Heim að Hólum í Hjaltadal

Nú skal haldið heim að Hólum í Hjaltadal um helgina á Hólahátíð. Það verður stór stund fyrir mig en stærstu stundirnar eru þegar ég hitti þar góða vini. Ég vonast því eftir að hitta sem flesta Norðanmenn og unnendur sögu, kirkju og skóla á Hólum. Ég hlakka til samverunnar og endurfunda. Það er gott að heyra að sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, Hólabiskup, ætlar að heiðra minningu kvenskörungsins Halldóru Guðbrandsdóttur sem annaðist föður sinn herra Guðbrand Þorláksson í veikindum hans á efri árum og annaðist einnig allan rekstur Hólastóls á sama tíma. Það fer vel við annað aðal efni hátíðardagskrárinnar um fullveldi Íslands sem einnig var fjallað um á Skálholtshátíðinni í júlí.

Og þarna vígði sr. Sigurður Guðmundsson, vígslubiskup, mig til prestsþjónustu 9. júlí 1989 og ég minnist hans ætíð með hlýju og virðingu. Á myndinni leggur vígslufaðir ungum manni á hjarta að sinna þjónustunni af eindrægni og ósérplægni enda gerði hann það sannarlega sjálfur sá mikli mannvinur, félagsmálamaður, kennari og höfðingi á sinni tíð.

Ég nefni þetta bara sem dæmi um að margir eiga margar góðar minningar á Hólum sem gaman er að vitja á Hólahátíð. Það eitt og sér er ærið tilefni til að koma í messu og kaffi á helgum stað.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Að sjá hluta fyrir heild

Á forsíðu Mogga í morgun er turnspíra og kross Hallgrímskirkju í forgrunni og sér þar um fallega borg, flóa, fjöll og ský. Við vitum að þetta er stóra kirkjan á Skólavörðuholtinu sem vísar á mikið kirkjulíf. Við sjáum allt lífið í Reykjavík með því að kannast við svolítinn hluta hennar á myndinni. Faxaflói komst ekki allur á myndina en við „sjáum“ hann allan af þessum hluta og þar með allar hafnir, lífæðar samfélagsins. Stef myndarinnar er greinilega hluti fyrir heild. Ég er enn að fá viðbrögð af annarri mynd okkar frábæra ljósmyndara, Árna Sæberg. Það er líka mynd af hluta fyrir heild. Þá birtist (á fréttamynd ársins) agnarlítill hluti af helgigöngu til kirkju. Við erum læs á hluta fyrir heild (pars pro toto) og þess vegna „sáum“ við flest af forsíðumyndinni úr Skálholti allt kirkjunnar fólkið sem tók þátt í hátíðarmessunni, yfir 700 manns. Vindurinn í skrúða þeirra táknaði líka sitt, ýmist öll veður eða heilagan anda en það er hreyfiafl kirkjunnar. Myndin var hluti fyrir heild. Hlutinn sem birtist voru biskupar, prestar og djáknar sem þjónuðu í messunni. Í heildina var hún mynd af öllu því fólki sem hafði þegar sest inn, öllum 70 prestum og djáknum sem voru í hempum og ölbum og fremst fór meðhjálparinn með krossinn á lofti. Einnig „sáum“ við Skálholtskórinn sem kom næstur í fylkingunni á eftir biskupi Íslands og allra síðast gengu svo inn pílagrímarnir og settust á kirkjugólfið. Hver manneskja var í sínum skrúða og sumir berfættir, margar konur á upphlut og skautbúningi, flestir á sparifötum en aðrir ferðbúnir. Svona er kirkjan fjölbreytileg og opin í þjónustu sinni.

Í ljósi þessarar kenningar um hluta fyrir heild skulum við líka ganga inní næstu helgi af heilum hug. Hún er mikil ferðahelgi og vil ég vona að myndir af hluta fyrir heild verði allar af brosandi fólki, skemmtilegum viðburðum, fagurri náttúru og gleði fjölskyldu og vina. Guð blessi þessa miklu ferðahelgi og hvern einasta hluta af birtíngarmyndum fagnandi fólks allt til enda helgarinnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Forystugrein um prédikun

Í forystugrein Kolbrúnar Bergþórsdóttur, ritstjóra, í Fréttablaðinu í morgun brýnir hún presta til að ræða í prédikunum sínum um álitamál og stór mál sem varða velferð mannsins, mannréttindi í samfélaginu okkar og misskiptinguna í heiminum. Leggur hún þar út frá orðum mínum í prédikuninni í Skálholti í vígslumessunni s.l. sunnudag. Ég er afar þakklátur fyrir að prédikunin hafi hreyft við fólki af því að ég er að hvetja til viðhorfsbreytinga. Sérstaklega á það við um loftslagsmálin sem er ógn sem ekki er hægt að hunsa og um leið felur sú alvarlega staða í sér tækifæri til að bregðast við. Ég lagði út af orðum Páls í Rómverjabréfinu þegar hann segir: „Ég er í skuld.“ Ég er þakklátur fyrir umfjöllun ritstjórans og viðbrögð sem prédikunin hefur fengið. Set ég þessa prédikun hér inn í heilu lagi fyrir neðan. Það sem ég nefndi ekki á sunnudaginn var er að afi minn, sr. Sigurður Stefánsson, lagði einnig út frá þessum orðum Páls í prédikun sinni þegar hann varð vígslubiskup Hólastiftis árið 1959 og notaði þau einmitt sem stef í gegnum ræðuna alla. (myndin með þessari færslu er tekin af Ólafi Magnússyni)

Prédikun mín á vígslunni á Skálholtshátíð 2018:

„Gleðilega hátíð í Skálholti og hér í Skálholtsdómkirkju. Í allri auðmýkt þakka ég það traust sem þið sýnið mér og þá gleði sem veitt er í dag yfir höfuð og herðar á einum óverðugum þjóni. Þið hafið kosið að biðja fyrir og blessa eitt okkar til að þjóna og starfa á þessum tímapunkti hér í Skálholti og í umdæmi Skálholts næstu árin. Það verður varla að gagni nema með hjálp og vilja margra til að láta góða hluti gerast. Það gildir ekki síður um sóknir kirkjunnar í umdæminu öllu. Það gerist með vilja til að ganga saman til verka fyrir kirkjuna okkar góðu, Þjóðkirkjuna, eða öllu heldur þá kirkju sem er í vitund þjóðarinnar það starfsama samfélag sem hún vill vera fyrir okkur öll. Ég er í skuld, segir Páll, og það er ég sannarlega vegna þess að nú fæ ég tækifæri til að vinna meira – meira í dag en í gær – fyrir landið mitt.

Ekki hugsa ég svo mikið um það hvort þjóðin standi í einhverri sérstakri þakkarskuld við kirkjuna sína sem hefur verið hér til þjónustu, til boðunar og oft til hjálpar á erfiðum tímum, heldur miklu fremur á hvern hátt við, við sem gegnum ýmsum hlutverkum fyrir kirkjuna, erum í skuld við þjóðina, í skuld við þjóðararf okkar og menningu, en svo ekki síst í skuld við þau öll sem við ætlum að mæta og þjóna í framtíðinni. Það er allavega þannig að þegar við greiðum skuldir dreifast afborganir skuldanna með virðisauka sínum á ókomna greiðsludaga. Skuld er framtíðarhugtak og þá er gott að hugsa til þess að framtíð okkar er í hendi Guðs. Þeir dagar munu renna upp sem Guð gefur og þá finnum við að skuldin er ekki ennþá greidd að fullu. Guð á ennþá við okkur erindi og býður okkur kvaðardaga til að vinna upp og umlíðunarár til að fella niður allar sínar kvaðir. Við erum í skuld, segir postulinn, og fólki bregður ekki í brún sem les Ritningarnar og þá einkum guðspjöllin. Í þeim frásögnum er ljóst að við erum í skuld við Jesú Krist, sem er Drottinn okkar. Það er fagnaðarefni okkar núna á þessari Skálholtshátíð 2018 að eiga einnig skuld að gjalda því fólki sem hóf þessa hátíð og byrjaði að lyfta henni fyrir alvöru um miðja síðustu öld að ekki sé minnst á þakkarskuld við kristni í 1018 ár (eða jafnvel frá því fyrir landnám). Það er einmitt þess vegna sem við höldum hátíð og minnumst þess með gleði líkt og alla aðra daga í lífi okkar, fagnaðardaga, feginsdaga, og þakkardaga. Við erum í skuld við fagnaðarerindi Drottins og það setur okkur í hárrétt samband við Guð að upplifa þetta þannig. Við skulum njóta þess saman og njóta þess umfram allt að fá að ganga þannig fram í lífinu og í því samfélagi fólks sem felst í því að við erum öll manneskjur sem bindumst öðru fólki í trú.

