn önnur bók hefur haft. Það sem prentað var 1584 stuttu eftir siðbót dr. Marteins Lúthers á Hólum í Hjaltadal talar fram á okkar daga. Letrið hefur ekki slitnað eða dofnað þótt oft hafi orðið dauft yfir fólki í gegnum ár og aldir. Þetta eru 439 ár og stórafmæli á næsta ári. Enn stærra minningarár eftir ellefu ár.

Þegar ég skoða sögu handrita að Biblíunni og þá sérstaklega handrita Nýja testamentis staldra ég við eitt atriði umfram annað. Það er ekki sú staðreynd að til eru vel yfir fimm þúsund handrit að Nýja testamenti og sum frá þeim tíma sem kallast frumkristni og fyrstu aldir kristinnar trúar. Það er heldur ekki sú merkilega staðreynd að textinn er með mjög litlum efnislegum frávikum frá einu handriti til annars. Það er fyrst og fremst sú merkilega staðreynd að yfirleitt hafa handritin að geyma mest af safni bóka Nýja testamentis en ekki handrit með einu og einu bréfi Ritningarinnar til nafngreindra safnaða eða borga. Það segir okkur að Biblían er frá upphafi safnaðarrit og til notkunar í helgihaldi safnaðanna en ekki varðveitt sem einkabréf í Kórintu eða Róm eða Efesus. Öll bréfin eru til allra. Saman birta þau heilstæða og heilnæma kenningu. Með því að lesa þau saman og sem flest í samanburði fáum við myndina af því hvað er að vera kirkja.

Ég er feginn að við erum hér öll með öll ritin. Þau eru í senn skrifuð til fólks sem er nafngreint og Biblíur eru áritaðar til einhvers ákveðins einstaklings. Samt eru þau til okkar allra. Ef til vill er það vegna þess að við getum ekki vænst þess að bók eða bréf höfði til allra eða nái til allra nema það sé stílað á einhverja ákveðna sál eða persónu. Annars væri það ekki persónulegur boðskapur til mín eða þín. Við erum þannig séð öll þessi ráðsmaður sem Guðbrandur áritaði Biblíuna til við afhendingu eða sem gjöf. Við erum öll ráðsmenn sem hafa fengið Heilögu ritningu að gjöf. Við erum Tímóteus og Fílemon og Appía. Við erum Þeófílus og við erum söfnuðurinn í Galatíulandi, Efesus og Korintu. Við erum dálítið að taka á móti heilsan Júdasar: „Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar þeim sem Guð faðir elskar og hefur kallað og Jesús Kristur varðveitir.“ Það gefur okkur fyrirheit um að vera elskuð, kölluð og undir varðveislu Guðs. Orðið í Biblíunni hefur ekki aðeins varðveist sem bók heldur miklu fremur sem boðskapur í þúsundir ára. Biblían varðveitir þetta orð til okkar svo við finnum að við erum undir vernd og varðveislu, elskuleg og útvalin til að vera hvert öðru raunverulegir bræður og systur.

Takk fyrir biblíudaginn 12. febrúar 2023 og staf Biblíufélagsins til útgáfu, prentunar og þýðingar þessarar bókar sem ber fagnaðarerindið til okkar hvers og eins. Það er heldur betur arftur hreinn.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Ávarp mitt í minningarstund í Patreksfjarðarkirkju 40 árum eftir mannskætt krapaflóðið 22. janúar 1983

Ágæti forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson! Kæru Patreksfirðingar! Góðir vinir héðan og víðar að.

Við erum komin saman í nafni Drottins og þá saman komin í náð hans og friði. Guð blessi okkur þessa stund. Andinn er þá hér sem blæs okkur í brjóst kjark og þor á örlagastundum engu síður en huggun í harmi, samhug á minningarstund og þökk í hjarta fyrir þau sem hafa lifað og fyrir þau sem núna lifa og muna, trúa og vona.

