Á ferð um djúp og gleði vináttunnar í kirkjunni

Frá Hólmavík um Djúpið í vináttu og gleði. Hólmavíkurkirkja á 50 ára vígsluafmæli sem haldið verður uppá síðla sumars. Við Guðrún Helga þökkum fyrir frábærar mótttökur og spjall í morgun. Þessir dagar eru ferð um djúp og gleði vináttunnar í kirkjunni. Í gær vorum við í Búðardal, á Skógarströnd og svo úr Dölunum yfir á Skriðnesenni. Það er einstaklega gaman að hittast og gestrisni er mikil í okkar garð. Svo fórum við í dag yfir Steingrímsfjarðarheiðina og eltum Leikfélag Hólmavíkur allar götur yfir á Þingeyri.  Þar fluttu þau frábærlega verkið um Halta Billa sem verður svo aftur flutt á Patreksfirði á morgun, sunnudagskvöld.

Hér er mynd frá Ögurkirkju. Á morgun er heimsókn á Flateyri, í Súgandafjörð og Ísafjörð og svo aftur á Þingeyri. Á leiðinni hingað áttum við einstaka stund í Súðavík hjá góðum vinum sem tóku á móti okkur með vöfflum og rjóma.

 

 

Hér er svo ein mynd frá Þingeyri.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Skilafrestur lengdur

Samkvæmt skeyti frá kjörstjórn hefur hún ákveðið að lengja frestinn til að skila inn atkvæðum í vígslubiskupskjörinu til mánudags 14. maí vegna einhverra vankvæða hjá Íslandspósti. Ég vil samt hvetja fólk að fresta því ekki að kjósa þegar seðillinn er kominn í hús nema einhver eigi enn eftir að gera upp sinn hug. Þá má alltaf hringja í vin. Kjörsókn jókst í fyrri umferðinni frá því í haust og það er von mín að kjörsókn muni enn aukast í þessari lokaumferð. Það væri gott að geta tekið höndum saman um að veita nýjum vígslubiskupi afgerandi stuðning og góðan meirihluta. Lífið á Íslandi hefur jú snúist svolítið um það í gegnum aldirnar að koma með góðan afla úr hverjum túr.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Hjarðarholtskirkja í Dölum

Hjarðarholtskirkja í Dölum er prófverkefni Rögnvaldar Ólafssonar og markar tímamót hjá fyrsta arkítekt Íslands, einsog hann hefur verið kallaður og nú síðast í nýlegri samnefndri bók. Hjarðarholtskirkja er sennilega teiknuð meðan Rögnvaldur er enn í námi og byggð 1904. Það er gaman að sjá hvernig látleysi í skreytingum að innan sem utan laða fram formin í byggingarstíl kirkjunnar. Kirkjan verður seinna að fyrirmynd Húsavíkurkirkju 1907 og að grunni til Breiðabólsstaðarkirkju í Fljótshlíð 1912. Talið er að Rögnvaldur hafi verið undir áhrifum af svonefndum Schweitzerstíl í krosskirkjum sínum en sá stíll hafði þróast í Noregi á 19. öld og er sennilega ættaður frá Sviss.  Kirkjan er þó ekki bara dýrgripur íslenskrar byggingarsögu heldur lifandi helgidómur safnaðarins í Búðardal og allri Hjarðarholtssókninni sem er undirstrikað með vel heppnaðri safnaðarbyggingu á hlaðinu.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Mikil endurnýjun og margt fólk kallað til þjónustu

Á þessum vikum er fjölmargt kirkjunnar fólk að leita umboðs hjá kjósendum til að gegna ýmsum hlutverkum innan kirkjunnar með tilnefningum, kjöri, köllun og skipunum. Það er mikilvægt að finna hæft fólk og gæta um leið að jafnri stöðu kynjanna. Þessar vikurnar eiga sér stað kosningar og ráðningar í nokkur prestsembætti.

