Biskupsvígsla á Skálholtshátíð og heilmikil dagskrá

Biskupsvígslan verður á Skálholtshátíð 22. júlí og hefst messan kl. 13.30. Eftir vígslu og messu er öllum boðið í kirkju- og vígslukaffi í Skálholtsskóla. Fyrir hádegi eru tónleikar kl. 11 og boðið er uppá léttan hádegisverð í skólanum. Eftir vígslukaffið verður hátíðardagskrá í kirkjunni og að lokum endar dagskrá með bæn kl. 18.

Það hefur verið lagt kapp á að fegra staðinn og gluggar Gerðar Helgadóttur eru margir komnir aftur á sinn stað eftir viðgerð í Þýskalandi. Fyrir þau sem vilja fagna Skálholtshátíð og biskupsvígslu bendi ég á að það myndi muna mikið um það ef við tækjum höndum saman með framlagi í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju sem kostar gluggaviðgerðina eða Þorlákssjóð sem notaður er til að prýða kirkjuna og endurnýja skrúða og áhöld. Það yrði okkar mesta gleði sem unnum þessum helga stað en það væri einnig gaman að fagna Skálholtshátíð með framlagi til hvaða kirkju sem er í umdæmi Skálholts. Það yrði táknrænt framlag til að fagna hátíðinni í umdæminu öllu. En hvað mig varðar myndi það gleðja mig mest ef þau sem hugsa til gjafa vegna vígslu minnar láti það renna í þessa sjóði Skálholtsdómkirkju eða til sinnar kirkju í umdæminu.

Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju, banki 0152-15-380808, kt. 451016-1210.

Þorlákssjóður, banki 0151-05-060468, kt. 610172-0169. Ekki sakar að minna á að allt framlag þeirra sem tendra kerti á bænastjaka vestast í kirkjunni rennur í Þorlákssjóð.

Dagskrá Skálholtshátíðar er í heild sinni á vef Skálholtsstaðar Skalholt.is og þar er að finna upplýsingar um Sumartónleikana og aðra viðburði sumarsins í Skálholti.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Hjartans þakkir fyrir stuðning og traust

Ég er afar þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem mér hefur verið sýnt með því að vera kjörinn næsti vígslubiskup í Skálholti. Ég þakka sr. Eiríki Jóhannsyni fyrir drengskap og vináttu á þessari vegferð í kjörinu og bið honum og fjölskyldu hans Guðs blessunar í þjónustunni. Ég finn til auðmýktar þegar það er svo komið að vera kallaður electus, eða sá sem kjörinn hefur verið og bíður vígslu. Vígslan verður í Skálholti á Skálholtshátíð sunnudaginn 22. júlí og verður gaman að koma þar saman sem endra nær. Eftir langa reynslu í þjónustunni veit ég að það hefst allt með góðri samvinnu hjá góðu fólki. Með það í huga geng ég til þessara nýju starfa með gleði og tilhlökkun ekki síður en bæn um blessun Drottins.

Birt í General | 2 athugasemdir

Talning laugardaginn fyrir hvítasunnu

Samkvæmt skeyti frá kjörstjórn verður talið í síðustu umferð vígslubiskupskosninganna laugardaginn 19. maí og má búast við niðurstöðu fljótlega eftir hádegi. Það er von mín að kjörsókn verði enn betri en í fyrri umferð í mars og allt takist vel svo þetta verði örugglega síðasta umferðin. Það verður merkilegt að sjá þetta ferli á enda því aldrei fyrr hefur jafn margt fólk verið á kjörskrá í biskupskjöri á Íslandi, alls 939 í umdæmi Skálholts. Það eru líka nýmæli að kjörnefndir hvers prestakalls kjósa. Í þær eru kosið á safnaðarfundum og er kjörnefndarfólk 11 til 27 eftir fjölda sóknarbarna í prestakallinu. Þegar ég lít til baka var ekki undarlegt að hnökrar hafi komið upp í fyrstu atrennu í haust á alveg nýju lýðræðislegu kerfi. Ég hef mikla trú á kirkju sem vill þróa skipulag sitt og vanda sig við þá stefnu að vilji forystufólks í hverju prestakalli verði ætíð ráðandi þegar kosið er til þjónustustarfa vígðra þjóna. Það undirstrikar bein tengsl vígslubiskupsþjónustu við grunnþjónustu kirkjunnar í sóknum hennar og við starfið á stofnunum umdæmisins. Myndin mín með þessari stuttu frétt er úr Hólmavíkurkirkju sem ég tók í Vestfjarðarferðinni í apríl.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Vígslubiskupskjörinu lýkur mánudaginn 14. maí

