Seinni umferð vígslubiskupskosninganna hefst 6. nóvember. Það er vígsludagur Dómkirkjunnar í Reykjavík árið 1796 og þess vegna læt ég þessa mynd fylgja hér með. Ég er þakklátur fyrir góðan stuðning í fyrri umferð og við tilnefningarnar í ágúst. Í allri auðmýkt bind ég vonir við að fólk vilji nýta mig til þessarar þjónustu innan kirkjunnar sem felst í því að efla Skálholtsstað og styðja við mikilvæga þjónustu kirkjunnar fólks í öllum sóknum umdæmisins. Því vonast ég eftir enn meiri stuðningi með enn meiri kjörsókn í þessari seinni umferð. Það þarf meirihluta greiddra atkvæða til að ná kjöri.
Innan tíðar sendir kjörstjórn út staðfestingu á þessum kjördögum en það er talað um að kjörgögn verði send út til kjörnefndarfólks og annarra kjörmanna mánudaginn 6. nóvember. Þar með hefst kosningin og síðasti dagur til að setja í póst verður mánudagur 20. nóvember. Þá verður hægt að telja atkvæðin 25. nóvember. Kirkjuráð á eftir að staðfesta þessa ákvörðun en þetta þýðir að það verða gefnir fleiri dagar til póstkosningarinnar en í fyrri umferð. Það gæti verið gott fyrir þau sem eru á ferðalögum og það gæti líka verið gott vegna fárra póstdaga á stórum svæðum í umdæminu.