Mikil viðgerð á Skálholtsdómkirkju framundan

the-popular-golden-circle-tour-10

Við vorum knúin til að lýsa yfir neyðarástandi á kirkjunni vegna mikils leka í turninum fyrir nokkrum dögum. Miklar vatnsskemmdir urðu þarna um daginn og þá flæddi líka inná hæðirnar í turninum sem geyma bókasafnið, gamalt og merkilegt safn sem er að stofni til frá safni Þorsteins sýslumanns Dalamanna, auk mikilla viðbóta. Þaðan lak niður í kirkju og ekki langt frá orgelinu. Ekki er langt síðan við lukum endurbótum á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur undir öruggri stjórn Verndarsjóðs kirkjunnar og forvera míns, sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, biskups. Núna er næsta stóra skrefið að skipta um þak og laga allan leka í turni kirkjunnar og gluggum þar uppi og viðgerðum á öllu ytra byrði guðshússins. Það er nú ákveðið í kirkjuráði og við heima í Skálholti bindum miklar vonir við að þessar endurbætur fari sem fyrst í gang. Stefnt er að því að þessu verði öllu lokið á 60 ára afmæli kirkjunnar 2023.

Bókasafnið hefur verið í hættu vegna þaklekans og þá ekki síður innviðir kirkjunnar, þak, veggir og gólf. Verndarsjóðurinn hefur tekið að sér að hjálpa og stýra flutningi bókanna og kirkjuráð hefur ákveðið að kosta lagfæringar á rými í Gestastofunni nýju svo safnið geti verið sett þar upp með sóma, bæði í geymslu, til rannsókna og til sýnis.

Fyrstu framkvæmdir sem voru áður ákveðnar eru gagngerar múrviðgerðir á útitröppum og verður byrjað á því um næstu mánaðarmót. Þá verður gengið í frágang vegna brunavarna sem búið var að hanna. Einnig er til skoðunar að endurhanna lýsingu inni og er það að frumkvæði Verndarsjóðsins. Fyrir liggur heildar ástandsskýrsla sem var uppfærð núna í vetur. Í henni var kostnaðaráætlun uppá 100 milljónir króna og er þar þakið sjálft meira en helmingur. En mest er um vert að undirbúningur er hafinn og ákveðið hefur verið af kirkjuráði að ráðist skuli í verkið án tafar. Það er mikið þakkarefni.

Hér er hlekkur á frétt á skalholt.is

Og svo eru aðrar fréttir af kirkjan.is  og einnig á vefnum Laugarás – þorpið í skóginum af vefnum Höfuð Kvisthyltinga eftir Pál Skúlason.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Guðsþjónustur hefjast í áföngum frá og með 17. maí – innan allra marka

8706508165_088044e0ae_bSamkomubanni verður aflétt í áföngum og það sama á við um helgihald safnaðarins. Fjöldinn er samur og almennt og breytist því 4. maí í 50 manns. Altarisgöngur bíða og við virðum 2m persónumörkin. Almennar guðsþjónustur geta hafist um allt land sunnudaginn 17. maí og það þýðir að við getum þá einnig haldið guðsþjónustu á uppstigningardag 21. maí, hátíðarguðsþjónustu á hvítasunnu 31. maí og sjómannadagsguðsþjónustu 7. júní á áfram í sumar. Í sjálfu sér verður hægt að ferma í guðsþjónustu og vegna fjöldatakmarkana gætum við verið að ferma eitt til tvö börn í hverri guðsþjónustu með nánustu fjölskyldu og vinum. Það er ein sviðsmyndin en svo gætu fjöldaviðmið hækkað. Flestar kirkjur hafa frestað fermingum fram á síðsumar og haust og er vitað að það verður stór fermingarhelgi 29. – 30. ágúst og fyrstu helgina í september.

Þetta kemur fram í bréfi biskups Íslands og er samkvæmt ákvörðun frú Agnesar M. Sigurðardóttur. Það verður mikill léttir að koma saman í kirkjunni og við vitum að það eru margi farnir að sakna þess innilega. Þegar við komum saman verðum við samt að muna að virða fyrirmæli Almannavarna um 2 m mörkin á milli þeirra sem ekki búa saman í heimili og virða það þak sem er á fjölda í hverju rými á hverjum tíma. Við skulum öll vera til fyrirmyndar og láta það einkenna samfélag þeirra sem trúa á Krist, þ.e. söfnuði kirkjunnar.

