„Ég kalla á þig með nafni.“ Prédikun Kristjáns Björnssonar á Skálholtshátíð 2020

Mattheusarguðspjall 28.18-20 (Skírnarskipunin). Jesja 43.1-7 (Ég kalla á þig með nafni). Rómverjabréfið 6.3-11 (… eins eigum við að lifa nýju lífi) (samgróin honum … rísa upp líkt og hann).

Við höfum valið okkur yfirskrift fyrir Skálholtshátíðina í ár úr orðum Jesaja spámanns, einum mesta uppáhalds spámanni kristins fólks um allan heim.

„Ég kalla á þig með nafni.“

Við getum lengi talað um þessa setningu eina en viljum auðvitað virða hefðina sem valið hefur þessa textaröð í heild sinni fyrir þennan sunnudag sem er einmitt 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, textaröð sem kallast lexía, pistill og guðspjall.

Ég er fjarska feginn að vera ekki að prédika á 5. sunnudegi eftir þrenningarhátíð (eða trinitatis) því þá hefði ég þurft að rifja upp það merkilega kvenmannsnafn stúlku sem fæddist fimmta sunnudag eftir trinitatis fyrir vestan og fékk það fallega nafn Fimmsunntrína. Og það eru víst ekki neitt óskaplega mörg ár síðan Fimmsunntrína dó. Einhverra hluta vegna hefur nafnið ekki lifað í ættinni einsog það er fallegt. Hvert nafn er fallegt af því að með því nafni þekkir Guð okkur og allt fallegt er frá honum komið.

En snúum okkur aftur að yfirskriftinni. Hún segir okkur að Guð þekkir okkur, fyrst hann kallar á okkur með nafni, og það leiðir hugann að skírninni, sem er skírð í Rómverjabréfinu. Hún merkir þar að við eigum að lifa nýju lífi, fyrst við erum orðin samgróin Jesú Kristi í skírninni, og í náðinni sem í henni felst.

Ég kalla á þig með nafni merkir alveg sérstaklega að okkur hefur verið gefið nafn og við eru nefnd, af því að við erum hvert og eitt sérstakt og einstakt barn Guðs. Það merkir líka að foreldrar okkar og þorpið heima sem hefur alið okkur upp hefur lukkast að fara að orðum Jesú sem hann mælir á uppstigningardag: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þau í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“

Það gerist ekki fegurra. Að vita til þess að farið hefur verið eftir skírnarskipun Jesú, orðum hans yfirleitt. Farið hefur verið eftir leiðsögn hans. Nærveru hans hefur verið notið.

Það fallegasta við þetta boð er að hann boðar okkur þann fögnuð að hann er með okkur alla daga.

Ég kalla á þig með nafni merkir ekki síst að við erum kölluð til þjónustu og kölluð til að lifa nýju lífi, endurnýjuð eftir að hafa verið frelsuð og leyst út með þeim nýja veruleika sem fylgir því að fylgja Kristi. Með köllun erum við frelsuð á þann hátt að við eigum hér eftir að vita, fyrir hvað við lifum þessu nýja lífi. Í því er fólgin sú dýra von sem Kristur boðar líka og felst í því að hann er upprisinn frá dauðum. Við erum þá líka upprisin á vissan hátt í lífi okkar og sannarlega eigum við eftir að rísa upp með Kristi til eilífs lífs í honum um allar eilífðir. Þaðan fáum við kraft til að komast aftur á fætur þótt við vekjumst, öðlast nýja von og þrótt þótt allar vonir dofni af og til. Við erum kölluð til að takast á við líf á nýjan hátt.

Ég kalla á þig með nafni kveikir hjá mér alveg sérstök hugrenningartengsl. Það er á því sviði sem kallað hefur verið persónuleg tengsl. Við lifum vegna þess að við eigum þessi sérstöku tengsl í lífinu og við þekkjum það öll hvað það er mikilvægt að rækta persónulegu tengslin í kjarnafjölskyldunni og meðal sinna nánustu.

Atferlisfræðingar hafa margir mælt með því að ef við erum tætt eða líður ekki alveg nógu vel í fljótandi kviku daglegs lífs, ef rótið er orðið of mikið eða kvikan of kvik, hraðinn yfir mörkum, samskiptamiðlarnir að taka völdin, er eitt besta ráðið það einfaldasta líka. Maður hefur samband við þau sem eru tiltæk í upprunafjölskyldunni og gerir það sem kallað hefur verið að taka upp þráðinn. Það er best ef það er bara samtalið sjálft í því augnabliki, og það þarf ekki að vera nema í augnablik. Ég hef oft prófað þetta og það er svo einfalt að það virkar. Um að gera að vera ekki að tala um það sem er liðið heldur bara það sem er að gerast, i.e. þetta símtal.