Vígslubiskupskjörinu lýkur mánudaginn 14. maí síðdegis með lokun Biskupsstofu og pósthúsa landsins. Það er síðasti skiladagur og þarf að tryggja læsilegan stimpil eigi síðar en 14.05.18. Lokadagur vetrarvertíðar er 11. maí og lokakafli kjörsins er núna um helgina. Get ég ekki annað en verið afar þakklátur fyrir góða þátttöku og almennan vilja fólks til að ljúka þessu langa vali með góðum endaspretti – hlaðspretti heim í Skálholt. Ég þakka fólkinu sem þegar er búið að kjósa og skila atkvæðaseðlinum. Hvet ég hin til dáða sem eiga eftir að koma seðlinum frá sér. Hafi kjörgögn ekki skilað sér til kjörnefndarfólksins er hægt að fara á biskupsstofu og óska eftir kjörgögnum til að fylla út þar. Dagsetning á talningunni er ekki enn komin en mér heyrst það geta orðið um hvítasunnu.

Ég heyrði ágæta sögu af kjörmanni sem fór með tilkynninguna í pósthúsið, tók við ábyrgðarbréfinu, opnaði það á staðnum, fyllti út og lokaði. Setti hann bréfið þannig viðstöðulaust í póstinn aftur með greinilegum stimpli. Þegar hann var að fylla seðilinn út leit hann þó aðeins upp og sá þá konu með samskonar bréf að fylla út. Þau höfðu bara gaman að því að pósthúsið var óvænt orðið að kjörklefa. Þau gerðu bæði eina ferð í póstinn og voru álíka ákveðin í þessari ítrekuðu kosningu. Ég fyllist bara aðdáun yfir þessari elju og trúmennsku í ábyrgðarstarfi fyrir kirkjuna okkar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Konur í góðum meirihluta á kirkjuþingi

Kynjahlutfall stórbatnar á kirkjuþingi með kosningunni í gær og óska ég kirkjunni til hamingju með að ná því langþráða takmarki. Konur eru núna í góðum meirihluta presta og djákna á kirkjuþingi sem er nálægt 60/40 og þegar hlutfall kvenna og karla hjá vígðum þjónum og fulltrúum sóknanefndanna er tekið saman eru konur 55% kirkjuþingsfulltrúa. Í heild eru 29 fulltrúar á kirkjuþingi og eru það 16 konur og 13 karlar. Kosið var til fjögurra ára og verður kirkjuþing að venju kallað saman í nóvember og þá er kosið í nefndir og ráð kirkjuþings.  Hlutfall kynja á síðasta kjörtímabili var lakara en þá voru kirkjuþingsfulltrúar 19 karlar og 10 konur. Leikmenn eru fulltrúar sókna landsins og vígðir eru fulltrúar prestakalla og vígðrar þjónustu. Auk kjörinna fulltrúa situr einn fulltrúi guðfræði- og trúabragðafræðideildar HÍ, vígslubiskupar og biskup Íslands en þeim til viðbótar á ráðherra sæti á kirkjuþingi eða fulltrúi ráðherra.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Aldrei fleiri á kjörskrá í vígslubiskupskjöri

Aldrei hafa fleiri verið á kjörskrá í vígslubiskupskjöri. Núna eru 937 fulltrúar að kjósa í umdæmi Skálholts og í fyrri umferðinni var kjörsókn um 68%. Til samanburðar má rifja upp að árið 2012 voru alls 502 fulltrúar á kjörskrá í kjöri til biskups Íslands og var kjörsókn þá 95%. Í síðasta kjöri til vígslubiskups á Hólum voru um 200 manns á kjörskrá. Í umdæmi Skálholts hefur fjöldi kjörmanna ríflega þrefaldast frá síðustu kosningu. Mesta fjölgunin er í röðum leikmanna vegna þeirrar nýbreytni að kjörnefndir kjósa núna biskupa til þjónustu sinnar. Kjörnefndir eru í hverju prestakalli og eru lágmarksfjöldi þeirra ellefu og eykst eftir fjölda sóknarbarna í fjölmennari prestaköllunum allt uppí tæplega þrjátíu. Það er óskandi að vígt og óvígt kirkjunnar fólk nýti vel þessa miklu fjölgun á kjósendum með enn meiri þátttöku en var í fyrri umferðinni í mars og sýni með því að það er vilji til enn meira fulltrúalýðræðis í málefnum kirkjunnar.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Vígslubiskup með reynslu á kirkjuþingi

