Geirþrúðardagur og aðrir merkir dagar

Mig langar að lyfta Geirþrúði frá Nivelles sem dó þennan dag, 17. mars árið 659. Um að gera að lyfta henni því nóg er nú karlasagan í kirkjunni. Hér heima eigum við Geirþrúðarbyl (sá versti 1610) og hefð fyrir því að veður á messudegi hennar var sagt ráða nokkru um hvernig vorið yrði. Best er að fá vont veður á Geirþrúðardag og Gvendardag sem er 16. mars því það vissi á gott vor.

En blessuð stúlkan, Geirþrúður, var orðin abbadís í Brabant í Belgíu um tvítugt. Hún helgaði sig trúnni á Jesú Krist af mikilli einurð. Við ættum alltaf að líta með virðingu til þeirra sem helga sig trú og líkn og miskunn og bæn og lofgjörð með jafn aðdáunarverðum hætti. Þau benda okkur á leiðina sem hægt er að fara í gegnum allt misjafnt í þessum heimi.

Núna fylgja svo aðrir dagar merkir sem ráða meiru um vorið en við gerum okkur grein fyrir að jafnaði. Nægir að nefna jafndægur á vori, 20. mars og svo kemur nýtt tungl 21. mars, á Benediktsmessu. Nýtt tungl eftir jafndægur á vori getur ekki komið fyrr en í ár en það ræður því hvenær páskadagur er settur ár hvert. Þetta páskatungl ræður því þá hvenær fastan byrjar því hún er alltaf til jafnlengdar aðdragandi og undirbúningur fyrir páskahátíðina. Tunglið ræður þá líka því hvenær uppstigningardagur verður og að lokum hvítasunnudagur sem ræður því hvenær þrenningarhátíðin verður sunnudaginn eftir hvítasunnu og sunnudagar eftir þá hátíð eru taldir sunnudagar eftir þrenningarhátíð allt fram að aðventu.

Allir þessir helgidagar hrærast því með einu tungli. Er þá ekki nema eðlilegt að fólk hafi í gegnum tíðina horft til þessara daga sem áhrifadaga um ókomna tíma og alveg sérstaklega varðandi vorið. Þekktur var vetrardrunginn í fólki á vorin og kvíðinn með heyforða og hvernig voraði á sauðburð og svona mætti lengi telja. Og það besta við svona daga og sögur um þá er að það skapast hefð fyrir virðingu gagnvart þessum tímamótum og innsæi gagnvart veðrabrigðum. Fólk fyrri alda hefur verið að reikna og spá út frá dagsetningum og sögu daganna því það leiðir huga okkar alltaf frá kvíða og jafnvel ótta yfir á skynsamlega hugsun. Rökhugsun og reikningur er alltaf líklegri til að halda sönsum á óvissutíma og miklu betri leið en sú að sogast uppí tilfinningalegt rót og hugarvíl. Það er í raun svo margt sem liggur í loftinu og við þurfum að geta lesið úr því vegna þess sem koma skal.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Komi blá heiðríkjan yfir gullna akra Úkraínu

Ólýsanlega er það dapurt að í dag hafi verið herjað á Úkraínu í heilt ár. Tólf mánuðir undir sprengiregni og skothríð. Líka undir ömurlegum ræðum og bulli ódæðis-forseta innrásarliðsins. Ég er sannfærður um að Úkraína mun geta varið landið sitt með heilögum rétti og víðfrægri hetjulund og hreysti. Þetta er m.a. mat mitt af reynslu minni af samstarfi í stóru alþjóðlegu björgunaræfingunni Samverði í Eyjum um árið. Úkraínska rústabjörgunarsveitin var einstök í seiglu og fáum orðum. Þeir fóru í gegnum alla veggi og luku sínum verkefnum með stakri prýði þótt þau hafi verið með þeim erfiðustu sem við lögðum fyrir nokkurt lið. Seint á þriðja sólarhring æfingarinnar bönkuðu þeir uppá hjá aðgerðarstjórninni, hógværir og saman reknir af hreysti. Engin þreytumerki. Þeir spurðu hver væri yfir og það var ég þá stundina. Tók ég við þökkunum og heiðursmerki rústabjörgunarsveitarinnar en hef sjaldan fundist ég hljóta jafn mikla virðingu. Virðingu frá þeim sem voru virðingarverðastir. Ræða foryngjans voru tvö orð: „Thank you!“

Öll mín virðing er í garð þeirra sem fórna núna öllu fyrir föðurlandið og móður sína Úkraínu, fyrir þau sem missa í mannfallinu, virðing gagnvart minningu þeirra ótal saklausra borgara, barna og eldri borgara sem þjást og hafa farist, virðing fyrir mannfórnum herliðanna og einnig gagnvart þeim sem varnarlítið hafa dregist inní árásarliðið, virðing fyrir harmdauða í hjörtum mæðra og feðra og ættmenna og vina þeirra. Lifi sigurvon þeirra sem verjast, lifi Úkraína, og lifi félagar mínir í óþreytandi samfélagi björgunarsveitarfólks þar og um víða veröld. Ég ber merki þeirra fyrir brjósti aldur minn á enda. Komi friður, ríki von, kvikni aftur ljós yfir landi og þjóð. Komi bláa heiðríkjan að nýju yfir gullna akra Úkraínu.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Þitt orð er Guð sá arfur hreinn

Ég renni fingrum yfir letur Gruðbrandsbiblíu og rýni í áritun herra Guðbrandar Þorlákssonar á titilblaðinu. Hversu margir hafa rýnt í þessa áritun eigin handar hins merka biskups og velt því fyrir sér hverjum skilaboðin eru upphaflega ætluð. Líklega er það ráðsmaðurinn sem fékk þessa heilögu ritningu en það er ekki bara þannig. Biblía er ekki fyrir einn og einn heldur er það lifandi orð sem berst á milli og fólk deilir hvert með öðru. Biblía kirkju er samfélagsleg miðlun á heilnæmum skrifum, fagnaðarerindinu um Jesú Krists. Í þessum orðum er frelsun og lausn, úrlausn og leiðsögn.

Hversu mörg augu hafa lesið þetta blað sem ég renni núna fingrum yfir í aðdáun minni á því sem hefur slíka virkni sem enginn önnur bók hefur haft. Það sem prentað var 1584 stuttu eftir siðbót dr. Marteins Lúthers á Hólum í Hjaltadal talar fram á okkar daga. Letrið hefur ekki slitnað eða dofnað þótt oft hafi orðið dauft yfir fólki í gegnum ár og aldir. Þetta eru 439 ár og stórafmæli á næsta ári. Enn stærra minningarár eftir ellefu ár.

Þegar ég skoða sögu handrita að Biblíunni og þá sérstaklega handrita Nýja testamentis staldra ég við eitt atriði umfram annað. Það er ekki sú staðreynd að til eru vel yfir fimm þúsund handrit að Nýja testamenti og sum frá þeim tíma sem kallast frumkristni og fyrstu aldir kristinnar trúar. Það er heldur ekki sú merkilega staðreynd að textinn er með mjög litlum efnislegum frávikum frá einu handriti til annars. Það er fyrst og fremst sú merkilega staðreynd að yfirleitt hafa handritin að geyma mest af safni bóka Nýja testamentis en ekki handrit með einu og einu bréfi Ritningarinnar til nafngreindra safnaða eða borga. Það segir okkur að Biblían er frá upphafi safnaðarrit og til notkunar í helgihaldi safnaðanna en ekki varðveitt sem einkabréf í Kórintu eða Róm eða Efesus. Öll bréfin eru til allra. Saman birta þau heilstæða og heilnæma kenningu. Með því að lesa þau saman og sem flest í samanburði fáum við myndina af því hvað er að vera kirkja.

Ég er feginn að við erum hér öll með öll ritin. Þau eru í senn skrifuð til fólks sem er nafngreint og Biblíur eru áritaðar til einhvers ákveðins einstaklings. Samt eru þau til okkar allra. Ef til vill er það vegna þess að við getum ekki vænst þess að bók eða bréf höfði til allra eða nái til allra nema það sé stílað á einhverja ákveðna sál eða persónu. Annars væri það ekki persónulegur boðskapur til mín eða þín. Við erum þannig séð öll þessi ráðsmaður sem Guðbrandur áritaði Biblíuna til við afhendingu eða sem gjöf. Við erum öll ráðsmenn sem hafa fengið Heilögu ritningu að gjöf. Við erum Tímóteus og Fílemon og Appía. Við erum Þeófílus og við erum söfnuðurinn í Galatíulandi, Efesus og Korintu. Við erum dálítið að taka á móti heilsan Júdasar: „Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar þeim sem Guð faðir elskar og hefur kallað og Jesús Kristur varðveitir.“ Það gefur okkur fyrirheit um að vera elskuð, kölluð og undir varðveislu Guðs. Orðið í Biblíunni hefur ekki aðeins varðveist sem bók heldur miklu fremur sem boðskapur í þúsundir ára. Biblían varðveitir þetta orð til okkar svo við finnum að við erum undir vernd og varðveislu, elskuleg og útvalin til að vera hvert öðru raunverulegir bræður og systur.

Takk fyrir biblíudaginn 12. febrúar 2023 og staf Biblíufélagsins til útgáfu, prentunar og þýðingar þessarar bókar sem ber fagnaðarerindið til okkar hvers og eins. Það er heldur betur arftur hreinn.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Ávarp mitt í minningarstund í Patreksfjarðarkirkju 40 árum eftir mannskætt krapaflóðið 22. janúar 1983

Ágæti forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson! Kæru Patreksfirðingar! Góðir vinir héðan og víðar að.

Við erum komin saman í nafni Drottins og þá saman komin í náð hans og friði. Guð blessi okkur þessa stund. Andinn er þá hér sem blæs okkur í brjóst kjark og þor á örlagastundum engu síður en huggun í harmi, samhug á minningarstund og þökk í hjarta fyrir þau sem hafa lifað og fyrir þau sem núna lifa og muna, trúa og vona.

Andinn er líka aflið í okkur sem gerir okkur fært að gleðjast yfir lífinu og koma saman til að gleðjast. Það var ekki lítil gleði hér í bænum í gær í blótinu núna í upphafi Þorra. Til hamingju með það og afsakið mig að ég skrópaði.

Svo í dag minnumst við þess að 40 ár eru liðin frá hörmulegum atburðum. Við minnumst þeirra fjögurra sem fórust á ólíkum æviskeiðum – yngst þeirra 6 ára barn – og minnumst þess þá sem vitur prestur sagði við útför barns að „það varðar mestu að hafa orðið til.“ Það talar til okkar allra og varðar virðingu okkar fyrir því að við höfum orðið til. Með því þökkum við björgun og hlíf í öllu því sem getur gengið á í lífi okkar og samfélagsins.

Atburðirnir fyrir 40 árum voru ægilegir. Ég get ímyndað mér reynslu ykkar sem voruð hér og misstuð, get ímyndað mér tjónið og áfallið fyrir mannlífið og byggðina alla, þetta góða og trausta fólk sem fékk á sig illsku veðra og ofanflóða. Við getum farið nærri um líðan og reynslu annarra vegna þess að maðurinn er gæddur þeim eiginleika að geta fundið til með öðrum. Við erum gædd samhyggð og samlíðan í hug og hjarta.

Ég þakka fyrir mína minningu að hafa fengið að koma hingað fyrir 40 árum til björgunar og leitar með varðskipinu Ægi. Oft hef ég minnst þess er við gengum inn í heilaga þögn þessa áfalls og líka heilaga gleði yfir þeim sem fundust og urðu hólpnir. Það er sannarlega umhugsunarvert hvað þögnin varði lengi.

