Reynsla í starfi

Ég hef verið vígslubiskup í tæp fimm ár, eitt skipunartímabil. Ég er síðasti biskup sem skipaður er af forseta Íslands. Ég er einnig fyrsti biskup á Norðurlöndum sem gef kost á mér til endurkjörs núna í apríl 2023. Það er samkvæmt nýjum starfsreglum sem kveða m.a. á um kjörtímabil en þetta nýja íslenska kerfi tíðkast ekki hjá systurkirkjum okkar á Norðurlöndum.

Það var með auðmýkt að ég tók við þessu verðuga verkefni 2018. Hef ég lagt mig fram um að skilja vel og leggja niður fyrir mig hvert nýtt verk í biskupsþjónustunni. Margt var ég að gera í fyrsta sinn. En fyrst og fremst hef ég notið þess að vinna með frábæru fólki í Skálholti og í umdæmi Skálholts í öllum 6 prófastsdæmunum og í prestaköllunum. Heima í Skálholti lagði ég fyrst áherslu á að við yrðum að einfalda alla stjórnun til að ná árangri. Því fylgdu breytingar á skipan stjórnar og barátta fyrir sjálfstæðri rekstrarstjórn. Því næst kom mikill breytingartími í Þjóðkirkjunni sem hafði áhrif á stöðuna. Í Covid19 faraldrinum var best að leggja áherslu á heimavinnu og endurbætur á húsnæði og í rekstri. Hefur tekist að endurnýja Skálholtsdómkirkju að utan með nýju steinþaki og nýjum klukkum. Einnig að taka kirkjuna í gegn að innan með málningu, nýrri lýsingahönnun og nýjum hitakerfum og rafmagni, brunavörnum og hreinsun á orgeli. Á sama tíma hefur verið unnið að endurbótum á Skálholtsskóla sem hýsir núna Hótel Skálholt og veitingastaðinn Hvönn.Unnið er að endurnýjunar hitaveitunnar úr Þorlákshver og unnið að endurbótum á Skálholtsbúðum, Oddsstofu, Klettabúð og Árnesingabúð.

This image has an empty alt attribute; its file name is 20210126_174135.jpgUnnið er hörðum höndum að því að koma Bókhlöðu Skálholts úr turni kirkjunnar í Gestastofuna og þar verður einnig Prentsögusetur Íslands. Lögð hefur verið gönguleið um helstu kennileiti og kallast leiðin Þorláksleið. Þessi leið fléttast saman við miklar endurbætur á akslóða um Skálholtslandið og niður í Skálholtstungu og lagfæringu á aðgengi að veiðistöðum í Hvítá og Brúará. Sú breyting er orðin að núna rennur öll veiðisalan til Skálholts. Fjöldi styrkja hefur hjálpað til að gera þetta allt að veruleika. Í bókaútgáfu má nefna útgáfu á niðurstöðum fornleifauppgreftrar í Skálholti 2002-7 og er það þriggja binda verk. Þá er að koma út bók um Skálholt og tyrkjaránið og vert er að nefna góða bók Helga Þorlákssonar, Sögurstaðir, þar sem er góður kafli um Skálholt. Unnið hefur verið að góðri kynningu á Skálholti og er ímyndin núna bjartari. Öll áhersla er á uppbyggingu og endurnýjun. Ég hef lagt áherslu á að vinna vel að samstarfi við stjórn Skálholts, Skólaráðið sem núna verður lagt af, Skálholtsfélagið hið nýja, Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju og Sumartónleikana í Skálholti. Einnig felur starfið mitt í sig ábyrgð á Þingvallakirkjunefnd og stjórn Áheitasjóðs Þorláks helga. Í raun er starfinu best lýst með því að við höfum stöðugt nýtt fyrir stafni líkt og mun koma vel fram á Skálholtshátíð 20. – 23. júlí 2023.

