Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum

Prédikun við setningu Alþingis í Dómkirkjunni í Reykjavík þriðjud. 11.9.´18:

Ég byrja á að óska Forseta Íslands og Alþingi allrar blessunar við setninguna í dag og óska alþingismönnum til hamingju með að fá nú enn þetta þing til að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Öllum óska ég til hamingju með lýðræðið okkar og allt sem gert hefur verið til að umræða um þjóðmál og allt sem betur má fara í þjóðfélaginu verði óbrjáluð, án lýðskrums og þjóðernisöfga og án ofríkis líkt og við sjáum í nálægum löndum, nokkrum.

Við Íslendingar eigum langa lýðræðislega hefð sem okkar kynslóð er núna trúað fyrir og ég gleðst yfir allri endurnýjun og krafti þeirra sem valist hafa til þjónustunnar. Guð blessi það starf.

Ábyrgð fylgja áhyggjur. Það er því merkilegt að heyra í dag hvernig fagnaðarerindi Drottins talar einmitt inní það. Hann er að tala við alla um áhyggjur og um það að við eigum ekki að ala á þeim. Þjóðfélagið sem hann sjálfur fæddist inní var á margan hátt ranglátt og það var í því ofbeldi, bæði leynt og algjörlega opinbert. Það var ranglátt og það eru að gerast ótrúlega vondir hlutir fyrir marga á tíma Jesú. Sjáið bara þá staðreynd að í Rómarveldi er á þessum tímum um fjórði hver drengur seldur í þrældóm til að vinna við skattheimtu. Oft voru það andlega fatlaðir einstaklingar sem voru þó nógu sterkir líkamlega til að geta barið á dyr og heimtað skattgreiðslu í nafni keisarans. Og þessir tollheimtumenn koma oft fyrir í guðspjöllunum og Jesú talar ekki bara við þá heldur sýnir þeim umhyggju og snæðir með þeim. Það gerir hann opinberlega og hneykslar allan almenning og sérstaklega valdhafana. Jesús borðar einnig með þeim sem guðspjöllin kalla synduga en það eru að stórum hluta vændiskonur. Um þriðjungur stúlkna var seldur til vændis á þessum tímum og þær voru allar börn. Þar sem þær voru seldar eru til skrár um þær vegna þess að þetta var skattauppgjör einstaklinga. Það hljómar næstum því enn óhugnalegar að við ræðum stöðu þeirra hér settlega út frá skattamálum. Staðan er samt þannig að börnin voru seld uppí skuld feðranna við ranglát yfirvöld. Og ástæðan fyrir því að svo margar ungar stúlkur voru seldar í vændi er lágur dánaraldur þeirra en svo virðist sem engin gögn séu til um stúlku í vændi eldri en 18 ára. Það er sárar en hægt er að ræða án tára.

Ég játa að við felldum líka tár einsog fyrirlesarinn, dr. Mark Allan Powell, þegar hann var að fara yfir þennan skilning á fyrsta sæluboðinu í Fjallræðu Jesú þar sem við sátum guðfræðiráðstefnu í Langholtskirkju á dögunum. Hrópandi ranglæti og sársauki, vanlíðan og ofbeldi. Það situr eftir. Og þessu mætti Frelsarinn er hann tók til starfa og hóf að tala opinberlega á sínum stutta starfstíma. Hann byrjar fjallræðuna, sem er sama ræða og vitnað er til í guðspjallinu sem við núna lesum, byrjar hana á því að ávarpa þau sem eiga ekkert nema brostnar vonir. Það er merkilegt að hann ræðst ekki að valdhöfum heldur byrjar hann á því að taka sér stöðu með þeim sem eiga litla von og hafa trúlega flest misst tiltrú á framtíð sína vegna þess illa sem þau þoldu. Þau hafa á ýmsan hátt gefist upp og sagt skilið við Guð sinn eða trú, ekki talið sig samboðin almættinu, og gefið upp von um að réttlæti Guðs eigi nokkurt erindi við þau lengur. Þau hafa líka misst vonar um mannsæmandi líf vegna þess sem þau gera sem þrælar. En umfram allt eru þetta manneskjur sem líður ömurlega á líkama og sál. Það er kallað svo settlega í okkar þýðingu „fátækir í anda“. „Sæl eru fátæk í anda því að þau munu jörðina erfa.“ Fátækan í anda skortir anda. Hann er blankur í trú af því að andi er hér trú. Sálarlífið er í molum og hann grætur. Það er hinn sorgmæddi sem er í táradalnum. „Sæl eru sorgmædd því að þau munu hugguð verða.“ Allt er þetta ennþá til, bæði sorgin og huggunin.