En reynslan er eftir sjómannasálminum sem sr. Þórarinn Þór vitnaði til í minningarorðum yfir moldum þeirra fjögurra, Sigrúnar Guðbrandsdóttur, Sigurbjargar Sigurðardóttur og mæðginanna Valgerðar Elínborgar Jónsdóttur og Marteins Ólafs Péturssonar þann 1. febrúar hér í félagsheimilinu það ár: „Þegar hendir sorg við sjóinn, syrgir, tregar, þjóðin öll.“

En hann vitnaði einnig til Davíðssálms númer 145: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ Og síðar í þeim sálmi: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ Og enn þetta: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“

Þegar ég segist hafa gengið inn þögn þessa sorgardagsvar það einmitt þetta einlæga og þögla ákall sem ég hlít að hafa skynjað. Ákallið var í gjörtum allra og því ákall í hljóði og í hljóðri bæn fyrir þeim sem fórust og misstu líka heimili sín og misstu sum veruna hér. Líka hljóð þakkarbæn sem erfitt var að orða, að hafa fengið að lifa.

Það má ekki gleymast að Drottinn er með okkur sem lendum í stormi og báli. Í lofsöngnum sem sr. Þórarinn lagði út af ávarpar skáldið Guð sinn: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Við erum undir þessari verndarhendi sem þjóð og blessun hans sem samfélag fólks sem trúir og vonar.

Að koma af hafi inn í myrkan dag um árið er minning sem aldrei dofnar. Eitt það sterkasta var að leggja að og sjá hlíðina alla flóðlýsta og bæinn uppljómaðan. Svo furðulegt sem það hljómar var umflæði ljóssins um byggð og fjall einsog það væri ljós yfir landi, ljós „Yfir voru ættarlandi“ svo vitnað sé til Steingríms Thorsteinssonar, „Yfir voru ættarlandi, aldafaðir skildi halt. Veit því heillir, ver það grandi, virstu að leiða ráð þess allt.“

Ég nefndi áðan Þorra sem var víst elsti sonur Snæs, sem var sonur Kára sonar Fornljótar. Ætli við þreyjum ekki best þennan vetrarmánuð Þorra með því að hugsa til þess að hann helgaði mánuð sinn leitinni að Góu? Leit og björgun er stef að styðjast við á þyngsta verðurkaflanum. Við leitum og við finnum. Sagði ekki Frelsarinn einmitt það? Á þessum 40 árum hafa einmitt verið fundnar leiðir til úrvinnslu og áfallahjálpar en fram að því unnum við að því orðalaust saman að leysa úr álaginu – eins langt og það gat náð. Við unnum að leitinni saman og þá minnist ég ekki bara björgunarfólksins sem hafði hlotið til þess þjálfun heldur líka leitarhundanna sem sönnuðu sig svo um munaði. En þó minnist ég þeirra með allra mestri virðingu sem fóru sem samborgarar út í leitina meðan sortinn var ennþá yfir og óvissan var enn ríkjandi. Guð launi þeim eftir blessun sinni.

Enn er eftir eitt stef í þessari minningu en það eru sjálf 40 árin. Þar er vísað í Heilagari Ritningu til eyðumerkurgöngu Hebrea í leit þeirra að Landinu helga. Þetta er Biblíu-stef um björgun. Það er vísað til þessa hjálpræðis í Fyrsta boðorðinu einsog við lærðum það án afsláttar – vel að merkja – því ef við gefum ekki afslátt af Orði Guðs eyðum við ekki björguninni úr Fagnaðarerindinu. En fyrsta boðorðið okkar er einmitt um frelsun: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, þú skalt ekki aðra Guði hafa en mig.“

Fjörtíu ár tákna oftast að vera leidd úr áþján og leidd inn í betri tíma af hendi Guðs. Við getum því leyft okkur að sjá allt í öðru ljósi núna eftir 40 biblíuleg ár. Eftir 40 daga höfum við náð að þreyja Þorra og verðum komin inn á Góuna, farin að sjá ljósari daga sem vísa til vors og vonar. Fjörtíu ára minningarathöfn er þannig ein sterkasta og biblíulegasta minningarstund sem hægt er að halda. Hún kallast á við allt sem er heilagt. Kallast á við allt sem bjargar og allt sem vísar á vor sem við þráum og ljós sem eygjum við sjónarrönd.

Fyrir því höfum við vitnað í lofsöng til Guðs. Veri þessi dagur að lofsöngi Lausnarans í hjörtum okkar allra, kæru vinir. Honum sé dýrð, honum sem var og verður og er núna í kirkjunni hans, og hér í samfélaginu sem við elskum, hér við hafið eða fjallið. Amen.

(Ávarp þetta var flutt í Patreksfjarðarkirkju í guðsþjónustu sunnudaginn 22. janúar 2023 sem sóknarpresturinn, sr. Kristján Arason, leiddi, ásamt tónlistarfólki. Vegna sögunnar skal tekið fram að forseti Íslands varð að sigla hjá með varðskipinu Freyju til björgunarstarfa og komst ekki til athafnarinnar en ávarp hans og kveðja var flutt í Félagsheimilinu í dagskránni þar eftir guðsþjónustuna og eftir minningarstund við minnisvarða um atburðina 22. janúar 1983 og þau sem fórust þar í krapaflóðinu. ) Ljósmyndina við minnisvarðann tók Guðlaugur J. Albertsson.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Bjartsýnn á gildi kirkjunnar

Ég er ákaflega bjartsýnn fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Þetta kann að hljóma undarlega í ljósi þess að af og til eru að koma upp deilur. Brot hafa komið í ljós sem eru gegn öllu velsæmi. Stundum er hiti í fólki og það á það til að hópast í baráttu gegn öðrum í kirkjunni. En samt er ég bjartsýnn vegna þess að réttlætiskennd og samviska má gjarnan einkenna trúarsamfélag. Þetta er allt innan kirkjunnar og ef okkur tekst að laga samskipin í okkar röðum og ef okkur tekst að tryggja góða og örugga meðferð kærumála erum við að byggja upp enn betri söfnuði og betri þjónustu. Ég er bjartsýnn af því ábyrgðin er okkar.

