Lokadagurinn 21. mars og hjartans þökk

Eitt fallegasta dagaheiti úr sjómennsku fyrri tíma er lokadagurinn 11. maí en hann var lokadagur vetrarvertíðar. Það er kannski dálítið hástemnt að kalla morgundaginn lokadag en 21. mars er engu að síður síðasti dagur til að skila inn atkvæði og taka þátt í vígslubiskupskjörinu í þessari umferð. Ég er viss um að það verður meiri þátttaka núna en í haust og tel ég að það tengist því að kjörskráin er opin. Við hjónin þökkum kærlega fyrir mörg góð símtöl og samskipti sem hafa verið ánægjuleg. Ég vona að bæklingur, skeyti og heimasíða hafi verið upplýsandi. Við Guðrún Helga höfum farið í nokkra staði í umdæminu og verið í miklum tengslum og spjallað mikið. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið innsýn í safnaðarstarf á fleiri stöðum en ég hef áður kynnst. Þetta hefur verið frábær vegferð og ég hef ekki mætt öðru en góðu viðmóti og ósk um gott gengi. Mér finnst ég hafa verið gæfumaður að hafa fengið að vera í framboði og ég vona að ég standi undir væntingum þeirra sem styðja mig.

Ætli einhver að greiða atkvæði á síðasta degi í pósti er nauðsynlegt að óska eftir greinilegum dagstimpli. Ætli einhver að skila atkvæðinu sínu á Biskupsstofu þarf að koma með það fyrir lokun kl. 15. Af framkvæmd kosninganna í fyrra vitum við fyrir víst að atkvæði sem eru sett í lúguna eftir kl. 15 á morgun verða ekki talin með, því miður. Umslög sem koma í hús eftir morgundaginn eru því aðeins talin með að dagstimpill sé greinilegur með dagsetningu 21. mars eða fyrr.

Talið verður eftir að allt hefur skilað sér með póstinum og er áætlað að telja miðvikudag 28. mars, daginn fyrir skírdag.

Oft er sagt að enginn verði óbarinn biskup. Það er þá eina áhyggjuefnið mitt, ef nokkurt er, að ekki hefur verið barið jafn mikið á mér og ég hefði haldið miðað við orðtakið. En ég er sannarlega þakklátur fyrir að valið er í höndum úrvals fólks sem valið hefur verið í prestaköllum umdæmisins, fólk sem nýtur trausts og presta sem hafa verið valdir í embætti. Það er í raun val hinna völdu, þeirra sem eru fulltrúar íbúanna og fulltrúar fyrir forystu sóknanna. Þetta val er sögulegt á þann hátt að aldrei hefur fulltrúahópurinn verið fjölmennari né heldur fulltrúalýðræðið virkara en núna.

Hjartans þökk fyrir góðan stuðning og hvatningu. Ég hef fundið til meiri tiltrúar en ég hafði fyrir ári síðan gert mér í hugarlund að ég ætti eftir að njóta. Guð láti gott á vita og blessi störf þeirra sem veita söfnuðunum forystu í þessum störfum og öllum verkum.

Á lokadag var allur afli kominn að landi, tonnin talin og fólkið fylltist þakklæti. Hér er mynd af Þórunni Sveinsdóttur VE 401 sem við vígðum 2010 í Eyjum en það má geta þess að Þórunn Júlía Sveinsdóttir, sem skipið er nefnt eftir, var frá Ósi á Eyrarbakka.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s