Sveiflan frá dymbyldögum til gleðilegra páska

Það er sannarlega dýpt og sveifla í trú og hugsun þessa helgidaga. Og það gildir um Skálholt sem er í flestum kirkjum landsins. Í gærkvöldi voru hér perlur passíunnar fluttar á orgeltónleikum Jóns Bjarnasonar. Einstök stund. Á skírdagskvöldi komum við svo til Krists með messu undir myndinni þar sem hann segir Komið til mín. Messunni lýkur með afskrýðingu altarisins með aðstoð sóknarnefndarfólks og svo er haldin Getsemanestund og endað í þögn. Fimm rósir eru lagðar á bert altarið til tákns um sár Krists á krossinum og þar með sárið sem hann sýndi Tómasi upprisinn.

Föstudaginn langa er enn önnur einstök stund. Sannarlega stiklur á vegi krossins. Það er þetta tákn sem er allt í senn, heimska heimsins, grín og galgopi með hefð fyrir háði, og svo hinn auði kross sem var eftir eftir upprisuna. Það er sigurtáknið sem við tölum um. Í Skálholti er guðsþjónustan kl. 16 með kórverkum Skálholtskórsins og orgelleik Jóns Bjarnasonar úr passíuverkum Bach. Píslasagan er lesin úr Jóhannesarguðspjalli. Þessari þjónustu lýkur með tignun krossins og lestri á „Sjö orðum“ Krists á krossinum. Af þeim er gjarnan ort og má nefna Sjöorða bænir Jóns Vídalíns og ómetanlega Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar. Þeir eru sungnir á milli auk Ave verum corpus og annarra einstakra kórverka.

Laugardagurinn er oft nefndur hinn helgi laugardagur eða sabbatum sabbatorum, hvíldardagur hvíldardaganna. Stundum er hann kallaður dagurinn sem lærisveinarnir misstu trú sína en það er aðeins of djúpt fyrir samtíma okkar.

Páskadagsmorgun er árdagsmessa kl. 8 með ósvikinni páskagleði og hlátri. Eftir árdagsmessuna er bæði páskaeggjaleit fyrir börnin og morgunverður og kaffi fyrir alla sem koma til kirkju í Veitingastaðnum Hvönn (Skálholtsskóla) á Hótel Skálholti. Sjálfur hafði ég verið fáein misseri í guðfræðinámi þegar nágranni minn, leigusali minn, bauð mér með sér í slíka árdagsmessu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Það var ógleymanlegt hjá sr. Hjalta og Dómkórnum. Er ég óendanlega þakklátur þessum góða manni sem hafði áhyggjur af stúdentinum á neðri hæðinni.

Ef nokkrum finnst snemmt að mæta kl. 8 er sr. Axel Njarðvík með guðsþjónustu austan við kórgafl Skálholtsdómkirkjunnar við sólarupprás og hefst hún um 6.20. Rétt er að vera klædd eftir veðri og taka sólgleraugun með. Í framhaldi af því má nefna að ég er að messa í Þingvallakirkju kl. 14 á páskadag og á sama tíma er sr. Axel með hátíðarmessu í Skálholti með Skálholtskórnum, hátíðarmessu sr. Bjarna og orgelleik Jóns Bjarnasonar. Á páskadag eru einnig messur í Miðdaskirkju kl. 11 og Úthlíðarkirkju kl. 16. En annan í páskum er Stóru-Borgarkirkja kl. 11 og Úlfljótsvatnskirkja kl. 14.

Blómaskreytingarnar eru leikmunir gefnir af Hallmark sem tók hér upp stóru jólamyndina sína í vikunni. Frábært fagfólk.

Um Kristján Björnsson

Vígslubiskup í Skálholti
Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd