Vegur til nýrra tíma

Það eru glimrandi tækifæri fólgin í þeim breytingum sem eru að ganga yfir í Þjóðkirkjuni. Það má segja að við lifum á réttum tíma til að hafa nýtt fyrir stafni. Kjörið tækifæri er til að setja í gang vinnu við að endurnýja skilning okkar á því hvernig kirkjuleg þjónusta ætti að birtast í samfélaginu og hjá þjóðinni.

Talsverð endurnýjun hefur orðið í röðum presta og djákna, organista og æskulýðsfulltrúa. Starfsfólk kirkjunnar á hverjum stað er orðið að svo mögnuðum teymum að það þarf að endurskoða alveg skilning okkar á því hvernig við komum best til móts við allar þarfir í samfélaginu. Hvað er það sem fólk þarf á að halda þegar það sækir kirkju eða einhvern anga af þjónustu hennar? Hvernig við mætum ólíkum sjónarmiðum í samtölum við fólk. Hvernig við erum til staðar í sálgæslunni. Hvernig við prédikum og boðum trú í orði og verki. Hvernig við eflum hvert annað í starfi. Hvernig við tölum um kirkjuna okkar.

Það síðastnefnda er mikilvægt því ýmis sjónarmið eru á leiðinni út þótt þau heyrist ennþá í formi grímulausrar hagsmunagæslu. Við erum þjónar öll saman. Samfélagið hefur tekið stakkaskiptum og kirkjan þarf að mæta því með góðum vinnubrögðum, agaðri framgöngu og miklum kröfum um menntun og reynslu.

Þá held ég að kirkjan sé á réttri leið ef hún hættir að horfa bara á vandamál og krísur en fer að hugsa í lausnum og tækifærum. Skipulagið á Þjóðkirkjunni er ennþá í mótun og það má ekki stoppa þá miklu skapandi vinnu. Forystufólk innan kirkjunnar þarf að leiða þessa þróun. Við þurfum að sjá að í stað þess að syrgja og mæra liðinn tíma sem gullöld eru komin í hendur okkar gullin tækifæri til breyttar hugsunar í ljósi mikilla breytinga í heiminum. Meðan við horfum aftur getum við ekki byggt upp þekkingu á aðstæðum sem eru þegar fyrir hendi, getum ekki greint það sem er að gerast. Þá sjáum við veginn til nýrra tíma.

Um Kristján Björnsson

Vígslubiskup í Skálholti
Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd