Aðsetur í Skálholti

Aðsetur vígslubiskups í Skálholti er afar mikilvægur þáttur í því að vera vígslubiskup. Við fluttum heim í Skálholt á biskupssetrið fyrir vígsluhelgina sem var á Skálholtshátíð 2018. Verkefnin vígslubiskup annast krefjast þess að hann búi á staðnum. Það er heldur ekki í kot vísað þar sem Skálholt í Biskupsstungum er einn dýrlegasti staður landsins, kostajörð og afar falleg heim að horfa. Ég tel aðsetur vígslubiskups í Skálholti afar mikilvægt atriði í ljósi þess hversu mikið þarf að vinna að viðhaldi og endurskipulagningu á staðnum með öllum aðilum. Fyrrverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, lagði áherslu á að skuldir af byggingum staðarins yrðu greiddar upp. Það hefur gengið eftir og er það einn þáttur í því að hægt var að ráðast í frekari endurbætur. Nafni minn hefur verið mér góð fyrirmynd í mörgu og raungóður vinur. Ekki skemmir hvernig hann blandar saman þekkingu sinni og húmor. Meðal stærstu endurbóta í Skálholti á hans tíð voru án efa viðgerðir á listgluggum Gerðar Helgadóttur og mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem lokið var á árinu 2018 með ómetanlegu framlagi og vinnu Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju undir formennsku Jóns Sigurðssonar, fv. ráðherra og bankastjóra. 

Vegna þessarar afstöðu minnar um biskupssetrið finnst mér skipta máli að það verði áfram fastákveðið í starfsreglum að vígslubiskuparnir sitji hina fornu staði. Kirkjan þarf líka að kosta því til sem þarf. Þetta er atriði sem ég hamraði á þegar ég var í starfshópi undir forystu Péturs Kr. Hafstein sem gerði fyrstu tillögur um breytingar á þjóðkirkjulögum 2008 og aftur 2010 og líka þegar ég var í nefnd um hlutverk vígslubiskupa og kirkjustjórnar sem bjó starfsreglur um vígslubiskupa í hendur kirkjuþings 2006. Ég tel að þetta ákvæði sýnir einfaldlega þá mynd kirkjunnar að hún þjónar fólki í landinu öllu.

Ég tel nauðsynlegt að vígslubiskup sitji staðinn vel. Hann starfar við hlið framkvæmdastjóra og stjórnar Skálholts en einnig með rekstraraðilum sem annast um hótelið og veitingastaðinn. Afar mikilvægt er að hann vinni ötullega með Skálholtsfélaginu hinu nýja og með öllum þeim sem annast hina ýmsu þætti í dagskrá Skálholts. Þá starfar vígslubiskup með sóknarpresti og organista, sóknarnefnd og sveitarstjórn. Það er líka liður í því að vera í stöðugu góðu sambandi við sóknir, stofnanir og félög í umdæminu öllu. Þessi tengsl þarf hann að sækja út frá staðnum ná til allra sem gegna grunnþjónustu kirkjunnar á hverjum stað. Vígslubiskup þarf heimahöfn og hann þarf að róa á miðin. Þannig á hann að geta gegnt hlutverki sínu vel með hvatningu, sátt og friði í samfélagi sem hver sóknarkirkja þjónar og stuðla þannig að frekari gleði og ánægju við margháttaða þjónustu hennar og boðun.

Þessi afstaða mín byggir á þeirri skoðun að vígslubiskup á bæði erindi á staðnum og við umdæmið allt. Ef ég stelst í slagorð eða yfirskrift sumra annarra biskupa „Ubi et Orbi,“ „til borgarinnar og til heimsins“ getum við vel heimfært þetta uppá okkar fornu höfuðborg landsins og sagt „til staðarins og til umdæmisins.“

Vígslubiskup í Skálholti hefur einfaldlega aðsetur í Skálholti í Biskupstungum og er annar af tveimur staðgenglum biskups Íslands. Þeir gegna embætti biskups Íslands í forföllum hans eða ef hann verður vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum. Röðin á fyrsta og öðrum staðgengli biskups Íslands fer eftir starfsaldri þeirra sem vígslubiskupar. Vígslubiskup í Skálholti er fyrsti staðgengill eftir vígslu sr. Gísla Gunnarssonar, vígslubiskups á Hólum.

Eftir að ábúð hætti í Skálholti og stjórnin tók yfir umsjón með jörðinni hafa málin þróast þannig að vígslubiskup hefur annast um að koma upp veiðisölu fyrir staðinn í Brúará og Hvítá. Þessu hefur fylgt sú ánægja að fá að byggja upp vegi og slóða að veiðistöðum sem jafnframt eru gönguslóðar og reiðvegir. Þessi hugsjón snýst um að opna jörðina fyrir útivist og lofa fólki að njóta náttúru hennar.