Ég er líka bjartsýnn í þeim breytingum sem eru að ganga yfir í kirkjunni í skipulagi hennar. Þjóðkirkjan verður sjálfstæðari sem kirkjuleg stofnun með hverju ári. Samningar við ríkið eru í aðalatriðum góðir þótt skilin mættu vera miklu betri á sóknargjöldum frá innheimtumönnum ríkissjóðs. Önnur fjárskil eru skýr og líkleg til friðar í samfélaginu vegna þess að þau eru að mestu byggð á eignaafhendingu sem allir vilja virða. Við viljum jú virða eignaréttinn sem slíkan í íslensku samfélagi og kirkja er þátttakandi í þjóðfélagi sínu.

Kirkjan litast þó helst af baráttu fyrir hinum andlega veruleika einsog trúarsamfélag á að gera. Kirkjan er í stöðugri framför í innri málum eftir því sem henni tekst t.d. betur að ná utanum starfsmannamál og allt skipulag. Ytra umhverfi kirkjunnar er sá efnisheimur sem hefur verið á fullri ferð til afhelgunar í þeirri merkingu að það má versla með veraldlega hluti og ræða það á hlutgerðan hátt. Þessi þróun hefur verið í fullum gangi lengi og alveg sérstaklega frá því um miðja síðustu öld. Heittrúarstefnan mótmælti trú á manninn og afhelgun samtímans. En ég held við hljótum að vera að sigla inní þá tíma núna að við skynjum stöðugt betur skilin milli þess sem er heilagt og þess sem má vera veraldlegt og hlutgert. Við sjáum þetta skerpast í öflugri umræðu gegn því að manneskja sé hlutgerð til að hægt sé að níðast á henni með ofbeldi eða einhvers konar notkun. Ég tek undir orðin: „Mátti það einhvern tíma?“ Ég undrast þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi sem misnotkun því ég get ekki séð að réttlætanlegt sé að tala um notkun á fólki.

Ég dreg þetta dæmi fram til að leggja áherslu á að andleg lífssýn, trú og gildi kirkjunnar eru siðferðileg nauðsyn fyrir einstaklinginn svo hann missi ekki sjónar á því sem er í raun og veru heilagt. Ég hef trú á því að samfélagið okkar hafi gagn af því að kirkjan prédiki kærleika Krists, gullna reglu og réttlætisboð hans. Ég sé ekki betur en kirkjan geti gegnt æ meira hlutverki í samfélaginu eftir því sem hún tekur betur á erfiðum málum sínum. Þau endurspegla í raun það sem hefur illu heilli viðgengist víðar í samfélaginu. Ég er bjartsýnn á að kirkjan verði betri stofnun með betri vinnubrögðum og auknum kirkjulega lýðræðislegum reglum og bættu siðferði. Semsagt bjartsýnn á að kirkjan geti gegnt því hlutverki sínu að vera kirkja í orði og verki.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Óviljandi pílagrímagöngur

Pílagrímagöngur eru farnar víðar en við höldum. Við vitum að pílagrímaferðir hafa verið farnar sem hluti af iðkun trúarinnar um aldir og yfirleitt leiða þær til helgra staða. Þetta þekkjum við vel í pílagrímagöngum til Skálholts í gegnum árin. En ef við lítum til Skálholts sjáum við að fjöldi fólks hefur verið á sinni pílagrímagöngu gegn sínum vilja og án þess að hafa nokkru sinni ímyndað sér að fara til þess helga staðar næstum því nauðug. Minnist ég við sögur af fólkinu sem flúði ætthagana undan Skaftáreldum á 18. öldinni. Þetta gerðist líklega á hverri öld en misjafn fjöldi var á slíkum flótta. Flóttafólk hefur líklega aldrei verið stærri hópur en er núna á okkar dögum. Heimahagarnir hafa orðið óbyggilegir eða gerðir óbærilegir að búa á vegna stríðs og annarra ógna en líka vegna mikilla breytinga í loftslagi og gróðurfari. Flóttafólk á ekki annan kost en yfirgefa staði sem feður og mæður höfðu helgað með baráttu sinni fyrir friðsæld og velsæld. En þau eiga það öll sameiginlegt að leggja af stað í átt að nýjum helgum stöðum. Hætturnar eru á leiðinni og svo er líkast því að birti til er þau hafa komist í feginsbrekkur pílagrímagöngunnar en það er hæðin eða brekkan kölluð þaðan sem fyrst sér til þess helga staðar sem ferðinni er heitið. Feginsbrekka flóttafólks á leið til Íslands gæti verið fyrsta landsýn þess lands sem helgað er dáðum feðra okkar og mæðra sem lifað hafa hér lengi undir blessun Drottins. Við tökum á móti þeim með þeirri helgun sem landið hefur hlotið og það er stærra en við. Við gefum þeim hlutdeild í því sem við eigum helgast en það er ættjörð okkar og trú. Við syngjum um það í lofsöngnum um land vors Guðs og við erum meðvituð um virða ber hvert eilífðar smáblóm með titrandi tár.

Viljandi pílagrímaferðir og hefðir eru góð leið til að dýpka skilning okkar á því hvað felst í því að trúa og ná að stíga í þau spor sem leiða til helgra staða. En slíkt trúlegt ferðalag dýpkar fyrst og fremst skilning okkar á stöðu og lífi annarra. Það er í fyrsta lagi vegna þess að ferðin er farin í spor þeirra sem fyrr gengu slóðina og helguðu leiðina. Í öðru lagi vegna þeirra sem eru á ferð um allan heim einmitt núna í leit að helgun og friðsamlegu lífi. Í þriðja lagi vegna þess að helgir staðir helga okkur þeim tilgangi sem Kristur lagði okkur á hjarta en það er að elska náunga okkar einsog okkur sjálf, engu minna en við elskum Drottinn Guð af öllu hjarta, öllum huga okkar og allri sálu okkar. Á göngu er allt þetta virkjað einum tilgangi sem helgar líf okkar og annarra.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Heimsgluggi okkar stækkar – Guðsmyndin stækkar

Fyrstu myndir úr geimsjónaukanum James Webb eru ótrúlegar og líklega höfum við aldrei séð jafn margar vetrarbrautir í þessari þyrpingu vetrarbrauta sem við sjáum núna. Tíminn er ótrúlegur og reynir á ímyndunaraflið okkar þegar talað er um milljarða ljósára fjarlægð. Svo langur tími er liðinn síðan þessi mynd lagði af stað út frá stöðum sínum að hún er líklega löngu horfin þegar hún berst okkur.

