Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Í dag hljómar yfir allar okkar jarðir og lóðir einn og sami ómurinn um Guð vors lands og land vors Guðs. Það er ekki land guðanna okkar eða goða. Það er þessi Guð vors lands sem skáldið á Sigurhæðum ræðir um og byggir lofsönginn af í ljósi Jeremía, í ljósi Jesaja og ekki síst í ljósi 90 sálms Davíðs. Á því byggjum við alla okkar byggð. Við byggjum það á orði. Í flestum löndum er vísað til orrustu eða sigurdags eða annarra viðburða sem í mörgum tilfellum vísar óbeint á að blóði hefur verið úthellt til að hægt sé að fagna þjóðhátíð í landinu. Hjá okkur er það Orð Guðs.

Á vissan hátt má segja að það byggi á baráttu. Í okkar tilfelli, sem er all nokkuð sérstakur bakgrunnur eða uppruni þjóðsöngs, er vissulega byggt á mati á baráttu. Nema baráttan sem þjóðsöngur okkar vísar til er barátta hvers einasta barns fyrir því að fá að lifa og dafna. Smáblómið er með tirtandi tár. Þetta er barátta þess er vill lifa en er háður því sem kallað er forgengileiki tilverunnar. Allt líf er sem gras er vex upp og er vissulega blómi lífsins. En svo kemur sú barátta sem hvert einasta smáblóm þarf að beygja sig undir eða heyja eftir því hvernig á það er litið að vera dauðlegur í líkama sínum. Um þetta yrkir sr. Hallgrímur svo fallega í sálminum um blómann sem sláttumaður dauðans leggur að velli, hvort sem það er snemmt eða síðar:  

„grösin og jurtir grænar, / glóandi blómstrið frítt, / reyr, stör sem rósir vænar / reiknar hann jafnfánýtt.“

Það er baráttan, að líf mannlegt endar skjótt. Það er það líf sem byggir á Orði Guðs á þann hátt að það ber þó með sér eilífðina og fegurð hennar í blóma sínum af því að ef það líf mannlegt elskar og virðir Guð sinn og eilífð hans og sér sig sjálfa í mynd þess sem er eilíft er fegurðin aldrei meiri. Fegurð mannlegs lífs er fagurt og ber með sér eilífðina ef það byggir á trú og eilífum gildum þess er aldrei endar eða aldrei fölnar. Fegurð heimsins hverfur en Orð Drottins vors varir að eilífu. Sú fegurð heimsins sem byggir á því er fögur af því að það lifir og ber áfram vonina um eilíft líf í Guði og Orði hans. Það er líklega þess vegna sem Matthías á Sigurhæðum talar um eilífðar smáblóm. Við erum þá eilífðar smáblóm sem ber í sér mesta sigur þessa lífs en það er að lifa þótt það deyi. Það lifir af því að það byggir líf sitt á því sem er eilíft í anda eilífs Guðs af því að það er land vors Guðs og af því að hann er Guð vors lands.

Í stríðshrjáðri Evrópu er rétt að draga það fram að þrátt fyrir harða lífsbaráttu genginna kynslóða og baráttu þeirra fyrir því sem við njótum í dag á Íslandi var sú barátta ekki háð á vígvelli eiturs og púðurs og blóðugra byssustingja eða einsog á dögum á launsátri hugleysingja sem sitja á bak við skjáinn sem stýrir drónum og banvænum spjótum yfir saklaust fólk. Það er ekki hetjudáð að vaða blóðugur upp að öxlum og ganga í skrokk á nágranna sínum. Veri þeir volaðir sem gera þannig árás á náunga sinn sem treystir á frið og farsæld og líka á kirkju sína að hún myndi frekar bera klæði á vopnin en standa með harðstjóra sínum eða týranní.

Stríð í Evrópu á okkar dögum er rangt, á dögum þegar við ættum öll að vera að fagna sigri samstöðunnar sem lægði framgang Kóvíd-veirunnar á aðeins rúmum tveimur árum. Við ættum að vera að fagna því gjörvöll heimsbyggðin í ljósi þess að á öldum áður óðu heimsfaraldrar, drepsóttir og önnur slík óáran oft til fjölda ára og var engu síður banvæn hér á landi þegar hún kom nokkrum árum aftur að vitja þeirrar sveitar þar sem enn voru heimili og bæir sem sloppið höfðu í fyrri yfirreiðum hennar. Þetta hefur Hannes Finnsson, Skálholtsbiskup, tekið saman á svo einstakan hátt að kalla verður bók hans „Mannfækkun af hallærum“ sígilda meðal íslenskra rita. Þar er baráttu þjóðarinnar rétt lýst. Það er á lífsbaráttu þessara smáblóma fyrri alda, fyrri kynslóða, sem farsæld okkar byggir. En sú barátta byggði á ríkri von um eilíft líf, líf í Jesú nafni.

Þess vegna lofum við hans heilaga nafn og það er þess vegna sem baráttan í sálmi sr. Hallgríms endar á þeim mikla dýrðarsöng sem hann gerir:

Ég lifi’ í Jesú nafni, / í Jesú nafni’ eg dey, / þó heilsa’ og líf mér hafni, / hræðist ég dauðann ei. / Dauði, ég óttast eigi / afl þitt né valdið gilt, / í Kristí krafti’ eg segi: / Kom þú sæll, þá þú vilt.

