Að muna sumar og læra landið

Prédikun mín vð hátíðarguðsþjónustu 17. júní í Þingvallakirkju

Gleðilega hátíð, kæru vinir, lýðveldishátíð, þjóðhátíð, gleðilega hátíð!

Það er ekki víst að allir finni sumarstemninguna eða yl og angan sumars hríslast um sig þessa dagana á okkar annars fagra landi. Það er líklega eitthvað annað sem við finnum hríslast og það er viðbúið að nokkur finni kuldahrollinn frekar en hátíðarhríslinginn fara um sig. Þá þurfum við einhvern veginn að muna að það er sumar. Við þurfum að treysta á minnið og breiða allar hlýju sumardagana yfir það sem núna blasir við og þá verður það hlýtt. Þetta er vissulega auðveldara við gluggann í stofunni heima eða hér við krosslagða glugga kirkjunnar okkar á Þingvöllum. En hvar sem er hlýtt finnst okkur að við njótum alls af gróðri og fegurð jarðarinnar. Að muna góð sumur er ekki endilega aðferð til blekkingar eða afneitunar á því sem við blasir núna. Enginn Pollýönnuleikur í presti.

            Að muna betri daga er sjálf menningin. Menning er ekki aðeins það sem er að gerast núna á líðandi stundu heldur er hún eitthvað sem stendur sem toppur eða yfirborð þess er stendur uppúr á okkar dögum byggt á öllu því sem allir aðrir hafa verið að gera síðustu aldir, menningarlega. Það er þá menningarminni.

            Á þessum sumardögum er nauðsynlegt að hafa ekki bara ímyndunarafl í lagi heldur þarf að hafa náttúruminni. Við þurfum að muna að við fengum þetta land og það er skapað fyrir okkur einhvern veginn eftir því sem hver og einn skilur það í trú og tilfinningu. En það er okkur öllum holl áminning í náttúrufari okkar daga að muna það vel að við fengum þetta land – okkur hefur hlotnast það. Landnám er auðvitað fallegt orð en í hugsun okkar dýpst inni gerum við okkur grein fyrir því að við erum enn í námi, enn að læra hvers vegna við fengum Ísland og muna hvernig við fengum fullveldi og svo lýðveldi og urðum að fullu ábyrg fyrir landinu, náttúrunni, nýtingu og ljóma og yndi, ábyrg fyrir vernd þess og hverju blómi, hverri rós og hverri minnstu og stærstu skepnu sem lifir hér. Og þá líka gagnvart þeim sem koma í heiminn hér og hingað koma í okkar heim af öðrum heimalöndum.

            Í þeirri grein guðfræðinnar sem nú er hvað mest á lofti er guðfræði frelsunar eða frelsis, guðfræði umhverfisins og vistkerfa, en líka guðfræði landsins. Þetta þýðir á mannamáli að í þessu landi, sem okkur hefur hlotnast af hendi Guðs, á að vera stundað réttlæti, og frelsi hvers manns tryggt, hér skal gæta að umhverfinu, loftslagi og meðferð lands og náttúru, en líka skal hugað að þeim skilyrðum sem Guð setur með því að gefa okkur þetta allt.

            Það er svo fallegt að heyra að Guð muni veita okkur allt sem við biðjum hann um og hann muni gefa okkur allt sem við óskum og hann muni ljúka upp öllum dyrum svo við getum gengið inní ljóma og dýrð þess er hér er í boði. Þá er líka jafn gott fyrr okkur að lesa áfram og klára versin í þessum orðum Jesú hér í dag. Það fylgir því boðorð að þiggja. Í dag er það þetta sem allir kunna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður skuluð þið og þeim gjöra.“ Það er ekki einsog einn eyjapeyinn fór með þetta þegar ég hlýddi fermingarbörnunum yfir: „Þú skalt gera öðrum það sem þeir gera við þig.“

              Það er dáldið gamli tíminn, gamli siður, nokkurs konar frumsiður. Ég held ég fari ekki neitt útí hefndarskylduna eða hvötina sem er frumstæð í manninum þótt það væri freistandi að minna á takmörkin eða þakið á hefndinni. Elsta bremsan á hefnd sem ég man eftir er að það má ekki taka nema auga fyrir auga, ekki meira en tönn fyrir tönn. Frumstæðan í manninum hefur í gegnum tíðina snúið þessu á hvolf og talið skylt að hefna. Það er samt á hinn veginn bókmenntalega, menningarlega og biblíulega rétt að taka þessu sem takmarkandi ákvæði. Guð segir líka beinlínis að fólki eigi ekki að hefna heldur er það hans. Og þá er það takmarkað líka þar sem hann hefur þá yfirsýn að hann sér lengra en okkar augnabliksreiði eða æsingur sem nær ekki lengra en nefið á okkur, yfirleitt, og er auk þess sjaldan á rökum reist. Þess vegna hefur honum þótt fara betur á því að hafa það þannig að hann sjái um alla hefnd – til að draga úr líkum þess að nokkur hefni nokkurs. Á góðum dögum gátu sumir bændur ekki notið vorblíðunnar og sögðu að þetta myndi hefna sín. Engin hætta á því í dag að við séum að kalla yfir okkur hefndir í veðurfari.

