Ávarp mitt í minningarstund í Patreksfjarðarkirkju 40 árum eftir mannskætt krapaflóðið 22. janúar 1983

Ágæti forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson! Kæru Patreksfirðingar! Góðir vinir héðan og víðar að.

Við erum komin saman í nafni Drottins og þá saman komin í náð hans og friði. Guð blessi okkur þessa stund. Andinn er þá hér sem blæs okkur í brjóst kjark og þor á örlagastundum engu síður en huggun í harmi, samhug á minningarstund og þökk í hjarta fyrir þau sem hafa lifað og fyrir þau sem núna lifa og muna, trúa og vona.

Andinn er líka aflið í okkur sem gerir okkur fært að gleðjast yfir lífinu og koma saman til að gleðjast. Það var ekki lítil gleði hér í bænum í gær í blótinu núna í upphafi Þorra. Til hamingju með það og afsakið mig að ég skrópaði.

Svo í dag minnumst við þess að 40 ár eru liðin frá hörmulegum atburðum. Við minnumst þeirra fjögurra sem fórust á ólíkum æviskeiðum – yngst þeirra 6 ára barn – og minnumst þess þá sem vitur prestur sagði við útför barns að „það varðar mestu að hafa orðið til.“ Það talar til okkar allra og varðar virðingu okkar fyrir því að við höfum orðið til. Með því þökkum við björgun og hlíf í öllu því sem getur gengið á í lífi okkar og samfélagsins.

Atburðirnir fyrir 40 árum voru ægilegir. Ég get ímyndað mér reynslu ykkar sem voruð hér og misstuð, get ímyndað mér tjónið og áfallið fyrir mannlífið og byggðina alla, þetta góða og trausta fólk sem fékk á sig illsku veðra og ofanflóða. Við getum farið nærri um líðan og reynslu annarra vegna þess að maðurinn er gæddur þeim eiginleika að geta fundið til með öðrum. Við erum gædd samhyggð og samlíðan í hug og hjarta.

Ég þakka fyrir mína minningu að hafa fengið að koma hingað fyrir 40 árum til björgunar og leitar með varðskipinu Ægi. Oft hef ég minnst þess er við gengum inn í heilaga þögn þessa áfalls og líka heilaga gleði yfir þeim sem fundust og urðu hólpnir. Það er sannarlega umhugsunarvert hvað þögnin varði lengi.

En reynslan er eftir sjómannasálminum sem sr. Þórarinn Þór vitnaði til í minningarorðum yfir moldum þeirra fjögurra, Sigrúnar Guðbrandsdóttur, Sigurbjargar Sigurðardóttur og mæðginanna Valgerðar Elínborgar Jónsdóttur og Marteins Ólafs Péturssonar þann 1. febrúar hér í félagsheimilinu það ár: „Þegar hendir sorg við sjóinn, syrgir, tregar, þjóðin öll.“

En hann vitnaði einnig til Davíðssálms númer 145: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ Og síðar í þeim sálmi: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ Og enn þetta: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“

Þegar ég segist hafa gengið inn þögn þessa sorgardagsvar það einmitt þetta einlæga og þögla ákall sem ég hlít að hafa skynjað. Ákallið var í gjörtum allra og því ákall í hljóði og í hljóðri bæn fyrir þeim sem fórust og misstu líka heimili sín og misstu sum veruna hér. Líka hljóð þakkarbæn sem erfitt var að orða, að hafa fengið að lifa.

Það má ekki gleymast að Drottinn er með okkur sem lendum í stormi og báli. Í lofsöngnum sem sr. Þórarinn lagði út af ávarpar skáldið Guð sinn: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Við erum undir þessari verndarhendi sem þjóð og blessun hans sem samfélag fólks sem trúir og vonar.

Að koma af hafi inn í myrkan dag um árið er minning sem aldrei dofnar. Eitt það sterkasta var að leggja að og sjá hlíðina alla flóðlýsta og bæinn uppljómaðan. Svo furðulegt sem það hljómar var umflæði ljóssins um byggð og fjall einsog það væri ljós yfir landi, ljós „Yfir voru ættarlandi“ svo vitnað sé til Steingríms Thorsteinssonar, „Yfir voru ættarlandi, aldafaðir skildi halt. Veit því heillir, ver það grandi, virstu að leiða ráð þess allt.“

Ég nefndi áðan Þorra sem var víst elsti sonur Snæs, sem var sonur Kára sonar Fornljótar. Ætli við þreyjum ekki best þennan vetrarmánuð Þorra með því að hugsa til þess að hann helgaði mánuð sinn leitinni að Góu? Leit og björgun er stef að styðjast við á þyngsta verðurkaflanum. Við leitum og við finnum. Sagði ekki Frelsarinn einmitt það? Á þessum 40 árum hafa einmitt verið fundnar leiðir til úrvinnslu og áfallahjálpar en fram að því unnum við að því orðalaust saman að leysa úr álaginu – eins langt og það gat náð. Við unnum að leitinni saman og þá minnist ég ekki bara björgunarfólksins sem hafði hlotið til þess þjálfun heldur líka leitarhundanna sem sönnuðu sig svo um munaði. En þó minnist ég þeirra með allra mestri virðingu sem fóru sem samborgarar út í leitina meðan sortinn var ennþá yfir og óvissan var enn ríkjandi. Guð launi þeim eftir blessun sinni.

Enn er eftir eitt stef í þessari minningu en það eru sjálf 40 árin. Þar er vísað í Heilagari Ritningu til eyðumerkurgöngu Hebrea í leit þeirra að Landinu helga. Þetta er Biblíu-stef um björgun. Það er vísað til þessa hjálpræðis í Fyrsta boðorðinu einsog við lærðum það án afsláttar – vel að merkja – því ef við gefum ekki afslátt af Orði Guðs eyðum við ekki björguninni úr Fagnaðarerindinu. En fyrsta boðorðið okkar er einmitt um frelsun: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, þú skalt ekki aðra Guði hafa en mig.“

Fjörtíu ár tákna oftast að vera leidd úr áþján og leidd inn í betri tíma af hendi Guðs. Við getum því leyft okkur að sjá allt í öðru ljósi núna eftir 40 biblíuleg ár. Eftir 40 daga höfum við náð að þreyja Þorra og verðum komin inn á Góuna, farin að sjá ljósari daga sem vísa til vors og vonar. Fjörtíu ára minningarathöfn er þannig ein sterkasta og biblíulegasta minningarstund sem hægt er að halda. Hún kallast á við allt sem er heilagt. Kallast á við allt sem bjargar og allt sem vísar á vor sem við þráum og ljós sem eygjum við sjónarrönd.

Fyrir því höfum við vitnað í lofsöng til Guðs. Veri þessi dagur að lofsöngi Lausnarans í hjörtum okkar allra, kæru vinir. Honum sé dýrð, honum sem var og verður og er núna í kirkjunni hans, og hér í samfélaginu sem við elskum, hér við hafið eða fjallið. Amen.

(Ávarp þetta var flutt í Patreksfjarðarkirkju í guðsþjónustu sunnudaginn 22. janúar 2023 sem sóknarpresturinn, sr. Kristján Arason, leiddi, ásamt tónlistarfólki. Vegna sögunnar skal tekið fram að forseti Íslands varð að sigla hjá með varðskipinu Freyju til björgunarstarfa og komst ekki til athafnarinnar en ávarp hans og kveðja var flutt í Félagsheimilinu í dagskránni þar eftir guðsþjónustuna og eftir minningarstund við minnisvarða um atburðina 22. janúar 1983 og þau sem fórust þar í krapaflóðinu. ) Ljósmyndina við minnisvarðann tók Guðlaugur J. Albertsson.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s