Haustið 1998 var ég kosinn og skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum og gegni því í 17 ár. Það var gott að þjóna virkum söfnuði Landakirkju og það var oft krefjandi. Vísa ég á vefinn landakirkja.is til að gera grein fyrir kirkjustarfi Landakirkju. Heima í Eyjum taka ríflega 20 þús. manns á ári þátt í helgihaldi Landakirkju á helgum, hátíðum og virkum dögum. Ég hef verið lánsamur að fá að starfa með góðu fólki en samstarfsprestur minn til 11 ár er sr. Guðmundur Örn Jónsson frá Illugastöðum í Fnjóskadal og formaður er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir.
Eyjar voru í Kjalarnessprófastsdæmi til 2009 og var ég þar í héraðsnefnd um tíma og gegndi fleiri trúnaðarstörfum. Ég var m.a. kosinn á kirkjuþing fyrir kjördæmið tvö kjörtímabil, 2002-10. Seinna kjörtímabil mitt á kirkjuþingi var ég einnig kosinn í kirkjuráð til fjögurra ára. Þessum störfum fylgdi ýmis ábyrgð, formennska í ýmsum nefndum og starfshópum, m.a. stjórn Skálholts. Sótti ég eitt kirkjuþing í Þýskalandi, flutti þar heiðursávarp og lærði margt. Meðal nefnda sem ég stýrði má nefna nefnd um sérþjónustu og þjónustu kirkjunnar í útlöndum, nefnd um samstarfssvæði sókna, um heildarskipan þjónustunnar, nefnd um frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum, nefnd um skipan prófastsdæma og kjördæma og nefnd um kirkjustjórn og biskupsþjónustu.