Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Í dag hljómar yfir allar okkar jarðir og lóðir einn og sami ómurinn um Guð vors lands og land vors Guðs. Það er ekki land guðanna okkar eða goða. Það er þessi Guð vors lands sem skáldið á Sigurhæðum ræðir um og byggir lofsönginn af í ljósi Jeremía, í ljósi Jesaja og ekki síst í ljósi 90 sálms Davíðs. Á því byggjum við alla okkar byggð. Við byggjum það á orði. Í flestum löndum er vísað til orrustu eða sigurdags eða annarra viðburða sem í mörgum tilfellum vísar óbeint á að blóði hefur verið úthellt til að hægt sé að fagna þjóðhátíð í landinu. Hjá okkur er það Orð Guðs.

Á vissan hátt má segja að það byggi á baráttu. Í okkar tilfelli, sem er all nokkuð sérstakur bakgrunnur eða uppruni þjóðsöngs, er vissulega byggt á mati á baráttu. Nema baráttan sem þjóðsöngur okkar vísar til er barátta hvers einasta barns fyrir því að fá að lifa og dafna. Smáblómið er með tirtandi tár. Þetta er barátta þess er vill lifa en er háður því sem kallað er forgengileiki tilverunnar. Allt líf er sem gras er vex upp og er vissulega blómi lífsins. En svo kemur sú barátta sem hvert einasta smáblóm þarf að beygja sig undir eða heyja eftir því hvernig á það er litið að vera dauðlegur í líkama sínum. Um þetta yrkir sr. Hallgrímur svo fallega í sálminum um blómann sem sláttumaður dauðans leggur að velli, hvort sem það er snemmt eða síðar:  

„grösin og jurtir grænar, / glóandi blómstrið frítt, / reyr, stör sem rósir vænar / reiknar hann jafnfánýtt.“

Það er baráttan, að líf mannlegt endar skjótt. Það er það líf sem byggir á Orði Guðs á þann hátt að það ber þó með sér eilífðina og fegurð hennar í blóma sínum af því að ef það líf mannlegt elskar og virðir Guð sinn og eilífð hans og sér sig sjálfa í mynd þess sem er eilíft er fegurðin aldrei meiri. Fegurð mannlegs lífs er fagurt og ber með sér eilífðina ef það byggir á trú og eilífum gildum þess er aldrei endar eða aldrei fölnar. Fegurð heimsins hverfur en Orð Drottins vors varir að eilífu. Sú fegurð heimsins sem byggir á því er fögur af því að það lifir og ber áfram vonina um eilíft líf í Guði og Orði hans. Það er líklega þess vegna sem Matthías á Sigurhæðum talar um eilífðar smáblóm. Við erum þá eilífðar smáblóm sem ber í sér mesta sigur þessa lífs en það er að lifa þótt það deyi. Það lifir af því að það byggir líf sitt á því sem er eilíft í anda eilífs Guðs af því að það er land vors Guðs og af því að hann er Guð vors lands.

Í stríðshrjáðri Evrópu er rétt að draga það fram að þrátt fyrir harða lífsbaráttu genginna kynslóða og baráttu þeirra fyrir því sem við njótum í dag á Íslandi var sú barátta ekki háð á vígvelli eiturs og púðurs og blóðugra byssustingja eða einsog á dögum á launsátri hugleysingja sem sitja á bak við skjáinn sem stýrir drónum og banvænum spjótum yfir saklaust fólk. Það er ekki hetjudáð að vaða blóðugur upp að öxlum og ganga í skrokk á nágranna sínum. Veri þeir volaðir sem gera þannig árás á náunga sinn sem treystir á frið og farsæld og líka á kirkju sína að hún myndi frekar bera klæði á vopnin en standa með harðstjóra sínum eða týranní.

Stríð í Evrópu á okkar dögum er rangt, á dögum þegar við ættum öll að vera að fagna sigri samstöðunnar sem lægði framgang Kóvíd-veirunnar á aðeins rúmum tveimur árum. Við ættum að vera að fagna því gjörvöll heimsbyggðin í ljósi þess að á öldum áður óðu heimsfaraldrar, drepsóttir og önnur slík óáran oft til fjölda ára og var engu síður banvæn hér á landi þegar hún kom nokkrum árum aftur að vitja þeirrar sveitar þar sem enn voru heimili og bæir sem sloppið höfðu í fyrri yfirreiðum hennar. Þetta hefur Hannes Finnsson, Skálholtsbiskup, tekið saman á svo einstakan hátt að kalla verður bók hans „Mannfækkun af hallærum“ sígilda meðal íslenskra rita. Þar er baráttu þjóðarinnar rétt lýst. Það er á lífsbaráttu þessara smáblóma fyrri alda, fyrri kynslóða, sem farsæld okkar byggir. En sú barátta byggði á ríkri von um eilíft líf, líf í Jesú nafni.

Þess vegna lofum við hans heilaga nafn og það er þess vegna sem baráttan í sálmi sr. Hallgríms endar á þeim mikla dýrðarsöng sem hann gerir:

Ég lifi’ í Jesú nafni, / í Jesú nafni’ eg dey, / þó heilsa’ og líf mér hafni, / hræðist ég dauðann ei. / Dauði, ég óttast eigi / afl þitt né valdið gilt, / í Kristí krafti’ eg segi: / Kom þú sæll, þá þú vilt.

Og þessa játningu byggir hann á uppstiginu í 10. versi sem hann byggir á orðum Jobs, sem hafði misst allt í baráttunni fyrir lífsviðurværi sínu en misst líka heilsuna og misst ástvini sína og misst fénað og akur og allt sem hann hafði átt og notið. Þegar vinir Jobs höfðu komið til hans og reynt að fá hann þó til að hallmæla Guði sínum fyrir þessi vondu kjör sjáum við hann fyrir okkur rísa við dogg og líta í augun á þessum vinum sínum og segja „Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu.“ Í trúarmætti sr. Hallgríms, sem einnig hafði misst og einnig hafði ekki fengið neitt eftir löngun sinni fáum við það einstaka tíunda vers sem ætti að syngja allra hæst:  

Ég veit, minn ljúfur lifir / lausnarinn himnum á, / hann ræður öllu yfir, / einn heitir Jesús sá, / sigrarinn dauðans sanni / sjálfur á krossi dó / og mér svo aumum manni / eilíft líf víst til bjó.

Þetta er baráttan og sigurinn sem þjóðsöngur okkar vísar til og byggir á en umfram allt er það þessi von og þessi trú sem landið byggir á og þjóðin sem elskar Guð sinn. Í annarri trú í landi þeirrar fjölmenningar sem Ísland er að  verða og er á vissan hátt þegar orðið er það sama von og trú í brjóstum þeirra sem einnig eiga guð og einnig eiga von. Vonlausir eru vissulega volaðir engu síður en þeir sem troða á von og trú annarra eða vilja umfram allt deyða alla von um frið og elsku eða von um að kærleikurinn muni sigra en ekki dauðans blóðuga vald spjótalagna og sprengjuregns.

Og hvurnin tölum við þá inní þennan heim þar sem stríð er enn í löndum Evrópu eða þegar enginn getur keypt sig frí en við öll þurfum að láta nótt sem nemur og saklaust fólk þarf að keppast við að bægja frá sér öllum kvíða. Það má til því ekki má það gerast að við drögumst ofan í það hyldýpi illsku og mannfyrirlitningar sem árásarstríðið er komið neðan úr. Svo við verðum ekki samdauna og að við fáum staðist þrátt fyrir að okkur hafi verið sýnt ofaní háskadjúpið.

Mér er nær að líta til jóska prestsins Kaj Munk sem prédikaði svo vel í dönsku kirkjunni sinni að það féll þeim illa sem töldust ráða í Þriðja ríki Hitlers og réðu á þeim tíma einnig yfir Danmörku. Kannski er mér það minnisstætt þar sem ég er nýkominn frá yndælu Danmörku. Kaj Munk var tekinn af lífi af Gestapó skömmu fyrir stíðslok (4. janúar 1944) en eftir hann liggja vonglaðar og bjartar prédikanir frá þessum háskatíma sem þýddar hafa verið og eru okkur m.a. aðgengilegar í bókmenntaarfi Sigurbjörns biskups. Ein er sú ræða sem ég hef nýlega vitnað til við fermingarmessu hér skammt frá í Biskupstungunum. Það er ræðan hans við fermingarmessu í sínum sóknum sem enn er full af baráttu fyrir innri friði og vissu vonar og gleði á ógnartíma. Það er rétt að rifja það upp núna þegar allri Evrópu stafar ógn af stríði, nokkru sem ætti fyrir löngu að vera orðið algjörlega úrellt fyrirbæri. Horfið einsog hver önnur risaeðla úr samfélagi manna.

Presturinn Munk talar til fermingarbarna sinna um fegurðina og minnir þau á hvað þau eru lánsöm að eiga svona fallegt land og hvað þau eiga góðan konung og hvað þau eiga fallega sálma í kirkjunni og hvað þau eiga ríka og mikla von sem þau geta alið í brjósti hvað sem gengur á. Hann minnist varla á illskuna eða hramma þess brjálæðis sem hertekið hefur landið þeirra en talar fullur vonar um frelsi landsins sem aftur verði því það er fólgið í eðli lands og þjóðar. Landið okkar er land Guðs og á því landi mun aðeins það góða fá að dafna og ef það eru þrengingar mun hvert mannsbarn, í svo góðu landi, eiga von um betri tíma. En í voninni má heldur ekki gleyma því góða fólki sem er að leiða þjóðina undir merki krossfánans í gegnum móðuna af byssupúðri og spúi illra vopna. Mitt í hersetnu landi situr fólk sem er lánsamt. Það segir Munk. Við erum í blóma. Hann dregur fram vonina sem hann sér búa í brjóstum unga fólksins og sérstaklega á þessum degi í brjóstum fermingarbarna sinna. Það þýðir ekki að fást um það að við erum öll háð hverfulleikanum sem býr í heiminum og öllu sköpuðu. En við getum ekki misst vonar vegna þess að hún er í okkur. Guðsríkið er innra með okkur og verður ekki rifið þaðan. Kristur kom því fyrir hér í hjartanu – í microcosmos hverrar lifandi manneskju. Við erum lánsöm að eiga svo djúpa og ríka von, sem hér er minnst á, af vörum allra sem ort hafa í okkur kjarkinn til að lifa, vona og starfa undir krossfána Jesú Krists. Sigurmerkið er sjálft líf okkar og líf okkar er í friði hans. Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Að sökkva ekki í hyldýpi illskunnar með hatri

Á torginu fyrir framan ráðhúsið í Kharkiv.

Við lifum ótrúlega tíma þar sem öll heimsbyggðin er neydd til að horfa ofaní hyldýpi illskunnar með innrás Rússneska hersins inní Úkraínu. Horfi ég þar helst á sprengingar og árásir á sjúkahús, íbúðabyggðir og saklausa borgara. Þetta snertir okkur öll og börnin okkar líka að sjá jafnaldrana á flótta eða í neyðarskýlum. Við þurfum að finna leið til að sogast ekki ofaní hyldýpi illskunnar með hatrinu öllu og morðum í stríði, mannréttindabrotum og eigna- og menningartjóni. Mest er tjónið þegar orðið sem varð þegar friðurinn var rofinn.

Ef við förum að dæmi Desmund Tutu, erkibiskups í Suður Afríku, sem núna er nýlega látinn, sagðist hann hafa verið neyddur til að sjá ofaní þetta illskudjúp en ákvað að hverfa ekki ofaní það með þeim sem hata og drepa og nýðast á saklausu fólki og brjóta gegn öllum boðorðum Guðs.

Það væri fáránlegt að dragast inní orðræðuna sem notuð hefur verið til réttlætingar á morðum, dauða og hörmungum. Við þurfum að sjá þetta í gegnum tárin á kinnum barnsins og móðurinnar sem flýr með það í örvæntingu sinni í leit að skjóli og friði. Þau tár eru tær og ef við speglum okkur í þeim og grátum með þeim líka sjáum við að eina svarið er öryggið sem felst í kærleika og miskunnsemi.

Við getum ekki annað en beðið fyrir baráttuþreki þeirra sem heyja varnarbaráttu fyrir landinu sínu, heimilum sínum og samfélagi sem vill vera öruggt, gott og fagurt.

Barn á flótta með skólatöskuna sína

Við getum ekki leyft okkur að belgjast upp í hatri á einn mann þótt svo virðist sem forseti Rússlands hafi misst vitið. Í einni ágætri fréttaskýringu í erlendum miðli er bent á að Úkraína er ekki endanlegt takmark Pútíns eða hernaðaraflanna sem eru með honum núna. Það er nær að skoða þau öfl sem ráða þessari drápsför og árás á fullvalda ríki. Það virðast vera öflin sem ekki sætta sig við það hvernig sagan hefur þróast í Evrópu síðustu þrjátíu árin. Það virðast vera öflin sem ekki hafa enn kyngt þeirri þíðu sem varð með endalokum kalda stríðsins og má segja að hafi m.a. átt sér stað með áfanganum í Höfða í Reykjavík og svo áfram með falli Járntjaldsins og falli Sovétríkjanna. Orðfærið er blygðunarlaust sótt í síðari heimsstyrjöldina og bendir það eitt og sér til sjúklegrar fortíðarhyggju. Einn mesti skaðinn er að brjálæði Þriðja ríkisins hefur verið ert með þessu tali á sviði þjóðernisofstækis og andgyðingleg öfl hafa verið vakin til verka. Stríðið hefur staðið í áratug og mun halda áfram ef þessi öfl sjá framgang í því að snúa við þróun í átt til friðar og frelsis einstaklingsins. Stríðið nærist og þróast á versta veg ef þessum öflum tekst að snúa við einingarviðleitni frjálsra og fullvalda ríkja Evrópu.

Stríðið mun fá fóður sitt og eldsneyti ef hin illu fólskuverk verða til þess að við förum að tala á sömu nótum. Þá höfum við dregist ofaní hyldýpi vonskunnar. Það er því mikilvægt að við höfum stjórn á okkar tungu og ekki síst í áheyrn barnanna og unga fólksins. Svarið er ekki hatur heldur vörnin sem við þurfum að byggja upp í kærleika og friði sem ekki samþykkir eða samsinnir óhæfuverkum illra afla. Svar okkar þarf að vera að halda uppi vörnum fyrir mennskunni og fegurð heimsins og svara því með miskunnsemi í garð þeirra sem núna þjást í styrjöldinni. Við þurfum að vera Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn. Við þurfum að vera Rauða stjarnan, þ.e. sú sem kennd er við Davíð, því hún stendur fyrir það í biblíusögunum okkar þegar vopnlausi lítilmagninn verst gegn innrásarliði og risanum Golíat. Guð gefi Úkraínu styrk í stríði og nauðum og Guð gefi nágrönnum æðruleysi og þrek að taka á móti saklausum borgurum sem flýja hryllinginn og styrki Guð líka þau sem óttast um það í nágrenninu hvert þessi háskalega þróun um þróast áður en friði verði komið á að nýju.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð

„Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Það er merkilegt hvað aldagamlir textar tala mikið til okkar og inní okkar aðstæður aftur og aftur. Messufall var hluti af okkar aðstæðum um nýliðin áramót. Það var mjög erfitt en svo bætti í veðrið. Þá má segja að óveður hafi lagst á sveif með veirunni og gegn kirkjusókn á nýársdag. Fjöldi landsmanna komst hvorki lönd né strönd og hvað þá yfir heiðar. Ef við fylgjum eftirdæmi Jesú ber okkur annars að vera í húsi föður vors og koma til kirkju.

Andleg uppbygging nauðsyn

Janúar 2022 mun bera með sér nokkrar takmarkanir á samkomum en kristinn söfnuður er söfnuður vegna þess að fólk kemur saman. Verði enn miðað við 50 manna takmarkanir út janúar munu 50 manns geta komið saman með allri varúð í sóknarkirkju sinni. Við viljum komast til kirkju og dvelja þar helst í guðsþjónustu eða messu en við verðum að fara jafn varlega og þegar við förum út í búð að versla eða mæta í vinnu og sækja tómstundir okkar. Allt þetta er manneskjunni nauðsyn. Andleg uppbygging er nauðsyn og hjálpar til við allt annað sem bætir manneskjuna. Þegar þetta fer saman getum við gert okkur vonir um að græða mannlífið og gera samfélagið heilt aftur.

Hvers vegna leitum við Jesú?

Þar sem þetta er óneitanlega snúið að vera til á okkar dögum gæti verið gagnlegt að taka fyrst fyrir fyrri spurninguna sem Jesús tólf ára spurði foreldra sína eftir að þau fundu hann á spjalli við öldungana við musterið. Þau höfðu leitað hans í þrjá daga og voru frekar stutt í spuna þegar þau fundu hann loksins. En hann svaraði: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér?“ Þá hljótum við að spyrja okkur í dag hvers vegna við leitum Jesú? Við þurfum ekki að setja okkur í fótspor foreldra til að skilja það hversu mikilvægt er að við leitum fundar við Jesú, hvers vegna við horfum til guðsþjónustunnar og Orðsins og sálmanna og að sjá aðra í helgum stað.

Allir þekkja hann

Textinn er Ritningarlestur sunnudagsins milli nýársdags og þrettándans. Það er dagurinn milli dagsins þegar Betlehembarnið var nefnt Jesú og dagsins þegar það birtist í lotningu hirðanna og vitringanna að þessi nefndi Jesús væri Kristur, Drottinn, Frelsari mannkyns. Ég reikna með að við dveljum þarna oft í þessu millibilsástandi. Við þekkjum Jesú með nafni og syngjum um hann og segjum börnunum okkar sögur af þessum Jesú. Allir þekkja hann og allir viðurkenna og neita því allavega ekki að hann hafi verið til og þetta hafi verið nafnið hans. En svo kemur að birtingarhátíðinni, epífaníunni, og þá fækkar í hópnum. Það þarf meira til að sjá þessa nafnkenndu stóru persónu í mannkynssögunni sem Drottinn og játa að hann er þess umkominn að hjálpa okkur í öllum okkar aðstæðum. Hann frelsar og býður okkur að þiggja það sem er gott og fagurt í lífinu. Hann kynnir fyrir okkur hvaða leið það er sem við getum farið til að nálgast fullkomnun í þessu fagra og góða lífi sem hann opnar okkur einsog bók. Hann líkur þessu upp og við göngum inní það ef við viljum taka við þeirri umbreytingu sem í því felst að sjá hann upprisinn og nógu máttugan til að koma öllu því til leiðar sem felst í fagnaðarerindinu um hann sjálfan, sjálfan Guð.

Umbreytingin sem læknar

Ef við þiggjum þessa umbreytingu og breytum hugarfarinu í samræmi við það mun samfélagið breytast til hins betra. Það er þá fyrst sem við getum talað um samtakamátt sem byggir á heilbrigðum kærleika og von okkar allra sem trúum á Jesú Krist. Þá sjáum við hvernig það er hann sem læknar og leysir úr hverjum vanda. Með þessari trú er snúið aftur frá einangrun og sóttkvíum til betra samfélags vegna kærleikans og heilnæmis þar sem hlúð verður jafn vel að huga og líkama. Þá erum við aftur einhuga í heilbrigðu samfélagi. Hér er margt að vinna og við þurfum að vinna úr erfiðri reynslu og við þurfum að vinda ofanaf ofbeldi og misnotkun sem því miður hefur verið dulið í einangruninni. Ekkert er Kristi hulið og auga hans er vitund okkar um nærveru hans. Réttlæti hans er öruggt og vonin sem hann býður er sterk. Kærleikurinn sem hann stendur fyrir og sem hann táknar alla leið á krossinn og í sigri hans í upprisunni. Við minnumst þess á hverjum sunnudegi og getum ekki annað en haldið þeim dampi að þjóna honum á helgidegi hans. Gildir þá einu hvort við finnum okkur heima á heimilinu, í gististað eða heima í húsi Guðs. Nema heima í kirkjunni erum við saman og sjáum að andlegt samfélag fólks er mikilvægara en nokkru sinni. Áður fyrr voru það oft samgönguleysi og ófærð sem komu í veg fyrir alvöru samfélag þeirra sem trúa.

Innan skamms munum við sjást

Á okkar dögum er einangrunin orðin stafræn og eins góð og tæknin getur verið getur hún aldrei komið í staðinn fyrir raunverulega nánd sem meðal annars felst í því að koma saman í kirkju. Við erum vonandi öll að vona að sá dagur komi óðum sem það verður aftur hægt því við höfum saknað þess að sjást í kirkju. Þá verður gleðin mikil. Innan skamms munum við sjá það. Það verður þá sem við tökum undir með sálmaskáldinu í Davíðssálmum sem segir þennan sunnudag í millibilsástandinu:

„Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði, hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?“

Komi sá dagur ef það er vilji Drottins. Komi gleði hans yfir okkur einsog regn eftir langan þurrkatíma. Komum þá til hans sem gerir samfélagið okkar gott og fagurt og fullkomið í anda og einum huga. Slíkur er kraftur hans og máttur sem enginn annar getur státað af og ekki einu sinni maðurinn sjálfur. Við þurfum hans við og þráum að finna nálægð hans í okkar aðstæðum, kærleika hans í okkar æðum og friðinn hans í huga þess er trúir.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Að muna sumar og læra landið

Prédikun mín vð hátíðarguðsþjónustu 17. júní í Þingvallakirkju

Gleðilega hátíð, kæru vinir, lýðveldishátíð, þjóðhátíð, gleðilega hátíð!

Það er ekki víst að allir finni sumarstemninguna eða yl og angan sumars hríslast um sig þessa dagana á okkar annars fagra landi. Það er líklega eitthvað annað sem við finnum hríslast og það er viðbúið að nokkur finni kuldahrollinn frekar en hátíðarhríslinginn fara um sig. Þá þurfum við einhvern veginn að muna að það er sumar. Við þurfum að treysta á minnið og breiða allar hlýju sumardagana yfir það sem núna blasir við og þá verður það hlýtt. Þetta er vissulega auðveldara við gluggann í stofunni heima eða hér við krosslagða glugga kirkjunnar okkar á Þingvöllum. En hvar sem er hlýtt finnst okkur að við njótum alls af gróðri og fegurð jarðarinnar. Að muna góð sumur er ekki endilega aðferð til blekkingar eða afneitunar á því sem við blasir núna. Enginn Pollýönnuleikur í presti.

            Að muna betri daga er sjálf menningin. Menning er ekki aðeins það sem er að gerast núna á líðandi stundu heldur er hún eitthvað sem stendur sem toppur eða yfirborð þess er stendur uppúr á okkar dögum byggt á öllu því sem allir aðrir hafa verið að gera síðustu aldir, menningarlega. Það er þá menningarminni.

            Á þessum sumardögum er nauðsynlegt að hafa ekki bara ímyndunarafl í lagi heldur þarf að hafa náttúruminni. Við þurfum að muna að við fengum þetta land og það er skapað fyrir okkur einhvern veginn eftir því sem hver og einn skilur það í trú og tilfinningu. En það er okkur öllum holl áminning í náttúrufari okkar daga að muna það vel að við fengum þetta land – okkur hefur hlotnast það. Landnám er auðvitað fallegt orð en í hugsun okkar dýpst inni gerum við okkur grein fyrir því að við erum enn í námi, enn að læra hvers vegna við fengum Ísland og muna hvernig við fengum fullveldi og svo lýðveldi og urðum að fullu ábyrg fyrir landinu, náttúrunni, nýtingu og ljóma og yndi, ábyrg fyrir vernd þess og hverju blómi, hverri rós og hverri minnstu og stærstu skepnu sem lifir hér. Og þá líka gagnvart þeim sem koma í heiminn hér og hingað koma í okkar heim af öðrum heimalöndum.

            Í þeirri grein guðfræðinnar sem nú er hvað mest á lofti er guðfræði frelsunar eða frelsis, guðfræði umhverfisins og vistkerfa, en líka guðfræði landsins. Þetta þýðir á mannamáli að í þessu landi, sem okkur hefur hlotnast af hendi Guðs, á að vera stundað réttlæti, og frelsi hvers manns tryggt, hér skal gæta að umhverfinu, loftslagi og meðferð lands og náttúru, en líka skal hugað að þeim skilyrðum sem Guð setur með því að gefa okkur þetta allt.

