Reynsla í starfi

Ég hef notið mikilla og góðra samskipta við kirkjunnar fólk um allt land í prestsþjónustu minni í gleði og fögnuði, sorg og áföllum og líka í starfi mínu fyrir prestafélögin, kirkjuþing, kirkjuráð, hjálparstarf kirkjunnar, hjálparsveit, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og önnur félög. Þá var ég ritstjóri Kirkjuritsins í tæpan áratug og blaðamaður áður fyrr. Ég vona að það komi að haldi í nýju þjónustuhlutverki. Ég finn að mig skortir samt margt en þannig hefur mér áður liðið þegar ég hef verið að takast á við nýja þjónustu og ábyrgð.

Ég var í stjórn Skálholts til nokkurra ára og fulltrúi í Kirkjuráði á tímum fjármálahrunsins. Með þessa reynslu er ég þess fullviss að það er hægt að ná saman um góða uppbyggingu, nýtingu og virðingu Skálholtsstaðar og efla sóknirnar til frekari verka.

Ég hef tekið þátt í því að halda ráðstefnur og málþing, m.a. í Skálholti, Reykjavík, Vestmannaeyjum og Kaupmannahöfn, og unnið að nefndarstarfi, hópastarfi og teymisvinnu sem prestur, héraðsnefndarmaður, stjórnarmaður og formaður PÍ. Ég var formaður Stafkirkjunnar á Heimaey í 15 ár. Þá hef ég sótt þing Lútherska heimsambandsins. Þetta er reynsla sem ég trúi að ætti öll að nýtast vel.

Í gegnum tíðina hef ég ekki vikist undan því að bregðast við og tala þegar erfið mál hafa komið upp í kirkjunni okkar og lagt mig fram um að auka öryggi, heill og vernd þeirra sem hafa þurft að þola illt og líða fyrir ofbeldi.

Í fyrri störfum mínum hef ég lagt áherslu á að boðun kirkjunnar þurfi að vera bæði í orði og verki allra þeirra sem þjóna vilja Kristi. Þess vegna legg ég áherslu á að við vinnum vel en virðum vinnutíma og hlúum að aðstæðum og fjölskyldulífi vígðra þjóna, starfsfólks og sóknarnefndarfólks í kirkjunni. Mér þykir einsýnt að á næstu árum þurfum við að endurskoða mannauðsmál kirkjunnar og skipulag vakta og þjónustu bæði vegna þeirra sem við þjónum og vegna þjónanna sjálfra og ástvina þeirra.

Sérmenntun mín á sviði klínískrar sálgæslu hefur kennt mér hvað sérþjónustan er mikilvæg til að mæta fólki sem manneskja og líka til þess að allir vinni saman á stofnunum og í sóknum landsins að velferð manneskjunnar með þekkingu sinni og trú, starfsþjálfun og framhaldsmenntun. Hér er mikill mannauður og klínísk sálgæsla er dýrmæt á allan hátt.

Börnin mín eru mér stöðug áminning um ábyrgð mannsins gagnvart umhverfinu og þau hafa líka kennt mér með sinni sýn og þekkingu að það er nauðsynlegt að vinna saman að hugarfarsbreytingu hér heima og í heiminum öllum. Nýjustu verkefni mín voru einmitt að taka þátt í undirbúningi að ráðstefnu Alkirkjuráðsins um loftlagsbreytingar sem haldið var í Kópavogi í október sl. og málstofu Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar um umhverfisréttlæti sem haldin var í tengslum við Norðurslóðarþingið Arctic Circle Assembly í sama mánuði.