Samkomubanni verður aflétt í áföngum og það sama á við um helgihald safnaðarins. Fjöldinn er samur og almennt og breytist því 4. maí í 50 manns. Altarisgöngur bíða og við virðum 2m persónumörkin. Almennar guðsþjónustur geta hafist um allt land sunnudaginn 17. maí og það þýðir að við getum þá einnig haldið guðsþjónustu á uppstigningardag 21. maí, hátíðarguðsþjónustu á hvítasunnu 31. maí og sjómannadagsguðsþjónustu 7. júní á áfram í sumar. Í sjálfu sér verður hægt að ferma í guðsþjónustu og vegna fjöldatakmarkana gætum við verið að ferma eitt til tvö börn í hverri guðsþjónustu með nánustu fjölskyldu og vinum. Það er ein sviðsmyndin en svo gætu fjöldaviðmið hækkað. Flestar kirkjur hafa frestað fermingum fram á síðsumar og haust og er vitað að það verður stór fermingarhelgi 29. – 30. ágúst og fyrstu helgina í september.
Þetta kemur fram í bréfi biskups Íslands og er samkvæmt ákvörðun frú Agnesar M. Sigurðardóttur. Það verður mikill léttir að koma saman í kirkjunni og við vitum að það eru margi farnir að sakna þess innilega. Þegar við komum saman verðum við samt að muna að virða fyrirmæli Almannavarna um 2 m mörkin á milli þeirra sem ekki búa saman í heimili og virða það þak sem er á fjölda í hverju rými á hverjum tíma. Við skulum öll vera til fyrirmyndar og láta það einkenna samfélag þeirra sem trúa á Krist, þ.e. söfnuði kirkjunnar.
Það hefur verið erfitt að mæta þessum takmörkunum við andlát og útför. Fólk hefur samt tekið höndum saman um að virða öll mörk og hugga sig við að við getum faðmast síðar. Vegna þeirrar staðreyndar að afléttunin verður lengi á leiðinni til baka í eðlilegt horf er ljóst að það gæti verið ráðlegt að fersta ekki útförum heldur reyna að útfæra það eftir nýjustu leiðum með útsjónarsemi og fjarlægð. Við erum minnug þess að á föstudaginn langa máttu nánustu vinir Jesú ekki vera nálægt honum á Golgata og aðeins fáir við útförina hans. Hinir voru með í anda og báru sorgina saman og hvert og eitt í sínum húsum. Það hefur því verið falleg virðing í því að sýna samúð sína í verki með því að vera heima og horfa á streymi frá útför vinar eða ættingja. Eins var mjög virðulegt þegar nágrannar og vinir í Hveragerði voru viðstaddir útför með því að mynda heiðursvörð frá kirkju og standa þar með 2 m millibili í þessu skini. Við erum öll saman þótt við getum ekki komið saman í einn sal og höfum ótrúlegar nýjar leiðir til að sýna það í verki með öllum þeim nýja búnaði sem er orðinn til á okkar dögum. Það hefur nýst vel við útsendingu á helgistundum, upplestri Passíusálma og í hátíðarguðsþjónustu þar sem aðeins prestur, organisti og fámennur kór er saman kominn í kirkjunni. Það er samt sameiginleg guðsþjónusta safnaðarins og sóknarmörkin eru í raun víkkuð út.
Blessunaróskir, Kristján