Mikil endurnýjun og margt fólk kallað til þjónustu

Á þessum vikum er fjölmargt kirkjunnar fólk að leita umboðs hjá kjósendum til að gegna ýmsum hlutverkum innan kirkjunnar með tilnefningum, kjöri, köllun og skipunum. Það er mikilvægt að finna hæft fólk og gæta um leið að jafnri stöðu kynjanna. Þessar vikurnar eiga sér stað kosningar og ráðningar í nokkur prestsembætti.

Á stuttum tíma hefur verið auglýst eftir níu guðfræðingum og prestum í föst prestsembætti eða afleysingar. Flest störfin eru þjónusta við sóknarkirkjur víða um land en tvær stöður til klínískrar sálgæslu á Landspítala. Alls verða 29 kosin til setu á kirkjuþingi og þar af eru 12 vígðir þjónar og 17 leikmenn. Auglýst er eftir mannauðsstjóra og upplýsingafulltrúa á biskupsstofu. Um eitt þúsund manns eru núna að kjósa í seinni umferð til vígslubiskups í Skálholti en það eru fleiri kjósendur en hafa nokkru sinni kosið nokkurn biskup á Íslandi. Mikil endurnýjun verður í stjórn Prestafélags Íslands á aðalfundi á hundrað ára afmæli félagsins. Þá má geta þess að annað hvert ár er ýmist kosið um meirihluta eða minnihluta í 276 sóknarnefndum landsins. Af þeim eru 174 sóknir í umdæmi Skálholts og 102 sóknir í umdæmi Hóla í Hjaltadal. Á síðasta ári og í vetur var kosið á safnaðarfundum sóknum landsins til setu í kjörnefndum en ein kjörnefnd er í hverju prestakalli og þau eru um áttatíu talsins. Kjörnefnd er kosin til fjögurra ára og kýs þegar velja þarf nýjan prest eða nýjan biskup.

Það er mikilvægt að í þessum kosningum öllum verði horft til jafnréttis og virðingar og horft til þess að Þjóðkirkjan okkar er hluti af Lútherska heimssambandinu. Þar hefur kirkjan samþykkt kröfu um lágmarkshlutfall kynjanna þannig að í öllum hópum, nefndum og stjórnum skal gæta þess að hlutfallið sé ekki lakara en 40/60. Þetta er ekki viðmið sem nota má bara í hátíðlegum ræðum innan kirkjunnar heldur er þetta samþykkt sem við eigum aðild að. Auk þess er samþykktin í ágætu samræmi við lög í landinu okkar um jafnrétti og stjórnsýslu. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga í kirkjunni þegar kemur að kosningum því þátttaka í kosningu leggur ábyrgð á okkur hvert og eitt. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að í kjöri til vígslubiskups í Skálholti eru núna í síðustu umferð tveir karlar enda virðist sem prestar hafi haft það í huga við tilnefningar sínar til kjörsins að fyrir eru tvær biskupsvígðar konur. Þannig virðist vígslubiskupskjörið ætla að leiða til þess að karlmaður verði einn af þremur líkt og verið hefur síðustu ár. Í kosningu til kirkjuþings eru fulltrúarnir fleiri. Sóknarnefndarfólk, prestar og djáknar kjósa með þeim hætti að hver og einn kjósandi merkir við nokkur nöfn. Við getum því kosið að hlutfall kynjanna sé sem jafnast með þeim atkvæðum sem við höfum á hendi.

Ef við gætum öll að þessu atriði í öllum kosningum í kirkjunni gætum við innan tíðar státað af því að vera enn nær okkar eigin samþykktum. Einhvern tíma hefði það heitið að kirkjan væri sjálfri sér samkvæm í orði og verki. Það minnir á 25. sálm: „Vísa mér vegu þína Drottinn, kenn mér stigu þína“, kenndu mér að rata rétt. Ekki viljum við vera einsog vegprestar, vegvísar, sem standa við gatnamót og vísa veginn án þess að fara þangað sem skiltið bendir.

Til allra hlutverka og starfa þarf að velja hæfasta fólkið og tryggja jafna stöðu kynjanna. Í ýmsum hlutverkum kirkjunnar erum við kölluð til að vera fulltrúar margra en í raun og veru erum við kölluð til að vera trúar manneskjur sem gæta að hag kirkjunnar hvort sem það er í sókninni, prófastsdæminu eða t.d. á kirkjuþingi. Í sumum hlutverkum erum við kölluð til að gegna tilteknu verkefni eða embætti sem krefst ákveðinnar menntunar og reynslu. Köllun byggir alltaf á þörf sem þarf að mæta því ef ekki væri þörf á þjónustu vantaði engan í það hlutverk. Þau sem velja til prestsembætta þurfa að skoða hvernig reynsla og hæfni þeirrar manneskju getur best mætt þeirri þörf sem þarf að þjóna. Við tölum svo um að finna til köllunar ef við teljum okkur geta mætt þeirri þörf. Það sama gildir í raun um vígslubiskupskjör nema það felur í sér hlutverk og þjónustu á stærra svæði. Það kallar sannarlega eftir manneskju sem er annt um allar sóknirnar, boðun kirkjunnar og safnaðarstarf á hverjum stað. En það kallar líka eftir reynslu til að mæta kröfum um gróskumikið og gefnandi starf heima í Skálholti, reynslu af stjórnsýslu kirkjunnar en kannski fyrst og fremst að hafa forystu um að kalla saman fólk og félög til að móta frekari uppbyggingu á okkar sögufræga og helga stað. Og það er eins og þessi tengsl séu áréttuð í þeirri nýbreytni að frambjóðendur til vígslubiskups núna sækja umboð sitt til mun fleiri fulltrúa en nokkru sinni fyrr í sögu kirkjunnar.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s