Það hefur verið erfitt að mæta þessum takmörkunum við andlát og útför. Fólk hefur samt tekið höndum saman um að virða öll mörk og hugga sig við að við getum faðmast síðar. Vegna þeirrar staðreyndar að afléttunin verður lengi á leiðinni til baka í eðlilegt horf er ljóst að það gæti verið ráðlegt að fersta ekki útförum heldur reyna að útfæra það eftir nýjustu leiðum með útsjónarsemi og fjarlægð. Við erum minnug þess að á föstudaginn langa máttu nánustu vinir Jesú ekki vera nálægt honum á Golgata og aðeins fáir við útförina hans. Hinir voru með í anda og báru sorgina saman og hvert og eitt í sínum húsum. Það hefur því verið falleg virðing í því að sýna samúð sína í verki með því að vera heima og horfa á streymi frá útför vinar eða ættingja. Eins var mjög virðulegt þegar nágrannar og vinir í Hveragerði voru viðstaddir útför með því að mynda heiðursvörð frá kirkju og standa þar með 2 m millibili í þessu skini. Við erum öll saman þótt við getum ekki komið saman í einn sal og höfum ótrúlegar nýjar leiðir til að sýna það í verki með öllum þeim nýja búnaði sem er orðinn til á okkar dögum. Það hefur nýst vel við útsendingu á helgistundum, upplestri Passíusálma og í hátíðarguðsþjónustu þar sem aðeins prestur, organisti og fámennur kór er saman kominn í kirkjunni. Það er samt sameiginleg guðsþjónusta safnaðarins og sóknarmörkin eru í raun víkkuð út.

Blessunaróskir, Kristján

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Takmörkuð samskipti en ótakmarkaður kærleikur og von

8706508165_088044e0ae_bOft hefur það leitað á hugann hvernig okkur gengur að eiga samskipti þegar samskiptaleiðir eru takmarkaðar. Á kyrrðardögum í Skálholti í vetur áttaði ég mig á því að þeir snúast ekki um aðeins þögn heldur er talað mál fyrst og fremst tekið út í samskiptum þátttakenda. Maður lærir það fljótt. Núna á dögum CoVid 19 þurfum við að taka út handatakið og faðmlagið í samskiptum okkar. Við lærðum það fljótt. Fjöldi fólks hefur tekið margt annað úr samskiptunum til viðbótar og það er sjálfsagt mál þessar vikurnar að manneskjan sem við ætlum að hafa samband við er við vinnuna heima eða í sumarbústaðnum eða á skrifstofunni þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til að hitta ekki aðra og alls ekki að sitja eða vinna í sama rými. Fundarherbergið hefur víða verið tekið út úr samskiptum okkar og þannig eru samskiptaleiðir takmarkaðar. Líkamstjáning hefur þess vegna verið skert og það fækkar þeim leiðum sem við erum annars vön að styðjast við til að sjá betur og skilja vel hvert annað.

Það er ekki nokkur vafi að það reynir á samstarfið að hafa ekki allar tjáleiðir til að styðjast við. Manneskjan er jú félagsvera og vill eiga í góðum samskiptum og nýta allar tjáleiðir til að koma hugsun sinni á framfæri eða miðla skoðun sinni. Þetta getur verið sérstaklega erfitt þegar kemur að því að tjá tilfinningar okkar eða taka þátt í samskiptum þannig að aðrir skilji eða sjái hvernig okkur líður.

Við þekkjum vel að einn tölvupóstur getur ekki flutt nema takmörkuð skilaboð og þá gildir einu þótt við notumst við öll þessi tilfinningatákn sem eru notuð mikið á samfélagsmiðlunum. Það er þó tilraun og viðleitni og hér get ég þá sett inn einn umhyggjusaman broskarl. Oft set ég hjarta hjá þeim sem lýsir sorg sinni eða missi ástvinar en við vitum það öll að hjarta merkir alveg ótrúlega margt. Nú set ég gjarnan hjarta hjá þeim sem segir sóttkvíarsögu af sér eða sínum.

cropped-fella-og-hc3b3la.jpgÁ þriðja mánuði CoVid 19 erum við ekki enn komin yfir heimsfaraldurinn hér á Íslandi en sjáum vissulega fyrir okkur að hann muni ganga yfir. Smitið á eftir að aukast enn áður en við förum að líða niður brekkuna hinum megin. Það er álag að eiga von á smiti eða bara að lenda í sóttkví. Og það er erfitt að sitja eitt eða fá í enn meiri takmörkunum á samskiptum en þegar er orðið. Það er þannig álag að það getur jafnast á við áfall. Við mikið álag og í áfalli sýnum við tilfinningaleg viðbrögð og þau getur verið erfitt að tjá þegar samskiptaleiðir og tjáleiðir eru takmarkaðar. Eitt af þekktum viðbrögðum við áfalli er misskilningur og jafnvel misklíð sem af því getur hlotist. Þá er reiði einnig mjög þekkt meðal viðbragða og jafnvel ásakanir eða það sem er enn verra að fást við en það er sjálfsásökun eða sektarkennd. Það væri ákveðinn misskilningur eða afneitun að reikna ekki með að við gætum verið að sýna svona neikvæð viðbrögð eða reyna að forðast þau í orðum. Þar sem við erum öll undir sömu sökina seld að vera hér saman í þessum faraldri sem eitt samfélag fólks viljum við umfram allt hvetja hvert annað til dáða og efla vonina og lýsa ljósi okkar fram á veginn. Við viljum hughreysta hvert annað með því að stappa stálinu líka í okkur sjálf. Við sýnum samhug. Seinna gætum við þurft að fást við þessi neikvæðu viðbrögð en núna þurfum við ekki annað en viðurkenna að þau geta sannarlega verið til staðar eða skotið upp kollinum. Og við þurfum eiginlega að viðurkenna það fyrirfram að það gæti orðið erfitt að segja það með stöku orðum, í takmörkuðum fjarfundarbúnaði eða lélegri mynd á samskiptamiðli sem á það til að frjósa í miðju tári. Við ætluðum kannski ekki að gala á barnabarnið í skæpinu eða whatsupinu en gerum það samt af því við höldum að sambandið sé ekki nógu gott í fartölvunni eða af því við vorum einmitt komin örlítið frá hljóðnemanum til að hræra í pottinum.