            Það er svo fallegt að heyra að Guð muni veita okkur allt sem við biðjum hann um og hann muni gefa okkur allt sem við óskum og hann muni ljúka upp öllum dyrum svo við getum gengið inní ljóma og dýrð þess er hér er í boði. Þá er líka jafn gott fyrr okkur að lesa áfram og klára versin í þessum orðum Jesú hér í dag. Það fylgir því boðorð að þiggja. Í dag er það þetta sem allir kunna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður skuluð þið og þeim gjöra.“ Það er ekki einsog einn eyjapeyinn fór með þetta þegar ég hlýddi fermingarbörnunum yfir: „Þú skalt gera öðrum það sem þeir gera við þig.“

              Það er dáldið gamli tíminn, gamli siður, nokkurs konar frumsiður. Ég held ég fari ekki neitt útí hefndarskylduna eða hvötina sem er frumstæð í manninum þótt það væri freistandi að minna á takmörkin eða þakið á hefndinni. Elsta bremsan á hefnd sem ég man eftir er að það má ekki taka nema auga fyrir auga, ekki meira en tönn fyrir tönn. Frumstæðan í manninum hefur í gegnum tíðina snúið þessu á hvolf og talið skylt að hefna. Það er samt á hinn veginn bókmenntalega, menningarlega og biblíulega rétt að taka þessu sem takmarkandi ákvæði. Guð segir líka beinlínis að fólki eigi ekki að hefna heldur er það hans. Og þá er það takmarkað líka þar sem hann hefur þá yfirsýn að hann sér lengra en okkar augnabliksreiði eða æsingur sem nær ekki lengra en nefið á okkur, yfirleitt, og er auk þess sjaldan á rökum reist. Þess vegna hefur honum þótt fara betur á því að hafa það þannig að hann sjái um alla hefnd – til að draga úr líkum þess að nokkur hefni nokkurs. Á góðum dögum gátu sumir bændur ekki notið vorblíðunnar og sögðu að þetta myndi hefna sín. Engin hætta á því í dag að við séum að kalla yfir okkur hefndir í veðurfari.

            Og þannig er einnig með gæðin og góðmennskuna, góðu verkin og kærleikann. Um það er miklu meira fjallað af því að það er það sem á að einkenna samfélagið okkar. Allt er það komið frá Guði á þann hátt að það er hann sem elskar og leggur upphaflega ást á manninn. Það er manneskjunni til eftirdæmis en kærleikur okkar byggir á ákvörðun hans. Og það sem hann hefur þannig lagt upp með er okkur gefið og endurgjaldinu skal skilað til næsta náunga okkar. Allt sem ég hef gefið ykkur og gert fyrir ykkur skuluð þið gefa öðrum og gera fyrir aðra. Þetta stendur.

            Þetta kemur mjög skýrt fram á annan hátt líka. „Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. …“ Það er semsagt til heilla fyrir alla sem eru eitt hjarta í einni breyti, segir Jeremía spámaður.  Synir merkja hér afkomendur, niðjar, eða öllu heldur þau sem verða hér síðar eftir að við erum farin sem hann er að tala við núna. Þarna er þá komin líka hugmyndin að úrskurði Þorgeirs Ljósvetningagoða hér ofar á völlunum, handan árinnar í búðunum. Honum þótti viturlegt að hér yrði einn siður. Ein breytni er afar mikilvægt atriði eða forsenda fyrir því að við höfum þetta land og fáum að tilheyra þeim sem byggja Ísland í dag. Ef við förum að stunda ranglæti eða mismunun erum við að fyrirgera rétti okkar til að halda því sem okkur var gefið sem fólk þessa lands. Samtíðin þarf að einkennast af því sem spámaðurinn talar en bók hans er skrifuð í trú og byggir þannig á því sem betur endist en sögulegt efni. Og hugsið ykkur að þetta hefur staðist vel tímans tönn þar sem Jeremía er fæddur á 13. konungsári Jósía í Ísrael eða um 626 fyrir Krist. Hebrear fengu land og þeir misstu land, þeir keyptu land og þeir seldu land, þeir byggðu land og landið var brotið niður fyrir augum þeirra. Það sem varir er trúin. Og fólkið heldur frekar landinu ef það hefur eitt hjarta og eina breytni. Það er kenning sem byggir á trú en ekki endilega pólitík. Ég fullyrði þetta því það sem byggir á trú stenst hvað sem gerist ef það byggir þannig á trú að það taki mið af því sem er eilíft, Orði Guðs, boði hans, gjöf hans, kærleikanum í Guði og honum sjálfum sem alltaf hefur verið. Er og verður.

En af því að hann er enn hér á okkar dögum er hann enn glaður þegar hann sér að við förum eftir boðorðum hans: „Ég gleðst yfir þeim (segir Guð) og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.“

            Þetta er eina tryggingin og það eina sem við getum byggt tilveru okkar á því ekki byggjum við á sandi sem er kvikur. Við byggjum á þessum hömrum og klettum sem umlykja helgidóm þeirrar dýrðar sem Þingvellir vitna um með allri sinni umgjörð og fegurð. Hér voru lögin fyrst upp lesin og sem síðar byggðu á boðorðum og sáttmála Guðs við fólkið sitt, landslög fyrir fólk þessa lands. Nægir að nefna að Grágás er talin byggð á því elsta sem fræðimenn vissu þá um lög og sáttmála þjóðar um land. Leidd hafa verið að því rök að Grágás hafi einmitt verið byggð á lögmálinu í Fimmbókarritinu svokallaða, Mósebókunum, eða því sem síðar hefur verið nefnt eftir Fimmtu Mósebókinni sjálfri. Undir þeim áhrifum er Jeremía og fjöldi spámanna og guðspjallamenn á borð við Mattheus sem byggja á því að Guð hafi veitt fólki sínu land að búa í og byggja. Því fylgir ævinlega það sama sem við erum minnt á í dag. Enn á þessari hátíð og aftur og um allar aldir. Þú byggir ekki land nema þar sé eitt hjarta og ein breytni.

            Við getum ekki haldið áfram nema muna. Að muna hlýtt sumar og blíðan flugnaseiminn, fiðrildin og sólar-glampann á spegilsléttu vatninu, marrið í lyngi þar sem við stígum og þurran mó að setjast niður. Þetta þurfum við að muna og líka döggina eftir vökvun nætur. Það reynir á það núna í framhaldinu með sumarsólstöðum og svo náttúrulega Jónsmessunótt, nótt heilags Jóhannesar skírara, messa hans sem fæddist hálfu ári á undan frænda sínum Jesú. Við þurfum að muna jafn vel og innilega og við erum fljót að gleyma köldum dögum þegar hlýnar. Þessi öfuga hlýnun þarf að vera jafn fljótvirk. Það er af því að þetta er dagur einsog Drottinn ákvað að gefa okkur í dag. Ef við vinnum ekki út frá því erum við ekki þakklát. Við skulum þakka. Við skulum vera öðrum það sem Guð hefur verið okkur og alla á undan okkur. Alltaf hlýr, alltaf aflvaki lífsins og gleðinnar á jafn djúpan hátt og sólin er gróðri, sólin sem hann gefur.

             Að lokum vík ég aftur að Jeremía. Hann er sagður hafa verið ein hugrakkasta og dramatískasta persóna í sögu Hebrea og sögu Gyðinga. Líka vegna þess hvað hann var ungur kallaður og lét sig ungur hafa það að skamma kónga og tignarfólk, ráðamenn og miklu eldra og lærðara fólk. Við fyrirverðum okkur ekki fyrir ungan aldur Íslands ef við finnum köllun okkar að vera öðrum allt sem okkur er gefið.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Karlmennska og önnur kvenkyns orð

„Mamma, er til annað orð sem merkir það sama og karlmennska?“ Tilefnið var að afi hafði misst það út úr sér í hita leiksins í borðspilinu um jólin þegar hann vildi hvetja börnin áfram. Þau yrðu að sýna karlmennsku. Mamman ákvað að spyrja þennan afa dóttur sinnar, þann sama og átti mörg orð í handraðanum, hvort hann vissi um annað orð í stað karlmennsku. Nokkur orð komu til greina en málsbæturnar eru vissulega að þau voru öll nafnorð í kvenkyni líkt og karlmennskan. Það getur verið áræðin, hetjulundin, hugdirfskan eða hreystin. Allt á það við um leikinn þegar keppt er til sigurs. Þar er hvorki kvennaíþrótt né karla heldur bara leikur sem leiðir til sigurs.