            Og þannig er einnig með gæðin og góðmennskuna, góðu verkin og kærleikann. Um það er miklu meira fjallað af því að það er það sem á að einkenna samfélagið okkar. Allt er það komið frá Guði á þann hátt að það er hann sem elskar og leggur upphaflega ást á manninn. Það er manneskjunni til eftirdæmis en kærleikur okkar byggir á ákvörðun hans. Og það sem hann hefur þannig lagt upp með er okkur gefið og endurgjaldinu skal skilað til næsta náunga okkar. Allt sem ég hef gefið ykkur og gert fyrir ykkur skuluð þið gefa öðrum og gera fyrir aðra. Þetta stendur.

            Þetta kemur mjög skýrt fram á annan hátt líka. „Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. …“ Það er semsagt til heilla fyrir alla sem eru eitt hjarta í einni breyti, segir Jeremía spámaður.  Synir merkja hér afkomendur, niðjar, eða öllu heldur þau sem verða hér síðar eftir að við erum farin sem hann er að tala við núna. Þarna er þá komin líka hugmyndin að úrskurði Þorgeirs Ljósvetningagoða hér ofar á völlunum, handan árinnar í búðunum. Honum þótti viturlegt að hér yrði einn siður. Ein breytni er afar mikilvægt atriði eða forsenda fyrir því að við höfum þetta land og fáum að tilheyra þeim sem byggja Ísland í dag. Ef við förum að stunda ranglæti eða mismunun erum við að fyrirgera rétti okkar til að halda því sem okkur var gefið sem fólk þessa lands. Samtíðin þarf að einkennast af því sem spámaðurinn talar en bók hans er skrifuð í trú og byggir þannig á því sem betur endist en sögulegt efni. Og hugsið ykkur að þetta hefur staðist vel tímans tönn þar sem Jeremía er fæddur á 13. konungsári Jósía í Ísrael eða um 626 fyrir Krist. Hebrear fengu land og þeir misstu land, þeir keyptu land og þeir seldu land, þeir byggðu land og landið var brotið niður fyrir augum þeirra. Það sem varir er trúin. Og fólkið heldur frekar landinu ef það hefur eitt hjarta og eina breytni. Það er kenning sem byggir á trú en ekki endilega pólitík. Ég fullyrði þetta því það sem byggir á trú stenst hvað sem gerist ef það byggir þannig á trú að það taki mið af því sem er eilíft, Orði Guðs, boði hans, gjöf hans, kærleikanum í Guði og honum sjálfum sem alltaf hefur verið. Er og verður.

En af því að hann er enn hér á okkar dögum er hann enn glaður þegar hann sér að við förum eftir boðorðum hans: „Ég gleðst yfir þeim (segir Guð) og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.“

            Þetta er eina tryggingin og það eina sem við getum byggt tilveru okkar á því ekki byggjum við á sandi sem er kvikur. Við byggjum á þessum hömrum og klettum sem umlykja helgidóm þeirrar dýrðar sem Þingvellir vitna um með allri sinni umgjörð og fegurð. Hér voru lögin fyrst upp lesin og sem síðar byggðu á boðorðum og sáttmála Guðs við fólkið sitt, landslög fyrir fólk þessa lands. Nægir að nefna að Grágás er talin byggð á því elsta sem fræðimenn vissu þá um lög og sáttmála þjóðar um land. Leidd hafa verið að því rök að Grágás hafi einmitt verið byggð á lögmálinu í Fimmbókarritinu svokallaða, Mósebókunum, eða því sem síðar hefur verið nefnt eftir Fimmtu Mósebókinni sjálfri. Undir þeim áhrifum er Jeremía og fjöldi spámanna og guðspjallamenn á borð við Mattheus sem byggja á því að Guð hafi veitt fólki sínu land að búa í og byggja. Því fylgir ævinlega það sama sem við erum minnt á í dag. Enn á þessari hátíð og aftur og um allar aldir. Þú byggir ekki land nema þar sé eitt hjarta og ein breytni.

            Við getum ekki haldið áfram nema muna. Að muna hlýtt sumar og blíðan flugnaseiminn, fiðrildin og sólar-glampann á spegilsléttu vatninu, marrið í lyngi þar sem við stígum og þurran mó að setjast niður. Þetta þurfum við að muna og líka döggina eftir vökvun nætur. Það reynir á það núna í framhaldinu með sumarsólstöðum og svo náttúrulega Jónsmessunótt, nótt heilags Jóhannesar skírara, messa hans sem fæddist hálfu ári á undan frænda sínum Jesú. Við þurfum að muna jafn vel og innilega og við erum fljót að gleyma köldum dögum þegar hlýnar. Þessi öfuga hlýnun þarf að vera jafn fljótvirk. Það er af því að þetta er dagur einsog Drottinn ákvað að gefa okkur í dag. Ef við vinnum ekki út frá því erum við ekki þakklát. Við skulum þakka. Við skulum vera öðrum það sem Guð hefur verið okkur og alla á undan okkur. Alltaf hlýr, alltaf aflvaki lífsins og gleðinnar á jafn djúpan hátt og sólin er gróðri, sólin sem hann gefur.

             Að lokum vík ég aftur að Jeremía. Hann er sagður hafa verið ein hugrakkasta og dramatískasta persóna í sögu Hebrea og sögu Gyðinga. Líka vegna þess hvað hann var ungur kallaður og lét sig ungur hafa það að skamma kónga og tignarfólk, ráðamenn og miklu eldra og lærðara fólk. Við fyrirverðum okkur ekki fyrir ungan aldur Íslands ef við finnum köllun okkar að vera öðrum allt sem okkur er gefið.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s