Við erum fæst þarna nema dagana í sorg og missi eða við áföll og sem betur fer getum við grátið með syrgjendum og fundið til og þannig orðið til að hugga í samlíðun okkar með þeim sem líður bölvanlega. En á tímum Jesú var nóg af því fólki sem þoldi órétt og ill örlög. Niðurlagsorðin í guðspjalli dagsins eru því sláandi eða þegar hann segir þessa mögnuðu setningu: „Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Og við þurfum að lesa hana uppá nýtt.

Eitt af því sem rennir stoðum undir þessa sýn á sæluboðin er að hvergi segir Jesú tollheimtumönnum og vændiskonum að þau skuli iðrast og syndga ekki framar. Hann veit, sem er, að þau eiga sig ekki sjálf og eiga enga möguleika á því að snúa frá því sem þau eru að gera. Þau eru þrælar. Hann segir einfaldlega við þau: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Og „Ég ásaka þig ekki.“

Og það voru samt ekki þeirra syndir heldur syndir samfélagsins. Hann hét þeim ekki verðlaunum heldur boðar hann þeim að þau eigi þegar sinn skerf í arfinum. Arfur er ekki laun heldur eign sem þú átt en átt eftir að fá afhenta. Þau voru sæl af því að arfur er sú djúpa ást sem miðluð er frá einni kynslóð til annarrar. Það er hinn mikli arfur trúarinnar sem við höfum þegar fengið afhentan, kærleikurinn í Jesú Kristi.

Ég var á fundi í Borgarnesi í gærkvöldi og nokkrir ræðumenn notuðu ávarpið: „Vígslubiskup, fundarstjóri, kæru fundarmenn.“ Jesús stóð upp og hóf ræðu sína, eina frægustu ræðu mannkynssögunnar, á því að ávarpa þau sem áttu ekkert og nutu ekki þjóðfélagsstöðu né snefils af frelsi eða virðingu. Hann ávarpaði þau sem segja einsog í sterkri kvikmynd Baldvins Z: „Lof mér að falla.“ Þar er ein saga af börnum í fjötrum okkar daga. Enn eru manneskjur fátækar í anda og mæddar í sorg.

Sæluboðum Jesú, átta sæluboðum í inngangi Fjallræðunnar, má skipta í tvennt. Annar hlutinn er af sama toga og ég hef gert hér að umfjöllunarefni en hinn er ávarp til fólks sem býr yfir dyggð eða einkunn í fari sínu sem er lofsverð. Það eru hógværir, miskunnsamir, hjartahreinir og friðflytjendur. Þau eru sæl af því að þau geta hjálpað hinum, sem líður ömurlega og gráta í harmi sínum, fjötrum eða vonleysi. Frelsarinn byggir erindi sitt á að styrkja góða fólkið til að rétta hlut hinna. Tilhneiging ofbeldisfólks á öllum tímum er að kúga ekki bara þau sem hægt er að þjaka og hneppa í þrældóm heldur ráðast einnig á þau sem eru hógvær, miskunnsöm, hjartahrein og boða frið. Það er um að gera að reyna að snúa þeim frá því að hjálpa hinum, er gráta, en öðrum kosti verði þau bara þar líka fljótlega sjálf í ömurlegri stöðu. Við þurfum að varast að fólkið sem vill hjálpa flóttafólki lendi ekki sjálft í óeiginlegum flóttamannabúðum. Þessu var hótað berum orðum í Bandaríkjunum á árum áður í orðatiltækinu að sá sem hjálpar blökkumanni er sjálfur blökkumaður.

Drottinn skerpir sannarlega á köllun okkar og ábyrgð gagnvart náunganum og samfélaginu í hvert skipti sem við hlustum á orð hans. Við erum kölluð til frelsis og friðar. Við höfum það gott og erum sæl af því að það hefur aldei nein kynslóð haft meiri möguleika á því að rétta hlut lítilmagnans. Aldrei fyrr hafa verið fleiri bjargir. En mest um verð er sú staðreynd að aldrei hefur almenn réttlætiskennd verið meiri og samskipti aldrei auðveldari með allri okkar nútímalegu tækni til að breiða út knýjandi viðhorfsbreytingar. Sjáið bara #metoo sem við eigum ennþá eftir að vinna mikið úr. Það breytti sýn okkar.