Það minnir mig á að þótt sérnafnið Guð sé karlkyns eru orð sem notuð eru til að lýsa öllum helstu eiginleikum hans orð í kvenkyni. Þar er miskunnsemin, vægðin og gæskan að ógleymdri mildi Guðs og náð. Kærleikurinn er vissulega nafnorð í karlkyni en lýsir innri eiginleika elskunnar og þar með kjarna trúar.

Ef við viljum kynnast kærleikanum betur og fletta honum upp í samheitasafninu á orðaneti Árnastofnunnar koma ótal fléttur og flettur um hugtök, skyldleika, vensl og grannheiti. Kærleikurinn er vissulega margslunginn en það er fátt fallegra en að sjá hann þarna í miðri skýringarmyndinni. Honum er þá vel líst enda reynist hann vera allt í öllu. Besta hugtakið sem næst kemur kærleikanum er góðmennskan og hún er jú orð í kvenkyni. Vönduð manneskja er full af kærleika eða knúin áfram af kærleika. Allra besta manneskjan er sjálfur kærleikurinn sjálf.

Hjartagæska og hugdirfska

Hjartagæskan virðist í fljótu bragði vera algjör andstæða við karlmennsku. En þegar við skoðum karlmennskuna í ljósi nafnorða í kvenkyni, sem lýsa því hugtaki betur en mörg orð, kemur annað á daginn. Áræðnin, hetjulundin, hugdirfskan og hreystin eru einmitt þau orð sem þarf að hafa í huga til að ást og vinátta, sáttfýsi og fyrirgefning nái fram að ganga. Allt sem einkennir kærleikann gufar upp ef hugur fylgir ekki máli eða ef góðu verkin okkar missa sæmdarheitið framkvæmd.

Kristi er gjarnan lýst með orðinu kærleikur og talað er um að Guð hafi gefið mannkyni son sinn vegna þess að hann elskaði manneskjuna og heiminn hennar. Hann var knúinn af kærleika og Jesús reyndist vera kærleikurinn holdi klæddur og að öllu eðli. Enginn efast um að hann hafi þurft að berjast til sigurs með því á endanum að fórna sér algjörlega á krossi. Með þeirri hetjudáð og áræði, sem hann mætti án þess að svara fyrir sig, án hugarvíls, leiddi hann fram sigur lífsins yfir dauðanum. Þetta var ekki leikur í borðspili. Þetta var ekki skrifborðsæfing heldur raunveruleg umskipti í mannkynssögunni. Oft kemur kærleikurinn ekki sínu til leiðar nema með hugprýði og dirfsku. Inngrip Guðs í lífi manneskjunnar er sama eðlis.

Inngrip elskunnar

Elskan felur oft í sér inngrip í ólíðandi aðstæður, óþolandi harðúð hjartans og ofbeldi, en inngrip þarf til af því að hið fyrra þarf oft að hverfa. Hið nýja kemur þannig fram eða brýst fram af sama krafti og kærleikurinn þegar við sjáum hann koma í ljós í hverju hversdagslegu atvikinu af öðru. Við sjáum ást Guðs á manneskjunni líka í ræktarsemi ömmu og afa, frænku eða frænda, og í hjartahlýju barnsins. Við sjáum hana í allri lífsgleði, þolinmæði og blíðlyndi en kannski ekki síst í þeim vitsmunum að geta fyrirgefið og að geta auðsýnt elsku okkar til náungans. Það þarf oft visku, mannvit, skilning og styrka réttlætiskennd til að vera trú og staðföst svo að kærleikurinn fái að vinna sitt verk í samfélaginu. Og nú á seinni tímum þarf meira að segja stundum áræði til að gangast við því að trúa á nokkuð það sem er æðra en mannveran sjálf. Í ófærðinni núna, í hættu, flóðum, stormi og kafaldsbyl þarf enginn að efast um að við munum ekki sigrast á óblíðum aðstæðum í mannlegum krafti einum heldur aðeins með því að duga í trú okkar á gæsku Guðs, nálægð og elsku. Það er hún sem sést í verki þegar elskan og áræði hennar er sannarlega til staðar í inngripi, björgun í baráttunni fyrir lífi og heilsu en líka í frelsun í nærveru sálar.

Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup

Birt í General | Færðu inn athugasemd

„Ég kalla á þig með nafni.“ Prédikun Kristjáns Björnssonar á Skálholtshátíð 2020

Mattheusarguðspjall 28.18-20 (Skírnarskipunin). Jesja 43.1-7 (Ég kalla á þig með nafni). Rómverjabréfið 6.3-11 (… eins eigum við að lifa nýju lífi) (samgróin honum … rísa upp líkt og hann).

Við höfum valið okkur yfirskrift fyrir Skálholtshátíðina í ár úr orðum Jesaja spámanns, einum mesta uppáhalds spámanni kristins fólks um allan heim.

„Ég kalla á þig með nafni.“

Við getum lengi talað um þessa setningu eina en viljum auðvitað virða hefðina sem valið hefur þessa textaröð í heild sinni fyrir þennan sunnudag sem er einmitt 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, textaröð sem kallast lexía, pistill og guðspjall.

Ég er fjarska feginn að vera ekki að prédika á 5. sunnudegi eftir þrenningarhátíð (eða trinitatis) því þá hefði ég þurft að rifja upp það merkilega kvenmannsnafn stúlku sem fæddist fimmta sunnudag eftir trinitatis fyrir vestan og fékk það fallega nafn Fimmsunntrína. Og það eru víst ekki neitt óskaplega mörg ár síðan Fimmsunntrína dó. Einhverra hluta vegna hefur nafnið ekki lifað í ættinni einsog það er fallegt. Hvert nafn er fallegt af því að með því nafni þekkir Guð okkur og allt fallegt er frá honum komið.

En snúum okkur aftur að yfirskriftinni. Hún segir okkur að Guð þekkir okkur, fyrst hann kallar á okkur með nafni, og það leiðir hugann að skírninni, sem er skírð í Rómverjabréfinu. Hún merkir þar að við eigum að lifa nýju lífi, fyrst við erum orðin samgróin Jesú Kristi í skírninni, og í náðinni sem í henni felst.

Ég kalla á þig með nafni merkir alveg sérstaklega að okkur hefur verið gefið nafn og við eru nefnd, af því að við erum hvert og eitt sérstakt og einstakt barn Guðs. Það merkir líka að foreldrar okkar og þorpið heima sem hefur alið okkur upp hefur lukkast að fara að orðum Jesú sem hann mælir á uppstigningardag: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þau í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“

Það gerist ekki fegurra. Að vita til þess að farið hefur verið eftir skírnarskipun Jesú, orðum hans yfirleitt. Farið hefur verið eftir leiðsögn hans. Nærveru hans hefur verið notið.

Það fallegasta við þetta boð er að hann boðar okkur þann fögnuð að hann er með okkur alla daga.

Ég kalla á þig með nafni merkir ekki síst að við erum kölluð til þjónustu og kölluð til að lifa nýju lífi, endurnýjuð eftir að hafa verið frelsuð og leyst út með þeim nýja veruleika sem fylgir því að fylgja Kristi. Með köllun erum við frelsuð á þann hátt að við eigum hér eftir að vita, fyrir hvað við lifum þessu nýja lífi. Í því er fólgin sú dýra von sem Kristur boðar líka og felst í því að hann er upprisinn frá dauðum. Við erum þá líka upprisin á vissan hátt í lífi okkar og sannarlega eigum við eftir að rísa upp með Kristi til eilífs lífs í honum um allar eilífðir. Þaðan fáum við kraft til að komast aftur á fætur þótt við vekjumst, öðlast nýja von og þrótt þótt allar vonir dofni af og til. Við erum kölluð til að takast á við líf á nýjan hátt.

Ég kalla á þig með nafni kveikir hjá mér alveg sérstök hugrenningartengsl. Það er á því sviði sem kallað hefur verið persónuleg tengsl. Við lifum vegna þess að við eigum þessi sérstöku tengsl í lífinu og við þekkjum það öll hvað það er mikilvægt að rækta persónulegu tengslin í kjarnafjölskyldunni og meðal sinna nánustu.

Atferlisfræðingar hafa margir mælt með því að ef við erum tætt eða líður ekki alveg nógu vel í fljótandi kviku daglegs lífs, ef rótið er orðið of mikið eða kvikan of kvik, hraðinn yfir mörkum, samskiptamiðlarnir að taka völdin, er eitt besta ráðið það einfaldasta líka. Maður hefur samband við þau sem eru tiltæk í upprunafjölskyldunni og gerir það sem kallað hefur verið að taka upp þráðinn. Það er best ef það er bara samtalið sjálft í því augnabliki, og það þarf ekki að vera nema í augnablik. Ég hef oft prófað þetta og það er svo einfalt að það virkar. Um að gera að vera ekki að tala um það sem er liðið heldur bara það sem er að gerast, i.e. þetta símtal.

Það er svona einsog með hringtorgin og umferðina í bænum. Reglurnar eru svo einfaldar að hringtorg virkar. Reyndar eru þær reglur svo einfaldar að okkur finnst alltaf að hringtorg hljóti að vera flóknari en þau eru og er það einmitt talin skýringin á því að allir fara varlega í hringtorgum og slysin þar eru fátíð. Það gildir meira að segja um frönsku hringtorgin sem enginn botnar í nema kannski sá bílstjóri sem hefur prófað þau og flautað sig út úr því inná réttan veg.

Ég og þú er líklega merkilegasta tengslanetið sem til er í veröldinni enda hafa heimspekingar átt við það margan og merkan dansinn. Sjáið bara Martin Buber, Ich und du, I and Thou, Ég og þú. Heil bók um það eina samband tveggja. Það er fyrsta sambandið og þess vegna grunnur að öllum öðrum tengslum. Ég og þú er samband Guðs og manns þar sem Guð er Ég og ég er þú. Guð er sannarlega tengslaorð!

Og til hvers verum við kölluð? Að gera hvað?

Það er spurning hverrar andrár í lífi okkar, kæu vinir. Viðamesta köllunin er sú sem varðar flestar manneskjur, eða þá framtíð allrar mennsku. Að bæta heiminn og koma á réttlæti og friði, en ekki síst að koma á betri breytni.

Í gríðarlega mikilli þekkingu sem aðeins hefur verið til á okkar dögum er ljóst að það verður ekki undan því vikist að bregðast við kröfunni um réttlæti gagnvart jörðinni, náttúrunni, framtíð barna okkar.

Það er mikill misskilningur að við þurfum að bjarga jörðinni því það er fyrst og fremst okkar hlutverk að renna stoðum undir réttláta og örugga framtíð manneskjunnar sem slíkrar, mannkyns. Og virða náttúruna sem við erum hluti af núna. Jörðin mun spjara sig þótt framtíð okkar muni umhverfast í ljósi hamfarahlýnunar.

Við erum sannarlega kölluð til að vekja hvert annað og hvetja til dáða svo umhverfið beri ekki skaða af tilveru okkar og rangri eða eigingjarnri breytni.

Það eru nokkur atriði sem mér finnst renna stoðum undir þá skoðun að mannkynið muni geta snúið við ógnvænlegri þróun.

Frystu rökin liggja í því sem við köllum trú. Þau eru fólgin í þeirri trúarvissu að við lifum í von um eilíft líf, við eigum vonina og að í allri guðfræði vonarinnar er ekki aðeins óljós von í fjarlægri framtíð um annan heim eða öðru vísi breyttan heim. Í von kristinnar manneskju er fólginn sá kraftur sem getur breytt tilverunni núna og öllum okkar aðstæðum af því að í von kristinnar manneskju er fólgið allt fagnaðarerindi Jesú Krists, allt réttlæti hans, allur kærleikur hans og öll þekking á Guði og guðlegri stjórn hans í þessu andartaki.

Við erum kölluð til vonar sem er ekki til vonar og vara. Hún er algjörlega miðlæg í trú okkar og tilveru, von sem virkar og verkar núna. Verkar í andartakinu vegna framtíðarinnar.

Því ef við ættum ekki von væri tilfinning okkar orðinn allt önnur á líðandi stund. Þess vegna hefur vonin, sem í sjálfu sér horfir til framtíðar, áhrif á andartakið sem núna stendur yfir hér og nú. Þar erum við aftur komin að Martin Buber sem fjallaði þannig um tengslahugtakið Ég og Þú að það er fyrst og fremst virkt Hér og Nú. Virki það ekki hér og nú eru tengslin ekki í lagi. Ekkert að byggja á til framtíðar.

Annað atriðið eða rökin sem ég vil minna okkur á núna eru vísindin, og þekking okkar á öllum greinum þeirra. Það hefur sannast að þar sem þjóðir hafa stuðst við vísindin í viðbrögðum sínum við heimsfaraldrinum Covid 19 hefur náðast árangur. Við áttum líka von á því að við kæmumst yfir alla hjalla ef við gætum unnið út frá vísindalegum forsendum og þekkingu á veruleika veirunnar. Samhliða þessu var byggt á skilningi okkar á vonarhugtakinu. Við sem þjóð gengum saman og með öruggri stjórn almannavarna og ráðamanna okkar í átt til ákveðinnar vonar.

Sama mun eiga við um viðbrögð okkar og almennar varnir við hamfarahlýnun jarðar því þekking okkar og vísindalegar niðurstöður sýna að það er mikið að byggja á því sem við vitum og komið er fram. Vit í því.

Þá erum við með fyrirmynd og verkfæri í höndunum. Eini munurinn er líklega sá, á þessum tveimur ógnunum, sem steðja að öllum samfélögum heimsins á jafnan og flatan hátt, er að hamfarahlýnun er að eiga sér stað á lengri tíma. Eini munurinn á viðbrögðum okkar er því að reikna með lengri tíma. Ísland og Skálholt hafa nú þegar haft afgerandi forystu í því að ná saman þekkingu og færni til að hafa áhrif á andlega hugsun okkar og viðhorf. Metnaðarfull markmið Íslands, með ráðamönnum og undir forystu góðrar ríkisstjórnar, eru skýr og eiga með réttu að breyta þegar viðhorfi okkar í daglegri breytni og ákvörðunum, vegna þess að markmið er framtíðarhugtak. Við horfum til framtíðar frá þessu andartaki núna. Í kirkjunni verður fram haldið með andlegum leiðtogum ólíkra trúarbragða – ein andleg hreyfing – Faith for Earth – í október hér heima m.a. með mikilvægri alþjóðlegri ráðstefnu sem kallast Skálholt 2 í skýrslum og samþykktum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og hjá ríkisstjórninni okkar í samvinnu við aðrar þjóðir á norðurslóðum.

Skálholt tvö er ágætt heiti. Það er engu líkara en orðaleikur um að við getum þetta ekki ein og sér en ætlum að byrja á því að ná saman tvö og tvö, rétt einsog hjá Buber, byrjum á byrjunarhugtaki allra samskipta. Byrjum á Guði og mér og þér.

Við erum kölluð til að breyta rétt og það besta er að við erum kölluð með nafni. Við erum kölluð með nöfnum öll saman.

Þriðju rökin eru þau að saga trúarinnar sýnir að viðhorf okkar getur tekið breytingum. Stærsta breytingin var auðvitað þegar við heyrðum og gerðum okkur grein fyrir áhrifum af fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er ekki léttvægt hér en mjög ánægjulegt að draga það fram að erindi hans um frelsun og lausn í sálu mannsins er ætlað að ná til alls heimsins og allra þjóða. „Farið og gjörið allar þjóðir…“

Og erindi Krists er að hafa áhrif um alla eilífð eða einsog hann segir í guðspjallinu í dag: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Sjáum það og heyrum. Þar sem Þjóðkirkjan er siðbótarkirkja er það eðli hennar að siðbótin er stöðugt að, „Ecclesia semper reformanda est,“ svo við vitnum bara beint í sjálfn Karl Barth frá því eftir síðari heimsstyrjöld. Kirkjan er stöðug siðbót og það viljum við.

