Að sjá hluta fyrir heild

Á forsíðu Mogga í morgun er turnspíra og kross Hallgrímskirkju í forgrunni og sér þar um fallega borg, flóa, fjöll og ský. Við vitum að þetta er stóra kirkjan á Skólavörðuholtinu sem vísar á mikið kirkjulíf. Við sjáum allt lífið í Reykjavík með því að kannast við svolítinn hluta hennar á myndinni. Faxaflói komst ekki allur á myndina en við „sjáum“ hann allan af þessum hluta og þar með allar hafnir, lífæðar samfélagsins. Stef myndarinnar er greinilega hluti fyrir heild. Ég er enn að fá viðbrögð af annarri mynd okkar frábæra ljósmyndara, Árna Sæberg. Það er líka mynd af hluta fyrir heild. Þá birtist (á fréttamynd ársins) agnarlítill hluti af helgigöngu til kirkju. Við erum læs á hluta fyrir heild (pars pro toto) og þess vegna „sáum“ við flest af forsíðumyndinni úr Skálholti allt kirkjunnar fólkið sem tók þátt í hátíðarmessunni, yfir 700 manns. Vindurinn í skrúða þeirra táknaði líka sitt, ýmist öll veður eða heilagan anda en það er hreyfiafl kirkjunnar. Myndin var hluti fyrir heild. Hlutinn sem birtist voru biskupar, prestar og djáknar sem þjónuðu í messunni. Í heildina var hún mynd af öllu því fólki sem hafði þegar sest inn, öllum 70 prestum og djáknum sem voru í hempum og ölbum og fremst fór meðhjálparinn með krossinn á lofti. Einnig „sáum“ við Skálholtskórinn sem kom næstur í fylkingunni á eftir biskupi Íslands og allra síðast gengu svo inn pílagrímarnir og settust á kirkjugólfið. Hver manneskja var í sínum skrúða og sumir berfættir, margar konur á upphlut og skautbúningi, flestir á sparifötum en aðrir ferðbúnir. Svona er kirkjan fjölbreytileg og opin í þjónustu sinni.

Í ljósi þessarar kenningar um hluta fyrir heild skulum við líka ganga inní næstu helgi af heilum hug. Hún er mikil ferðahelgi og vil ég vona að myndir af hluta fyrir heild verði allar af brosandi fólki, skemmtilegum viðburðum, fagurri náttúru og gleði fjölskyldu og vina. Guð blessi þessa miklu ferðahelgi og hvern einasta hluta af birtíngarmyndum fagnandi fólks allt til enda helgarinnar.

Um Kristján Björnsson

Vígslubiskup í Skálholti
Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd