Oft hefur það leitað á hugann hvernig okkur gengur að eiga samskipti þegar samskiptaleiðir eru takmarkaðar. Á kyrrðardögum í Skálholti í vetur áttaði ég mig á því að þeir snúast ekki um aðeins þögn heldur er talað mál fyrst og fremst tekið út í samskiptum þátttakenda. Maður lærir það fljótt. Núna á dögum CoVid 19 þurfum við að taka út handatakið og faðmlagið í samskiptum okkar. Við lærðum það fljótt. Fjöldi fólks hefur tekið margt annað úr samskiptunum til viðbótar og það er sjálfsagt mál þessar vikurnar að manneskjan sem við ætlum að hafa samband við er við vinnuna heima eða í sumarbústaðnum eða á skrifstofunni þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til að hitta ekki aðra og alls ekki að sitja eða vinna í sama rými. Fundarherbergið hefur víða verið tekið út úr samskiptum okkar og þannig eru samskiptaleiðir takmarkaðar. Líkamstjáning hefur þess vegna verið skert og það fækkar þeim leiðum sem við erum annars vön að styðjast við til að sjá betur og skilja vel hvert annað.
Það er ekki nokkur vafi að það reynir á samstarfið að hafa ekki allar tjáleiðir til að styðjast við. Manneskjan er jú félagsvera og vill eiga í góðum samskiptum og nýta allar tjáleiðir til að koma hugsun sinni á framfæri eða miðla skoðun sinni. Þetta getur verið sérstaklega erfitt þegar kemur að því að tjá tilfinningar okkar eða taka þátt í samskiptum þannig að aðrir skilji eða sjái hvernig okkur líður.
Við þekkjum vel að einn tölvupóstur getur ekki flutt nema takmörkuð skilaboð og þá gildir einu þótt við notumst við öll þessi tilfinningatákn sem eru notuð mikið á samfélagsmiðlunum. Það er þó tilraun og viðleitni og hér get ég þá sett inn einn umhyggjusaman broskarl. Oft set ég hjarta hjá þeim sem lýsir sorg sinni eða missi ástvinar en við vitum það öll að hjarta merkir alveg ótrúlega margt. Nú set ég gjarnan hjarta hjá þeim sem segir sóttkvíarsögu af sér eða sínum.
Á þriðja mánuði CoVid 19 erum við ekki enn komin yfir heimsfaraldurinn hér á Íslandi en sjáum vissulega fyrir okkur að hann muni ganga yfir. Smitið á eftir að aukast enn áður en við förum að líða niður brekkuna hinum megin. Það er álag að eiga von á smiti eða bara að lenda í sóttkví. Og það er erfitt að sitja eitt eða fá í enn meiri takmörkunum á samskiptum en þegar er orðið. Það er þannig álag að það getur jafnast á við áfall. Við mikið álag og í áfalli sýnum við tilfinningaleg viðbrögð og þau getur verið erfitt að tjá þegar samskiptaleiðir og tjáleiðir eru takmarkaðar. Eitt af þekktum viðbrögðum við áfalli er misskilningur og jafnvel misklíð sem af því getur hlotist. Þá er reiði einnig mjög þekkt meðal viðbragða og jafnvel ásakanir eða það sem er enn verra að fást við en það er sjálfsásökun eða sektarkennd. Það væri ákveðinn misskilningur eða afneitun að reikna ekki með að við gætum verið að sýna svona neikvæð viðbrögð eða reyna að forðast þau í orðum. Þar sem við erum öll undir sömu sökina seld að vera hér saman í þessum faraldri sem eitt samfélag fólks viljum við umfram allt hvetja hvert annað til dáða og efla vonina og lýsa ljósi okkar fram á veginn. Við viljum hughreysta hvert annað með því að stappa stálinu líka í okkur sjálf. Við sýnum samhug. Seinna gætum við þurft að fást við þessi neikvæðu viðbrögð en núna þurfum við ekki annað en viðurkenna að þau geta sannarlega verið til staðar eða skotið upp kollinum. Og við þurfum eiginlega að viðurkenna það fyrirfram að það gæti orðið erfitt að segja það með stöku orðum, í takmörkuðum fjarfundarbúnaði eða lélegri mynd á samskiptamiðli sem á það til að frjósa í miðju tári. Við ætluðum kannski ekki að gala á barnabarnið í skæpinu eða whatsupinu en gerum það samt af því við höldum að sambandið sé ekki nógu gott í fartölvunni eða af því við vorum einmitt komin örlítið frá hljóðnemanum til að hræra í pottinum.
Það er samt ekkert að. Tjáskiptin eru bara takmörkuð þegar við getum ekki knúsað hvert annað eða setið hljóð saman og fundið nálægðina sem við þurfum öll á að halda. Þegar við finnum örlítið breyttan raddblæ segir það mikið og eitt lítið jaa getur þýtt ótal margt sem við eigum auðvelt með að skilja þegar við heyrum það vel og sjáum svipbrigðin í góðum myndgæðum, grettuna eða hvernig fólk vaggar kannski höfðinu um leið.
Við þurfum ekki aðeins að komast í gegnum þennan skafl af takmörkuðum samskiptum ein og sér heldur þurfum við á ná í gegnum hann öll saman. Til að það lukkist vel þurfum við öll saman að reikna með því öllu sem getur fylgt því að tjáningarmátinn er takmakaður og að við viljum senda ótal tegundir af hjörtum og stafrænum tilfinningartáknum. En það verður að duga enn þessar næstu vikur þangað til allt verður eðlilegt aftur í lífi okkar sem manneskjur. Og nú er verst að eiga ekki tölvutákn fyrir von og trú til viðbótar við fallegt trúartákn kærleikans í fagurrauðum hjörtum hvert til annars. Vonin er að það leysist úr þessari stöðu af því að það er reynsla trúarinnar um aldir að kærleikurinn er mikill í okkur og ástin hvert til annars – alveg sérstaklega á erfiðum tímum þegar við þurfum að minna hvert annað á að það styttir alltaf upp og lygnir einsog skáldið syngur – og um að gera að svipta okkur ekki gleðinni yfir því að finna til. Þá eigum við að vita að við eigum eftir að heyra fótatakið þegar fagnaðarboðinn gengur inná fréttamannafundinn og tilkynnir að farsóttin sé nú gengin yfir og biður okkur vel að lifa. Við búum að góðri reynslu af góðum fréttum og þurfum að minna hvert annað á hvað það skiptir miklu máli núna þegar við höfum þrátt fyrir allt ótal leiðir til að tjá það í alveg nýjum samskipamiðlum sem engin kynslóð hefur áður fengið að kynnast og njóta. Við erum ennþá undir sömu blessun og þau sem áður hafa lifað hér, lengi og vel.