Það hlýtur að vera höfuðskylda kirkjunnar að leggja áherslu á kirkjulífið í öllum sóknum landsins. Helgihaldið er kjarni kirkjulífsins á hverjum stað og út frá því er safnaðarstarf sem er fjölbreytilegt eða einfalt, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Í öllu safnaðarstarfi er að finna þann þráð sem bindur saman fólk í eina sókn við boðun, guðsþjónustu og samfélag undir merki Jesú Krists.
Víða hafa sóknarnefndir staðið í ströngu við að ná endum saman eftir nokkurra ára skerðingar sóknargjalda í kjölfar bankahrunsins. Starfsmannahaldið hefur verið tekið til endurskoðunar þar sem það hefur verið hluti af safnaðarstarfinu, en líklega hefur engin sóknarnefnd sloppið við erfiðar ákvarðanir í sambandi við ráðstöfun sóknargjalda. Vonandi fer að horfa til betri vegar eftir því sem efnahagur þjóðarinnar réttir út kútnum.
Við þessar aðstæður hafa skapast sóknarfæri við eflingu sjálfboðastarfs. Það er kjarni sjálfboðastarfs að þar gefur fólk vinnu sína um leið og það gefur af sér við þjónustuna. Gott er að hafa í huga að erfitt er að meta sjálfboðastarf til launa af því að það er í raun ekki hægt að verðleggja það. Og fáir geta lýst því nægjanlega hvað það getur verið gefandi að gefa vinnu. Það er næstum hægt að nota um það svipuð hugtök og þegar við ræðum um kærleikann því hann eflist mest hjá þeim sem sýnir mestan kærleika.
Þetta leiðir okkur að því að tala um kærleiksþjónustu kirkjunnar. Kærleiksþjónustan verður ekki veitt nema í samfélagi manna en hún er líka hvarvetna einsog krydd í allri boðun, þjónustu og samfélagi safnaðarins. Kærleikurinn er mestur sagði Páll postuli og auðvitað er það mest sem kemur mest við sögu. En hann er umfram allt mestur af því að sagt er um Guð að hann sé kærleikur. Við erum því í honum ef við erum að sinna kirkjulífinu út frá þessum grundvallarskilningi á kirkjusamfélaginu.
Kirkjulíf er margbreytilegt og á að vera það þegar sóknarbörnin búa við ólíkar aðstæður. En kirkjulíf á líka að einkennast af þeirri einingu sem felst í trúnni á Jesú. Við erum greinar á trénu sem kirkjan er en þetta tré er eitt tré vegna þess að Kristur er einn. Það er mikilvægt að nýir sprotar fái að spretta fram og hver grein að vaxa og gildna, laufgast og jafnvel blómgast, eftir vaxtarskilyrðum á hverjum stað. Kirkjan í heild – og þar með talin biskupsþjónustan – á að styðja sóknarbörnin í því að bera áburð að þessu tré og hjálpa til við að hreinsa frá því óþarfa.
Kirkjan er vettvangur þeirra sem vilja eiga samfélag um trúna á Krist. Hún er líka til vitnis um kærleika Krists þegar hún sprettur svo sterk uppúr jarðvegi samfélagsins að hún verður öllum til þjónustu og heilla. Þetta samband kirkju og samfélags er mikilvægur þáttur í skilningi okkar á því að þjóna í þjóðkirkju. Ef við lítum þannig á þjóðkirkjuna og söfnuði hennar sjáum við að það er jafn nauðsynlegt að samtali kirkju og þjóðfélags sé haldið vakandi og að þjónandi leiðtogar safnaðanna haldi áfram að vekja fólk til trúar. Tré og greinar eru fallegar myndir af kirkju sem er áberandi á öllum stöðum.
Kirkja er í raun stórbrotinn veruleiki og það veitir mikla reynslu að lifa sig inn í trúarlíf með skipulagi stofnunar. Kirkja er bæði ólík og lík hverri annarri stofnun. Innan hennar þarf að gæta góðrar stjórnsýslu, stunda rétt fundarsköp, kjósa lýðræðislega og iðka jafnrétti. Umsýsla og stjórnsýsluákvarðanir eiga að vera hafin yfir allan vafa. Í þeim efnum er engin ein stofnun kirkjunnar æðri eða lægri en önnur. Allir eru settir undir sama mæliker og þetta mæliker er gegnsætt.
Tilsjón biskupanna á að styðja þetta og því þurfa þau sem gegna þeim embættum sjálf að vera hrein og bein og laus við ávirðingar. Þetta sanna dæmin úr okkar samtíð en vandræði kirkjunnar hafa verið ómæld þegar útaf bregður. Þar kemur aftur inn samspil kirkju og þjóðfélags því fólk lærir æ betur hvernig taka ber faglega á misnotkun, brotum og misbeitingu valds. Og kirkjan þarf á því að halda að óþægilegum samtölum sé líka haldið vakandi svo komast megi í átt til fyrirgefningar, sáttargjörðar og friðar í hverju máli.