Þá má segja að vígslubiskup hafi gengt lykilhlutverki með öðru góðu fólki í því að tryggja framkvæmd á gróðursetningaverkefni Kolviðarsjóðs í 200 ha af landinu samkvæmt samningi frá 2018. Einnig má nefna mikla framkvæmd við Þorláksleið sem er merkt gönguleið frá Þorlákssæti að Þorlákshver og þræðir tæpa 5 km meðfram þekktum kennileitum Þorláks. Alls er gönguleiðin um 8 km ef farinn er hringurinn allur um Skólavörðuna. Þriðja stóra verkefnið er að þoka áfram breytingum á Gestastofunni og koma þar fyrir mótttöku ferðamanna, Bókasafni Skálholts og Prentsögusetri Íslands auk skrifstofuaðstöðu fyrir organista, prest, biskup og framkvæmdastjóra, auk safnaðaraðstöðu í stofunni.

Nokkur orð um núverandi hlutverk vígslubiskups í Skálholti:

Vígslubiskupi ber að vera í tengslum við allar sóknir í umdæmi sínu sem nær frá Bjarnanesprestakalli í austri og vestur um til Bolungarvíkur.

Hann er biskupi Íslands til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annast biskupsverk í umboði hans, s.s. að vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur. Hann er staðgengill biskups Íslands.

Uppbygging Skálholtsstaðar er á ábyrgð þjóðkirkjunnar, stjórnar Skálholts og vígslubiskups og er hann biskupsstofu og stjórn til samráðs um málefni staðarins og tengiliður við Skálholtsfélagið nýja og Verndarsjóðinn vegna glugga Gerðar Helgadóttur, ekki síður en við sóknarnefndir og presta, prófasta, héraðsnefndir og aðrar stofnanir sem tengjast Skálholti.

Vígslubiskup í Skálholti er formaður Þingvallakirkjunefndar og formaður Áheitasjóðs Þorláks helga Þórhallssonar. 

Hann kemur fram í nafni Skálholts og umdæmis vígslubiskupsins í Skálholti og er í forsvari fyrir staðinn.

Hann styður sóknarprest Skálholtsprestakalls við helgihald Skálholtsdómkirkju í samráði við organista og sóknarnefnd.

Hann styður við dagskrá skólans, námskeið, ráðstefnur og kyrrðardaga og styður framkvæmdastjóra staðarins og annað starfsfólk í þjónustu sinni á staðnum með hótel- og veitingarekstri sem því fylgir.

Hann er aðili að biskupafundi sem annast um málefni sókna, prestakalla og prófastdæma og er haldinn til samræmingar á biskupsþjónustu í landinu. Biskupafundur fjallar m.a. um allar tillögur og mál er varða kenningu kirkjunnar, helgisiði og helgihald svo og um skipan sókna og prestakalla.

Hann heimsækir og vísiterar prestaköll og söfnuði í samræmi við áætlanir biskupafundar og prófasta, en vísitasía vígslubiskupa beinist einkum að innri þáttum kirkjulífs, s.s. prests- og djáknaþjónustu, boðun, helgihaldi, sálgæslu og safnaðarstarfi.

Hann sækir héraðsfundi í prófastsdæmunum.

Hann hefur tilsjón með því að allri stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt, en þó sérstaklega varðandi helgihald, boðun, fræðslu og kærleiksþjónustu í umdæminu.

Hann hefur nokkra tilsjón með starfsmannahaldi og líðan fólks, sérstaklega hvað varðar handleiðslu, símenntun og sálgæslu presta, djákna og starfsfólks kirkjunnar og beitir sér í þessum efnum ef tilefni er til.

Vígslubiskup annast sáttaumleitanir þegar embættismönnum, trúnaðarmönnum og starfsfólki hefur ekki tekist að jafna ágreining og sættir hafa ekki tekist í meðförum prófasts.

Vígslubiskup veitir úrlausn í öllum málum sem prófastar og biskup Íslands vísa til hans.

Hann á sæti í kenningarnefnd kirkjunnar.

Hann situr prestastefnu Íslands.

Hann situr kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt.

Hann situr prófastafund, sem er einu sinni á ári.

Hann situr fund framkvæmdanefndar biskupsstofu þegar ræða skal málefni Skálholts og óskað er eftir næveru hans og samráðs vegna staðþekkingar í Skálholti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s