Sem kristnum manneskjum er okkur ætlað að ná til allra á samtrúarlegan hátt, með háttum og hugsun, sem felast í allri trúarlegri von. Sama hvert kerfið er. Við náum því sem samfélag sem trúir en ekki með því að setja trú til hliðar. Trú er ekki aðeins órjúfanlegur hluti af sjálfi mannsins heldur er hún órjúfanlegur hluti af lausn og friði heimins. Við erum kölluð til að lifa því nýja lífi sem við höfum þegar öðlast.

Það er rétti tíminn til að setja sér ný markmið þegar við höfum komist yfir erfiða daga, stríð, áföll eða áreynslu.

Bænin hefur verið heyrð og heyrist áfram vegna vonarinnar.

Reynsla síðustu missera hefur breytt viðhorfi okkar og við biðjum fyrir því áfram. Þess vegna fullyrða núna allir trúarleiðtogar og andlega sinnað fólk, sem við erum m.a. að vinna með í loftslagsmálum, að það er eitt brýnasta og framkvæmanlegasta verkefni allra trúfélaga að hver og einn með nafni og í sinni von breyti viðhorfi sínu og daglegri breytni. „Alla daga“ í orðum Jesú hefur sérstaka merkingu hér og nú, hjá mér og þér, í sambandinu Ég og Þú.

Á rammíslenskan máta og á grófan hátt má ef til vill segja það sem við höfum sagt hér í gegnum aldirnar í frosthörkum og mótbyr, öskrað uppí storminn – fólkið okkar á öllum  óblíðum tímum – að við munum komast af. Mér skal takast það og ef ég bregst má ég hundur heita. Það er mjög íslenskt.

En hrátt einsog það hljómar er það einnig útlegging á orðum Jesaja. Drottinn er að kalla á okkur með nafni af því að hann vill að við höldum áfram að heita manneskjur í augum sínum, manneskja sem hann elskar.

Við bregðumst við því með því að bregðast ekki og munum standa við það á meðan við erum í þessu sambandi við Guð og hver getur sagt með hjarta sínu og af allri hugsun og mætti: Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Birt í General | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Mikil viðgerð á Skálholtsdómkirkju framundan

the-popular-golden-circle-tour-10

Við vorum knúin til að lýsa yfir neyðarástandi á kirkjunni vegna mikils leka í turninum fyrir nokkrum dögum. Miklar vatnsskemmdir urðu þarna um daginn og þá flæddi líka inná hæðirnar í turninum sem geyma bókasafnið, gamalt og merkilegt safn sem er að stofni til frá safni Þorsteins sýslumanns Dalamanna, auk mikilla viðbóta. Þaðan lak niður í kirkju og ekki langt frá orgelinu. Ekki er langt síðan við lukum endurbótum á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur undir öruggri stjórn Verndarsjóðs kirkjunnar og forvera míns, sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, biskups. Núna er næsta stóra skrefið að skipta um þak og laga allan leka í turni kirkjunnar og gluggum þar uppi og viðgerðum á öllu ytra byrði guðshússins. Það er nú ákveðið í kirkjuráði og við heima í Skálholti bindum miklar vonir við að þessar endurbætur fari sem fyrst í gang. Stefnt er að því að þessu verði öllu lokið á 60 ára afmæli kirkjunnar 2023.

Bókasafnið hefur verið í hættu vegna þaklekans og þá ekki síður innviðir kirkjunnar, þak, veggir og gólf. Verndarsjóðurinn hefur tekið að sér að hjálpa og stýra flutningi bókanna og kirkjuráð hefur ákveðið að kosta lagfæringar á rými í Gestastofunni nýju svo safnið geti verið sett þar upp með sóma, bæði í geymslu, til rannsókna og til sýnis.

Fyrstu framkvæmdir sem voru áður ákveðnar eru gagngerar múrviðgerðir á útitröppum og verður byrjað á því um næstu mánaðarmót. Þá verður gengið í frágang vegna brunavarna sem búið var að hanna. Einnig er til skoðunar að endurhanna lýsingu inni og er það að frumkvæði Verndarsjóðsins. Fyrir liggur heildar ástandsskýrsla sem var uppfærð núna í vetur. Í henni var kostnaðaráætlun uppá 100 milljónir króna og er þar þakið sjálft meira en helmingur. En mest er um vert að undirbúningur er hafinn og ákveðið hefur verið af kirkjuráði að ráðist skuli í verkið án tafar. Það er mikið þakkarefni.

Hér er hlekkur á frétt á skalholt.is

Og svo eru aðrar fréttir af kirkjan.is  og einnig á vefnum Laugarás – þorpið í skóginum af vefnum Höfuð Kvisthyltinga eftir Pál Skúlason.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Guðsþjónustur hefjast í áföngum frá og með 17. maí – innan allra marka

8706508165_088044e0ae_bSamkomubanni verður aflétt í áföngum og það sama á við um helgihald safnaðarins. Fjöldinn er samur og almennt og breytist því 4. maí í 50 manns. Altarisgöngur bíða og við virðum 2m persónumörkin. Almennar guðsþjónustur geta hafist um allt land sunnudaginn 17. maí og það þýðir að við getum þá einnig haldið guðsþjónustu á uppstigningardag 21. maí, hátíðarguðsþjónustu á hvítasunnu 31. maí og sjómannadagsguðsþjónustu 7. júní á áfram í sumar. Í sjálfu sér verður hægt að ferma í guðsþjónustu og vegna fjöldatakmarkana gætum við verið að ferma eitt til tvö börn í hverri guðsþjónustu með nánustu fjölskyldu og vinum. Það er ein sviðsmyndin en svo gætu fjöldaviðmið hækkað. Flestar kirkjur hafa frestað fermingum fram á síðsumar og haust og er vitað að það verður stór fermingarhelgi 29. – 30. ágúst og fyrstu helgina í september.

Þetta kemur fram í bréfi biskups Íslands og er samkvæmt ákvörðun frú Agnesar M. Sigurðardóttur. Það verður mikill léttir að koma saman í kirkjunni og við vitum að það eru margi farnir að sakna þess innilega. Þegar við komum saman verðum við samt að muna að virða fyrirmæli Almannavarna um 2 m mörkin á milli þeirra sem ekki búa saman í heimili og virða það þak sem er á fjölda í hverju rými á hverjum tíma. Við skulum öll vera til fyrirmyndar og láta það einkenna samfélag þeirra sem trúa á Krist, þ.e. söfnuði kirkjunnar.

Það hefur verið erfitt að mæta þessum takmörkunum við andlát og útför. Fólk hefur samt tekið höndum saman um að virða öll mörk og hugga sig við að við getum faðmast síðar. Vegna þeirrar staðreyndar að afléttunin verður lengi á leiðinni til baka í eðlilegt horf er ljóst að það gæti verið ráðlegt að fersta ekki útförum heldur reyna að útfæra það eftir nýjustu leiðum með útsjónarsemi og fjarlægð. Við erum minnug þess að á föstudaginn langa máttu nánustu vinir Jesú ekki vera nálægt honum á Golgata og aðeins fáir við útförina hans. Hinir voru með í anda og báru sorgina saman og hvert og eitt í sínum húsum. Það hefur því verið falleg virðing í því að sýna samúð sína í verki með því að vera heima og horfa á streymi frá útför vinar eða ættingja. Eins var mjög virðulegt þegar nágrannar og vinir í Hveragerði voru viðstaddir útför með því að mynda heiðursvörð frá kirkju og standa þar með 2 m millibili í þessu skini. Við erum öll saman þótt við getum ekki komið saman í einn sal og höfum ótrúlegar nýjar leiðir til að sýna það í verki með öllum þeim nýja búnaði sem er orðinn til á okkar dögum. Það hefur nýst vel við útsendingu á helgistundum, upplestri Passíusálma og í hátíðarguðsþjónustu þar sem aðeins prestur, organisti og fámennur kór er saman kominn í kirkjunni. Það er samt sameiginleg guðsþjónusta safnaðarins og sóknarmörkin eru í raun víkkuð út.