Andinn er líka aflið í okkur sem gerir okkur fært að gleðjast yfir lífinu og koma saman til að gleðjast. Það var ekki lítil gleði hér í bænum í gær í blótinu núna í upphafi Þorra. Til hamingju með það og afsakið mig að ég skrópaði.

Svo í dag minnumst við þess að 40 ár eru liðin frá hörmulegum atburðum. Við minnumst þeirra fjögurra sem fórust á ólíkum æviskeiðum – yngst þeirra 6 ára barn – og minnumst þess þá sem vitur prestur sagði við útför barns að „það varðar mestu að hafa orðið til.“ Það talar til okkar allra og varðar virðingu okkar fyrir því að við höfum orðið til. Með því þökkum við björgun og hlíf í öllu því sem getur gengið á í lífi okkar og samfélagsins.

Atburðirnir fyrir 40 árum voru ægilegir. Ég get ímyndað mér reynslu ykkar sem voruð hér og misstuð, get ímyndað mér tjónið og áfallið fyrir mannlífið og byggðina alla, þetta góða og trausta fólk sem fékk á sig illsku veðra og ofanflóða. Við getum farið nærri um líðan og reynslu annarra vegna þess að maðurinn er gæddur þeim eiginleika að geta fundið til með öðrum. Við erum gædd samhyggð og samlíðan í hug og hjarta.

Ég þakka fyrir mína minningu að hafa fengið að koma hingað fyrir 40 árum til björgunar og leitar með varðskipinu Ægi. Oft hef ég minnst þess er við gengum inn í heilaga þögn þessa áfalls og líka heilaga gleði yfir þeim sem fundust og urðu hólpnir. Það er sannarlega umhugsunarvert hvað þögnin varði lengi.

En reynslan er eftir sjómannasálminum sem sr. Þórarinn Þór vitnaði til í minningarorðum yfir moldum þeirra fjögurra, Sigrúnar Guðbrandsdóttur, Sigurbjargar Sigurðardóttur og mæðginanna Valgerðar Elínborgar Jónsdóttur og Marteins Ólafs Péturssonar þann 1. febrúar hér í félagsheimilinu það ár: „Þegar hendir sorg við sjóinn, syrgir, tregar, þjóðin öll.“

En hann vitnaði einnig til Davíðssálms númer 145: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ Og síðar í þeim sálmi: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ Og enn þetta: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“

Þegar ég segist hafa gengið inn þögn þessa sorgardagsvar það einmitt þetta einlæga og þögla ákall sem ég hlít að hafa skynjað. Ákallið var í gjörtum allra og því ákall í hljóði og í hljóðri bæn fyrir þeim sem fórust og misstu líka heimili sín og misstu sum veruna hér. Líka hljóð þakkarbæn sem erfitt var að orða, að hafa fengið að lifa.

Það má ekki gleymast að Drottinn er með okkur sem lendum í stormi og báli. Í lofsöngnum sem sr. Þórarinn lagði út af ávarpar skáldið Guð sinn: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Við erum undir þessari verndarhendi sem þjóð og blessun hans sem samfélag fólks sem trúir og vonar.

Að koma af hafi inn í myrkan dag um árið er minning sem aldrei dofnar. Eitt það sterkasta var að leggja að og sjá hlíðina alla flóðlýsta og bæinn uppljómaðan. Svo furðulegt sem það hljómar var umflæði ljóssins um byggð og fjall einsog það væri ljós yfir landi, ljós „Yfir voru ættarlandi“ svo vitnað sé til Steingríms Thorsteinssonar, „Yfir voru ættarlandi, aldafaðir skildi halt. Veit því heillir, ver það grandi, virstu að leiða ráð þess allt.“

Ég nefndi áðan Þorra sem var víst elsti sonur Snæs, sem var sonur Kára sonar Fornljótar. Ætli við þreyjum ekki best þennan vetrarmánuð Þorra með því að hugsa til þess að hann helgaði mánuð sinn leitinni að Góu? Leit og björgun er stef að styðjast við á þyngsta verðurkaflanum. Við leitum og við finnum. Sagði ekki Frelsarinn einmitt það? Á þessum 40 árum hafa einmitt verið fundnar leiðir til úrvinnslu og áfallahjálpar en fram að því unnum við að því orðalaust saman að leysa úr álaginu – eins langt og það gat náð. Við unnum að leitinni saman og þá minnist ég ekki bara björgunarfólksins sem hafði hlotið til þess þjálfun heldur líka leitarhundanna sem sönnuðu sig svo um munaði. En þó minnist ég þeirra með allra mestri virðingu sem fóru sem samborgarar út í leitina meðan sortinn var ennþá yfir og óvissan var enn ríkjandi. Guð launi þeim eftir blessun sinni.

Enn er eftir eitt stef í þessari minningu en það eru sjálf 40 árin. Þar er vísað í Heilagari Ritningu til eyðumerkurgöngu Hebrea í leit þeirra að Landinu helga. Þetta er Biblíu-stef um björgun. Það er vísað til þessa hjálpræðis í Fyrsta boðorðinu einsog við lærðum það án afsláttar – vel að merkja – því ef við gefum ekki afslátt af Orði Guðs eyðum við ekki björguninni úr Fagnaðarerindinu. En fyrsta boðorðið okkar er einmitt um frelsun: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, þú skalt ekki aðra Guði hafa en mig.“

Fjörtíu ár tákna oftast að vera leidd úr áþján og leidd inn í betri tíma af hendi Guðs. Við getum því leyft okkur að sjá allt í öðru ljósi núna eftir 40 biblíuleg ár. Eftir 40 daga höfum við náð að þreyja Þorra og verðum komin inn á Góuna, farin að sjá ljósari daga sem vísa til vors og vonar. Fjörtíu ára minningarathöfn er þannig ein sterkasta og biblíulegasta minningarstund sem hægt er að halda. Hún kallast á við allt sem er heilagt. Kallast á við allt sem bjargar og allt sem vísar á vor sem við þráum og ljós sem eygjum við sjónarrönd.

Fyrir því höfum við vitnað í lofsöng til Guðs. Veri þessi dagur að lofsöngi Lausnarans í hjörtum okkar allra, kæru vinir. Honum sé dýrð, honum sem var og verður og er núna í kirkjunni hans, og hér í samfélaginu sem við elskum, hér við hafið eða fjallið. Amen.

(Ávarp þetta var flutt í Patreksfjarðarkirkju í guðsþjónustu sunnudaginn 22. janúar 2023 sem sóknarpresturinn, sr. Kristján Arason, leiddi, ásamt tónlistarfólki. Vegna sögunnar skal tekið fram að forseti Íslands varð að sigla hjá með varðskipinu Freyju til björgunarstarfa og komst ekki til athafnarinnar en ávarp hans og kveðja var flutt í Félagsheimilinu í dagskránni þar eftir guðsþjónustuna og eftir minningarstund við minnisvarða um atburðina 22. janúar 1983 og þau sem fórust þar í krapaflóðinu. ) Ljósmyndina við minnisvarðann tók Guðlaugur J. Albertsson.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Bjartsýnn á gildi kirkjunnar

Ég er ákaflega bjartsýnn fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Þetta kann að hljóma undarlega í ljósi þess að af og til eru að koma upp deilur. Brot hafa komið í ljós sem eru gegn öllu velsæmi. Stundum er hiti í fólki og það á það til að hópast í baráttu gegn öðrum í kirkjunni. En samt er ég bjartsýnn vegna þess að réttlætiskennd og samviska má gjarnan einkenna trúarsamfélag. Þetta er allt innan kirkjunnar og ef okkur tekst að laga samskipin í okkar röðum og ef okkur tekst að tryggja góða og örugga meðferð kærumála erum við að byggja upp enn betri söfnuði og betri þjónustu. Ég er bjartsýnn af því ábyrgðin er okkar.

