Um þjónustu, starf og æviatriði

Ég vígðist heima á Hólum í Hjaltadal 9. júlí 1989 undir öruggri handleiðslu sr. Sigurðar Guðmundssonar, vígslubiskups.

Hann var mér góður vígslufaðir og fyrirmynd. Föðurafi minn, sr. Sigurður Stefánsson, prófastur og vígslubiskup á Möðruvöllum í Hörgárdal, hafði hlotið biskupsvígslu sína á Hólum 30 árum fyrr, 1959. Hann á ríkan sess í bernskuminni mínu og mótaði sýn mína á hina almennu kirkju, trúarlíf hjá góðu fólki og virðingu fyrir mannhelginni.

Fyrsta prestakallið mitt var Breiðabólsstaðarprestakall í Húnavatnsprófastsdæmi. Þar lærði ég fljótt hvernig saga Hóla í Hjaltadal og Breiðabólsstaðar í Vesturhópi fléttast, bæði þegar Hólastaður verður biskupssetur og þegar prentverki Jóns sænska Matthíassonar er fundinn staður á Breiðabólsstað.

Í Breiðabólsstaðarprestkalli þjónaði ég í rúm níu ár mörgum sóknum og kynntist sóknarbörnunum í gleði og sorg, bæði í kirkjulegri þjónustu og daglegu lífi. Það var góður skóli fyrir ungan prest. Í fyrstu voru það Víðidalstungu-, Breiðabólsstaðar-, Vesturhópshóla- og Tjarnarsóknir. Síðar færðist Víðidalstunga til Melstaðarprestakalls og Hvammstangasókn til mín, en þá fluttum við fjölskyldan yfir á Hvammstanga einsog lög gerðu ráð fyrir. Í afleysingum þjónaði ég um lengri eða skemmri tíma sóknarbörnum Melstaðarprestakalls, Prestsbakkaprestakalls og Þingeyrarklaustursprestakalls. Það var afar ánægjulegt að kynnast lífinu í Húnavatnsprófastsdæmi og víðar í Hólastifti.

Á þessum árum var ég ritstjóri Kirkjuritsins í tæpan áratug, en það er gefið út af Prestafélagi Íslands. Ég var einnig í stjórn Prestafélags hins forna Hólastiftis, ritari til nokkurra ára og síðast formaður. Þá var ég í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar og kenndi í Vesturhópsskóla, en var líka einn af stofnendum Fjarvinnslustofunnar Orðtaks á Hvammstanga. Sem ritstjóri, prestur og kirkjuráðsmaður hef ég sótt námskeið, ráðstefnur og kirkjulega fundi, m.a. í Danmörku, Þýskalandi, Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjum, Englandi, Hong Kong og hér heima.

Haustið 1998 var ég kosinn og skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum og gegni því í 17 ár. Eyjar voru eign Skálholts um langan aldur og fram að siðbót þegar þær gengu til konungs. Það var gott að þjóna virkum söfnuði Landakirkju og það var oft krefjandi. Vísa ég á vefinn landakirkja.is til að gera grein fyrir kirkjustarfi Landakirkju í dag. Eyjar voru í Kjalarnessprófastsdæmi til 2009 og var ég þar í héraðsnefnd um tíma og gegndi fleiri trúnaðarstörfum. Ég var kosinn á kirkjuþing fyrir kjördæmið tvö kjörtímabil, 2002-10. Seinna kjörtímabil mitt á kirkjuþingi var ég einnig kosinn í kirkjuráð til fjögurra ára. Þessum störfum fylgdi ýmis ábyrgð, formennska í ýmsum nefndum og starfshópum, m.a. stjórn Skálholts. Sótti ég eitt kirkjuþing í Þýskalandi og flutti þar heiðursávarp. Meðal nefnda sem ég stýrði má nefna nefnd um sérþjónustu og þjónustu kirkjunnar í útlöndum, nefnd um samstarfssvæði sókna, um heildarskipan þjónustunnar, nefnd um frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum og nefnd um skipan prófastsdæma og kjördæma og nefnd um kirkjustjórn og biskupsþjónustu.

Í Eyjum var ég verið formaður stjórnar Stafkirkjunnar á Heimaey frá 2001 til 2016 en hún er þjóðareign, gjöf Norðmanna vegna þúsund ára kristni árið 2000. Ég er einnig varaformaður stjórnar Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar sem hefur haldið málþing á sviði trúarbragðarannsókna og sáttagjörðar. Stofnunin hefur haldið alþjóðleg málþing sín í Skálholti og í Reykjavík. Árið 2011 var ég kosinn í stjórn Prestafélags Íslands og þremur árum síðar var ég kosinn formaður. Ég var um tíma skipaður í samráðshóp til að fylgjast með aðildaviðræðunum við ESB.

Eitt árið messaði ég meðal Íslendinga í Grimsby á Englandi og annaðist einnig fermingarmessu fyrir íslenska söfnuðinn í Kaupmannahöfn.

Heima í Eyjum taka ríflega 20 þús. manns á ári þátt í helgihaldi Landakirkju á helgum, hátíðum og virkum dögum. Ég tel mig hafa verið lánsaman að fá að starfa með góðu fólki í Eyjum svo lengi en samstarfsprestur minn til 11 ára er sr. Guðmundur Örn Jónsson frá Illugastöðum í Fnjóskadal og formaður er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir.

