Bjarmi vonar og jólafriðar

Bregður lit á bæjarþil,
bjarma jólafriðar.
Verða bráðum vonarskil
vegna trúarsiðar.

Vonin er oft sýnilegust og skærust þegar hún er einsog morgunsólin að brjótast fram. Þannig sýn kveikti þessar hendingar mínar og hefði verið gaman að yrkja úr þeim ljóð. Mér finnst vonin sterkust í fyrstu vísbendingum líkt og þegar birtir af degi. Þá glóir vonin. Frá þessari mynd árdagsins líður ekki langur tími þangað til dagurinn er kominn í öllum sínum ljóma. Eftir það er það ekki von heldur höfum við þá fengið að reyna nýjan dag. Eftir það þurfum ekki að trúa komu dagsins af því að þá er hann staðreynd. Kristinn trúarskilningur einkennist oft á tíðum af guðfræði vonarinnar. Það fullyrði ég af því að við eigum ennþá svo mikið af samferðarfólki sem lifir í von en býr við myrkur eða áþján, fjötra fátæktar eða ofbeldis. Það er ekki óalgengt að sorgin leggi líka ákveðna fjötra á fólk um tíma. Sorg og kvíði getur loðað við okkur allt árið og kallað fram viðbrögð okkar í nánd jólanna af því að þá verður söknuðurinn oft sár eða missirinn áberandi mitt í kliðnum af siðum og vana fjölskyldunnar á hátíðinni.

Þrælar Suðurríkjanna tjáðu guðfræði vonarinnar á mjög öflugan hátt af því að þau voru föst í þrældómi og áttu bókstaflega ekkert annað en vonina. Í trú á vonina vissu þau að fagnaðarerindið myndi fela í sér raunverulegt frelsi einstaklingsins og virðingu fyrir helgi mannsins. Það er í guðfræði vonarinnar sem fólkið fer að syngja gospelsöngvana eða sönginn í guðspjöllunum. Þessi magnaða sönghefð brýtur á vissan hátt af þeim fjötrana með sannfæringarkrafti og heitri trú. Á okkar tímum eigum við fólk í fjötrum fátæktar sem er á flótta frá stríðshrjáðu heimalandi sínu. Við sjáum að þau eiga fátt annað en von. Sjáið Róhingjana.

Bjarmi jólafriðar er ekki bara sykursætur boðskapur sem nota má til að sáldra yfir skreytingar og hátíðarborðið heima. En ef hátíðarskreytingarnar eru til tákns um allt það besta sem við getum lagt á borð vantar samt allt ef voninni er ekki sáldrað þar yfir. Jólaboðskapurinn er dýpri þegar við sjáum hann sem boðskap vonarinnar. Þetta sjáum við algerlega þegar við skoðum vel myndina af hirðunum sem komu að jötu Jesú fyrstir af manneskjum heimsins en jafnframt fátækastir allra. Þau höfðu erft von frá fyrri kynslóðum sem haldið höfðu henni á lofti. Þau báru hana áfram án þess að sjá hana rætast sjálf. Hirðar fyrri kynslóða voru einsog næturvaktin sem fór að sofa áður en sólin kom upp.

Stundum hafa seinni kynslóðir verið einsog dagvaktin sem kemur til starfa eftir að albjart er orðið og þarf sjaldan að vinna í rökkri. Það er spurning hvorri kynslóðinni hættir frekar til að gleyma upprisu sólarinnar eða með öðrum orðum kraftbirtingu vonarinnar. Ég vona að allir fái að njóta eftirvæntingar jólanna með sönnum vonarglampa til augnanna og finna gleði friðarhátíðarinnar fylla hjarta sitt þegar vonin hefur ræst. Verði þessi vonarskil. Ég vona að birta jólanna skili sér þangað sem hennar er vænst af þrá og þörf af því að þá svarar hátíðin ákalli okkar. Hríslist vonin um okkur öll og rætist trúin á Jesú Krist með frelsi og friði í lífi allra á gleðilegum jólum.

Þessi hugvekja mín birtist núna um daginn í Jólablaði Lions á Suðurlandi

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s