Vígslubiskupskjörinu lýkur mánudaginn 14. maí síðdegis með lokun Biskupsstofu og pósthúsa landsins. Það er síðasti skiladagur og þarf að tryggja læsilegan stimpil eigi síðar en 14.05.18. Lokadagur vetrarvertíðar er 11. maí og lokakafli kjörsins er núna um helgina. Get ég ekki annað en verið afar þakklátur fyrir góða þátttöku og almennan vilja fólks til að ljúka þessu langa vali með góðum endaspretti – hlaðspretti heim í Skálholt. Ég þakka fólkinu sem þegar er búið að kjósa og skila atkvæðaseðlinum. Hvet ég hin til dáða sem eiga eftir að koma seðlinum frá sér. Hafi kjörgögn ekki skilað sér til kjörnefndarfólksins er hægt að fara á biskupsstofu og óska eftir kjörgögnum til að fylla út þar. Dagsetning á talningunni er ekki enn komin en mér heyrst það geta orðið um hvítasunnu.
Ég heyrði ágæta sögu af kjörmanni sem fór með tilkynninguna í pósthúsið, tók við ábyrgðarbréfinu, opnaði það á staðnum, fyllti út og lokaði. Setti hann bréfið þannig viðstöðulaust í póstinn aftur með greinilegum stimpli. Þegar hann var að fylla seðilinn út leit hann þó aðeins upp og sá þá konu með samskonar bréf að fylla út. Þau höfðu bara gaman að því að pósthúsið var óvænt orðið að kjörklefa. Þau gerðu bæði eina ferð í póstinn og voru álíka ákveðin í þessari ítrekuðu kosningu. Ég fyllist bara aðdáun yfir þessari elju og trúmennsku í ábyrgðarstarfi fyrir kirkjuna okkar.