Ég hef notið mikilla og góðra samskipta við kirkjunnar fólk um allt land í prestsþjónustu minni í gegnum tíðina í gleði og fögnuði, sorg og áföllum og líka í starfi mínu fyrir prestafélögin, kirkjuþing, kirkjuráð, hjálparstarf kirkjunnar, hjálparsveit, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og önnur félög. Þá var ég ritstjóri Kirkjuritsins í tæpan áratug og blaðamaður áður fyrr. Ég vona að það komi að haldi í nýju þjónustuhlutverki. Ég finn að mig skortir samt margt en þannig hefur mér áður liðið þegar ég hef verið að takast á við nýja þjónustu og ábyrgð.

Ég var í stjórn Skálholts til nokkurra ára og fulltrúi í Kirkjuráði á tímum fjármálahrunsins. Með þessa reynslu er ég þess fullviss að það er hægt að ná saman um góða uppbyggingu, nýtingu og virðingu Skálholtsstaðar og efla sóknirnar til frekari verka.

Ég hef tekið þátt í því að halda ráðstefnur og málþing, m.a. í Skálholti, Reykjavík, Vestmannaeyjum og Kaupmannahöfn, og unnið að nefndarstarfi, hópastarfi og teymisvinnu sem prestur, héraðsnefndarmaður, stjórnarmaður og formaður PÍ, en auk þess formaður samstarfsnefndar Norrænu prestafélaganna, NPS, í 2 ár. Ég var formaður Stafkirkjunnar á Heimaey í 15 ár. Þá hef ég sótt þing Lútherska heimsambandsins og kirkjuþing í Þýskalandi. Þetta er reynsla sem ég trúi að ætti öll að nýtast vel áfram fyrir kirkju sem er að breytast mikið.

Í gegnum tíðina hef ég ekki vikist undan því að bregðast við og tala þegar erfið mál hafa komið upp í kirkjunni okkar og lagt mig fram um að auka öryggi, heill og vernd þeirra sem hafa þurft að þola illt og líða fyrir ofbeldi. Þar hef ég ekki síst notið þess að kynnast starfi Barnaheilla.

Í fyrri störfum mínum hef ég lagt áherslu á að boðun kirkjunnar þurfi að vera bæði í orði og verki allra þeirra sem þjóna vilja Kristi. Þess vegna legg ég áherslu á að við vinnum vel en virðum vinnutíma og hlúum að aðstæðum og fjölskyldulífi vígðra þjóna, starfsfólks og sóknarnefndarfólks í kirkjunni. Mér þykir einsýnt að á næstu árum þurfum við að endurskoða mannauðsmál kirkjunnar og skipulag vakta og þjónustu bæði vegna þeirra sem við þjónum og vegna þjónanna sjálfra og ástvina þeirra.

Sérmenntun mín á sviði klínískrar sálgæslu hefur kennt mér hvað sérþjónustan er mikilvæg til að mæta fólki sem manneskjum og líka til þess að allir vinni saman á stofnunum og í sóknum landsins að velferð manneskjunnar með þekkingu sinni og trú, starfsþjálfun og framhaldsmenntun. Hér er mikill mannauður og klínísk sálgæsla er dýrmæt á allan hátt.

Börnin mín eru mér stöðug áminning um ábyrgð mannsins gagnvart umhverfinu og þau hafa líka kennt mér með sinni sýn og þekkingu að það er nauðsynlegt að vinna saman að hugarfarsbreytingu hér heima og í heiminum öllum. Nýjustu verkefni mín voru einmitt að taka þátt í undirbúningi að ráðstefnu Alkirkjuráðsins um loftlagsbreytingar sem haldið var í Kópavogi í október sl. og málstofu Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar um umhverfisréttlæti sem haldin var í tengslum við Norðurslóðarþingið Arctic Circle Assembly í sama mánuði. Hef ég komið að skipulagi að málstofum kirkjunnar, Guðfræðistofnunar HÍ og Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar á Arctic Circle Assembly á hverju ári síðan 2015 nema árið 2021.