Blessunaróskir, Kristján

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Takmörkuð samskipti en ótakmarkaður kærleikur og von

8706508165_088044e0ae_bOft hefur það leitað á hugann hvernig okkur gengur að eiga samskipti þegar samskiptaleiðir eru takmarkaðar. Á kyrrðardögum í Skálholti í vetur áttaði ég mig á því að þeir snúast ekki um aðeins þögn heldur er talað mál fyrst og fremst tekið út í samskiptum þátttakenda. Maður lærir það fljótt. Núna á dögum CoVid 19 þurfum við að taka út handatakið og faðmlagið í samskiptum okkar. Við lærðum það fljótt. Fjöldi fólks hefur tekið margt annað úr samskiptunum til viðbótar og það er sjálfsagt mál þessar vikurnar að manneskjan sem við ætlum að hafa samband við er við vinnuna heima eða í sumarbústaðnum eða á skrifstofunni þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til að hitta ekki aðra og alls ekki að sitja eða vinna í sama rými. Fundarherbergið hefur víða verið tekið út úr samskiptum okkar og þannig eru samskiptaleiðir takmarkaðar. Líkamstjáning hefur þess vegna verið skert og það fækkar þeim leiðum sem við erum annars vön að styðjast við til að sjá betur og skilja vel hvert annað.

Það er ekki nokkur vafi að það reynir á samstarfið að hafa ekki allar tjáleiðir til að styðjast við. Manneskjan er jú félagsvera og vill eiga í góðum samskiptum og nýta allar tjáleiðir til að koma hugsun sinni á framfæri eða miðla skoðun sinni. Þetta getur verið sérstaklega erfitt þegar kemur að því að tjá tilfinningar okkar eða taka þátt í samskiptum þannig að aðrir skilji eða sjái hvernig okkur líður.

Við þekkjum vel að einn tölvupóstur getur ekki flutt nema takmörkuð skilaboð og þá gildir einu þótt við notumst við öll þessi tilfinningatákn sem eru notuð mikið á samfélagsmiðlunum. Það er þó tilraun og viðleitni og hér get ég þá sett inn einn umhyggjusaman broskarl. Oft set ég hjarta hjá þeim sem lýsir sorg sinni eða missi ástvinar en við vitum það öll að hjarta merkir alveg ótrúlega margt. Nú set ég gjarnan hjarta hjá þeim sem segir sóttkvíarsögu af sér eða sínum.

cropped-fella-og-hc3b3la.jpgÁ þriðja mánuði CoVid 19 erum við ekki enn komin yfir heimsfaraldurinn hér á Íslandi en sjáum vissulega fyrir okkur að hann muni ganga yfir. Smitið á eftir að aukast enn áður en við förum að líða niður brekkuna hinum megin. Það er álag að eiga von á smiti eða bara að lenda í sóttkví. Og það er erfitt að sitja eitt eða fá í enn meiri takmörkunum á samskiptum en þegar er orðið. Það er þannig álag að það getur jafnast á við áfall. Við mikið álag og í áfalli sýnum við tilfinningaleg viðbrögð og þau getur verið erfitt að tjá þegar samskiptaleiðir og tjáleiðir eru takmarkaðar. Eitt af þekktum viðbrögðum við áfalli er misskilningur og jafnvel misklíð sem af því getur hlotist. Þá er reiði einnig mjög þekkt meðal viðbragða og jafnvel ásakanir eða það sem er enn verra að fást við en það er sjálfsásökun eða sektarkennd. Það væri ákveðinn misskilningur eða afneitun að reikna ekki með að við gætum verið að sýna svona neikvæð viðbrögð eða reyna að forðast þau í orðum. Þar sem við erum öll undir sömu sökina seld að vera hér saman í þessum faraldri sem eitt samfélag fólks viljum við umfram allt hvetja hvert annað til dáða og efla vonina og lýsa ljósi okkar fram á veginn. Við viljum hughreysta hvert annað með því að stappa stálinu líka í okkur sjálf. Við sýnum samhug. Seinna gætum við þurft að fást við þessi neikvæðu viðbrögð en núna þurfum við ekki annað en viðurkenna að þau geta sannarlega verið til staðar eða skotið upp kollinum. Og við þurfum eiginlega að viðurkenna það fyrirfram að það gæti orðið erfitt að segja það með stöku orðum, í takmörkuðum fjarfundarbúnaði eða lélegri mynd á samskiptamiðli sem á það til að frjósa í miðju tári. Við ætluðum kannski ekki að gala á barnabarnið í skæpinu eða whatsupinu en gerum það samt af því við höldum að sambandið sé ekki nógu gott í fartölvunni eða af því við vorum einmitt komin örlítið frá hljóðnemanum til að hræra í pottinum.

Það er samt ekkert að. Tjáskiptin eru bara takmörkuð þegar við getum ekki knúsað hvert annað eða setið hljóð saman og fundið nálægðina sem við þurfum öll á að halda. Þegar við finnum örlítið breyttan raddblæ segir það mikið og eitt lítið jaa getur þýtt ótal margt sem við eigum auðvelt með að skilja þegar við heyrum það vel og sjáum svipbrigðin í góðum myndgæðum, grettuna eða hvernig fólk vaggar kannski höfðinu um leið.

51729454_10218076331400755_1084134747208155136_nVið þurfum ekki aðeins að komast í gegnum þennan skafl af takmörkuðum samskiptum ein og sér heldur þurfum við á ná í gegnum hann öll saman. Til að það lukkist vel þurfum við öll saman að reikna með því öllu sem getur fylgt því að tjáningarmátinn er takmakaður og að við viljum senda ótal tegundir af hjörtum og stafrænum tilfinningartáknum. En það verður að duga enn þessar næstu vikur þangað til allt verður eðlilegt aftur í lífi okkar sem manneskjur. Og nú er verst að eiga ekki tölvutákn fyrir von og trú til viðbótar við fallegt trúartákn kærleikans í fagurrauðum hjörtum hvert til annars. Vonin er að það leysist úr þessari stöðu af því að það er reynsla trúarinnar um aldir að kærleikurinn er mikill í okkur og ástin hvert til annars – alveg sérstaklega á erfiðum tímum þegar við þurfum að minna hvert annað á að það styttir alltaf upp og lygnir einsog skáldið syngur – og um að gera að svipta okkur ekki gleðinni yfir því að finna til. Þá eigum við að vita að við eigum eftir að heyra fótatakið þegar fagnaðarboðinn gengur inná fréttamannafundinn og tilkynnir að farsóttin sé nú gengin yfir og biður okkur vel að lifa. Við búum að góðri reynslu af góðum fréttum og þurfum að minna hvert annað á hvað það skiptir miklu máli núna þegar við höfum þrátt fyrir allt ótal leiðir til að tjá það í alveg nýjum samskipamiðlum sem engin kynslóð hefur áður fengið að kynnast og njóta. Við erum ennþá undir sömu blessun og þau sem áður hafa lifað hér, lengi og vel.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Erindi Munib Younan og Boga Ágústssonar á Skálholtshátíð 2019

Á heimasíðu Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, http://www.stofnunsigurbjorns.is , eru komin erindi og prédikun dr. Munib Younan, fv. forseta Lútherska heimssambandsins, og hátíðarerindi Boga Ágústssonar, formanns Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar sem þeir héldu á Skálholtshátíð á Þorláksmessu á sumri 2019. Erindi sitt flutti Munib á seminari undir yfirskriftinni: „The Role of Religion in Peacemaking and Reconciliation.“ Daginn eftir flutti hann prédikun í hátíðarmessunni á Skálholtshátíð og er hún einnig birt á ensku þar sem hún var flutt í íslenskri þýðingu sr. Kristjáns Björnssonar í útsendingunni í útvarpinu.

Bogi flutti aðal erindið á hátíðardagskrá sem efnt var til eftir kirkjukaffi á Skálholtshátíð og nefndi hann erindi sitt: „Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Málþingið/seminarið var haldið af Stofnun Sigurbjörns í samstarfi við Skálholtsbiskup og Skálholtsstað.

Birt í General | Færðu inn athugasemd