Það er samt ekkert að. Tjáskiptin eru bara takmörkuð þegar við getum ekki knúsað hvert annað eða setið hljóð saman og fundið nálægðina sem við þurfum öll á að halda. Þegar við finnum örlítið breyttan raddblæ segir það mikið og eitt lítið jaa getur þýtt ótal margt sem við eigum auðvelt með að skilja þegar við heyrum það vel og sjáum svipbrigðin í góðum myndgæðum, grettuna eða hvernig fólk vaggar kannski höfðinu um leið.

51729454_10218076331400755_1084134747208155136_nVið þurfum ekki aðeins að komast í gegnum þennan skafl af takmörkuðum samskiptum ein og sér heldur þurfum við á ná í gegnum hann öll saman. Til að það lukkist vel þurfum við öll saman að reikna með því öllu sem getur fylgt því að tjáningarmátinn er takmakaður og að við viljum senda ótal tegundir af hjörtum og stafrænum tilfinningartáknum. En það verður að duga enn þessar næstu vikur þangað til allt verður eðlilegt aftur í lífi okkar sem manneskjur. Og nú er verst að eiga ekki tölvutákn fyrir von og trú til viðbótar við fallegt trúartákn kærleikans í fagurrauðum hjörtum hvert til annars. Vonin er að það leysist úr þessari stöðu af því að það er reynsla trúarinnar um aldir að kærleikurinn er mikill í okkur og ástin hvert til annars – alveg sérstaklega á erfiðum tímum þegar við þurfum að minna hvert annað á að það styttir alltaf upp og lygnir einsog skáldið syngur – og um að gera að svipta okkur ekki gleðinni yfir því að finna til. Þá eigum við að vita að við eigum eftir að heyra fótatakið þegar fagnaðarboðinn gengur inná fréttamannafundinn og tilkynnir að farsóttin sé nú gengin yfir og biður okkur vel að lifa. Við búum að góðri reynslu af góðum fréttum og þurfum að minna hvert annað á hvað það skiptir miklu máli núna þegar við höfum þrátt fyrir allt ótal leiðir til að tjá það í alveg nýjum samskipamiðlum sem engin kynslóð hefur áður fengið að kynnast og njóta. Við erum ennþá undir sömu blessun og þau sem áður hafa lifað hér, lengi og vel.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Erindi Munib Younan og Boga Ágústssonar á Skálholtshátíð 2019

Á heimasíðu Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, http://www.stofnunsigurbjorns.is , eru komin erindi og prédikun dr. Munib Younan, fv. forseta Lútherska heimssambandsins, og hátíðarerindi Boga Ágústssonar, formanns Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar sem þeir héldu á Skálholtshátíð á Þorláksmessu á sumri 2019. Erindi sitt flutti Munib á seminari undir yfirskriftinni: „The Role of Religion in Peacemaking and Reconciliation.“ Daginn eftir flutti hann prédikun í hátíðarmessunni á Skálholtshátíð og er hún einnig birt á ensku þar sem hún var flutt í íslenskri þýðingu sr. Kristjáns Björnssonar í útsendingunni í útvarpinu.

Bogi flutti aðal erindið á hátíðardagskrá sem efnt var til eftir kirkjukaffi á Skálholtshátíð og nefndi hann erindi sitt: „Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Málþingið/seminarið var haldið af Stofnun Sigurbjörns í samstarfi við Skálholtsbiskup og Skálholtsstað.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Síðasta prédikun Lúthers

 