Svo erum við sælli en nokkru sinni fyrr af því að aldrei hefur nokkurri kynslóð verið fært betra tækifæri til að mæta ógnum loftslagsbreytinga. Við fögnum þess vegna nýjustu áætlun stjórnvalda sem var á svo auðmjúkan hátt kynnt í gær í gamla Austurbæjarskóla, enda erum við í skuld við æsku landsins, jörðina sjálfa og allar þær kynslóðir sem borið hafa okkur hingað. Við höfum þekkingu til að rétta við hlut jarðarinnar og þá alveg sérstaklega gagnvart þeim löndum sem hafa færri bjargir en við þessi ríka þjóð. Við erum sæl af því að við getum séð til þess að aðrir hafi ekki áhyggjur og sæl í ábyrgð okkar gagnvart fátækari hluta mannkyns. Okkar helsta áhyggjuefni á Íslandi í dag er hvort við vinnum eða töpum næsta landsleik í fótbolta. Kannski jöfnum við metin við enn eina stórþjóðina í dag. Okkar áhyggjur eru oftast lúxus-áhyggjur eða tilbúnar ógnir. Við erum ekkert á þeim stað sem þjóðin var við lok 18. aldar í örbirgð sinni eftir hörmungar Skaftárelda og Suðurlandsskjálfta og þurfti nær öll að flýja eigin bæi. En við erum sæl að vera núna í þeim flokki þjóða að geta sýnt miskunnsemi, hjálpsemi og réttlæti í þessum málum öllum sem raunverulega ógna framtíð fátækari landanna eða hinna stríðshrjáðu. Frá báðum þessum aðstæðum flýr fólk í dag einsog við áður undan súlfat-sóti Laka á þeirri öld. Líka var flúið frá sótinu af bruna háhýsanna í New York ellefta september 2001. Allir hafa einhvern tíma þurft að flýja og eiga því að geta sett sig í spor þeirra sem núna eru á flótta undan ógn, þorsta eða hungri. Beygjum okkur fyrir því og lútum höfði með þeim sem þjást, hópi samtíðarfólks sem misst hefur allt nema kanski vonina.

Tímabil sköpunarinnar er byrjað í kirkjunni og við minnumst þess að Drottinn hefur gefið okkur tíma haustsins. Okkur er bæði ætlað að njóta sköpunarinnar og gæta hennar á breytingartímum. Núna er tíminn, í allri núvitund, til að grípa til betri lifnaðarhátta og meðferðar á því skapaða svo við gerum ekki útaf við jörðina með óréttmætri notkun eða lífsvenjum. Það góða er, að í boðskap dagsins er talað um að við eigum ekki að hafa áhyggjur og það er fagnaðarerindi okkar. Við eigum ekki að hafa áhyggjur af því sem að okkur snýr, enda erum við að fá hér gott tækifæri. Það er tækifæri vegna þess að hægt er að breyta öllum venjum.

Boðskapur dagsins felur í sér bæði góðar fréttir og slæmar. Góðu fréttirnar eru þær að við getum breytt allri þróun. Slæmu fréttirnar fyrir marga eru þær að við þurfum að breyta okkar eigin venjum. Við þurfum sjálf að vakna og það eru líklega ekki of góðar fréttir fyrir þau sem vilja sofa örlítið lengur. Viðhorfsbreyting er á allan hátt merkilegt fyrirbæri. Í fyrsta lagi er hún ekki áhyggjuefni ef við hlustum á boðskap dagsins. Við tökum því með fögnuði að fá tækifæri okkar daga og vörumst freistinguna að túlka áhyggjuleysi með ábyrgðarleysi. Í öðru lagi er hún möguleg og þá fyrst og fremst möguleg fyrir hvern og einn. Í þriðja lagi getur hún orðið algjörlega almenn ef hún er byrjuð á annað borð eða kemst á skrið í samfélaginu.

Fagnaðarerindi Krists snýst alltaf um frelsun og líf en ekki hræðslu. Orðin hér í kirkjunni eru því heilög og helga manneskjuna, vegna þess að Kristur, sá sami og flutti okkur sæluboðin og lét okkur varpa áhyggju okkar á sig, er sá sami Drottinn sem reis upp frá dauðum og reyndist vera Frelsari mannkyns og allra barna þessa heims. Fylli andi hans ríkulega, hjörtu okkar og huga, í guðsþjónustu í helgidómi hans, fylli hann menninguna og þjóðfélagið allt merkingu sinni og fylli hann líf okkar krafti sínum með von eilífs lífs. Þá vöknum við upp við það að Guð er að bera umhyggju fyrir okkur þegar við erum sömu megin og auðmýktin, tiltrúin og elska Drottins. Og hún er hér í ríkum anda hans.

Prédikað er út frá ritningarlestri 15. sunnudags eftir þrenningarhátíð:

Lexía: Jesaja 49.13-16a

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð, þér fjöll, hefjið gleðisöng því að Drottinn hughreystir þjóð sína og sýnir miskunn sínum þjáðu. En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“ Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér.

Pistill: 1. Pétursbréf 5.5c-11

„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matteus 6.24-34

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s