Við vorum knúin til að lýsa yfir neyðarástandi á kirkjunni vegna mikils leka í turninum fyrir nokkrum dögum. Miklar vatnsskemmdir urðu þarna um daginn og þá flæddi líka inná hæðirnar í turninum sem geyma bókasafnið, gamalt og merkilegt safn sem er að stofni til frá safni Þorsteins sýslumanns Dalamanna, auk mikilla viðbóta. Þaðan lak niður í kirkju og ekki langt frá orgelinu. Ekki er langt síðan við lukum endurbótum á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur undir öruggri stjórn Verndarsjóðs kirkjunnar og forvera míns, sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, biskups. Núna er næsta stóra skrefið að skipta um þak og laga allan leka í turni kirkjunnar og gluggum þar uppi og viðgerðum á öllu ytra byrði guðshússins. Það er nú ákveðið í kirkjuráði og við heima í Skálholti bindum miklar vonir við að þessar endurbætur fari sem fyrst í gang. Stefnt er að því að þessu verði öllu lokið á 60 ára afmæli kirkjunnar 2023.
Bókasafnið hefur verið í hættu vegna þaklekans og þá ekki síður innviðir kirkjunnar, þak, veggir og gólf. Verndarsjóðurinn hefur tekið að sér að hjálpa og stýra flutningi bókanna og kirkjuráð hefur ákveðið að kosta lagfæringar á rými í Gestastofunni nýju svo safnið geti verið sett þar upp með sóma, bæði í geymslu, til rannsókna og til sýnis.
Fyrstu framkvæmdir sem voru áður ákveðnar eru gagngerar múrviðgerðir á útitröppum og verður byrjað á því um næstu mánaðarmót. Þá verður gengið í frágang vegna brunavarna sem búið var að hanna. Einnig er til skoðunar að endurhanna lýsingu inni og er það að frumkvæði Verndarsjóðsins. Fyrir liggur heildar ástandsskýrsla sem var uppfærð núna í vetur. Í henni var kostnaðaráætlun uppá 100 milljónir króna og er þar þakið sjálft meira en helmingur. En mest er um vert að undirbúningur er hafinn og ákveðið hefur verið af kirkjuráði að ráðist skuli í verkið án tafar. Það er mikið þakkarefni.
Hér er hlekkur á frétt á skalholt.is
Og svo eru aðrar fréttir af kirkjan.is og einnig á vefnum Laugarás – þorpið í skóginum af vefnum Höfuð Kvisthyltinga eftir Pál Skúlason.