2017-10-29 11.08.24-1

Þennan dag, 14. febrúar, árið 1546 flutti Marteinn Lúther sínar síðustu prédikanir í Eisleben í Þýskalandi. Þar dó hann síðan í þessum fæðingarbæ sínum fjórum dögum síðar, 18. febrúar, 62 ára að aldri. Þegar hér er komið sögu er hann orðinn alvarlega veikur og átti af þeim sökum ekki afturkvæmt heim til Wittenberg. Ekki ætla ég að gera neina úttekt á þessum prédikunum enda ekki rannsakað þær sérstaklega en það er dapurlegt og ekki augljóst að hann kýs að enda næst síðustu prédikun sína á því að vara við Gyðingum. Það hefur verið skýrt með því að hann sé að taka vara af fólki að hafna ekki Kristi, náð Guðs og heilögum anda og hvetja til þess að fólk taki almennt á móti ljósinu sem felst í fagnaðarerindinu. Á 16. öldinni er það gjarnan fært þannig í orð að þeir sem hafi hafnað Jesú, Gyðingarnir, séu nefndir á nafn og kemur það líka fyrir í Passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar hálfri annarri öld síðar. Gyðingar hafa bent á að ekki sé hægt annað en kalla þetta and-gyðinglegan áróður eða antisemitisma. Um það verður ekki deilt að orðfæri 16. aldar hefur verið notað til að byggja undir hið illa þjóðernisofstæki sem lengi hefur þjáð Evrópu og mannkyn allt. Það segir kannski meira um áróðursaðferðir nazista og fasista að þeir þurfi að byggja málflutning sinn á því að slíta úr samhengi orð og hugtök löngu liðinna alda og nota þá lygi gegn trúföstum Gyðingum. Í dag boðum við fagnaðarerindið og gildin sem í því felst. Við boðum mannhelgi og réttlæti. Við viljum að fólk trúi en erum löngu hætt að vara fólk við því að falla af trú. Ég held við trúum því innst inni að þótt fólk dofni í trú sinni á einhverjum tíma verðum við að treysta því að Guð hafi komið guðlegum neista kærleikans fyrir í brjósti sérhvers manns og það muni koma góðu til leiðar fyrir alla.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Tónleikar og næstu messur í Skálholti

Miðvikudaginn 7. nóvember eru tónleikar margra kóra úr Suðurprófastsdæmi í Skálholtsdómkirkju og er þar haldið á lofti minningu herra Jóns Arasonar með lestrum. Tónleikarnir byrja kl. 20 og allir velkomnir. Næstu messur í Skálholtsdómkirkju eru þannig að sr. Óskar H. Óskarsson í Hruna messar sunnudaginn 11. nóvember, sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, messar sunnudaginn 18. nóvember, sr. Kristján Valur Ingólfsson, biskup, messar sunnudaginn 25. nóvember og svo verður sóknarpresturinn, sr. Egill Hallgrímsson, kominn aftur úr námsleyfi og messar fyrsta sunnudag í aðventu, 2. desember í fjölskylduguðsþjónustu. Allar messur og guðsþjónustur hefjast kl. 11. Jafnframt er minnt á barnasamveru alla laugardaga kl. 11-12.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Arctic Circle, Norrænn biskupafundur og tónlistarguðsþjónusta í Seltjarnarnesskirkju

Það er nokkuð þétt helgi framundan með þáttöku á loftslagsráðstefnunni Arctic Circle og Norrænum biskupafundi í Reykjavík 19. – 21. okt. Biskuparnir þjóna með öðrum í kirkjum á Höfuðborgarsvæðinu og ég verð í Seltjarnarnesskirkju sunnudaginn 21. okt. kl. 11 í tónlistarguðsþjónustu með Friðriki Karlssyni og öðru góðu tónlistarfólki. Allir velkomnir.

Á Arctic Circle Assembly í Hörpu verður ein málstofan laugardag 20. okt. á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar í samstarfi við Guðfræðistofnun HÍ. Á sunnudag eftir messur og hádegisverð í kirkjunum verða svo pallborðsumræður höfuðbiskupanna á Norðurlöndum í Hörpu. Ég tel það mjög mikilvægt að kirkjan og allir andlegir leiðtogar taki þátt í umræðunni með vísindamönnum og hjálpi til í þeirri vitundarvakningu sem er nauðsynleg við þær aðstæður sem manneskjan stendur frammi fyrir. Ráðstefna þessi opnar sýn á allt það sem fólk er að gera, innfæddir og aðrir íbúar, þjóðarleiðtogar og ráðamenn, fólk í viðskiptalífinu og vísindasamfélaginu, ungt fólk, hámenntað fólk og ferðafólk. Er þá fátt eitt talið en samt vert að nefna hvað það er nauðsynlegt að við ræðum það í söfnuðum allra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hvernig viðhorfsbreytingin getur orðið að öflugasta aflinu í því að snúa við þróun loftslagsbreytinga til hins betra fyrir allt mannkyn.

