Það gæti verið gaman að rekja sögu upplýsingaþjónustu kirkjunnar í gegnum tíðina en í ágætri grein sr. Hreins S. Hákonarsonar á kirkjan.is er e.t.v. að finna byrjun á sögu almannatengsla þjóðkirkjunnar. Þar rifjar sr. Hreinn upp samþykkt prestastefnu í júní 1932: „Prestastefnan ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að vera á varðbergi gegn því, er birtist um kristindóm og kirkju í blöðum og tímaritum hér á landi, leiðrétti mishermi og svara árásum, og ennfremur annast um að almenningur fái fræðslu á prenti um það markverðasta er gerist á starfsviði kirkjunnar og íslenskan almenning varðar. Um tilhögun þessa starfs setur nefndin sjálf reglur og skal hún jafnan vera í náinni samvinnu við biskupinn.“ (Þjóðskjalasafn Íslands (Biskupsskjalasafn), Prestastefnubók 1924-1950: Prestastefna 1932, bls. 90-91).
Tillagan var samþykkt í einu hljóði og vaskir menn kjörnir í nefndina: Ásmundur Guðmundsson, dósent, Magnús Jónsson, prófessor, S.P. Sívertssen, vígslubiskup, Árni Sigurðsson, fríkirkjuprestur, Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, séra Hálfdán Helgason og Sigurbjörn Gíslason, ritstjóri. Hér er mynd af sr. Hreini S. Hákonarsyni að tala í Hallgrímskirkju.
Efri myndin sem ég læt fylgja með til gamans er nokkuð eldri en samt yngri en ályktunin enda er Ásmundur Guðmundsson hér fyrrverandi biskup Íslands. Fremstur í myndinni er afi Sigurður í kórkápu herra Jóns Arasonar og næstur á eftir honum kemur vígslubiskupinn úr umdæmi Skálholts, sr. Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur. Aftastur í fylkingunni er herra Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands. Myndin er þar með tekin 1959 eða síðar og spurning hver hafi þá verið almannatengill kirkjunnar. Nokkru seinna var það sr. Bernharður Guðmundsson sem náði mjög góðum árangri í þessu starfi í mörg ár. Ég held að allir geti verið sammála því að Ásmundur þótti alþýðlegur og náði á einstakan hátt til sinnar samtíðar. En þessi samþykkt um almannatengsl frá 1932 er líklega ágæt sönnun þess hvað fólk hefur lengi viljað gera vel í þessum fjölmiðlamálum vegna þess að erindi kirkjunnar er þess eðlis. Það verður að teljast sögulega skilyrt atriði að þetta voru allt karlar 1932 og ennþá 1959 en sem betur fer er kynjahalli kirkjunnar þjóna óðum að batna og nálgast vonandi sem fyrst þau jafnréttisviðmið sem kirkjunni ber að virða.