Biskupsvígslan verður á Skálholtshátíð 22. júlí og hefst messan kl. 13.30. Eftir vígslu og messu er öllum boðið í kirkju- og vígslukaffi í Skálholtsskóla. Fyrir hádegi eru tónleikar kl. 11 og boðið er uppá léttan hádegisverð í skólanum. Eftir vígslukaffið verður hátíðardagskrá í kirkjunni og að lokum endar dagskrá með bæn kl. 18.
Það hefur verið lagt kapp á að fegra staðinn og gluggar Gerðar Helgadóttur eru margir komnir aftur á sinn stað eftir viðgerð í Þýskalandi. Fyrir þau sem vilja fagna Skálholtshátíð og biskupsvígslu bendi ég á að það myndi muna mikið um það ef við tækjum höndum saman með framlagi í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju sem kostar gluggaviðgerðina eða Þorlákssjóð sem notaður er til að prýða kirkjuna og endurnýja skrúða og áhöld. Það yrði okkar mesta gleði sem unnum þessum helga stað en það væri einnig gaman að fagna Skálholtshátíð með framlagi til hvaða kirkju sem er í umdæmi Skálholts. Það yrði táknrænt framlag til að fagna hátíðinni í umdæminu öllu. En hvað mig varðar myndi það gleðja mig mest ef þau sem hugsa til gjafa vegna vígslu minnar láti það renna í þessa sjóði Skálholtsdómkirkju eða til sinnar kirkju í umdæminu.
Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju, banki 0152-15-380808, kt. 451016-1210.
Þorlákssjóður, banki 0151-05-060468, kt. 610172-0169. Ekki sakar að minna á að allt framlag þeirra sem tendra kerti á bænastjaka vestast í kirkjunni rennur í Þorlákssjóð.
Dagskrá Skálholtshátíðar er í heild sinni á vef Skálholtsstaðar Skalholt.is og þar er að finna upplýsingar um Sumartónleikana og aðra viðburði sumarsins í Skálholti.