Dagskráin á málþingi Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar á laugardag er:

16:15 – 17:45 HOPE IN A CHANGING ARCTIC AND GLOBAL CLIMATE: RELIGIOUS
AND ETHICAL DIMENSIONS OF THE GLOBAL CLIMATE CHANGE AND
THE GREAT ARCTIC MELT
Organized by Research Institute of Theology at the Faculty of Theology
and Religion, University of Iceland; Stofnun Sigurbjörns Einarssonar, The
Icelandic Institute for Religion and Reconciliation.
Location: Kaldalón, Harpa Ground Level
SPEAKERS
• Sólveig Anna Bóasdóttir, Professor of Theological Ethics, University of
Iceland: Hope in a Changing Climate
• Sigríður Guðmarsdóttir, Associate Professor, Faculty of Theology,
Diaconia and Leadership Studies, VID Specialized University, Tromsø,
Norway: The Wind Blows Where It Wills: Negotiating Reindeers,
Windmills and the Holy Spirit in the Arctic.
• Hilda P. Koster, Associate Professor, Faculty of Religion, Faculty of
Women’s and Gender Studies, Concordia College, Moorhead,
Minnesota, USA: Trafficked Lands and Fractured Bodies: Climate
Justice, Oil and Native Women in the Dakotas.
• Arnfríður Guðmundsdóttir, Professor, Faculty of Theology and Religious
Studies, University of Iceland: How climate change is changing the lives
of women and why we need to know about it.
Chair: Bogi Ágústsson, Reporter and Broadcaster; Chair of Stofnun
Sigurbjörns Einarssonar, The Icelandic Institute for Religion and
Reconciliation.

Dagskrá fyrir pallborð biskupanna á sunnudag er:

13:30 – 14:15 FAITH IN THE TRANSFORMATION OF SOCIETIES AND LIFESTYLES;
STEWARDSHIP OF THE ARCTIC AND THE EARTH
PANEL
• Antje Jackelén, Archbishop of Uppsala, Primate of Sweden, Church of
Sweden
• Tapio Luoma, Archbishop of Turku, Evangelical Lutheran Church of
Finland
• Helga Haugland Byfuglien, Bishop Preses, Primate of the Church of
Norway
• Agnes M. Sigurðardóttir, Bishop of Iceland, National Church of Iceland
• Jógvan Fríðriksson, Bishop of the Faroe Islands, Church of the Faroe
Islands
Chair: Ögmundur Jónasson, Former Minister of Justice and Church of
Iceland

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum

Prédikun við setningu Alþingis í Dómkirkjunni í Reykjavík þriðjud. 11.9.´18:

Ég byrja á að óska Forseta Íslands og Alþingi allrar blessunar við setninguna í dag og óska alþingismönnum til hamingju með að fá nú enn þetta þing til að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Öllum óska ég til hamingju með lýðræðið okkar og allt sem gert hefur verið til að umræða um þjóðmál og allt sem betur má fara í þjóðfélaginu verði óbrjáluð, án lýðskrums og þjóðernisöfga og án ofríkis líkt og við sjáum í nálægum löndum, nokkrum.

Við Íslendingar eigum langa lýðræðislega hefð sem okkar kynslóð er núna trúað fyrir og ég gleðst yfir allri endurnýjun og krafti þeirra sem valist hafa til þjónustunnar. Guð blessi það starf.

Ábyrgð fylgja áhyggjur. Það er því merkilegt að heyra í dag hvernig fagnaðarerindi Drottins talar einmitt inní það. Hann er að tala við alla um áhyggjur og um það að við eigum ekki að ala á þeim. Þjóðfélagið sem hann sjálfur fæddist inní var á margan hátt ranglátt og það var í því ofbeldi, bæði leynt og algjörlega opinbert. Það var ranglátt og það eru að gerast ótrúlega vondir hlutir fyrir marga á tíma Jesú. Sjáið bara þá staðreynd að í Rómarveldi er á þessum tímum um fjórði hver drengur seldur í þrældóm til að vinna við skattheimtu. Oft voru það andlega fatlaðir einstaklingar sem voru þó nógu sterkir líkamlega til að geta barið á dyr og heimtað skattgreiðslu í nafni keisarans. Og þessir tollheimtumenn koma oft fyrir í guðspjöllunum og Jesú talar ekki bara við þá heldur sýnir þeim umhyggju og snæðir með þeim. Það gerir hann opinberlega og hneykslar allan almenning og sérstaklega valdhafana. Jesús borðar einnig með þeim sem guðspjöllin kalla synduga en það eru að stórum hluta vændiskonur. Um þriðjungur stúlkna var seldur til vændis á þessum tímum og þær voru allar börn. Þar sem þær voru seldar eru til skrár um þær vegna þess að þetta var skattauppgjör einstaklinga. Það hljómar næstum því enn óhugnalegar að við ræðum stöðu þeirra hér settlega út frá skattamálum. Staðan er samt þannig að börnin voru seld uppí skuld feðranna við ranglát yfirvöld. Og ástæðan fyrir því að svo margar ungar stúlkur voru seldar í vændi er lágur dánaraldur þeirra en svo virðist sem engin gögn séu til um stúlku í vændi eldri en 18 ára. Það er sárar en hægt er að ræða án tára.