Það er svona einsog með hringtorgin og umferðina í bænum. Reglurnar eru svo einfaldar að hringtorg virkar. Reyndar eru þær reglur svo einfaldar að okkur finnst alltaf að hringtorg hljóti að vera flóknari en þau eru og er það einmitt talin skýringin á því að allir fara varlega í hringtorgum og slysin þar eru fátíð. Það gildir meira að segja um frönsku hringtorgin sem enginn botnar í nema kannski sá bílstjóri sem hefur prófað þau og flautað sig út úr því inná réttan veg.

Ég og þú er líklega merkilegasta tengslanetið sem til er í veröldinni enda hafa heimspekingar átt við það margan og merkan dansinn. Sjáið bara Martin Buber, Ich und du, I and Thou, Ég og þú. Heil bók um það eina samband tveggja. Það er fyrsta sambandið og þess vegna grunnur að öllum öðrum tengslum. Ég og þú er samband Guðs og manns þar sem Guð er Ég og ég er þú. Guð er sannarlega tengslaorð!

Og til hvers verum við kölluð? Að gera hvað?

Það er spurning hverrar andrár í lífi okkar, kæu vinir. Viðamesta köllunin er sú sem varðar flestar manneskjur, eða þá framtíð allrar mennsku. Að bæta heiminn og koma á réttlæti og friði, en ekki síst að koma á betri breytni.

Í gríðarlega mikilli þekkingu sem aðeins hefur verið til á okkar dögum er ljóst að það verður ekki undan því vikist að bregðast við kröfunni um réttlæti gagnvart jörðinni, náttúrunni, framtíð barna okkar.

Það er mikill misskilningur að við þurfum að bjarga jörðinni því það er fyrst og fremst okkar hlutverk að renna stoðum undir réttláta og örugga framtíð manneskjunnar sem slíkrar, mannkyns. Og virða náttúruna sem við erum hluti af núna. Jörðin mun spjara sig þótt framtíð okkar muni umhverfast í ljósi hamfarahlýnunar.

Við erum sannarlega kölluð til að vekja hvert annað og hvetja til dáða svo umhverfið beri ekki skaða af tilveru okkar og rangri eða eigingjarnri breytni.

Það eru nokkur atriði sem mér finnst renna stoðum undir þá skoðun að mannkynið muni geta snúið við ógnvænlegri þróun.

Frystu rökin liggja í því sem við köllum trú. Þau eru fólgin í þeirri trúarvissu að við lifum í von um eilíft líf, við eigum vonina og að í allri guðfræði vonarinnar er ekki aðeins óljós von í fjarlægri framtíð um annan heim eða öðru vísi breyttan heim. Í von kristinnar manneskju er fólginn sá kraftur sem getur breytt tilverunni núna og öllum okkar aðstæðum af því að í von kristinnar manneskju er fólgið allt fagnaðarerindi Jesú Krists, allt réttlæti hans, allur kærleikur hans og öll þekking á Guði og guðlegri stjórn hans í þessu andartaki.

Við erum kölluð til vonar sem er ekki til vonar og vara. Hún er algjörlega miðlæg í trú okkar og tilveru, von sem virkar og verkar núna. Verkar í andartakinu vegna framtíðarinnar.

Því ef við ættum ekki von væri tilfinning okkar orðinn allt önnur á líðandi stund. Þess vegna hefur vonin, sem í sjálfu sér horfir til framtíðar, áhrif á andartakið sem núna stendur yfir hér og nú. Þar erum við aftur komin að Martin Buber sem fjallaði þannig um tengslahugtakið Ég og Þú að það er fyrst og fremst virkt Hér og Nú. Virki það ekki hér og nú eru tengslin ekki í lagi. Ekkert að byggja á til framtíðar.

Annað atriðið eða rökin sem ég vil minna okkur á núna eru vísindin, og þekking okkar á öllum greinum þeirra. Það hefur sannast að þar sem þjóðir hafa stuðst við vísindin í viðbrögðum sínum við heimsfaraldrinum Covid 19 hefur náðast árangur. Við áttum líka von á því að við kæmumst yfir alla hjalla ef við gætum unnið út frá vísindalegum forsendum og þekkingu á veruleika veirunnar. Samhliða þessu var byggt á skilningi okkar á vonarhugtakinu. Við sem þjóð gengum saman og með öruggri stjórn almannavarna og ráðamanna okkar í átt til ákveðinnar vonar.

Sama mun eiga við um viðbrögð okkar og almennar varnir við hamfarahlýnun jarðar því þekking okkar og vísindalegar niðurstöður sýna að það er mikið að byggja á því sem við vitum og komið er fram. Vit í því.

Þá erum við með fyrirmynd og verkfæri í höndunum. Eini munurinn er líklega sá, á þessum tveimur ógnunum, sem steðja að öllum samfélögum heimsins á jafnan og flatan hátt, er að hamfarahlýnun er að eiga sér stað á lengri tíma. Eini munurinn á viðbrögðum okkar er því að reikna með lengri tíma. Ísland og Skálholt hafa nú þegar haft afgerandi forystu í því að ná saman þekkingu og færni til að hafa áhrif á andlega hugsun okkar og viðhorf. Metnaðarfull markmið Íslands, með ráðamönnum og undir forystu góðrar ríkisstjórnar, eru skýr og eiga með réttu að breyta þegar viðhorfi okkar í daglegri breytni og ákvörðunum, vegna þess að markmið er framtíðarhugtak. Við horfum til framtíðar frá þessu andartaki núna. Í kirkjunni verður fram haldið með andlegum leiðtogum ólíkra trúarbragða – ein andleg hreyfing – Faith for Earth – í október hér heima m.a. með mikilvægri alþjóðlegri ráðstefnu sem kallast Skálholt 2 í skýrslum og samþykktum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og hjá ríkisstjórninni okkar í samvinnu við aðrar þjóðir á norðurslóðum.

Skálholt tvö er ágætt heiti. Það er engu líkara en orðaleikur um að við getum þetta ekki ein og sér en ætlum að byrja á því að ná saman tvö og tvö, rétt einsog hjá Buber, byrjum á byrjunarhugtaki allra samskipta. Byrjum á Guði og mér og þér.

Við erum kölluð til að breyta rétt og það besta er að við erum kölluð með nafni. Við erum kölluð með nöfnum öll saman.

Þriðju rökin eru þau að saga trúarinnar sýnir að viðhorf okkar getur tekið breytingum. Stærsta breytingin var auðvitað þegar við heyrðum og gerðum okkur grein fyrir áhrifum af fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er ekki léttvægt hér en mjög ánægjulegt að draga það fram að erindi hans um frelsun og lausn í sálu mannsins er ætlað að ná til alls heimsins og allra þjóða. „Farið og gjörið allar þjóðir…“

Og erindi Krists er að hafa áhrif um alla eilífð eða einsog hann segir í guðspjallinu í dag: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Sjáum það og heyrum. Þar sem Þjóðkirkjan er siðbótarkirkja er það eðli hennar að siðbótin er stöðugt að, „Ecclesia semper reformanda est,“ svo við vitnum bara beint í sjálfn Karl Barth frá því eftir síðari heimsstyrjöld. Kirkjan er stöðug siðbót og það viljum við.

Sem kristnum manneskjum er okkur ætlað að ná til allra á samtrúarlegan hátt, með háttum og hugsun, sem felast í allri trúarlegri von. Sama hvert kerfið er. Við náum því sem samfélag sem trúir en ekki með því að setja trú til hliðar. Trú er ekki aðeins órjúfanlegur hluti af sjálfi mannsins heldur er hún órjúfanlegur hluti af lausn og friði heimins. Við erum kölluð til að lifa því nýja lífi sem við höfum þegar öðlast.

Það er rétti tíminn til að setja sér ný markmið þegar við höfum komist yfir erfiða daga, stríð, áföll eða áreynslu.

Bænin hefur verið heyrð og heyrist áfram vegna vonarinnar.

Reynsla síðustu missera hefur breytt viðhorfi okkar og við biðjum fyrir því áfram. Þess vegna fullyrða núna allir trúarleiðtogar og andlega sinnað fólk, sem við erum m.a. að vinna með í loftslagsmálum, að það er eitt brýnasta og framkvæmanlegasta verkefni allra trúfélaga að hver og einn með nafni og í sinni von breyti viðhorfi sínu og daglegri breytni. „Alla daga“ í orðum Jesú hefur sérstaka merkingu hér og nú, hjá mér og þér, í sambandinu Ég og Þú.

Á rammíslenskan máta og á grófan hátt má ef til vill segja það sem við höfum sagt hér í gegnum aldirnar í frosthörkum og mótbyr, öskrað uppí storminn – fólkið okkar á öllum  óblíðum tímum – að við munum komast af. Mér skal takast það og ef ég bregst má ég hundur heita. Það er mjög íslenskt.

En hrátt einsog það hljómar er það einnig útlegging á orðum Jesaja. Drottinn er að kalla á okkur með nafni af því að hann vill að við höldum áfram að heita manneskjur í augum sínum, manneskja sem hann elskar.

Við bregðumst við því með því að bregðast ekki og munum standa við það á meðan við erum í þessu sambandi við Guð og hver getur sagt með hjarta sínu og af allri hugsun og mætti: Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Þessi færsla var birt í General og merkt sem , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s