Við erum vissulega í skuld vegna þess er Kristur gerði þegar hann vann sigur á dauðanum og opnaði inn til þess samfélagslega úrræðis sem fylgir því að geta fyrirgefið. Með því er hægt að skapa sátt og rétta þann upp sem þarf á því að halda að vera studdur á göngu sinni í þessu samfélagi. Öllu þessu veldur Guð og það breytir miklu fyrir hvert barn að vita að þetta vald er í hendi Guðs. Í hendi manneskjunnar er þetta vald aðeins mögulegt en þó svo nærri að það fylgir sem meðafli í lífi þeirra og í samskiptum þeirra sem fylgja þessum Guði. Mögulegt er það í nafni Jesú Krists.

Við erum í skuld við framtíðina. Á líðandi stundu er það afar knýjandi að viðhorfi fólks til loftlagsbreytinga verði snúið til æ meiri vitundar um ógnir af hlýnun jarðar, sem er, sem þegar hefur orðið og mun verða á næstu áratugum. Viðhorf okkar til þessara fordæmalausu breytinga á lífsskilyrðum mannkyns og alls lífríkis jarðar þarf þó helst og fremst að mótast að þeim tækifærum sem við höfum enn þessa náðardaga til að breyta þessari þróun og draga úr háskanum þannig að við fáum að sjá ríkari von og aukna trú í anda nýrra daga. Við greiðum ekki skuldina við framtíð mannkyns með því að leggja vonleysi eða dáðleysi á borð fyrir komandi kynslóðir. Við erum ekki að greiða inná skuldina við framtíð barna okkar með vonleysi því það er líkast því að greiða með innistæðulausum tékka ef nokkrir eru hér inni sem ennþá muna hvað það þýddi. Hin geta þá gúgglað það. Vonleysi er auður miði. En með trú á framtíðina er hægt að leggja upp í vegferð sem er til heilla fyrir þau öll sem kallast í pistli dagsins samarfar Krists. Það eru þau sem erfa fagnaðarerindi Drottins saman og eru með því fyllt þeirri von og sýn á framtíðina sem svarar þeirri skuld sem við erum að ræða hér. Með guðfræði vonarinnar hefur verið hægt að ná fram ótrúlega miklu réttlæti á sviði mannréttinda og jafnréttis fyrir þau sem hafa liðið fyrir kynþáttahatur og niðurlægingu kynjamisréttis. En hún efldist einnig þar sem misskipting hafði verið óheft eða skammarleg í langan tíma. Og fólki var sagt að þetta hafi alltaf verið svona. Í ljósi vonarinnar hlutu þau, sem kúguð voru, uppreisn. Við sjáum þetta í guðfræði þeldökkra og undirokaðra en einnig í guðfræði kvenna og í réttindamálum minnihlutahópa eða jaðarsettra. Viðhorfsbreytingin varð vegna vonarinnar og því leggjum við áherslu á það ankeri kristinnar trúar á stórum degi.

Við erum í skuld, segir Páll, og hann á erindi við höfuðborgarbúana í Róm. Það merkir að við sem eigum allt og getum allt í krafti þjóðarauðs og pólitískra áhrifa umfram mörg önnur lönd þurfum að taka þetta erindi til okkar. Hér í Skálholti, hinni fornhelgu höfuðborg íslenskrar menningar og kristni í nærri þúsund ár, þurfum að taka þetta erindi Páls að hjarta. Við erum auk heldur í hópi þeirra þjóða sem hafa afl og úrræði, innri sem ytri stofnana samfélagsins, til að takast á við þær miklu breytingar í lífsskilyrðum sem eru handan hornsins og sumpart þegar komnar fram hér á Norðurslóð. Við erum ekki í ótta þótt við séum í skuld af því að sá sem er í skuld við framtíðina á þess kost að svara henni ár fyrir ár, mánuð fyrir mánuð, dag fyrir dag. Dag í senn erum við að mæta því sem felst í allri framtíð en við erum ekki að mæta allri framtíð á einum degi. Við sjáum þetta speglast í því þegar postulinn er að tala til alls mannkyns að þá sendir hann bréfið sitt stílað á eitt samfélag einnar tiltekinnar borgar. Ekkert nær til allra nema það sé stílað á einhvern ákveðinn. Þar liggur sú áhersla boðskaparsins í dag að fagnaðarerindið er ekki út yfir allt heldur er því beint til okkar hvers og eins áritað með nafni.