Ég játa að við felldum líka tár einsog fyrirlesarinn, dr. Mark Allan Powell, þegar hann var að fara yfir þennan skilning á fyrsta sæluboðinu í Fjallræðu Jesú þar sem við sátum guðfræðiráðstefnu í Langholtskirkju á dögunum. Hrópandi ranglæti og sársauki, vanlíðan og ofbeldi. Það situr eftir. Og þessu mætti Frelsarinn er hann tók til starfa og hóf að tala opinberlega á sínum stutta starfstíma. Hann byrjar fjallræðuna, sem er sama ræða og vitnað er til í guðspjallinu sem við núna lesum, byrjar hana á því að ávarpa þau sem eiga ekkert nema brostnar vonir. Það er merkilegt að hann ræðst ekki að valdhöfum heldur byrjar hann á því að taka sér stöðu með þeim sem eiga litla von og hafa trúlega flest misst tiltrú á framtíð sína vegna þess illa sem þau þoldu. Þau hafa á ýmsan hátt gefist upp og sagt skilið við Guð sinn eða trú, ekki talið sig samboðin almættinu, og gefið upp von um að réttlæti Guðs eigi nokkurt erindi við þau lengur. Þau hafa líka misst vonar um mannsæmandi líf vegna þess sem þau gera sem þrælar. En umfram allt eru þetta manneskjur sem líður ömurlega á líkama og sál. Það er kallað svo settlega í okkar þýðingu „fátækir í anda“. „Sæl eru fátæk í anda því að þau munu jörðina erfa.“ Fátækan í anda skortir anda. Hann er blankur í trú af því að andi er hér trú. Sálarlífið er í molum og hann grætur. Það er hinn sorgmæddi sem er í táradalnum. „Sæl eru sorgmædd því að þau munu hugguð verða.“ Allt er þetta ennþá til, bæði sorgin og huggunin.

Við erum fæst þarna nema dagana í sorg og missi eða við áföll og sem betur fer getum við grátið með syrgjendum og fundið til og þannig orðið til að hugga í samlíðun okkar með þeim sem líður bölvanlega. En á tímum Jesú var nóg af því fólki sem þoldi órétt og ill örlög. Niðurlagsorðin í guðspjalli dagsins eru því sláandi eða þegar hann segir þessa mögnuðu setningu: „Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Og við þurfum að lesa hana uppá nýtt.

Eitt af því sem rennir stoðum undir þessa sýn á sæluboðin er að hvergi segir Jesú tollheimtumönnum og vændiskonum að þau skuli iðrast og syndga ekki framar. Hann veit, sem er, að þau eiga sig ekki sjálf og eiga enga möguleika á því að snúa frá því sem þau eru að gera. Þau eru þrælar. Hann segir einfaldlega við þau: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Og „Ég ásaka þig ekki.“

Og það voru samt ekki þeirra syndir heldur syndir samfélagsins. Hann hét þeim ekki verðlaunum heldur boðar hann þeim að þau eigi þegar sinn skerf í arfinum. Arfur er ekki laun heldur eign sem þú átt en átt eftir að fá afhenta. Þau voru sæl af því að arfur er sú djúpa ást sem miðluð er frá einni kynslóð til annarrar. Það er hinn mikli arfur trúarinnar sem við höfum þegar fengið afhentan, kærleikurinn í Jesú Kristi.

Ég var á fundi í Borgarnesi í gærkvöldi og nokkrir ræðumenn notuðu ávarpið: „Vígslubiskup, fundarstjóri, kæru fundarmenn.“ Jesús stóð upp og hóf ræðu sína, eina frægustu ræðu mannkynssögunnar, á því að ávarpa þau sem áttu ekkert og nutu ekki þjóðfélagsstöðu né snefils af frelsi eða virðingu. Hann ávarpaði þau sem segja einsog í sterkri kvikmynd Baldvins Z: „Lof mér að falla.“ Þar er ein saga af börnum í fjötrum okkar daga. Enn eru manneskjur fátækar í anda og mæddar í sorg.

Sæluboðum Jesú, átta sæluboðum í inngangi Fjallræðunnar, má skipta í tvennt. Annar hlutinn er af sama toga og ég hef gert hér að umfjöllunarefni en hinn er ávarp til fólks sem býr yfir dyggð eða einkunn í fari sínu sem er lofsverð. Það eru hógværir, miskunnsamir, hjartahreinir og friðflytjendur. Þau eru sæl af því að þau geta hjálpað hinum, sem líður ömurlega og gráta í harmi sínum, fjötrum eða vonleysi. Frelsarinn byggir erindi sitt á að styrkja góða fólkið til að rétta hlut hinna. Tilhneiging ofbeldisfólks á öllum tímum er að kúga ekki bara þau sem hægt er að þjaka og hneppa í þrældóm heldur ráðast einnig á þau sem eru hógvær, miskunnsöm, hjartahrein og boða frið. Það er um að gera að reyna að snúa þeim frá því að hjálpa hinum, er gráta, en öðrum kosti verði þau bara þar líka fljótlega sjálf í ömurlegri stöðu. Við þurfum að varast að fólkið sem vill hjálpa flóttafólki lendi ekki sjálft í óeiginlegum flóttamannabúðum. Þessu var hótað berum orðum í Bandaríkjunum á árum áður í orðatiltækinu að sá sem hjálpar blökkumanni er sjálfur blökkumaður.