Og þessa játningu byggir hann á uppstiginu í 10. versi sem hann byggir á orðum Jobs, sem hafði misst allt í baráttunni fyrir lífsviðurværi sínu en misst líka heilsuna og misst ástvini sína og misst fénað og akur og allt sem hann hafði átt og notið. Þegar vinir Jobs höfðu komið til hans og reynt að fá hann þó til að hallmæla Guði sínum fyrir þessi vondu kjör sjáum við hann fyrir okkur rísa við dogg og líta í augun á þessum vinum sínum og segja „Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu.“ Í trúarmætti sr. Hallgríms, sem einnig hafði misst og einnig hafði ekki fengið neitt eftir löngun sinni fáum við það einstaka tíunda vers sem ætti að syngja allra hæst:  

Ég veit, minn ljúfur lifir / lausnarinn himnum á, / hann ræður öllu yfir, / einn heitir Jesús sá, / sigrarinn dauðans sanni / sjálfur á krossi dó / og mér svo aumum manni / eilíft líf víst til bjó.

Þetta er baráttan og sigurinn sem þjóðsöngur okkar vísar til og byggir á en umfram allt er það þessi von og þessi trú sem landið byggir á og þjóðin sem elskar Guð sinn. Í annarri trú í landi þeirrar fjölmenningar sem Ísland er að  verða og er á vissan hátt þegar orðið er það sama von og trú í brjóstum þeirra sem einnig eiga guð og einnig eiga von. Vonlausir eru vissulega volaðir engu síður en þeir sem troða á von og trú annarra eða vilja umfram allt deyða alla von um frið og elsku eða von um að kærleikurinn muni sigra en ekki dauðans blóðuga vald spjótalagna og sprengjuregns.

Og hvurnin tölum við þá inní þennan heim þar sem stríð er enn í löndum Evrópu eða þegar enginn getur keypt sig frí en við öll þurfum að láta nótt sem nemur og saklaust fólk þarf að keppast við að bægja frá sér öllum kvíða. Það má til því ekki má það gerast að við drögumst ofan í það hyldýpi illsku og mannfyrirlitningar sem árásarstríðið er komið neðan úr. Svo við verðum ekki samdauna og að við fáum staðist þrátt fyrir að okkur hafi verið sýnt ofaní háskadjúpið.

Mér er nær að líta til jóska prestsins Kaj Munk sem prédikaði svo vel í dönsku kirkjunni sinni að það féll þeim illa sem töldust ráða í Þriðja ríki Hitlers og réðu á þeim tíma einnig yfir Danmörku. Kannski er mér það minnisstætt þar sem ég er nýkominn frá yndælu Danmörku. Kaj Munk var tekinn af lífi af Gestapó skömmu fyrir stíðslok (4. janúar 1944) en eftir hann liggja vonglaðar og bjartar prédikanir frá þessum háskatíma sem þýddar hafa verið og eru okkur m.a. aðgengilegar í bókmenntaarfi Sigurbjörns biskups. Ein er sú ræða sem ég hef nýlega vitnað til við fermingarmessu hér skammt frá í Biskupstungunum. Það er ræðan hans við fermingarmessu í sínum sóknum sem enn er full af baráttu fyrir innri friði og vissu vonar og gleði á ógnartíma. Það er rétt að rifja það upp núna þegar allri Evrópu stafar ógn af stríði, nokkru sem ætti fyrir löngu að vera orðið algjörlega úrellt fyrirbæri. Horfið einsog hver önnur risaeðla úr samfélagi manna.

Presturinn Munk talar til fermingarbarna sinna um fegurðina og minnir þau á hvað þau eru lánsöm að eiga svona fallegt land og hvað þau eiga góðan konung og hvað þau eiga fallega sálma í kirkjunni og hvað þau eiga ríka og mikla von sem þau geta alið í brjósti hvað sem gengur á. Hann minnist varla á illskuna eða hramma þess brjálæðis sem hertekið hefur landið þeirra en talar fullur vonar um frelsi landsins sem aftur verði því það er fólgið í eðli lands og þjóðar. Landið okkar er land Guðs og á því landi mun aðeins það góða fá að dafna og ef það eru þrengingar mun hvert mannsbarn, í svo góðu landi, eiga von um betri tíma. En í voninni má heldur ekki gleyma því góða fólki sem er að leiða þjóðina undir merki krossfánans í gegnum móðuna af byssupúðri og spúi illra vopna. Mitt í hersetnu landi situr fólk sem er lánsamt. Það segir Munk. Við erum í blóma. Hann dregur fram vonina sem hann sér búa í brjóstum unga fólksins og sérstaklega á þessum degi í brjóstum fermingarbarna sinna. Það þýðir ekki að fást um það að við erum öll háð hverfulleikanum sem býr í heiminum og öllu sköpuðu. En við getum ekki misst vonar vegna þess að hún er í okkur. Guðsríkið er innra með okkur og verður ekki rifið þaðan. Kristur kom því fyrir hér í hjartanu – í microcosmos hverrar lifandi manneskju. Við erum lánsöm að eiga svo djúpa og ríka von, sem hér er minnst á, af vörum allra sem ort hafa í okkur kjarkinn til að lifa, vona og starfa undir krossfána Jesú Krists. Sigurmerkið er sjálft líf okkar og líf okkar er í friði hans. Gleðilega þjóðhátíð í landi Drottins!

Þessi færsla var birt undir General. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s