Þetta er svona líkt því og þegar Ernest Hemmingway sagðist halda að allir væru einhvers staðar frá en enginn neins staðar. Við erum í skuld við staðinn sem við erum frá. Þar hófst mótunin og við berum það með okkur hvert svo sem vindarnir hafa borið okkur á leið. Nú hafa straumarnir, sem ég hef stigið inní á minni leið, borið mig hingað á helgan stað líkt og okkur öll sem sækjum Skálholtshátíðina. Hér erum við borin að ákveðnum brunni sem vætt hefur kverkar og gefið kraft í mikilsverðum áningum heillar þjóðar, á leið hennar í átt til skilnings á því mikla erindi, sem Kristur á við samferðarfólkið sitt á hverjum tíma. Persónulega sagt er ég örlítið að velta því fyrir mér hvað það var lofsvert hvað þau, sem hingað söfnuðust 1956 að minnast 900 ára biskupsþjónustu í Skálholti, hvað þau báru með sér mikla von í brjósti. Þau horfðu ekki á lélegt timbrið í gömlu guðshúsi heldur upp til hárra hugsjóna. Og það varð. Það valt allt á viðhorfsbreytingunni sem byggði á tiltrú þeirra. Og ef ég gerist enn persónulegri en þegar er orðið, þá komu þau hingað mætasta kirkjunnar fólk um miðja öldina og þar í hópnum var líka afi Sigurður sem fulltrúi Friðriks J. Rafnars. Og ég sé afa fyrir mér heilan í hefðinni hans herra Jóns Arasonar. Og þann dag var pabbi hér á lögregluvakt fyrir utan nánast blautur á bak við eyrum á sínu fyrsta sumri sem lögregluþjónn. Og hingað komu líka amma Ágústa og afi Bögeskov ár eftir ár á Skálholtshátíð af ást til staðarins og kannski af því að Einar bróðir hafði verið hér á Iðu en þó held ég helst vegna þess að hingað var allt þetta fólk komið til að sækja helgan sögustað. Og þau hafa fundið að hver helgur staður er helgur af því að hann býr í hjörtum þeirra. Þau hafa verið mörg sem hafa viljað efla Skálholt og ég vildi geta nefnt þau öll. En því miður verður aldrei allt sagt í einni prédikun. Forgöngufólksins og forveranna minnumst við saman í ríkri þökk.

En það sem ég vil árétta með þessum litlu myndum, sem við mörg hver eigum bjartar og skýrar, er að það sótti ekki hingað bara eitthvert fólk heldur tilteknar manneskjur sem báru ákveðna von í brjósti saman.

Það eru líka aðrar myndir að birtast núna þegar ég horfi hér yfir samfélag okkar sem enn komum saman til að gleðjast og eflast og deila degi með öðrum. Við viljum að áhrifin seytli síðan til ótal staða hér á staðnum og út héðan. Í því er virðing og í því er mynd okkar skýrust þegar hún speglast í augum þess sem þarfnast þess mest að mæta skilningi og réttlæti í aðstæðum sínum. Við viljum styrkjast í trú og breyta vel.

Þegar ég hugsa um mynd okkar, sjálfsmynd eða ímynd, verður mér hugsað til flugunnar. Ungur drengur greip ég eitt sinn flugu á lofti og hélt henni í lófanum. Ég var ekki lítið montinn yfir því að hafa náð henni og svo bara varð ég að opna lófann og skoða hana aðeins betur. Þetta var nú ekkert merkileg fluga en það gljáði á hana og hún var sumpart svört og svo var á henni blettur sem stirndi svolítið á, ýmist blásvartur eða yfir í fjólublátt. Ég áttaði mig fljótt á því að ég hafði ekki náð henni nema af því að hún hafði verið eitthvað slöpp eða þung á sér í sólinni. Svo rann það upp fyrir mér að ég hafði ekki gert henni neitt gott með því að þrengja að henni í lítilli greip. Hver vill láta fara þannig með sig? Og hver vill þrengja að svo fögru sköpunarverki Guðs, sem er jafn merkilegt og maðurinn eða hver önnur lífvera, eða hver vill þrengja að nokkru barni náttúrunnar yfirleitt? Þetta litla verk handa minna og þessi viðhorfsbreyting sem varð þegar drengurinn skoðaði það, sem hann hafði í hendi sér, er líkast því sem þarf að gerast í öllum stærri málum. Við breytum ekki miklu nema huga að því smæsta.

Er það ekki merkilegt að stundum hefur ein andrá breytt lífi okkar. En er það ekki enn merkilegra að það er í öðru andartaki seinna sem við gerum okkur grein fyrir því. Stundum líður langur tími milli þessara andaráa sem varpa ljósi hvorri á aðra. Við þurfum að huga að einu andartaki til að skilja allan flaum þeirra augnablika sem raðast upp í ævina alla. Þannig þurfum við líka að huga að einu og einu atviki í sögunni og nýta til þess tóm á okkar dögum svo við skiljum söguna í heild. Þannig er það aðeins í andartakinu sem viðhorfið getur breyst og það merkilega er að þannig er það líka í okkar stærstu málum. Ein ljósmynd af einu grátandi barni á flóttavegi hefur breytt sögu heillar þjóðar ef ekki stríði margra landa. Þess vegna er það trúlega alveg satt sem Matthías sagði þegar hann taldi að meira afl byggi í einu ungbarnstári sem fellur á kinn en í öllum flauminum í sjálfum Dettifossi, aflmesta fossi Evrópu. Þetta speglast afar fallega hjá honum í þjóðsöngnum með titrandi tári og það speglast í Davíðssálmum og það speglast í augum okkar.

Það gerir lífið betra og hátíðina meiri í hvert sinn er við sjáum slíkar tærar birtíngarmyndir náðar og friðar sem við eigum í Jesú Kristi. Það er hátíð af því að þessar myndir kraftbirtíngarinnar búa í huga okkar og hjörtum.“

Ritningartextar dagsins:

Jer 23.16-18, 20-21: „Svo segir Drottinn hersveitanna: Hlustið ekki á orð spámannanna. Þeir flytja yður boðskap en þeir blekkja yður, þeir flytja uppspunnar sýnir og ekki af vörum Drottins. Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: „Þér hljótið heill.“ Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: „Engin ógæfa kemur yfir yður.“ En hver hefur staðið í ráði Drottins, séð hann og heyrt orð hans? Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það? Reiði Drottins slotar ekki fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það. Ég sendi ekki þessa spámenn, samt hlaupa þeir, ég talaði ekki til þeirra, samt spá þeir.“

Róm 8.12-17: „Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.“

Guðspjall: Matt 7.15-23: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Dagskrá Skálholtshátíðar 2018

Verið hjartanlega velkomin á Skálholtshátíð 19. – 22. júlí. Dagkráin er sem hér segir:

Fimmtudagur 19. júlí kl. 20:00
TÓNLEIKAR: Metropolitan Flute Orchestra

Laugardagur 21. júlí kl. 16:00
TÓNLEIKAR: Skálholtskórinn. Stjórnandi Jón Bjarnason, einsöngvarar og kammersveit. O Ewigkeit, du Donnerwort BWV 60 og Aus der Tiefen rufe ich, Herr, zu dir BWV 131. Stjórnandi Benedikt Kristjánsson.

Sunnudagur 22. júlí kl. 11:00
ORGELTÓNLEIKAR

Jón Bjarnason organisti Skálholtsdómkirkju.

Sunnudagur 22. júlí kl. 13:30
HÁTÍÐARMESSA OG BISKUPSVÍGSLA

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir vígir sr. Kristján Björnsson til vígslubiskups í Skálholti. Kirkjukaffi í Skálholtsskóla. Allir velkomnir í messu og kaffi.​

Sunnudagur 22. júlí kl. 16:00
HÁTÍÐARSAMKOMA
Tónlist og erindi. Ávörp flytja biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, og dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen. Erindi flytur Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir. Hátíðarræðu flytur dr. Ágúst Einarsson. Undirritað verður samkomulag um skógrækt í landi Skálholts. Skálholtskórinn syngur með einsöngvaranum Benedikt Kristjánssyni og athöfnin endar með bæn sr. Egils Hallgrímssonar og blessun biskups. Kl. 18 er náttsöngur í kirkjunni.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Biskupsvígsla á Skálholtshátíð og heilmikil dagskrá

Biskupsvígslan verður á Skálholtshátíð 22. júlí og hefst messan kl. 13.30. Eftir vígslu og messu er öllum boðið í kirkju- og vígslukaffi í Skálholtsskóla. Fyrir hádegi eru tónleikar kl. 11 og boðið er uppá léttan hádegisverð í skólanum. Eftir vígslukaffið verður hátíðardagskrá í kirkjunni og að lokum endar dagskrá með bæn kl. 18.