Drottinn skerpir sannarlega á köllun okkar og ábyrgð gagnvart náunganum og samfélaginu í hvert skipti sem við hlustum á orð hans. Við erum kölluð til frelsis og friðar. Við höfum það gott og erum sæl af því að það hefur aldei nein kynslóð haft meiri möguleika á því að rétta hlut lítilmagnans. Aldrei fyrr hafa verið fleiri bjargir. En mest um verð er sú staðreynd að aldrei hefur almenn réttlætiskennd verið meiri og samskipti aldrei auðveldari með allri okkar nútímalegu tækni til að breiða út knýjandi viðhorfsbreytingar. Sjáið bara #metoo sem við eigum ennþá eftir að vinna mikið úr. Það breytti sýn okkar.

Svo erum við sælli en nokkru sinni fyrr af því að aldrei hefur nokkurri kynslóð verið fært betra tækifæri til að mæta ógnum loftslagsbreytinga. Við fögnum þess vegna nýjustu áætlun stjórnvalda sem var á svo auðmjúkan hátt kynnt í gær í gamla Austurbæjarskóla, enda erum við í skuld við æsku landsins, jörðina sjálfa og allar þær kynslóðir sem borið hafa okkur hingað. Við höfum þekkingu til að rétta við hlut jarðarinnar og þá alveg sérstaklega gagnvart þeim löndum sem hafa færri bjargir en við þessi ríka þjóð. Við erum sæl af því að við getum séð til þess að aðrir hafi ekki áhyggjur og sæl í ábyrgð okkar gagnvart fátækari hluta mannkyns. Okkar helsta áhyggjuefni á Íslandi í dag er hvort við vinnum eða töpum næsta landsleik í fótbolta. Kannski jöfnum við metin við enn eina stórþjóðina í dag. Okkar áhyggjur eru oftast lúxus-áhyggjur eða tilbúnar ógnir. Við erum ekkert á þeim stað sem þjóðin var við lok 18. aldar í örbirgð sinni eftir hörmungar Skaftárelda og Suðurlandsskjálfta og þurfti nær öll að flýja eigin bæi. En við erum sæl að vera núna í þeim flokki þjóða að geta sýnt miskunnsemi, hjálpsemi og réttlæti í þessum málum öllum sem raunverulega ógna framtíð fátækari landanna eða hinna stríðshrjáðu. Frá báðum þessum aðstæðum flýr fólk í dag einsog við áður undan súlfat-sóti Laka á þeirri öld. Líka var flúið frá sótinu af bruna háhýsanna í New York ellefta september 2001. Allir hafa einhvern tíma þurft að flýja og eiga því að geta sett sig í spor þeirra sem núna eru á flótta undan ógn, þorsta eða hungri. Beygjum okkur fyrir því og lútum höfði með þeim sem þjást, hópi samtíðarfólks sem misst hefur allt nema kanski vonina.

Tímabil sköpunarinnar er byrjað í kirkjunni og við minnumst þess að Drottinn hefur gefið okkur tíma haustsins. Okkur er bæði ætlað að njóta sköpunarinnar og gæta hennar á breytingartímum. Núna er tíminn, í allri núvitund, til að grípa til betri lifnaðarhátta og meðferðar á því skapaða svo við gerum ekki útaf við jörðina með óréttmætri notkun eða lífsvenjum. Það góða er, að í boðskap dagsins er talað um að við eigum ekki að hafa áhyggjur og það er fagnaðarerindi okkar. Við eigum ekki að hafa áhyggjur af því sem að okkur snýr, enda erum við að fá hér gott tækifæri. Það er tækifæri vegna þess að hægt er að breyta öllum venjum.

Boðskapur dagsins felur í sér bæði góðar fréttir og slæmar. Góðu fréttirnar eru þær að við getum breytt allri þróun. Slæmu fréttirnar fyrir marga eru þær að við þurfum að breyta okkar eigin venjum. Við þurfum sjálf að vakna og það eru líklega ekki of góðar fréttir fyrir þau sem vilja sofa örlítið lengur. Viðhorfsbreyting er á allan hátt merkilegt fyrirbæri. Í fyrsta lagi er hún ekki áhyggjuefni ef við hlustum á boðskap dagsins. Við tökum því með fögnuði að fá tækifæri okkar daga og vörumst freistinguna að túlka áhyggjuleysi með ábyrgðarleysi. Í öðru lagi er hún möguleg og þá fyrst og fremst möguleg fyrir hvern og einn. Í þriðja lagi getur hún orðið algjörlega almenn ef hún er byrjuð á annað borð eða kemst á skrið í samfélaginu.

