Kæru vinir. Samkvæmt tilkynningu frá kjörstjórn og frá biskupi Íslands hefur vígslubiskupskjörinu verið seinkað um óákveðinn tíma. Sagt hefur verið frá því að a.m.k. ein kjörnefnd hafði ekki verið kosinn með réttum hætti á aðalsafnaðarfundi. Þetta hafði mikil áhrif á skipan prests í embætti en sú skipun hefur verið afturkölluð og verður það embætti auglýst aftur. En málin tengjast þannig að það eru sömu kjörnefndir í biskupskjöri og í prestskosningu. Fyrstu viðbrögð kjörstjórnar eru þau að seinni umferðinni í kjöri okkar hefur verið seinkað á meðan biskup Íslands og prófastar ganga úr skugga um hvort kosningu í kjörnefndir hafi verið ábótavant víðar í umdæmi vígslubiskupsins í Skálholti. Þegar það liggur fyrir verður metið hvaða gildi fyrri umferð í kjörinu hefur og hvort hún muni standa þrátt fyrir þessa vankanta. Það er alls óvíst og ætla ég ekki að fullyrða neitt um það. Það eitt er ljóst að kjósa þarf nýjan biskup þar sem sr. Kristján Valur Ingólfsson lét formlega af störfum í kvöld eftir táknræna guðsþjónustu í Skálholti þar sem hann lagði kórkápu sína á gráturnar eftir farsælan feril í embættinu. Nú er útlit fyrir að hann verði settur í embætti uns niðurstaða er komin í kjörið á eftirmanni hans.
Í sjálfu sér mun þessi seinkun ekki hafa afgerandi áhrif á það hvenær nýr vígslubiskup tekur við embætti enda hafði verið áformað að hann yrði vígður í Skálholti á vordögum í tengslum við prestastefnu Íslands og skulum við vona að kosningu ljúki fyrir þann tíma.