Það hefur verið lagt kapp á að fegra staðinn og gluggar Gerðar Helgadóttur eru margir komnir aftur á sinn stað eftir viðgerð í Þýskalandi. Fyrir þau sem vilja fagna Skálholtshátíð og biskupsvígslu bendi ég á að það myndi muna mikið um það ef við tækjum höndum saman með framlagi í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju sem kostar gluggaviðgerðina eða Þorlákssjóð sem notaður er til að prýða kirkjuna og endurnýja skrúða og áhöld. Það yrði okkar mesta gleði sem unnum þessum helga stað en það væri einnig gaman að fagna Skálholtshátíð með framlagi til hvaða kirkju sem er í umdæmi Skálholts. Það yrði táknrænt framlag til að fagna hátíðinni í umdæminu öllu. En hvað mig varðar myndi það gleðja mig mest ef þau sem hugsa til gjafa vegna vígslu minnar láti það renna í þessa sjóði Skálholtsdómkirkju eða til sinnar kirkju í umdæminu.

Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju, banki 0152-15-380808, kt. 451016-1210.

Þorlákssjóður, banki 0151-05-060468, kt. 610172-0169. Ekki sakar að minna á að allt framlag þeirra sem tendra kerti á bænastjaka vestast í kirkjunni rennur í Þorlákssjóð.

Dagskrá Skálholtshátíðar er í heild sinni á vef Skálholtsstaðar Skalholt.is og þar er að finna upplýsingar um Sumartónleikana og aðra viðburði sumarsins í Skálholti.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Hjartans þakkir fyrir stuðning og traust

Ég er afar þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem mér hefur verið sýnt með því að vera kjörinn næsti vígslubiskup í Skálholti. Ég þakka sr. Eiríki Jóhannsyni fyrir drengskap og vináttu á þessari vegferð í kjörinu og bið honum og fjölskyldu hans Guðs blessunar í þjónustunni. Ég finn til auðmýktar þegar það er svo komið að vera kallaður electus, eða sá sem kjörinn hefur verið og bíður vígslu. Vígslan verður í Skálholti á Skálholtshátíð sunnudaginn 22. júlí og verður gaman að koma þar saman sem endra nær. Eftir langa reynslu í þjónustunni veit ég að það hefst allt með góðri samvinnu hjá góðu fólki. Með það í huga geng ég til þessara nýju starfa með gleði og tilhlökkun ekki síður en bæn um blessun Drottins.

Birt í General | 2 athugasemdir

Talning laugardaginn fyrir hvítasunnu

Samkvæmt skeyti frá kjörstjórn verður talið í síðustu umferð vígslubiskupskosninganna laugardaginn 19. maí og má búast við niðurstöðu fljótlega eftir hádegi. Það er von mín að kjörsókn verði enn betri en í fyrri umferð í mars og allt takist vel svo þetta verði örugglega síðasta umferðin. Það verður merkilegt að sjá þetta ferli á enda því aldrei fyrr hefur jafn margt fólk verið á kjörskrá í biskupskjöri á Íslandi, alls 939 í umdæmi Skálholts. Það eru líka nýmæli að kjörnefndir hvers prestakalls kjósa. Í þær eru kosið á safnaðarfundum og er kjörnefndarfólk 11 til 27 eftir fjölda sóknarbarna í prestakallinu. Þegar ég lít til baka var ekki undarlegt að hnökrar hafi komið upp í fyrstu atrennu í haust á alveg nýju lýðræðislegu kerfi. Ég hef mikla trú á kirkju sem vill þróa skipulag sitt og vanda sig við þá stefnu að vilji forystufólks í hverju prestakalli verði ætíð ráðandi þegar kosið er til þjónustustarfa vígðra þjóna. Það undirstrikar bein tengsl vígslubiskupsþjónustu við grunnþjónustu kirkjunnar í sóknum hennar og við starfið á stofnunum umdæmisins. Myndin mín með þessari stuttu frétt er úr Hólmavíkurkirkju sem ég tók í Vestfjarðarferðinni í apríl.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Vígslubiskupskjörinu lýkur mánudaginn 14. maí

