Pílagrímagöngur eru farnar víðar en við höldum. Við vitum að pílagrímaferðir hafa verið farnar sem hluti af iðkun trúarinnar um aldir og yfirleitt leiða þær til helgra staða. Þetta þekkjum við vel í pílagrímagöngum til Skálholts í gegnum árin. En ef við lítum til Skálholts sjáum við að fjöldi fólks hefur verið á sinni pílagrímagöngu gegn sínum vilja og án þess að hafa nokkru sinni ímyndað sér að fara til þess helga staðar næstum því nauðug. Minnist ég við sögur af fólkinu sem flúði ætthagana undan Skaftáreldum á 18. öldinni. Þetta gerðist líklega á hverri öld en misjafn fjöldi var á slíkum flótta. Flóttafólk hefur líklega aldrei verið stærri hópur en er núna á okkar dögum. Heimahagarnir hafa orðið óbyggilegir eða gerðir óbærilegir að búa á vegna stríðs og annarra ógna en líka vegna mikilla breytinga í loftslagi og gróðurfari. Flóttafólk á ekki annan kost en yfirgefa staði sem feður og mæður höfðu helgað með baráttu sinni fyrir friðsæld og velsæld. En þau eiga það öll sameiginlegt að leggja af stað í átt að nýjum helgum stöðum. Hætturnar eru á leiðinni og svo er líkast því að birti til er þau hafa komist í feginsbrekkur pílagrímagöngunnar en það er hæðin eða brekkan kölluð þaðan sem fyrst sér til þess helga staðar sem ferðinni er heitið. Feginsbrekka flóttafólks á leið til Íslands gæti verið fyrsta landsýn þess lands sem helgað er dáðum feðra okkar og mæðra sem lifað hafa hér lengi undir blessun Drottins. Við tökum á móti þeim með þeirri helgun sem landið hefur hlotið og það er stærra en við. Við gefum þeim hlutdeild í því sem við eigum helgast en það er ættjörð okkar og trú. Við syngjum um það í lofsöngnum um land vors Guðs og við erum meðvituð um virða ber hvert eilífðar smáblóm með titrandi tár.
Viljandi pílagrímaferðir og hefðir eru góð leið til að dýpka skilning okkar á því hvað felst í því að trúa og ná að stíga í þau spor sem leiða til helgra staða. En slíkt trúlegt ferðalag dýpkar fyrst og fremst skilning okkar á stöðu og lífi annarra. Það er í fyrsta lagi vegna þess að ferðin er farin í spor þeirra sem fyrr gengu slóðina og helguðu leiðina. Í öðru lagi vegna þeirra sem eru á ferð um allan heim einmitt núna í leit að helgun og friðsamlegu lífi. Í þriðja lagi vegna þess að helgir staðir helga okkur þeim tilgangi sem Kristur lagði okkur á hjarta en það er að elska náunga okkar einsog okkur sjálf, engu minna en við elskum Drottinn Guð af öllu hjarta, öllum huga okkar og allri sálu okkar. Á göngu er allt þetta virkjað einum tilgangi sem helgar líf okkar og annarra.