„Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Það er merkilegt hvað aldagamlir textar tala mikið til okkar og inní okkar aðstæður aftur og aftur. Messufall var hluti af okkar aðstæðum um nýliðin áramót. Það var mjög erfitt en svo bætti í veðrið. Þá má segja að óveður hafi lagst á sveif með veirunni og gegn kirkjusókn á nýársdag. Fjöldi landsmanna komst hvorki lönd né strönd og hvað þá yfir heiðar. Ef við fylgjum eftirdæmi Jesú ber okkur annars að vera í húsi föður vors og koma til kirkju.
Andleg uppbygging nauðsyn
Janúar 2022 mun bera með sér nokkrar takmarkanir á samkomum en kristinn söfnuður er söfnuður vegna þess að fólk kemur saman. Verði enn miðað við 50 manna takmarkanir út janúar munu 50 manns geta komið saman með allri varúð í sóknarkirkju sinni. Við viljum komast til kirkju og dvelja þar helst í guðsþjónustu eða messu en við verðum að fara jafn varlega og þegar við förum út í búð að versla eða mæta í vinnu og sækja tómstundir okkar. Allt þetta er manneskjunni nauðsyn. Andleg uppbygging er nauðsyn og hjálpar til við allt annað sem bætir manneskjuna. Þegar þetta fer saman getum við gert okkur vonir um að græða mannlífið og gera samfélagið heilt aftur.
Hvers vegna leitum við Jesú?
Þar sem þetta er óneitanlega snúið að vera til á okkar dögum gæti verið gagnlegt að taka fyrst fyrir fyrri spurninguna sem Jesús tólf ára spurði foreldra sína eftir að þau fundu hann á spjalli við öldungana við musterið. Þau höfðu leitað hans í þrjá daga og voru frekar stutt í spuna þegar þau fundu hann loksins. En hann svaraði: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér?“ Þá hljótum við að spyrja okkur í dag hvers vegna við leitum Jesú? Við þurfum ekki að setja okkur í fótspor foreldra til að skilja það hversu mikilvægt er að við leitum fundar við Jesú, hvers vegna við horfum til guðsþjónustunnar og Orðsins og sálmanna og að sjá aðra í helgum stað.
Allir þekkja hann
Textinn er Ritningarlestur sunnudagsins milli nýársdags og þrettándans. Það er dagurinn milli dagsins þegar Betlehembarnið var nefnt Jesú og dagsins þegar það birtist í lotningu hirðanna og vitringanna að þessi nefndi Jesús væri Kristur, Drottinn, Frelsari mannkyns. Ég reikna með að við dveljum þarna oft í þessu millibilsástandi. Við þekkjum Jesú með nafni og syngjum um hann og segjum börnunum okkar sögur af þessum Jesú. Allir þekkja hann og allir viðurkenna og neita því allavega ekki að hann hafi verið til og þetta hafi verið nafnið hans. En svo kemur að birtingarhátíðinni, epífaníunni, og þá fækkar í hópnum. Það þarf meira til að sjá þessa nafnkenndu stóru persónu í mannkynssögunni sem Drottinn og játa að hann er þess umkominn að hjálpa okkur í öllum okkar aðstæðum. Hann frelsar og býður okkur að þiggja það sem er gott og fagurt í lífinu. Hann kynnir fyrir okkur hvaða leið það er sem við getum farið til að nálgast fullkomnun í þessu fagra og góða lífi sem hann opnar okkur einsog bók. Hann líkur þessu upp og við göngum inní það ef við viljum taka við þeirri umbreytingu sem í því felst að sjá hann upprisinn og nógu máttugan til að koma öllu því til leiðar sem felst í fagnaðarerindinu um hann sjálfan, sjálfan Guð.
Umbreytingin sem læknar
Ef við þiggjum þessa umbreytingu og breytum hugarfarinu í samræmi við það mun samfélagið breytast til hins betra. Það er þá fyrst sem við getum talað um samtakamátt sem byggir á heilbrigðum kærleika og von okkar allra sem trúum á Jesú Krist. Þá sjáum við hvernig það er hann sem læknar og leysir úr hverjum vanda. Með þessari trú er snúið aftur frá einangrun og sóttkvíum til betra samfélags vegna kærleikans og heilnæmis þar sem hlúð verður jafn vel að huga og líkama. Þá erum við aftur einhuga í heilbrigðu samfélagi. Hér er margt að vinna og við þurfum að vinna úr erfiðri reynslu og við þurfum að vinda ofanaf ofbeldi og misnotkun sem því miður hefur verið dulið í einangruninni. Ekkert er Kristi hulið og auga hans er vitund okkar um nærveru hans. Réttlæti hans er öruggt og vonin sem hann býður er sterk. Kærleikurinn sem hann stendur fyrir og sem hann táknar alla leið á krossinn og í sigri hans í upprisunni. Við minnumst þess á hverjum sunnudegi og getum ekki annað en haldið þeim dampi að þjóna honum á helgidegi hans. Gildir þá einu hvort við finnum okkur heima á heimilinu, í gististað eða heima í húsi Guðs. Nema heima í kirkjunni erum við saman og sjáum að andlegt samfélag fólks er mikilvægara en nokkru sinni. Áður fyrr voru það oft samgönguleysi og ófærð sem komu í veg fyrir alvöru samfélag þeirra sem trúa.
Innan skamms munum við sjást
Á okkar dögum er einangrunin orðin stafræn og eins góð og tæknin getur verið getur hún aldrei komið í staðinn fyrir raunverulega nánd sem meðal annars felst í því að koma saman í kirkju. Við erum vonandi öll að vona að sá dagur komi óðum sem það verður aftur hægt því við höfum saknað þess að sjást í kirkju. Þá verður gleðin mikil. Innan skamms munum við sjá það. Það verður þá sem við tökum undir með sálmaskáldinu í Davíðssálmum sem segir þennan sunnudag í millibilsástandinu:
„Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði, hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?“
Komi sá dagur ef það er vilji Drottins. Komi gleði hans yfir okkur einsog regn eftir langan þurrkatíma. Komum þá til hans sem gerir samfélagið okkar gott og fagurt og fullkomið í anda og einum huga. Slíkur er kraftur hans og máttur sem enginn annar getur státað af og ekki einu sinni maðurinn sjálfur. Við þurfum hans við og þráum að finna nálægð hans í okkar aðstæðum, kærleika hans í okkar æðum og friðinn hans í huga þess er trúir.
Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.