Kynningarbréf fyrir vígslubiskupskjör 2018
Það hefur lengi verið skoðun mín að helsta hlutverk vígslubiskups sé að styðja presta, djákna, starfsfólk og sóknarnefndir í veigamiklu hlutverki sínu í grunnþjónustu kirkjunnar á hverjum stað. Um leið er það sá hluti verksins sem gerir vettvang vígslubiskups að áhugaverðu og skemmtilegu starfi þegar tengsl hans fá að eflast með heimsóknum og góðum samskiptum.
Að mínum dómi þarf vígslubiskup að leggja áherslu á að vinna með öllu góðu fólki og félögum að endurbótum í Skálholti. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að vinna með áhugasömu kirkjunnar fólki að nýrri stefnumörkun fyrir Skálholtsstað og þjónustu vígslubiskups svo vinna mín nýtist vel í umdæminu öllu. Ég vil að við ákveðum saman hvert við ætlum með staðinn, þjónustuna þar heima og við sóknir umdæmisins. Framundan er söguleg Skálholtshátíð á 60 ára afmæli Skálholtsdómkirkju dagana 20. – 23. júlí 2023 og vona ég að hún verði vel sótt. Mikið er lagt í dagskrá alla þessa daga, helgihald, tónleikar, útgáfuþing, málþing og ráðstefna auk hátíðardagskrár.
Í mínum huga er Skálholt með táknrænum hætti stór þáttur í því fjöreggi menningar, sögu og siðar sem fólkið í landinu geymir. Okkur er því falið mikilvægt hlutverk við að gæta þess á allan hátt og ávaxta þessi verðmæti. Þar skiptir dygg og trú þjónusta vígslubiskupsins miklu máli líkt og hingað til og góð samvinna við alla sem málið varðar.
Af þessu leiðir að vígslubiskup hefur aðsetur í Skálholti og rækir þaðan tengsl við fólkið í sóknum svæðisins til gagns og gleði með heimsóknum, samtölum og öllum samskiptaleiðum til að treysta samfélag, kristni og kirkjulíf. Þetta vil ég gera og vera til staðar þar sem þarf.
Ég vil nú sem fyrr leggja mitt af mörkum til þess að efla Skálholtsstað sem trúar- og fræðslusetur í guðfræði og boðun, starfsþjálfun, helgisiðum og bænahaldi, rannsóknum, listum og tónleikahaldi. Skóli, sókn og staður mætast í helgihaldinu. Þjónustan er tryggð með rekstri Hótel Skálholts og veitingastaðarins Hvönn í Skálholti. Ég tel það hafa verið mikið lán að hægt var að fá frábæra rekstraraðila að þessari þjónustu. Efla þarf námskeiðs- og ráðstefnuhald og endurnýja hefðina fyrir kyrrðardaga, málþing og guðfræðilegar ráðstefnur í þessu nýja rekstrarformi.
Við stöndum saman vörð um jafnrétti, gagnsæi og mannréttindi út frá því erindi okkar að við erum kölluð til að virða mennskuna og mæta hverri manneskju í björtu ljósi fagnaðarerindisins um Jesú Krist.
Við þurfum ávallt að sýna hvernig við virðum mörk í samskiptum og helgi lífsins. Ég tel að við þurfum að horfast í augu við brot, meint og sönnuð, og öll erfið mál, í kirkjustarfi jafnt sem mannlífinu öllu, til að mál sem koma upp verði tekin til meðferðar og rannsóknar. Mér finnst það eina ásættanlega leiðin svo að hægt verði að gera þau upp, viðurkenna brot og leita síðan í átt til fyrirgefningar og sáttar.
Við þurfum að efla sálgæsluna enn meir en gert hefur verið. Við þurfum að hafa lag á því að slást í för með fólki á krossgötum í lífinu á vegi trúarinnar með sérþjónustu presta og djákna á stofnunum og með þjónustu sóknarkirkjunnar. Við erum í för með Kristi og fólkinu sem hann elskar.
Saman skulum við vekja fólk til ábyrgðar í umhverfismálum með því að stuðla að sjálfbærri þróun á öllum sviðum. Við þurfum að auka þekkingu um ógnir loftlagsbreytinga og vinna að friði og rækt við jörðina. Við skulum vinna að því út frá velferð manneskjunnar, náunga okkar, og réttlæti gagnvart náttúrunni og komandi kynslóðum.