Kjör til kirkjuþings stendur yfir á vef kirkjunnar en kirkjuþing er skipað fulltrúum presta, djákna og sóknarnefndarfólks af öllu landinu. Þar sitja samtals 29 fulltrúar og er óvígt fólk í góðum meirihluta. Vígslubiskupar sitja einnig á kirkjuþingi með málfrelsi og tillögurétt og er það eitt af hlutverkum vígslubiskupanna tveggja. Helsta þjónusta þeirra er eftir sem áður stuðningur við grunnþjónustuna í sóknum, stofnunum og félögum kirkjunnar, auk eflingar Skálholts. Með vígslubiskupskjörinu er því einnig verið að ráða einu föstu sæti í skipan kirkjuþings en það er fulltrúi sem hefur það helsta hlutverk að tala máli kirkjustarfs og þjónustu. Þetta sýnir að það getur skipt miklu máli fyrir sóknirnar og þjónustu kirkjunnar að núna verði kosinn manneskja sem hefur þegar aflað sér mikillar reynslu í starfi kirkjuþings, kirkjuráðs og stjórnar Skálholts og þekkir víða til í kirkjulegri þjónustu. Það skiptir máli svo að reynsla hans hjálpi til við farsælar lyktir góðra mála kirkjuþings. Það skiptir einnig máli að nýr vígslubiskup fái gott umboð með enn meiri þátttöku kjörnefnda, djákna og presta í þessari síðustu umferð.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Í gærkvöld lauk vetri vinnandi fólks

Ég ann Fyrsta maí vegna réttlætis og vonar vinnandi fólks. Ef vitna má í Laxness lauk vetri vinnandi fólks í gærkvöldi. Í gærkvöldi og í fyrragær – marga langa daga – áttum við von um betra líf en í dag er vonin algjörlega búin að fylla brjóst allra sem vilja bera uppi einíngarbandið, þennan fagra og fullkomna krossfána baráttunnar í framtíðarlandinu sem við byggjum. Til hamingju með Fyrsta maí!

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Á ferð um djúp og gleði vináttunnar í kirkjunni

Frá Hólmavík um Djúpið í vináttu og gleði. Hólmavíkurkirkja á 50 ára vígsluafmæli sem haldið verður uppá síðla sumars. Við Guðrún Helga þökkum fyrir frábærar mótttökur og spjall í morgun. Þessir dagar eru ferð um djúp og gleði vináttunnar í kirkjunni. Í gær vorum við í Búðardal, á Skógarströnd og svo úr Dölunum yfir á Skriðnesenni. Það er einstaklega gaman að hittast og gestrisni er mikil í okkar garð. Svo fórum við í dag yfir Steingrímsfjarðarheiðina og eltum Leikfélag Hólmavíkur allar götur yfir á Þingeyri.  Þar fluttu þau frábærlega verkið um Halta Billa sem verður svo aftur flutt á Patreksfirði á morgun, sunnudagskvöld.

Hér er mynd frá Ögurkirkju. Á morgun er heimsókn á Flateyri, í Súgandafjörð og Ísafjörð og svo aftur á Þingeyri. Á leiðinni hingað áttum við einstaka stund í Súðavík hjá góðum vinum sem tóku á móti okkur með vöfflum og rjóma.

 

 

Hér er svo ein mynd frá Þingeyri.

Birt í General | Færðu inn athugasemd

Skilafrestur lengdur

Samkvæmt skeyti frá kjörstjórn hefur hún ákveðið að lengja frestinn til að skila inn atkvæðum í vígslubiskupskjörinu til mánudags 14. maí vegna einhverra vankvæða hjá Íslandspósti. Ég vil samt hvetja fólk að fresta því ekki að kjósa þegar seðillinn er kominn í hús nema einhver eigi enn eftir að gera upp sinn hug. Þá má alltaf hringja í vin. Kjörsókn jókst í fyrri umferðinni frá því í haust og það er von mín að kjörsókn muni enn aukast í þessari lokaumferð. Það væri gott að geta tekið höndum saman um að veita nýjum vígslubiskupi afgerandi stuðning og góðan meirihluta. Lífið á Íslandi hefur jú snúist svolítið um það í gegnum aldirnar að koma með góðan afla úr hverjum túr.

Birt í General | Færðu inn athugasemd