Námsleyfisárið mitt 2003-4 stundaði ég nám í klínískri sálgæslu á TGH sjúkrahúsinu í Tampa á Flórída og hef einnig lagt stund á áfallahjálp fyrir björgunaraðila og aðra sem koma að alvarlegum slysum og áföllum. Í þessu starfi hef ég verið í áfallateymum í Hvammstangalæknishéraði frá 1995 og í Vestmannaeyjum frá ´98, en fyrstu alvarlegu áföllin sem ég vann að samkvæmt áfallahjálparfræðum (CISM) voru snjóflóðin í Súðavík í janúar ´95. Í kjölfar þess stýrði ég einnig sáttargjörð meðal Súðvíkinga.

Ég hef verið lánsamur að fá að þjóna Eyrarbakkaprestakalli í Suðurprófastsdæmi um tveggja ára skeið. Því miður er ekki lengur prestsetur þar og höfum við búið í Reykjavík í þennan tíma, í Hallgrímssókn. Núna þjóna ég Eyrarbakkakirkju, Stokkseyrarkirkju og Gaulverjabæjarkirkju á helgum og hátíðum í gleði og sorg. Nýt ég þess að vera með góðu fólki á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í reglulegum helgistundum og í góðu samstarfi við leikskóla og grunnskóla staðanna. Eyrarbakki var lengi verslunarhöfn fyrir Skálholt og liggja þar á milli pílagrímaleiðir. Heimasíðan okkar er á fésbók: Eyrarbakkaprestakall.

Í guðfræðináminu lagði ég rækt við Gamla testamenti og skrifaði kjörsviðsritgerðina á því sviði um upphaf Gyðingdóms og endurreisn Jerúsalem eftir herleiðinguna. Í háskólanum eignaðist ég margar góðar fyrirmyndir í kennurum mínum og marga vini fyrir lífstíð.

Eiginkona mín er Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólakennari og leiðsögumaður. Hún hefur starfað með Blátt áfram að forvörnum gegn kynferðisbrotum á börnum. Við fögnum þrjátíu ára brúðkaupsafmæli í ár. Synir okkar eru Bjarni Benedikt, MSc í verkfræði, Sigurður Stefán, húsgagna- og húsasmiður, og Björn Ásgeir, 14 ára. Frá fyrra hjónabandi með Sigrúnu Vallaðsdóttur á ég dæturnar Ólöfu og Kristínu Rut. Ólöf er samgönguverkfræðingur, fagstjóri samgangna hjá Mannviti og í stjórn Mannvits, gift Pétri Vilhjálmssyni, stjórnsýslufræðingi hjá Einkaleyfastofu, og eiga þau tvö börn. Kristín Rut er ferðamálafræðingur með MSc í sjálfbærnifræðum og doktorsnemi í sjálfbærni og ferðamennsku. Hún er í sambúð með Fredrik Sjö, tölvuleikjahönnuði, og búa þau í Lundi í Svíþjóð og eiga tvö börn. Guðrún Helga er af Seltjarnarnesinu og ættuð frá Patreksfirði, af Mýrum í Borgarfirði, Vestmannaeyjum og Húsavík.

Ég er fæddur í Stórholti 39 í Reykjavík og alinn upp í Kópavogi. Faðir minn er Björn Sigurðsson, fv. lögregluvarðstjóri, og móðir mín var Kristín Bögeskov, djákni. Hún dó eftir umferðaslys 2003. Eldri systkini mín eru Ágústa og Sigurður og þau yngri eru Björn Ágúst og María Kristín. Afi minn og amma í móðurætt voru Sören Bögeskov, frá Jótlandi, bóndi í Reykjavík, og eiginkona hans, Ágústa Sigurðardóttir Bögeskov. Hún er frá Lágu Kotey í Meðallandi, föðursystir Sigurbjörns Einarssonar, biskups. Afa minn í föðurætt, sr. Sigurð Stefánsson, vígslubiskup, hef ég áður nefnt, en föðuramma mín var María Ágústsdóttir, íslenskufræðingur og húsfeyja á Möðruvöllum.

Í Kópavogi tók ég virkan þátt í starfi Skátafélagsins Kópa og síðar í Hjálparsveit skáta í Kópavogi, en einnig í Hestamannafélaginu Gusti. Fyrir norðan var ég í Flugbjörgunarsveit Vestur-Húnavatnssýslu og Hestamannafélaginu Þyti og í Eyjum var ég í Björgunarfélagi Vestmannaeyja og Veiðifélagi Ystakletts.  Ég hef verið í ýmsum félögum og klúbbum í gegnum tíðina og nýt þess að ganga á fjöll og stunda útiveru.

Fermingarárið mitt gerðist ég kaupamaður í Efri Lækjardal í Austur-Húnavatnssýslu hjá Elsu og Friðgeiri Kemp. Seinna var ég í vegavinnu í héraðinu. Ég var í ýmsum störfum með skóla, m.a. bifreiðastjóri og byggingaverkamaður í Reykjavík, gæslumaður á Kleppi og hestahirðir í Sviss. Einnig var ég fimm sumur lögregluþjónn í Reykjavík og starfsmaður Þjóðgarðsins á Þingvöllum hjá sr. Heimi Steinssyni þrjú sumur. Eftir embættisprófið í guðfræði var ég blaðamaður í fullu starfi í liðlega tvö ár á Tímanum hjá Indriða G. Þorsteinssyni, ritstjóra og rithöfundi. Skrifaði ég þá einnig fáeina bókakafla, þýddi skáldsögu og ritstýrði nokkrum bókum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s