Í dag hefst í Digraneskirkju ráðstefna Alkirkjuráðsins um loftlagsbreytingar og ábyrgð okkar undir yfirskriftinni „On Just Peace with Earth“ og hef ég verið viðloðandi undirbúning ráðstefnunnar sem varaformaður í Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar. Ráðstefna Alkirkjuráðsins tengist ráðstefnunni Arctic Circle Assembly í Hörpu. Heimasíða stofnunarinnar er http://www.stofnunsigurbjorns.is og er þar að finna upplýsingar um málstofu sem við munum annast fyrir hönd Þjóðkirkjunnar og Alkirkjuráðsins en þessi málstofa er þáttur í Norðurslóðaráðstefnunni Arctic Circle Assembly. Málstofa okkar á ACA ber yfirskriftina Climate Justice – The Moral Imerative to Act.
Á málstofu Stofnunar Sigurbjörns flytur Hans heilagleiki, ekumeníski patríarkinn í Miklagarði, Bartholomew I, upphafsávarp. Þau sem flytja erindi eru Anders Wejyrd, forseti Evrópudeildar Alkirkjurásins og fv. erkibiskup Sænsku kirkjunnar; Clarisse Kehler Siebert, sérfræðingur og ráðgjafi hjá umhverfisstofun Stokkhólms; dr. Halldór Björnsson, verkefnisstjóri hjá Veðurstofu Íslands og dr. Rodney Petersen frá Boston University School of Theology. Málstofustjóri er Ögmundur Jónasson, fv. Innanríkisráðherra og alþingismaður. Í fjarveru formanns Stofnunar Sigurbjörns, Boga Ágústssonar, fæ ég þann heiður að setja málstofuna með þessu góða fólki og aðstoða á allan hátt.
Það hefur verið í nógu að snúast vegna þessa og hef ég einnig tekið að mér að vera fararstjóri í vettvangsferð ráðstefnugesta Alkirkjuráðsins á Þingvöll á föstudag þar sem ályktun ráðstefnunnar verður staðfest með undirskrift við helgistund á Lögbergi og í Þingvallakirkju. Það er ekki ofsögum sagt að ég hlakka til að taka þátt í þessu verkefni enda er málefnið mikilsvert og mikil þörf á að styrkja heilbrigð viðhorf til loftlagsbreytinga, en skapa með umræðunni nýjar forsendur fyrir réttlæti og friði við jörðina og komandi kynslóðir. Ályktunin verður vonandi hvatning til alls almennings og til leiðandi fólks í kirkjunni en ekki síður fólks á sviði vísinda og stjórnmála.