Á stuttum tíma hefur verið auglýst eftir níu guðfræðingum og prestum í föst prestsembætti eða afleysingar. Flest störfin eru þjónusta við sóknarkirkjur víða um land en tvær stöður til klínískrar sálgæslu á Landspítala. Alls verða 29 kosin til setu á kirkjuþingi og þar af eru 12 vígðir þjónar og 17 leikmenn. Auglýst er eftir mannauðsstjóra og upplýsingafulltrúa á biskupsstofu. Um eitt þúsund manns eru núna að kjósa í seinni umferð til vígslubiskups í Skálholti en það eru fleiri kjósendur en hafa nokkru sinni kosið nokkurn biskup á Íslandi. Mikil endurnýjun verður í stjórn Prestafélags Íslands á aðalfundi á hundrað ára afmæli félagsins. Þá má geta þess að annað hvert ár er ýmist kosið um meirihluta eða minnihluta í 276 sóknarnefndum landsins. Af þeim eru 174 sóknir í umdæmi Skálholts og 102 sóknir í umdæmi Hóla í Hjaltadal. Á síðasta ári og í vetur var kosið á safnaðarfundum sóknum landsins til setu í kjörnefndum en ein kjörnefnd er í hverju prestakalli og þau eru um áttatíu talsins. Kjörnefnd er kosin til fjögurra ára og kýs þegar velja þarf nýjan prest eða nýjan biskup.

Það er mikilvægt að í þessum kosningum öllum verði horft til jafnréttis og virðingar og horft til þess að Þjóðkirkjan okkar er hluti af Lútherska heimssambandinu. Þar hefur kirkjan samþykkt kröfu um lágmarkshlutfall kynjanna þannig að í öllum hópum, nefndum og stjórnum skal gæta þess að hlutfallið sé ekki lakara en 40/60. Þetta er ekki viðmið sem nota má bara í hátíðlegum ræðum innan kirkjunnar heldur er þetta samþykkt sem við eigum aðild að. Auk þess er samþykktin í ágætu samræmi við lög í landinu okkar um jafnrétti og stjórnsýslu. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga í kirkjunni þegar kemur að kosningum því þátttaka í kosningu leggur ábyrgð á okkur hvert og eitt. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að í kjöri til vígslubiskups í Skálholti eru núna í síðustu umferð tveir karlar enda virðist sem prestar hafi haft það í huga við tilnefningar sínar til kjörsins að fyrir eru tvær biskupsvígðar konur. Þannig virðist vígslubiskupskjörið ætla að leiða til þess að karlmaður verði einn af þremur líkt og verið hefur síðustu ár. Í kosningu til kirkjuþings eru fulltrúarnir fleiri. Sóknarnefndarfólk, prestar og djáknar kjósa með þeim hætti að hver og einn kjósandi merkir við nokkur nöfn. Við getum því kosið að hlutfall kynjanna sé sem jafnast með þeim atkvæðum sem við höfum á hendi.

Ef við gætum öll að þessu atriði í öllum kosningum í kirkjunni gætum við innan tíðar státað af því að vera enn nær okkar eigin samþykktum. Einhvern tíma hefði það heitið að kirkjan væri sjálfri sér samkvæm í orði og verki. Það minnir á 25. sálm: „Vísa mér vegu þína Drottinn, kenn mér stigu þína“, kenndu mér að rata rétt. Ekki viljum við vera einsog vegprestar, vegvísar, sem standa við gatnamót og vísa veginn án þess að fara þangað sem skiltið bendir.