Fagnaðarerindi Krists snýst alltaf um frelsun og líf en ekki hræðslu. Orðin hér í kirkjunni eru því heilög og helga manneskjuna, vegna þess að Kristur, sá sami og flutti okkur sæluboðin og lét okkur varpa áhyggju okkar á sig, er sá sami Drottinn sem reis upp frá dauðum og reyndist vera Frelsari mannkyns og allra barna þessa heims. Fylli andi hans ríkulega, hjörtu okkar og huga, í guðsþjónustu í helgidómi hans, fylli hann menninguna og þjóðfélagið allt merkingu sinni og fylli hann líf okkar krafti sínum með von eilífs lífs. Þá vöknum við upp við það að Guð er að bera umhyggju fyrir okkur þegar við erum sömu megin og auðmýktin, tiltrúin og elska Drottins. Og hún er hér í ríkum anda hans.

Prédikað er út frá ritningarlestri 15. sunnudags eftir þrenningarhátíð:

Lexía: Jesaja 49.13-16a

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð, þér fjöll, hefjið gleðisöng því að Drottinn hughreystir þjóð sína og sýnir miskunn sínum þjáðu. En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“ Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér.

Pistill: 1. Pétursbréf 5.5c-11

„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matteus 6.24-34

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Heim að Hólum í Hjaltadal

Nú skal haldið heim að Hólum í Hjaltadal um helgina á Hólahátíð. Það verður stór stund fyrir mig en stærstu stundirnar eru þegar ég hitti þar góða vini. Ég vonast því eftir að hitta sem flesta Norðanmenn og unnendur sögu, kirkju og skóla á Hólum. Ég hlakka til samverunnar og endurfunda. Það er gott að heyra að sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, Hólabiskup, ætlar að heiðra minningu kvenskörungsins Halldóru Guðbrandsdóttur sem annaðist föður sinn herra Guðbrand Þorláksson í veikindum hans á efri árum og annaðist einnig allan rekstur Hólastóls á sama tíma. Það fer vel við annað aðal efni hátíðardagskrárinnar um fullveldi Íslands sem einnig var fjallað um á Skálholtshátíðinni í júlí.

Og þarna vígði sr. Sigurður Guðmundsson, vígslubiskup, mig til prestsþjónustu 9. júlí 1989 og ég minnist hans ætíð með hlýju og virðingu. Á myndinni leggur vígslufaðir ungum manni á hjarta að sinna þjónustunni af eindrægni og ósérplægni enda gerði hann það sannarlega sjálfur sá mikli mannvinur, félagsmálamaður, kennari og höfðingi á sinni tíð.

Ég nefni þetta bara sem dæmi um að margir eiga margar góðar minningar á Hólum sem gaman er að vitja á Hólahátíð. Það eitt og sér er ærið tilefni til að koma í messu og kaffi á helgum stað.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Að sjá hluta fyrir heild

Á forsíðu Mogga í morgun er turnspíra og kross Hallgrímskirkju í forgrunni og sér þar um fallega borg, flóa, fjöll og ský. Við vitum að þetta er stóra kirkjan á Skólavörðuholtinu sem vísar á mikið kirkjulíf. Við sjáum allt lífið í Reykjavík með því að kannast við svolítinn hluta hennar á myndinni. Faxaflói komst ekki allur á myndina en við „sjáum“ hann allan af þessum hluta og þar með allar hafnir, lífæðar samfélagsins. Stef myndarinnar er greinilega hluti fyrir heild. Ég er enn að fá viðbrögð af annarri mynd okkar frábæra ljósmyndara, Árna Sæberg. Það er líka mynd af hluta fyrir heild. Þá birtist (á fréttamynd ársins) agnarlítill hluti af helgigöngu til kirkju. Við erum læs á hluta fyrir heild (pars pro toto) og þess vegna „sáum“ við flest af forsíðumyndinni úr Skálholti allt kirkjunnar fólkið sem tók þátt í hátíðarmessunni, yfir 700 manns. Vindurinn í skrúða þeirra táknaði líka sitt, ýmist öll veður eða heilagan anda en það er hreyfiafl kirkjunnar. Myndin var hluti fyrir heild. Hlutinn sem birtist voru biskupar, prestar og djáknar sem þjónuðu í messunni. Í heildina var hún mynd af öllu því fólki sem hafði þegar sest inn, öllum 70 prestum og djáknum sem voru í hempum og ölbum og fremst fór meðhjálparinn með krossinn á lofti. Einnig „sáum“ við Skálholtskórinn sem kom næstur í fylkingunni á eftir biskupi Íslands og allra síðast gengu svo inn pílagrímarnir og settust á kirkjugólfið. Hver manneskja var í sínum skrúða og sumir berfættir, margar konur á upphlut og skautbúningi, flestir á sparifötum en aðrir ferðbúnir. Svona er kirkjan fjölbreytileg og opin í þjónustu sinni.

Í ljósi þessarar kenningar um hluta fyrir heild skulum við líka ganga inní næstu helgi af heilum hug. Hún er mikil ferðahelgi og vil ég vona að myndir af hluta fyrir heild verði allar af brosandi fólki, skemmtilegum viðburðum, fagurri náttúru og gleði fjölskyldu og vina. Guð blessi þessa miklu ferðahelgi og hvern einasta hluta af birtíngarmyndum fagnandi fólks allt til enda helgarinnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd