Karlmennska og önnur kvenkyns orð

„Mamma, er til annað orð sem merkir það sama og karlmennska?“ Tilefnið var að afi hafði misst það út úr sér í hita leiksins í borðspilinu um jólin þegar hann vildi hvetja börnin áfram. Þau yrðu að sýna karlmennsku. Mamman ákvað að spyrja þennan afa dóttur sinnar, þann sama og átti mörg orð í handraðanum, hvort hann vissi um annað orð í stað karlmennsku. Nokkur orð komu til greina en málsbæturnar eru vissulega að þau voru öll nafnorð í kvenkyni líkt og karlmennskan. Það getur verið áræðin, hetjulundin, hugdirfskan eða hreystin. Allt á það við um leikinn þegar keppt er til sigurs. Þar er hvorki kvennaíþrótt né karla heldur bara leikur sem leiðir til sigurs.

Það minnir mig á að þótt sérnafnið Guð sé karlkyns eru orð sem notuð eru til að lýsa öllum helstu eiginleikum hans orð í kvenkyni. Þar er miskunnsemin, vægðin og gæskan að ógleymdri mildi Guðs og náð. Kærleikurinn er vissulega nafnorð í karlkyni en lýsir innri eiginleika elskunnar og þar með kjarna trúar.

Ef við viljum kynnast kærleikanum betur og fletta honum upp í samheitasafninu á orðaneti Árnastofnunnar koma ótal fléttur og flettur um hugtök, skyldleika, vensl og grannheiti. Kærleikurinn er vissulega margslunginn en það er fátt fallegra en að sjá hann þarna í miðri skýringarmyndinni. Honum er þá vel líst enda reynist hann vera allt í öllu. Besta hugtakið sem næst kemur kærleikanum er góðmennskan og hún er jú orð í kvenkyni. Vönduð manneskja er full af kærleika eða knúin áfram af kærleika. Allra besta manneskjan er sjálfur kærleikurinn sjálf.

Hjartagæska og hugdirfska

Hjartagæskan virðist í fljótu bragði vera algjör andstæða við karlmennsku. En þegar við skoðum karlmennskuna í ljósi nafnorða í kvenkyni, sem lýsa því hugtaki betur en mörg orð, kemur annað á daginn. Áræðnin, hetjulundin, hugdirfskan og hreystin eru einmitt þau orð sem þarf að hafa í huga til að ást og vinátta, sáttfýsi og fyrirgefning nái fram að ganga. Allt sem einkennir kærleikann gufar upp ef hugur fylgir ekki máli eða ef góðu verkin okkar missa sæmdarheitið framkvæmd.

Kristi er gjarnan lýst með orðinu kærleikur og talað er um að Guð hafi gefið mannkyni son sinn vegna þess að hann elskaði manneskjuna og heiminn hennar. Hann var knúinn af kærleika og Jesús reyndist vera kærleikurinn holdi klæddur og að öllu eðli. Enginn efast um að hann hafi þurft að berjast til sigurs með því á endanum að fórna sér algjörlega á krossi. Með þeirri hetjudáð og áræði, sem hann mætti án þess að svara fyrir sig, án hugarvíls, leiddi hann fram sigur lífsins yfir dauðanum. Þetta var ekki leikur í borðspili. Þetta var ekki skrifborðsæfing heldur raunveruleg umskipti í mannkynssögunni. Oft kemur kærleikurinn ekki sínu til leiðar nema með hugprýði og dirfsku. Inngrip Guðs í lífi manneskjunnar er sama eðlis.

Inngrip elskunnar

Elskan felur oft í sér inngrip í ólíðandi aðstæður, óþolandi harðúð hjartans og ofbeldi, en inngrip þarf til af því að hið fyrra þarf oft að hverfa. Hið nýja kemur þannig fram eða brýst fram af sama krafti og kærleikurinn þegar við sjáum hann koma í ljós í hverju hversdagslegu atvikinu af öðru. Við sjáum ást Guðs á manneskjunni líka í ræktarsemi ömmu og afa, frænku eða frænda, og í hjartahlýju barnsins. Við sjáum hana í allri lífsgleði, þolinmæði og blíðlyndi en kannski ekki síst í þeim vitsmunum að geta fyrirgefið og að geta auðsýnt elsku okkar til náungans. Það þarf oft visku, mannvit, skilning og styrka réttlætiskennd til að vera trú og staðföst svo að kærleikurinn fái að vinna sitt verk í samfélaginu. Og nú á seinni tímum þarf meira að segja stundum áræði til að gangast við því að trúa á nokkuð það sem er æðra en mannveran sjálf. Í ófærðinni núna, í hættu, flóðum, stormi og kafaldsbyl þarf enginn að efast um að við munum ekki sigrast á óblíðum aðstæðum í mannlegum krafti einum heldur aðeins með því að duga í trú okkar á gæsku Guðs, nálægð og elsku. Það er hún sem sést í verki þegar elskan og áræði hennar er sannarlega til staðar í inngripi, björgun í baráttunni fyrir lífi og heilsu en líka í frelsun í nærveru sálar.

Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s