Ég er líka bjartsýnn í þeim breytingum sem eru að ganga yfir í kirkjunni í skipulagi hennar. Þjóðkirkjan verður sjálfstæðari sem kirkjuleg stofnun með hverju ári. Samningar við ríkið eru í aðalatriðum góðir þótt skilin mættu vera miklu betri á sóknargjöldum frá innheimtumönnum ríkissjóðs. Önnur fjárskil eru skýr og líkleg til friðar í samfélaginu vegna þess að þau eru að mestu byggð á eignaafhendingu sem allir vilja virða. Við viljum jú virða eignaréttinn sem slíkan í íslensku samfélagi og kirkja er þátttakandi í þjóðfélagi sínu.

Kirkjan litast þó helst af baráttu fyrir hinum andlega veruleika einsog trúarsamfélag á að gera. Kirkjan er í stöðugri framför í innri málum eftir því sem henni tekst t.d. betur að ná utanum starfsmannamál og allt skipulag. Ytra umhverfi kirkjunnar er sá efnisheimur sem hefur verið á fullri ferð til afhelgunar í þeirri merkingu að það má versla með veraldlega hluti og ræða það á hlutgerðan hátt. Þessi þróun hefur verið í fullum gangi lengi og alveg sérstaklega frá því um miðja síðustu öld. Heittrúarstefnan mótmælti trú á manninn og afhelgun samtímans. En ég held við hljótum að vera að sigla inní þá tíma núna að við skynjum stöðugt betur skilin milli þess sem er heilagt og þess sem má vera veraldlegt og hlutgert. Við sjáum þetta skerpast í öflugri umræðu gegn því að manneskja sé hlutgerð til að hægt sé að níðast á henni með ofbeldi eða einhvers konar notkun. Ég tek undir orðin: „Mátti það einhvern tíma?“ Ég undrast þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi sem misnotkun því ég get ekki séð að réttlætanlegt sé að tala um notkun á fólki.

Ég dreg þetta dæmi fram til að leggja áherslu á að andleg lífssýn, trú og gildi kirkjunnar eru siðferðileg nauðsyn fyrir einstaklinginn svo hann missi ekki sjónar á því sem er í raun og veru heilagt. Ég hef trú á því að samfélagið okkar hafi gagn af því að kirkjan prédiki kærleika Krists, gullna reglu og réttlætisboð hans. Ég sé ekki betur en kirkjan geti gegnt æ meira hlutverki í samfélaginu eftir því sem hún tekur betur á erfiðum málum sínum. Þau endurspegla í raun það sem hefur illu heilli viðgengist víðar í samfélaginu. Ég er bjartsýnn á að kirkjan verði betri stofnun með betri vinnubrögðum og auknum kirkjulega lýðræðislegum reglum og bættu siðferði. Semsagt bjartsýnn á að kirkjan geti gegnt því hlutverki sínu að vera kirkja í orði og verki.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Óviljandi pílagrímagöngur

Pílagrímagöngur eru farnar víðar en við höldum. Við vitum að pílagrímaferðir hafa verið farnar sem hluti af iðkun trúarinnar um aldir og yfirleitt leiða þær til helgra staða. Þetta þekkjum við vel í pílagrímagöngum til Skálholts í gegnum árin. En ef við lítum til Skálholts sjáum við að fjöldi fólks hefur verið á sinni pílagrímagöngu gegn sínum vilja og án þess að hafa nokkru sinni ímyndað sér að fara til þess helga staðar næstum því nauðug. Minnist ég við sögur af fólkinu sem flúði ætthagana undan Skaftáreldum á 18. öldinni. Þetta gerðist líklega á hverri öld en misjafn fjöldi var á slíkum flótta. Flóttafólk hefur líklega aldrei verið stærri hópur en er núna á okkar dögum. Heimahagarnir hafa orðið óbyggilegir eða gerðir óbærilegir að búa á vegna stríðs og annarra ógna en líka vegna mikilla breytinga í loftslagi og gróðurfari. Flóttafólk á ekki annan kost en yfirgefa staði sem feður og mæður höfðu helgað með baráttu sinni fyrir friðsæld og velsæld. En þau eiga það öll sameiginlegt að leggja af stað í átt að nýjum helgum stöðum. Hætturnar eru á leiðinni og svo er líkast því að birti til er þau hafa komist í feginsbrekkur pílagrímagöngunnar en það er hæðin eða brekkan kölluð þaðan sem fyrst sér til þess helga staðar sem ferðinni er heitið. Feginsbrekka flóttafólks á leið til Íslands gæti verið fyrsta landsýn þess lands sem helgað er dáðum feðra okkar og mæðra sem lifað hafa hér lengi undir blessun Drottins. Við tökum á móti þeim með þeirri helgun sem landið hefur hlotið og það er stærra en við. Við gefum þeim hlutdeild í því sem við eigum helgast en það er ættjörð okkar og trú. Við syngjum um það í lofsöngnum um land vors Guðs og við erum meðvituð um virða ber hvert eilífðar smáblóm með titrandi tár.