Líkt og þegar Hebrear voru herleiddir til Babylon og sáu margfalt stærri heim en hafði áður verið heima í Landinu helga í hjarðlandinu þar stækkaði mynd þeirra af Guði. Hann var ekki lengur Guð Abrahams heldur sjá þeir sem trúa að Guð er miklu stærri en það. Þau átta sig á því að Guð hafði ekki aðeins skapað haglendið í Kanaan, Filesteu, Gaza og löndunum þar í kring.

Maðurinn þurfti að upplifa stærri heimsmynd til að átta sig á því hvað Guð er í raun stór og mikilfenglegur. Í dag hefur heimsmynd mannkyns stækkað ótrúlega í tíma og rúmi. Við skiljum enn betur að það er ómælisdýpt í eilífið Guðs. Eilífðin hefur stækkað. Ómælanlegur faðmur Guðs hefur stækkað. Og hann er hér heima og hann er þar langt í fjarska og hann var áður en allt varð skapað og hann er enn löngu eftir að slokknað hefur á þeim ljósum sem núna eru að berast okkur í nýjum heimsglugga okkar. Mikill er Guð og enginn endir á því sem hann er.

https://www.ruv.is/frett/2022/07/11/soguleg-fyrsta-ljosmynd-ur-james-webb-geimsjonaukanum

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Í dag hljómar yfir allar okkar jarðir og lóðir einn og sami ómurinn um Guð vors lands og land vors Guðs. Það er ekki land guðanna okkar eða goða. Það er þessi Guð vors lands sem skáldið á Sigurhæðum ræðir um og byggir lofsönginn af í ljósi Jeremía, í ljósi Jesaja og ekki síst í ljósi 90 sálms Davíðs. Á því byggjum við alla okkar byggð. Við byggjum það á orði. Í flestum löndum er vísað til orrustu eða sigurdags eða annarra viðburða sem í mörgum tilfellum vísar óbeint á að blóði hefur verið úthellt til að hægt sé að fagna þjóðhátíð í landinu. Hjá okkur er það Orð Guðs.

Á vissan hátt má segja að það byggi á baráttu. Í okkar tilfelli, sem er all nokkuð sérstakur bakgrunnur eða uppruni þjóðsöngs, er vissulega byggt á mati á baráttu. Nema baráttan sem þjóðsöngur okkar vísar til er barátta hvers einasta barns fyrir því að fá að lifa og dafna. Smáblómið er með tirtandi tár. Þetta er barátta þess er vill lifa en er háður því sem kallað er forgengileiki tilverunnar. Allt líf er sem gras er vex upp og er vissulega blómi lífsins. En svo kemur sú barátta sem hvert einasta smáblóm þarf að beygja sig undir eða heyja eftir því hvernig á það er litið að vera dauðlegur í líkama sínum. Um þetta yrkir sr. Hallgrímur svo fallega í sálminum um blómann sem sláttumaður dauðans leggur að velli, hvort sem það er snemmt eða síðar:  

„grösin og jurtir grænar, / glóandi blómstrið frítt, / reyr, stör sem rósir vænar / reiknar hann jafnfánýtt.“

Það er baráttan, að líf mannlegt endar skjótt. Það er það líf sem byggir á Orði Guðs á þann hátt að það ber þó með sér eilífðina og fegurð hennar í blóma sínum af því að ef það líf mannlegt elskar og virðir Guð sinn og eilífð hans og sér sig sjálfa í mynd þess sem er eilíft er fegurðin aldrei meiri. Fegurð mannlegs lífs er fagurt og ber með sér eilífðina ef það byggir á trú og eilífum gildum þess er aldrei endar eða aldrei fölnar. Fegurð heimsins hverfur en Orð Drottins vors varir að eilífu. Sú fegurð heimsins sem byggir á því er fögur af því að það lifir og ber áfram vonina um eilíft líf í Guði og Orði hans. Það er líklega þess vegna sem Matthías á Sigurhæðum talar um eilífðar smáblóm. Við erum þá eilífðar smáblóm sem ber í sér mesta sigur þessa lífs en það er að lifa þótt það deyi. Það lifir af því að það byggir líf sitt á því sem er eilíft í anda eilífs Guðs af því að það er land vors Guðs og af því að hann er Guð vors lands.

Í stríðshrjáðri Evrópu er rétt að draga það fram að þrátt fyrir harða lífsbaráttu genginna kynslóða og baráttu þeirra fyrir því sem við njótum í dag á Íslandi var sú barátta ekki háð á vígvelli eiturs og púðurs og blóðugra byssustingja eða einsog á dögum á launsátri hugleysingja sem sitja á bak við skjáinn sem stýrir drónum og banvænum spjótum yfir saklaust fólk. Það er ekki hetjudáð að vaða blóðugur upp að öxlum og ganga í skrokk á nágranna sínum. Veri þeir volaðir sem gera þannig árás á náunga sinn sem treystir á frið og farsæld og líka á kirkju sína að hún myndi frekar bera klæði á vopnin en standa með harðstjóra sínum eða týranní.

Stríð í Evrópu á okkar dögum er rangt, á dögum þegar við ættum öll að vera að fagna sigri samstöðunnar sem lægði framgang Kóvíd-veirunnar á aðeins rúmum tveimur árum. Við ættum að vera að fagna því gjörvöll heimsbyggðin í ljósi þess að á öldum áður óðu heimsfaraldrar, drepsóttir og önnur slík óáran oft til fjölda ára og var engu síður banvæn hér á landi þegar hún kom nokkrum árum aftur að vitja þeirrar sveitar þar sem enn voru heimili og bæir sem sloppið höfðu í fyrri yfirreiðum hennar. Þetta hefur Hannes Finnsson, Skálholtsbiskup, tekið saman á svo einstakan hátt að kalla verður bók hans „Mannfækkun af hallærum“ sígilda meðal íslenskra rita. Þar er baráttu þjóðarinnar rétt lýst. Það er á lífsbaráttu þessara smáblóma fyrri alda, fyrri kynslóða, sem farsæld okkar byggir. En sú barátta byggði á ríkri von um eilíft líf, líf í Jesú nafni.

Þess vegna lofum við hans heilaga nafn og það er þess vegna sem baráttan í sálmi sr. Hallgríms endar á þeim mikla dýrðarsöng sem hann gerir:

Ég lifi’ í Jesú nafni, / í Jesú nafni’ eg dey, / þó heilsa’ og líf mér hafni, / hræðist ég dauðann ei. / Dauði, ég óttast eigi / afl þitt né valdið gilt, / í Kristí krafti’ eg segi: / Kom þú sæll, þá þú vilt.

Og þessa játningu byggir hann á uppstiginu í 10. versi sem hann byggir á orðum Jobs, sem hafði misst allt í baráttunni fyrir lífsviðurværi sínu en misst líka heilsuna og misst ástvini sína og misst fénað og akur og allt sem hann hafði átt og notið. Þegar vinir Jobs höfðu komið til hans og reynt að fá hann þó til að hallmæla Guði sínum fyrir þessi vondu kjör sjáum við hann fyrir okkur rísa við dogg og líta í augun á þessum vinum sínum og segja „Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu.“ Í trúarmætti sr. Hallgríms, sem einnig hafði misst og einnig hafði ekki fengið neitt eftir löngun sinni fáum við það einstaka tíunda vers sem ætti að syngja allra hæst:  

Ég veit, minn ljúfur lifir / lausnarinn himnum á, / hann ræður öllu yfir, / einn heitir Jesús sá, / sigrarinn dauðans sanni / sjálfur á krossi dó / og mér svo aumum manni / eilíft líf víst til bjó.

Þetta er baráttan og sigurinn sem þjóðsöngur okkar vísar til og byggir á en umfram allt er það þessi von og þessi trú sem landið byggir á og þjóðin sem elskar Guð sinn. Í annarri trú í landi þeirrar fjölmenningar sem Ísland er að  verða og er á vissan hátt þegar orðið er það sama von og trú í brjóstum þeirra sem einnig eiga guð og einnig eiga von. Vonlausir eru vissulega volaðir engu síður en þeir sem troða á von og trú annarra eða vilja umfram allt deyða alla von um frið og elsku eða von um að kærleikurinn muni sigra en ekki dauðans blóðuga vald spjótalagna og sprengjuregns.

Og hvurnin tölum við þá inní þennan heim þar sem stríð er enn í löndum Evrópu eða þegar enginn getur keypt sig frí en við öll þurfum að láta nótt sem nemur og saklaust fólk þarf að keppast við að bægja frá sér öllum kvíða. Það má til því ekki má það gerast að við drögumst ofan í það hyldýpi illsku og mannfyrirlitningar sem árásarstríðið er komið neðan úr. Svo við verðum ekki samdauna og að við fáum staðist þrátt fyrir að okkur hafi verið sýnt ofaní háskadjúpið.

Mér er nær að líta til jóska prestsins Kaj Munk sem prédikaði svo vel í dönsku kirkjunni sinni að það féll þeim illa sem töldust ráða í Þriðja ríki Hitlers og réðu á þeim tíma einnig yfir Danmörku. Kannski er mér það minnisstætt þar sem ég er nýkominn frá yndælu Danmörku. Kaj Munk var tekinn af lífi af Gestapó skömmu fyrir stíðslok (4. janúar 1944) en eftir hann liggja vonglaðar og bjartar prédikanir frá þessum háskatíma sem þýddar hafa verið og eru okkur m.a. aðgengilegar í bókmenntaarfi Sigurbjörns biskups. Ein er sú ræða sem ég hef nýlega vitnað til við fermingarmessu hér skammt frá í Biskupstungunum. Það er ræðan hans við fermingarmessu í sínum sóknum sem enn er full af baráttu fyrir innri friði og vissu vonar og gleði á ógnartíma. Það er rétt að rifja það upp núna þegar allri Evrópu stafar ógn af stríði, nokkru sem ætti fyrir löngu að vera orðið algjörlega úrellt fyrirbæri. Horfið einsog hver önnur risaeðla úr samfélagi manna.

Presturinn Munk talar til fermingarbarna sinna um fegurðina og minnir þau á hvað þau eru lánsöm að eiga svona fallegt land og hvað þau eiga góðan konung og hvað þau eiga fallega sálma í kirkjunni og hvað þau eiga ríka og mikla von sem þau geta alið í brjósti hvað sem gengur á. Hann minnist varla á illskuna eða hramma þess brjálæðis sem hertekið hefur landið þeirra en talar fullur vonar um frelsi landsins sem aftur verði því það er fólgið í eðli lands og þjóðar. Landið okkar er land Guðs og á því landi mun aðeins það góða fá að dafna og ef það eru þrengingar mun hvert mannsbarn, í svo góðu landi, eiga von um betri tíma. En í voninni má heldur ekki gleyma því góða fólki sem er að leiða þjóðina undir merki krossfánans í gegnum móðuna af byssupúðri og spúi illra vopna. Mitt í hersetnu landi situr fólk sem er lánsamt. Það segir Munk. Við erum í blóma. Hann dregur fram vonina sem hann sér búa í brjóstum unga fólksins og sérstaklega á þessum degi í brjóstum fermingarbarna sinna. Það þýðir ekki að fást um það að við erum öll háð hverfulleikanum sem býr í heiminum og öllu sköpuðu. En við getum ekki misst vonar vegna þess að hún er í okkur. Guðsríkið er innra með okkur og verður ekki rifið þaðan. Kristur kom því fyrir hér í hjartanu – í microcosmos hverrar lifandi manneskju. Við erum lánsöm að eiga svo djúpa og ríka von, sem hér er minnst á, af vörum allra sem ort hafa í okkur kjarkinn til að lifa, vona og starfa undir krossfána Jesú Krists. Sigurmerkið er sjálft líf okkar og líf okkar er í friði hans. Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Að sökkva ekki í hyldýpi illskunnar með hatri

Á torginu fyrir framan ráðhúsið í Kharkiv.