Til allra hlutverka og starfa þarf að velja hæfasta fólkið og tryggja jafna stöðu kynjanna. Í ýmsum hlutverkum kirkjunnar erum við kölluð til að vera fulltrúar margra en í raun og veru erum við kölluð til að vera trúar manneskjur sem gæta að hag kirkjunnar hvort sem það er í sókninni, prófastsdæminu eða t.d. á kirkjuþingi. Í sumum hlutverkum erum við kölluð til að gegna tilteknu verkefni eða embætti sem krefst ákveðinnar menntunar og reynslu. Köllun byggir alltaf á þörf sem þarf að mæta því ef ekki væri þörf á þjónustu vantaði engan í það hlutverk. Þau sem velja til prestsembætta þurfa að skoða hvernig reynsla og hæfni þeirrar manneskju getur best mætt þeirri þörf sem þarf að þjóna. Við tölum svo um að finna til köllunar ef við teljum okkur geta mætt þeirri þörf. Það sama gildir í raun um vígslubiskupskjör nema það felur í sér hlutverk og þjónustu á stærra svæði. Það kallar sannarlega eftir manneskju sem er annt um allar sóknirnar, boðun kirkjunnar og safnaðarstarf á hverjum stað. En það kallar líka eftir reynslu til að mæta kröfum um gróskumikið og gefnandi starf heima í Skálholti, reynslu af stjórnsýslu kirkjunnar en kannski fyrst og fremst að hafa forystu um að kalla saman fólk og félög til að móta frekari uppbyggingu á okkar sögufræga og helga stað. Og það er eins og þessi tengsl séu áréttuð í þeirri nýbreytni að frambjóðendur til vígslubiskups núna sækja umboð sitt til mun fleiri fulltrúa en nokkru sinni fyrr í sögu kirkjunnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Enginn verður ókosinn biskup

Síðasta umferð í kjöri til vígslubiskups í Skálholti verður með póstkosningu mánudaginn 23. apríl til mánudagsins 14. maí. Það er orðið alveg ljóst að enginn verður ókosinn biskup né heldur vígslubiskup nema kosinn verði í annað sinn (eða þriðja sinn). Með þeim orðum þakka ég enn og aftur góðan stuðning í síðustu umferð sem dugði næstum því til að ljúka kjörinu þá. Það kom mér ángæjulega á óvart og ég er enn að átta mig á þeim mikla stuðningi sem við fengum við framboðið. Mest af öllu þakka ég aukna þátttöku kjörmanna og það var sannarlega til góðs að kjörskráin var gerð opinber.

Enn og aftur þakka ég sr. Axel Árnasyni Njarðvík, héraðspresti okkar, fyrir þátttökuna en hann verður ekki með í seinni umferð til vígslubiskups í Skálholti. Óska ég honum góðs gengis í kosningu til kirkjuþings þar sem hann hefur boðið sig fram með öðru góðu vígðu fólki í Skálholtskjördæmi. Það er sama kördæmi og til vígslubiskups nema Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmin. Sömu leiðis þakka ég jafn drengilegt framboð sr. Eiríks Jóhannssonar, presti í Háteigskirkju. Óska ég honum til hamingju með annað sætið í fyrri umferð og bið honum blessunar í seinni umferðinni þar sem kosið verður á milli okkar tveggja. Niðurstaðan verður fyrst ljós þegar talið verður í þessari seinni umferð. Dagsetningarnar hér eru samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórninni sem kirkjuráð á eftir að staðfesta en við göngum út frá þessu og göngum með gleði og auðmýkt til leiks í lokasprettinn sem hefst þann 23. apríl.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Gleðilega páska, kæru vinir

Við Guðrún Helga og fjölskylda óskum ykkur gleðilegra páska og góðra stunda á stórhátíðinni. Mjög víða er hátíðarguðsþjónusta árla dags og fram eftir degi á hæstri hátíð kristinna manna. Það er víðar en á Íslandi enda nálgast fjöldi kristinna einstaklinga tvo milljarða og kristni er iðkuð í flestum löndum heimsins. Það má treysta því að fólk á ferðalagi finni kirkju og guðsþjónustu í næsta nágrenni sínu. Okkur er enn í fersku minni þegar við mættum með klappstólana okkar kl. 6 á páskadagsmorgni til messu á garðflötinni við kirkju eina í Riverview á Flórída. Sátum við þar við sálmasöng með þann yngsta á fyrsta ári þar til sólin kom upp og geislar hennar brutust á milli trjánna og spegluðust á tjörninni. Það var einhvern fallegasta páskasól og einstök upplifun. Svo var líka gott að fá glasúrgljáða kleinuhringi með kaffinu á eftir. Ef nokkur er klæddur og kominn á ról á Eyrarbakka eða nágrenni er fyrsta hátíðarguðsþjónusta okkar á morgun í Eyrarbakkakirkju kl. 8 (með morgunkaffi) og Stokkseyrarkirkju kl. 11.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Aukin kjörsókn og víðtækara umboð til þess fallið að efla þjónustuna