Viljandi pílagrímaferðir og hefðir eru góð leið til að dýpka skilning okkar á því hvað felst í því að trúa og ná að stíga í þau spor sem leiða til helgra staða. En slíkt trúlegt ferðalag dýpkar fyrst og fremst skilning okkar á stöðu og lífi annarra. Það er í fyrsta lagi vegna þess að ferðin er farin í spor þeirra sem fyrr gengu slóðina og helguðu leiðina. Í öðru lagi vegna þeirra sem eru á ferð um allan heim einmitt núna í leit að helgun og friðsamlegu lífi. Í þriðja lagi vegna þess að helgir staðir helga okkur þeim tilgangi sem Kristur lagði okkur á hjarta en það er að elska náunga okkar einsog okkur sjálf, engu minna en við elskum Drottinn Guð af öllu hjarta, öllum huga okkar og allri sálu okkar. Á göngu er allt þetta virkjað einum tilgangi sem helgar líf okkar og annarra.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Heimsgluggi okkar stækkar – Guðsmyndin stækkar

Fyrstu myndir úr geimsjónaukanum James Webb eru ótrúlegar og líklega höfum við aldrei séð jafn margar vetrarbrautir í þessari þyrpingu vetrarbrauta sem við sjáum núna. Tíminn er ótrúlegur og reynir á ímyndunaraflið okkar þegar talað er um milljarða ljósára fjarlægð. Svo langur tími er liðinn síðan þessi mynd lagði af stað út frá stöðum sínum að hún er líklega löngu horfin þegar hún berst okkur.

Líkt og þegar Hebrear voru herleiddir til Babylon og sáu margfalt stærri heim en hafði áður verið heima í Landinu helga í hjarðlandinu þar stækkaði mynd þeirra af Guði. Hann var ekki lengur Guð Abrahams heldur sjá þeir sem trúa að Guð er miklu stærri en það. Þau átta sig á því að Guð hafði ekki aðeins skapað haglendið í Kanaan, Filesteu, Gaza og löndunum þar í kring.

Maðurinn þurfti að upplifa stærri heimsmynd til að átta sig á því hvað Guð er í raun stór og mikilfenglegur. Í dag hefur heimsmynd mannkyns stækkað ótrúlega í tíma og rúmi. Við skiljum enn betur að það er ómælisdýpt í eilífið Guðs. Eilífðin hefur stækkað. Ómælanlegur faðmur Guðs hefur stækkað. Og hann er hér heima og hann er þar langt í fjarska og hann var áður en allt varð skapað og hann er enn löngu eftir að slokknað hefur á þeim ljósum sem núna eru að berast okkur í nýjum heimsglugga okkar. Mikill er Guð og enginn endir á því sem hann er.

https://www.ruv.is/frett/2022/07/11/soguleg-fyrsta-ljosmynd-ur-james-webb-geimsjonaukanum

Birt í General | Færðu inn athugasemd