Við lifum ótrúlega tíma þar sem öll heimsbyggðin er neydd til að horfa ofaní hyldýpi illskunnar með innrás Rússneska hersins inní Úkraínu. Horfi ég þar helst á sprengingar og árásir á sjúkahús, íbúðabyggðir og saklausa borgara. Þetta snertir okkur öll og börnin okkar líka að sjá jafnaldrana á flótta eða í neyðarskýlum. Við þurfum að finna leið til að sogast ekki ofaní hyldýpi illskunnar með hatrinu öllu og morðum í stríði, mannréttindabrotum og eigna- og menningartjóni. Mest er tjónið þegar orðið sem varð þegar friðurinn var rofinn.

Ef við förum að dæmi Desmund Tutu, erkibiskups í Suður Afríku, sem núna er nýlega látinn, sagðist hann hafa verið neyddur til að sjá ofaní þetta illskudjúp en ákvað að hverfa ekki ofaní það með þeim sem hata og drepa og nýðast á saklausu fólki og brjóta gegn öllum boðorðum Guðs.

Það væri fáránlegt að dragast inní orðræðuna sem notuð hefur verið til réttlætingar á morðum, dauða og hörmungum. Við þurfum að sjá þetta í gegnum tárin á kinnum barnsins og móðurinnar sem flýr með það í örvæntingu sinni í leit að skjóli og friði. Þau tár eru tær og ef við speglum okkur í þeim og grátum með þeim líka sjáum við að eina svarið er öryggið sem felst í kærleika og miskunnsemi.

Við getum ekki annað en beðið fyrir baráttuþreki þeirra sem heyja varnarbaráttu fyrir landinu sínu, heimilum sínum og samfélagi sem vill vera öruggt, gott og fagurt.

Barn á flótta með skólatöskuna sína

Við getum ekki leyft okkur að belgjast upp í hatri á einn mann þótt svo virðist sem forseti Rússlands hafi misst vitið. Í einni ágætri fréttaskýringu í erlendum miðli er bent á að Úkraína er ekki endanlegt takmark Pútíns eða hernaðaraflanna sem eru með honum núna. Það er nær að skoða þau öfl sem ráða þessari drápsför og árás á fullvalda ríki. Það virðast vera öflin sem ekki sætta sig við það hvernig sagan hefur þróast í Evrópu síðustu þrjátíu árin. Það virðast vera öflin sem ekki hafa enn kyngt þeirri þíðu sem varð með endalokum kalda stríðsins og má segja að hafi m.a. átt sér stað með áfanganum í Höfða í Reykjavík og svo áfram með falli Járntjaldsins og falli Sovétríkjanna. Orðfærið er blygðunarlaust sótt í síðari heimsstyrjöldina og bendir það eitt og sér til sjúklegrar fortíðarhyggju. Einn mesti skaðinn er að brjálæði Þriðja ríkisins hefur verið ert með þessu tali á sviði þjóðernisofstækis og andgyðingleg öfl hafa verið vakin til verka. Stríðið hefur staðið í áratug og mun halda áfram ef þessi öfl sjá framgang í því að snúa við þróun í átt til friðar og frelsis einstaklingsins. Stríðið nærist og þróast á versta veg ef þessum öflum tekst að snúa við einingarviðleitni frjálsra og fullvalda ríkja Evrópu.

Stríðið mun fá fóður sitt og eldsneyti ef hin illu fólskuverk verða til þess að við förum að tala á sömu nótum. Þá höfum við dregist ofaní hyldýpi vonskunnar. Það er því mikilvægt að við höfum stjórn á okkar tungu og ekki síst í áheyrn barnanna og unga fólksins. Svarið er ekki hatur heldur vörnin sem við þurfum að byggja upp í kærleika og friði sem ekki samþykkir eða samsinnir óhæfuverkum illra afla. Svar okkar þarf að vera að halda uppi vörnum fyrir mennskunni og fegurð heimsins og svara því með miskunnsemi í garð þeirra sem núna þjást í styrjöldinni. Við þurfum að vera Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn. Við þurfum að vera Rauða stjarnan, þ.e. sú sem kennd er við Davíð, því hún stendur fyrir það í biblíusögunum okkar þegar vopnlausi lítilmagninn verst gegn innrásarliði og risanum Golíat. Guð gefi Úkraínu styrk í stríði og nauðum og Guð gefi nágrönnum æðruleysi og þrek að taka á móti saklausum borgurum sem flýja hryllinginn og styrki Guð líka þau sem óttast um það í nágrenninu hvert þessi háskalega þróun um þróast áður en friði verði komið á að nýju.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð

„Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Það er merkilegt hvað aldagamlir textar tala mikið til okkar og inní okkar aðstæður aftur og aftur. Messufall var hluti af okkar aðstæðum um nýliðin áramót. Það var mjög erfitt en svo bætti í veðrið. Þá má segja að óveður hafi lagst á sveif með veirunni og gegn kirkjusókn á nýársdag. Fjöldi landsmanna komst hvorki lönd né strönd og hvað þá yfir heiðar. Ef við fylgjum eftirdæmi Jesú ber okkur annars að vera í húsi föður vors og koma til kirkju.

