Kennarinn sem afstýrði skotárás og breytti lífi stráks

Mig langar að segja ykkur sögu af afar merkilegri hetju sem var kennari drengsins okkar í miðskóla á Flórída fyrir meira en áratug síðan. Nafn hennar munum við vel en ég nefni það ekki hér til að koma henni ekki í vandræði. Eitt foreldraviðtalið varð mjög eftirminnilegt fyrir okkur öll. Við fórum að spjalla saman og hún sagði okkur sögu af einum af fyrri nemanda sínum. Þetta var stór og sterkur strákur sem hafði farið seint í það að klára grunnskólann sinn. Hann kom frá brotinni fjölskyldu og hafði lent í ýmsu misjöfnu í stórborginni. Hann var orðinn tveimur eða þremur árum eldri en bekkjarfélagarnir en hún sá það góða sem bjó í þessum strák. Nema stundum var órói í kringum hann og erfitt með félagslega aðlögun, mikill kraftur fór í klíkumyndun og allt sem fylgir því. Einn daginn hafði spennan vaxið á skólalóðinni og í bekknum hennar og hún bjóst við því versta. Þá þóttist hún allt í einu viss um að hún sæi móta fyrir byssu undir peysunni. Frúin góða, þessi smávaxna fullorðna kona, bað hann að tala aðeins við sig í lok tímans þegar krakkarnir voru að fara út. Hún náði sambandi við hann, rétti fram hendina og bað hann að láta sig hafa byssuna. Hún lofaði honum því einu að hann mætti treysta sér. Eftir mjög löng augnablik og ögurstund ákvað drengurinn að treysta og þessi dagur varð sá dagur sem breytti lífi hans.

Okkur þótti öllum ótrúlegt að fá að sjá inní þennan heim á svona raunverulegan hátt þar sem skotvopn skapa vanda og lífshættu en hugrekkið felst í því að treysta og byggja upp tiltrú hvert til annars. Mér finnst engum ofsögum fara af því vandasama hlutverki sem kennarar gegna í lífi skólabarna um allan heim og þar með í lífi fjölskyldunnar. Þessi kona var stöðugt að sinna því merkilega hlutverki sínu að ná til unglinganna og vera þátttakandi í því þegar þau hafa verið tilbúin að stíga ný skref á þroskabrautinni. Þetta er semsagt ekki saga af byssum og skothríð í skóla heldur af atburði sem breytti lífi fólks vegna þess að byssan var tekin út úr því dæmi sem bekkurinn var að glíma við undir öruggri leiðsögn kennarans. Þetta er auk þess sönn saga úr veruleika okkar og nýjustu harmsögurnar frá skóla í Flórída hafa vakið upp. Við hugsum núna til þeirra og biðjum þess að minning þeirra lifi svo að hún breyti okkur.

Styttuna af byssu sem búið er að hnýta fyrir fann ég í Seattle enda er víða barist gegn ógn af skotvopnaeign í Bandaríkjunum.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s