Kirkja snýst um líf fólks og trú

Ég setti nýlega mynd af Skálholtsdómkirkju á ýmsa miðla og fékk góð viðbrögð. Ein bestu viðbrögðin voru þó frá vini í Eyjum sem spurði: „Kirkjan er falleg en hvar er allt fólkið? Er ekki fólkið kirkjan?“ Daginn eftir var kirkjan vissulega þétt setin í hátíðarmessu og það var gott svar á sinn hátt. En fólkið er eftir sem áður kirkjan því kirkja er einnig hugtak um söfnuðinn sem slíkan.

Lútherska þjóðkirkjan okkar þarf að skoða þetta miklu dýpra niður í kjölinn en gert hefur verið. Hún er að ganga í gegnum mjög róttækar breytingar og er orðin mjög sjálfstæð sem trúfélag og þjónustustofnun. En þessum breytingum er ekki nærri því lokið. Kirkjan hefur unnið upp mjög vandaða stefnu í fræðslumálum, kærleiksþjónustu og æskulýðsmálum, vandaða stefnu um innri mál en mjög margt er í mótun út frá því nýja sambandi sem hún á við aðrar stofnanir þjóðfélagsins. Allir innviðir kirkjunnar eiga að vera til þjónustu eða styðja við þá þjónustu sem kirkja getur veitt. Þar er hjálparstarfið, vönduð sálgæsla og boðun kristinnar trúar mikilvæg en ekki síst vandað helgihald. Það er allt fyrir fólkið og fólk á fullkomlega réttmæta kröfu á kirkjuna að hún veiti þessa þjónustu af alúð og fagmennsku og umfram allt af gleði.

Þegar ég horfi á þessa þróun og deiglu sem við erum að fara í gegnum skoða ég gjarnan hvað hefur verið að gerast hjá systurkirkjum okkar á Norðurlöndum. Er þá rétt að skoða sérstaklega þróun og breytingar sem hafa orðið í Noregi og Svíþjóð. Það er vegna þess að Sænska kirkjan varð sjálfstæð frá ríkinu árið 2000 og Norska kirkjan varð sjálfstæð frá norska ríkinu 2017. Við erum nær Norðmönnum í tíma og þar eru að gerast hlutir sem ég tel að eigi eftir að styrkja þjónustu kirkjunnar og vera til farsældar fyrir þau öll sem leita til hennar og þau sem starfa á vettvangi hennar. Í Svíþjóð er sjálfstæð kirkja lengra komin. Þótt ekki sé alveg líku saman að jafna gæti verið mjög gagnlegt að skoða hvað þau hafa verið að gera síðustu tuttugu árin. Það segi ég fullum fetum vegna þess að þau hafa gengið í gegnum fækkun meðlima, fækkun skírna og ferminga og færri hjónavígslur. Þangað til nýlega. Eftir þrotlaust og gott starf, skýra framtíðarsýn og áherslu á afburða góða þjónustu við fólkið í landinu eru skýr merki um aukningu á öllum sviðum. Þátttakan er að aukast hægt en örugglega. Þetta þarf að skoða vandlega og íslenska kirkjan má ekki missa móðinn því kirkjan er fólk og snýst um líf fólks og trú. Við ættum ekki að bíða og sofa í tuttugu ár og sjá til hvort þetta lagist ekki hjá okkur einsog í Svíþjóð. Við þurfum að skoða góða þjónustu þeirra og boðun svo við getum tekið þau skref í rétta átt nú þegar. Ég skrifa seinna um það sem ég tel að Sænska kirkjan hafi staðið fyrir sem hefur greinilega komið að gagni fyrir Svíþjóð.

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s