Andleg uppbygging nauðsyn

Janúar 2022 mun bera með sér nokkrar takmarkanir á samkomum en kristinn söfnuður er söfnuður vegna þess að fólk kemur saman. Verði enn miðað við 50 manna takmarkanir út janúar munu 50 manns geta komið saman með allri varúð í sóknarkirkju sinni. Við viljum komast til kirkju og dvelja þar helst í guðsþjónustu eða messu en við verðum að fara jafn varlega og þegar við förum út í búð að versla eða mæta í vinnu og sækja tómstundir okkar. Allt þetta er manneskjunni nauðsyn. Andleg uppbygging er nauðsyn og hjálpar til við allt annað sem bætir manneskjuna. Þegar þetta fer saman getum við gert okkur vonir um að græða mannlífið og gera samfélagið heilt aftur.

Hvers vegna leitum við Jesú?

Þar sem þetta er óneitanlega snúið að vera til á okkar dögum gæti verið gagnlegt að taka fyrst fyrir fyrri spurninguna sem Jesús tólf ára spurði foreldra sína eftir að þau fundu hann á spjalli við öldungana við musterið. Þau höfðu leitað hans í þrjá daga og voru frekar stutt í spuna þegar þau fundu hann loksins. En hann svaraði: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér?“ Þá hljótum við að spyrja okkur í dag hvers vegna við leitum Jesú? Við þurfum ekki að setja okkur í fótspor foreldra til að skilja það hversu mikilvægt er að við leitum fundar við Jesú, hvers vegna við horfum til guðsþjónustunnar og Orðsins og sálmanna og að sjá aðra í helgum stað.

Allir þekkja hann

Textinn er Ritningarlestur sunnudagsins milli nýársdags og þrettándans. Það er dagurinn milli dagsins þegar Betlehembarnið var nefnt Jesú og dagsins þegar það birtist í lotningu hirðanna og vitringanna að þessi nefndi Jesús væri Kristur, Drottinn, Frelsari mannkyns. Ég reikna með að við dveljum þarna oft í þessu millibilsástandi. Við þekkjum Jesú með nafni og syngjum um hann og segjum börnunum okkar sögur af þessum Jesú. Allir þekkja hann og allir viðurkenna og neita því allavega ekki að hann hafi verið til og þetta hafi verið nafnið hans. En svo kemur að birtingarhátíðinni, epífaníunni, og þá fækkar í hópnum. Það þarf meira til að sjá þessa nafnkenndu stóru persónu í mannkynssögunni sem Drottinn og játa að hann er þess umkominn að hjálpa okkur í öllum okkar aðstæðum. Hann frelsar og býður okkur að þiggja það sem er gott og fagurt í lífinu. Hann kynnir fyrir okkur hvaða leið það er sem við getum farið til að nálgast fullkomnun í þessu fagra og góða lífi sem hann opnar okkur einsog bók. Hann líkur þessu upp og við göngum inní það ef við viljum taka við þeirri umbreytingu sem í því felst að sjá hann upprisinn og nógu máttugan til að koma öllu því til leiðar sem felst í fagnaðarerindinu um hann sjálfan, sjálfan Guð.

Umbreytingin sem læknar

Ef við þiggjum þessa umbreytingu og breytum hugarfarinu í samræmi við það mun samfélagið breytast til hins betra. Það er þá fyrst sem við getum talað um samtakamátt sem byggir á heilbrigðum kærleika og von okkar allra sem trúum á Jesú Krist. Þá sjáum við hvernig það er hann sem læknar og leysir úr hverjum vanda. Með þessari trú er snúið aftur frá einangrun og sóttkvíum til betra samfélags vegna kærleikans og heilnæmis þar sem hlúð verður jafn vel að huga og líkama. Þá erum við aftur einhuga í heilbrigðu samfélagi. Hér er margt að vinna og við þurfum að vinna úr erfiðri reynslu og við þurfum að vinda ofanaf ofbeldi og misnotkun sem því miður hefur verið dulið í einangruninni. Ekkert er Kristi hulið og auga hans er vitund okkar um nærveru hans. Réttlæti hans er öruggt og vonin sem hann býður er sterk. Kærleikurinn sem hann stendur fyrir og sem hann táknar alla leið á krossinn og í sigri hans í upprisunni. Við minnumst þess á hverjum sunnudegi og getum ekki annað en haldið þeim dampi að þjóna honum á helgidegi hans. Gildir þá einu hvort við finnum okkur heima á heimilinu, í gististað eða heima í húsi Guðs. Nema heima í kirkjunni erum við saman og sjáum að andlegt samfélag fólks er mikilvægara en nokkru sinni. Áður fyrr voru það oft samgönguleysi og ófærð sem komu í veg fyrir alvöru samfélag þeirra sem trúa.

Innan skamms munum við sjást

Á okkar dögum er einangrunin orðin stafræn og eins góð og tæknin getur verið getur hún aldrei komið í staðinn fyrir raunverulega nánd sem meðal annars felst í því að koma saman í kirkju. Við erum vonandi öll að vona að sá dagur komi óðum sem það verður aftur hægt því við höfum saknað þess að sjást í kirkju. Þá verður gleðin mikil. Innan skamms munum við sjá það. Það verður þá sem við tökum undir með sálmaskáldinu í Davíðssálmum sem segir þennan sunnudag í millibilsástandinu:

„Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði, hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?“

Komi sá dagur ef það er vilji Drottins. Komi gleði hans yfir okkur einsog regn eftir langan þurrkatíma. Komum þá til hans sem gerir samfélagið okkar gott og fagurt og fullkomið í anda og einum huga. Slíkur er kraftur hans og máttur sem enginn annar getur státað af og ekki einu sinni maðurinn sjálfur. Við þurfum hans við og þráum að finna nálægð hans í okkar aðstæðum, kærleika hans í okkar æðum og friðinn hans í huga þess er trúir.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Birt í General | Færðu inn athugasemd