Að sökkva ekki í hyldýpi illskunnar með hatri

Á torginu fyrir framan ráðhúsið í Kharkiv.

Við lifum ótrúlega tíma þar sem öll heimsbyggðin er neydd til að horfa ofaní hyldýpi illskunnar með innrás Rússneska hersins inní Úkraínu. Horfi ég þar helst á sprengingar og árásir á sjúkahús, íbúðabyggðir og saklausa borgara. Þetta snertir okkur öll og börnin okkar líka að sjá jafnaldrana á flótta eða í neyðarskýlum. Við þurfum að finna leið til að sogast ekki ofaní hyldýpi illskunnar með hatrinu öllu og morðum í stríði, mannréttindabrotum og eigna- og menningartjóni. Mest er tjónið þegar orðið sem varð þegar friðurinn var rofinn.

Ef við förum að dæmi Desmund Tutu, erkibiskups í Suður Afríku, sem núna er nýlega látinn, sagðist hann hafa verið neyddur til að sjá ofaní þetta illskudjúp en ákvað að hverfa ekki ofaní það með þeim sem hata og drepa og nýðast á saklausu fólki og brjóta gegn öllum boðorðum Guðs.

Það væri fáránlegt að dragast inní orðræðuna sem notuð hefur verið til réttlætingar á morðum, dauða og hörmungum. Við þurfum að sjá þetta í gegnum tárin á kinnum barnsins og móðurinnar sem flýr með það í örvæntingu sinni í leit að skjóli og friði. Þau tár eru tær og ef við speglum okkur í þeim og grátum með þeim líka sjáum við að eina svarið er öryggið sem felst í kærleika og miskunnsemi.

Við getum ekki annað en beðið fyrir baráttuþreki þeirra sem heyja varnarbaráttu fyrir landinu sínu, heimilum sínum og samfélagi sem vill vera öruggt, gott og fagurt.

Barn á flótta með skólatöskuna sína

Við getum ekki leyft okkur að belgjast upp í hatri á einn mann þótt svo virðist sem forseti Rússlands hafi misst vitið. Í einni ágætri fréttaskýringu í erlendum miðli er bent á að Úkraína er ekki endanlegt takmark Pútíns eða hernaðaraflanna sem eru með honum núna. Það er nær að skoða þau öfl sem ráða þessari drápsför og árás á fullvalda ríki. Það virðast vera öflin sem ekki sætta sig við það hvernig sagan hefur þróast í Evrópu síðustu þrjátíu árin. Það virðast vera öflin sem ekki hafa enn kyngt þeirri þíðu sem varð með endalokum kalda stríðsins og má segja að hafi m.a. átt sér stað með áfanganum í Höfða í Reykjavík og svo áfram með falli Járntjaldsins og falli Sovétríkjanna. Orðfærið er blygðunarlaust sótt í síðari heimsstyrjöldina og bendir það eitt og sér til sjúklegrar fortíðarhyggju. Einn mesti skaðinn er að brjálæði Þriðja ríkisins hefur verið ert með þessu tali á sviði þjóðernisofstækis og andgyðingleg öfl hafa verið vakin til verka. Stríðið hefur staðið í áratug og mun halda áfram ef þessi öfl sjá framgang í því að snúa við þróun í átt til friðar og frelsis einstaklingsins. Stríðið nærist og þróast á versta veg ef þessum öflum tekst að snúa við einingarviðleitni frjálsra og fullvalda ríkja Evrópu.

Stríðið mun fá fóður sitt og eldsneyti ef hin illu fólskuverk verða til þess að við förum að tala á sömu nótum. Þá höfum við dregist ofaní hyldýpi vonskunnar. Það er því mikilvægt að við höfum stjórn á okkar tungu og ekki síst í áheyrn barnanna og unga fólksins. Svarið er ekki hatur heldur vörnin sem við þurfum að byggja upp í kærleika og friði sem ekki samþykkir eða samsinnir óhæfuverkum illra afla. Svar okkar þarf að vera að halda uppi vörnum fyrir mennskunni og fegurð heimsins og svara því með miskunnsemi í garð þeirra sem núna þjást í styrjöldinni. Við þurfum að vera Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn. Við þurfum að vera Rauða stjarnan, þ.e. sú sem kennd er við Davíð, því hún stendur fyrir það í biblíusögunum okkar þegar vopnlausi lítilmagninn verst gegn innrásarliði og risanum Golíat. Guð gefi Úkraínu styrk í stríði og nauðum og Guð gefi nágrönnum æðruleysi og þrek að taka á móti saklausum borgurum sem flýja hryllinginn og styrki Guð líka þau sem óttast um það í nágrenninu hvert þessi háskalega þróun um þróast áður en friði verði komið á að nýju.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s