Það er rétt sem segir í Mogga að vantaði ekki mikið uppá helminginn sem þurfti til að ljúka mætti kosningunni í fyrri umferð. En það er líka mjög góð frétt að það tókst að auka kjörsóknina all nokkuð frá því í haust. Ég er óumræðilega þakklátur fyrir þennan aukna stuðning núna og vona að enn fleiri taki þátt í lokaumferðinni 20. apríl til 4. maí. Ef það þróast þannig gætu enn fleiri átt þátt í því að gefa nýjum manni afgerandi umboð til að efla þjónustu vígslubiskups í Skálholti við stofnanir, sóknir, starfsfólk, djákna og presta umdæmisins. Þegar talað er um meirihluta greiddra atkvæða finnst mér það fyrst og fremst snúast um að nýr maður fái að njóta umboðs og samskipta flestra þeirra kvenna og karla sem leiða safnaðarstarfið á hverjum stað og bera uppi þjónustu kirkjunnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Fyllist auðmýkt að finna þennan mikla stuðning

Ég fyllist auðmýkt að finna þennan mikla stuðning. Hjartans þökk. Nú er búið að telja og það voru 48% kjósenda sem veittu mér atkvæði sitt. Það þurfti 50% til að klára kosninguna svo það verður önnur umferð á milli okkar tveggja sem hlutum flest atkvæði, næstur var með 38%. Ég þakka sr. Axel Njarðvík fyrir drengilegt framboð sitt og góða kynningu á mikilsverðum málefnum er lúta að umhverfisvernd og betri kirkju. Það verði barátta okkar allra sem við þurfum að vinna að saman vegna velferðar manneskjunnar. Nú finnst mér vilji kjósenda vera orðinn nokkuð skýr og hlýt ég í annað sinn flest atkvæði ef með er talin kosningin í haust. Fyrir það er ég afar þakklátur og legg upp með þetta vegarnesti til lokaumferðar 20. apríl til 4. maí.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Íhygli á dymbildögum og gleði páska

Guð gefi þér íhygli og gefandi stundir á dymbildögum þegar skírdagur, föstudagur langur og helgur laugardagur gerir kyrruviku að einni dýrustu viku ársins. Guð gefi þér gleðilega páska þegar árdagssólin litar sunnudagsljóma trúarinnar með sannri páskagleði.

 

InkedIMG_2303 (002)_LI

Megir þú vakna árla morguns við páskahláturinn í sjálfum þér þegar þú minnist þess að Kristur er upprisinn. Megi páskavikan ganga í garð með ríka von og nýja dögun gleði og hamingju fyrir allt sem lifir.

Gleðilega páska!

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Talning á morgun

Þá er komið að talningu í vígslubiskupskjörinu með fundi kjörstjórnar kl. 14 á morgun, miðvikudag 28. mars. Búast má við tölum um kvöldmatarleyti. Það eina sem við vitum núna er að kjörsókn er nokkuð betri en var í haust og eru það ánægjuleg tíðindi. Það viti á gott og ég vona að sá sem verður valinn fái góðan stuðning til að gegna þessu hlutverki í þjónustu kirkjunnar.

Hljóti einhver frambjóðandanna helming greiddra atkvæða eða meira er komin niðurstaða í þessari umferð. Nái hins vegar enginn helming greiddra atkvæða verður önnur umferð haldin 20. apríl til 4. maí og kosið milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði núna. Þurfi þá umferð fæst endanleg niðurstaða 12. maí, daginn fyrir mæðradag.

Birt í General | Færðu inn athugasemd