Bjartsýnn á gildi kirkjunnar

Ég er ákaflega bjartsýnn fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Þetta kann að hljóma undarlega í ljósi þess að af og til eru að koma upp deilur. Brot hafa komið í ljós sem eru gegn öllu velsæmi. Stundum er hiti í fólki og það á það til að hópast í baráttu gegn öðrum í kirkjunni. En samt er ég bjartsýnn vegna þess að réttlætiskennd og samviska má gjarnan einkenna trúarsamfélag. Þetta er allt innan kirkjunnar og ef okkur tekst að laga samskipin í okkar röðum og ef okkur tekst að tryggja góða og örugga meðferð kærumála erum við að byggja upp enn betri söfnuði og betri þjónustu. Ég er bjartsýnn af því ábyrgðin er okkar.

Ég er líka bjartsýnn í þeim breytingum sem eru að ganga yfir í kirkjunni í skipulagi hennar. Þjóðkirkjan verður sjálfstæðari sem kirkjuleg stofnun með hverju ári. Samningar við ríkið eru í aðalatriðum góðir þótt skilin mættu vera miklu betri á sóknargjöldum frá innheimtumönnum ríkissjóðs. Önnur fjárskil eru skýr og líkleg til friðar í samfélaginu vegna þess að þau eru að mestu byggð á eignaafhendingu sem allir vilja virða. Við viljum jú virða eignaréttinn sem slíkan í íslensku samfélagi og kirkja er þátttakandi í þjóðfélagi sínu.

Kirkjan litast þó helst af baráttu fyrir hinum andlega veruleika einsog trúarsamfélag á að gera. Kirkjan er í stöðugri framför í innri málum eftir því sem henni tekst t.d. betur að ná utanum starfsmannamál og allt skipulag. Ytra umhverfi kirkjunnar er sá efnisheimur sem hefur verið á fullri ferð til afhelgunar í þeirri merkingu að það má versla með veraldlega hluti og ræða það á hlutgerðan hátt. Þessi þróun hefur verið í fullum gangi lengi og alveg sérstaklega frá því um miðja síðustu öld. Heittrúarstefnan mótmælti trú á manninn og afhelgun samtímans. En ég held við hljótum að vera að sigla inní þá tíma núna að við skynjum stöðugt betur skilin milli þess sem er heilagt og þess sem má vera veraldlegt og hlutgert. Við sjáum þetta skerpast í öflugri umræðu gegn því að manneskja sé hlutgerð til að hægt sé að níðast á henni með ofbeldi eða einhvers konar notkun. Ég tek undir orðin: „Mátti það einhvern tíma?“ Ég undrast þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi sem misnotkun því ég get ekki séð að réttlætanlegt sé að tala um notkun á fólki.

Ég dreg þetta dæmi fram til að leggja áherslu á að andleg lífssýn, trú og gildi kirkjunnar eru siðferðileg nauðsyn fyrir einstaklinginn svo hann missi ekki sjónar á því sem er í raun og veru heilagt. Ég hef trú á því að samfélagið okkar hafi gagn af því að kirkjan prédiki kærleika Krists, gullna reglu og réttlætisboð hans. Ég sé ekki betur en kirkjan geti gegnt æ meira hlutverki í samfélaginu eftir því sem hún tekur betur á erfiðum málum sínum. Þau endurspegla í raun það sem hefur illu heilli viðgengist víðar í samfélaginu. Ég er bjartsýnn á að kirkjan verði betri stofnun með betri vinnubrögðum og auknum kirkjulega lýðræðislegum reglum og bættu siðferði. Semsagt bjartsýnn á að kirkjan geti gegnt því hlutverki sínu að vera kirkja í orði og verki.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s