Þitt orð er Guð sá arfur hreinn

Ég renni fingrum yfir letur Gruðbrandsbiblíu og rýni í áritun herra Guðbrandar Þorlákssonar á titilblaðinu. Hversu margir hafa rýnt í þessa áritun eigin handar hins merka biskups og velt því fyrir sér hverjum skilaboðin eru upphaflega ætluð. Líklega er það ráðsmaðurinn sem fékk þessa heilögu ritningu en það er ekki bara þannig. Biblía er ekki fyrir einn og einn heldur er það lifandi orð sem berst á milli og fólk deilir hvert með öðru. Biblía kirkju er samfélagsleg miðlun á heilnæmum skrifum, fagnaðarerindinu um Jesú Krists. Í þessum orðum er frelsun og lausn, úrlausn og leiðsögn.

Hversu mörg augu hafa lesið þetta blað sem ég renni núna fingrum yfir í aðdáun minni á því sem hefur slíka virkni sem enginn önnur bók hefur haft. Það sem prentað var 1584 stuttu eftir siðbót dr. Marteins Lúthers á Hólum í Hjaltadal talar fram á okkar daga. Letrið hefur ekki slitnað eða dofnað þótt oft hafi orðið dauft yfir fólki í gegnum ár og aldir. Þetta eru 439 ár og stórafmæli á næsta ári. Enn stærra minningarár eftir ellefu ár.

Þegar ég skoða sögu handrita að Biblíunni og þá sérstaklega handrita Nýja testamentis staldra ég við eitt atriði umfram annað. Það er ekki sú staðreynd að til eru vel yfir fimm þúsund handrit að Nýja testamenti og sum frá þeim tíma sem kallast frumkristni og fyrstu aldir kristinnar trúar. Það er heldur ekki sú merkilega staðreynd að textinn er með mjög litlum efnislegum frávikum frá einu handriti til annars. Það er fyrst og fremst sú merkilega staðreynd að yfirleitt hafa handritin að geyma mest af safni bóka Nýja testamentis en ekki handrit með einu og einu bréfi Ritningarinnar til nafngreindra safnaða eða borga. Það segir okkur að Biblían er frá upphafi safnaðarrit og til notkunar í helgihaldi safnaðanna en ekki varðveitt sem einkabréf í Kórintu eða Róm eða Efesus. Öll bréfin eru til allra. Saman birta þau heilstæða og heilnæma kenningu. Með því að lesa þau saman og sem flest í samanburði fáum við myndina af því hvað er að vera kirkja.

Ég er feginn að við erum hér öll með öll ritin. Þau eru í senn skrifuð til fólks sem er nafngreint og Biblíur eru áritaðar til einhvers ákveðins einstaklings. Samt eru þau til okkar allra. Ef til vill er það vegna þess að við getum ekki vænst þess að bók eða bréf höfði til allra eða nái til allra nema það sé stílað á einhverja ákveðna sál eða persónu. Annars væri það ekki persónulegur boðskapur til mín eða þín. Við erum þannig séð öll þessi ráðsmaður sem Guðbrandur áritaði Biblíuna til við afhendingu eða sem gjöf. Við erum öll ráðsmenn sem hafa fengið Heilögu ritningu að gjöf. Við erum Tímóteus og Fílemon og Appía. Við erum Þeófílus og við erum söfnuðurinn í Galatíulandi, Efesus og Korintu. Við erum dálítið að taka á móti heilsan Júdasar: „Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar þeim sem Guð faðir elskar og hefur kallað og Jesús Kristur varðveitir.“ Það gefur okkur fyrirheit um að vera elskuð, kölluð og undir varðveislu Guðs. Orðið í Biblíunni hefur ekki aðeins varðveist sem bók heldur miklu fremur sem boðskapur í þúsundir ára. Biblían varðveitir þetta orð til okkar svo við finnum að við erum undir vernd og varðveislu, elskuleg og útvalin til að vera hvert öðru raunverulegir bræður og systur.

Takk fyrir biblíudaginn 12. febrúar 2023 og staf Biblíufélagsins til útgáfu, prentunar og þýðingar þessarar bókar sem ber fagnaðarerindið til okkar hvers og eins. Það er heldur betur arftur hreinn.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s