Sigur píslanna, þjáningar og vonir margra

Í dag er píslagöngu Frelsarans minnst um víða veröld og er sama hvar maður ferðast; föstudagurinn langi er hvarvetna. Dauðinn er líka nálægur mörgum á okkar dögum þótt við búum sjálf við mikið öryggi í ríkustu og friðsælustu löndum heimsins. Einsdæmi þjáningar og dauða er orðið að viðvarndi ástandi þar sem ríkir styrjöld, bylting eða frelsisstríð. Það má nefna það öllum nöfnum. Sama er mér. Þjáningin er mörgum börnum þessa heims venjulegt viðmið. Það hafa ekki allir ofgnótt af líftíma eða geta leyft sér framtíðaráform. Hermenn varpa sprengjum á hrunin hús og rústa húsarústum. Þessi orð eru óbein tilvitnun í frábæra þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á bók Khaled Khalifa, Dauðinn er barningur.

Föstudagurinn langi talar inní þennan veruleika og ef allt er í lagi á hann að kveikja von og glæða neista þar sem öll glóð hefur kulnað. Dauðinn getur verið barningur á meðan lífið er þjáning. Sjötta hvert barn í heimininum býr við stríðsástand á okkar dögum. Þar er mikil þörf að kveikja von. Til þess er þessi dagur heilagur að hann helgi baráttuna fyrir von og trú á frelsun og frið.

Fyrir nær tuttugu árum höfðum við horft á frumsýningu myndarinnar Passion of Christ eftir Mel Gibson, þennan ágæta kaþólikka. Það var niður á Flórída og laust við alla stóíska ró okkar íslensku samfélagsgerðar. Skipti þá engum togum að meðan lokatextinn var enn að rúlla niður skjáinn stukku nokkrir þarlendir uppá sviðið og hrópuðu: „Og þetta gerði hann allt fyrir þig!“

Aftur og aftur hef ég hugsað þetta og oftast á sama veg. Hann gerði það fyrir mig að ganga í gegnum það sem ég gæti ekki gengið í gegnum. Hann stóðst freistingu sem ég myndi ekki standast. En umfram allt skapaði hann mér nýjan tilverugrunn sem ég hef getað byggt mína ævi á. Það er þá líf með von. Það er von um að þrátt fyrir allt er líf sem við eigum skilið að frelsast til. Það vona ég að allir kúgaðir, barðir, sprengdir, skotnir, stungnir, veikir og bugaðir geti gert að sinni von svo úr því megi bæta. Það vona ég að geri samfélag heilt, fjölskyldu heila, vináttu sanna, hjónaband farsælt og ást verði aldei skilin frá virðingu fyrir því að hver einasta manneskja finni að einhver vonar það besta fyrir hennar hönd. Það gerði hann fyrir mig og með það hef ég ekki hikað við að ganga inní þjáningu annarra, sársauka og sorg. Dagurinn í dag er enginn venjulegur hjálpræðisdagur heldur birtir hann dýpsta skilning á tilveru okkar allra, hvers um sig og allra saman.

Myndin er úr Gaulverjabæjarkirkju.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s