Vígslubiskupskjörinu lýkur mánudaginn 14. maí síðdegis með lokun Biskupsstofu og pósthúsa landsins. Það er síðasti skiladagur og þarf að tryggja læsilegan stimpil eigi síðar en 14.05.18. Lokadagur vetrarvertíðar er 11. maí og lokakafli kjörsins er núna um helgina. Get ég ekki annað en verið afar þakklátur fyrir góða þátttöku og almennan vilja fólks til að ljúka þessu langa vali með góðum endaspretti – hlaðspretti heim í Skálholt. Ég þakka fólkinu sem þegar er búið að kjósa og skila atkvæðaseðlinum. Hvet ég hin til dáða sem eiga eftir að koma seðlinum frá sér. Hafi kjörgögn ekki skilað sér til kjörnefndarfólksins er hægt að fara á biskupsstofu og óska eftir kjörgögnum til að fylla út þar. Dagsetning á talningunni er ekki enn komin en mér heyrst það geta orðið um hvítasunnu.

Ég heyrði ágæta sögu af kjörmanni sem fór með tilkynninguna í pósthúsið, tók við ábyrgðarbréfinu, opnaði það á staðnum, fyllti út og lokaði. Setti hann bréfið þannig viðstöðulaust í póstinn aftur með greinilegum stimpli. Þegar hann var að fylla seðilinn út leit hann þó aðeins upp og sá þá konu með samskonar bréf að fylla út. Þau höfðu bara gaman að því að pósthúsið var óvænt orðið að kjörklefa. Þau gerðu bæði eina ferð í póstinn og voru álíka ákveðin í þessari ítrekuðu kosningu. Ég fyllist bara aðdáun yfir þessari elju og trúmennsku í ábyrgðarstarfi fyrir kirkjuna okkar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Konur í góðum meirihluta á kirkjuþingi

Kynjahlutfall stórbatnar á kirkjuþingi með kosningunni í gær og óska ég kirkjunni til hamingju með að ná því langþráða takmarki. Konur eru núna í góðum meirihluta presta og djákna á kirkjuþingi sem er nálægt 60/40 og þegar hlutfall kvenna og karla hjá vígðum þjónum og fulltrúum sóknanefndanna er tekið saman eru konur 55% kirkjuþingsfulltrúa. Í heild eru 29 fulltrúar á kirkjuþingi og eru það 16 konur og 13 karlar. Kosið var til fjögurra ára og verður kirkjuþing að venju kallað saman í nóvember og þá er kosið í nefndir og ráð kirkjuþings.  Hlutfall kynja á síðasta kjörtímabili var lakara en þá voru kirkjuþingsfulltrúar 19 karlar og 10 konur. Leikmenn eru fulltrúar sókna landsins og vígðir eru fulltrúar prestakalla og vígðrar þjónustu. Auk kjörinna fulltrúa situr einn fulltrúi guðfræði- og trúabragðafræðideildar HÍ, vígslubiskupar og biskup Íslands en þeim til viðbótar á ráðherra sæti á kirkjuþingi eða fulltrúi ráðherra.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Aldrei fleiri á kjörskrá í vígslubiskupskjöri

Aldrei hafa fleiri verið á kjörskrá í vígslubiskupskjöri. Núna eru 937 fulltrúar að kjósa í umdæmi Skálholts og í fyrri umferðinni var kjörsókn um 68%. Til samanburðar má rifja upp að árið 2012 voru alls 502 fulltrúar á kjörskrá í kjöri til biskups Íslands og var kjörsókn þá 95%. Í síðasta kjöri til vígslubiskups á Hólum voru um 200 manns á kjörskrá. Í umdæmi Skálholts hefur fjöldi kjörmanna ríflega þrefaldast frá síðustu kosningu. Mesta fjölgunin er í röðum leikmanna vegna þeirrar nýbreytni að kjörnefndir kjósa núna biskupa til þjónustu sinnar. Kjörnefndir eru í hverju prestakalli og eru lágmarksfjöldi þeirra ellefu og eykst eftir fjölda sóknarbarna í fjölmennari prestaköllunum allt uppí tæplega þrjátíu. Það er óskandi að vígt og óvígt kirkjunnar fólk nýti vel þessa miklu fjölgun á kjósendum með enn meiri þátttöku en var í fyrri umferðinni í mars og sýni með því að það er vilji til enn meira fulltrúalýðræðis í málefnum kirkjunnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd