Á kynningarfundinum í Safnaðarheimilinu á Hellu í gær kom ágæt spurning frá sr. Gunnari í Niðarósi um hvernig okkur litist á að eiga vinastifti á Norðurlöndum. Ég hef sannarlega notið þess að eiga í góðu norrænu samstarfi í gegnum árin og alltaf læri ég eitthvað nýtt. Sú samfélagslega greining sem þau vinna stöðugt að hjálpar okkur að skilja betur hvað er raunverulega að gerast í okkar samfélagi því norrænar þjóðir eru mun fjölmenningarlegri en áður var talað um en eining okkar getur orðið öðrum þjóðum til fyrirmyndar.
Ég tel gott að fara þá leið að tengja fólk og kynnast persónulega. Í dag og á morgun er ég á fundi með prestum frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi og núna í ágúst var ég á árlegum fundi formanna og varaformanna prestafélaganna á öllum Norðurlöndum. Á þeim vettvangi hef ég átt kost á að vera á tveimur guðfræðiráðstefnum og fékk þann heiður að setja þá seinni í Kaupmannahöfn sem formaður NPS, norræna samráðsvettvangsins. Það er ómetanlegt að eignast vini í norrænu systurkirkjunum okkar og við ættum sannarlega að stefna að því að auka þetta samstarf. Ég hef allavega notið þess að vera með starfssystkinum mínum síðan ég byrjaði að fara á slíka fundi sem ritstjóri Kirkjuritsins snemma á 10. áratugnum og svo má ekki gleyma þýsku víddinni sem við í Kjalarnesprófastsdæmi fengum mikið út úr í góðum samstarfsverkefnum við kirkjuna í Kurhessen Waldeck. Það er ekki verra að hafa formlegt samstarf á þrjá vegu.
Ég set hér inn mynd úr Eyjum og aðra úr Eyrarbakkakirkju frá fundi NPS á Íslandi í fyrra.